Leita í fréttum mbl.is

Nokkrar athyglisverðar greinar...

penniViljum benda á nokkrar athyglisverðar greinar sem birst hafa að undanförnu og byrjum á Valgerði Húnbogadóttur sem byrjar grein sína í FRBL svona:

"Hvers vegna ætti Ísland að ganga í ESB? Þetta er spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér síðastliðin ár og hefur svarið verið miklum breytingum háð. Eftir eins og hálfs árs búsetu í Brussel og eftir að hafa starfað bæði fyrir sendiráð Íslands í Brussel og EFTA geri ég mér æ betur grein fyrir því hversu miklir þátttakendur við í raun erum í ESB án þess að þó að hafa mikið um stöðu okkar innan þess að segja. Ísland er til dæmis fullur þátttakandi í Schengen samstarfinu en þegar kemur að ákvörðunartöku varðandi samstarfið höfum við engan atkvæðisrétt."

Síðan segir í greininni:

"Í útvarpsþætti á Íslandi, fyrir nokkrum árum, var áhugi unglinga í framhaldsskólum landsins á aðild Íslands að ESB til umræðu. Unglingarnir voru spurðir hvort þeir væru hlynntir aðild og svöruðu allir að þeir vildu ekki að Ísland gengi í ESB. Þegar fréttamaður spurði hvers vegna hikuðu unglingarnir og sögðu að það væri sökum þess að foreldrar þeirra vildu það ekki. Ég hef fullan skilning á svörum þeirra enda hef ég verið í nákvæmlega sömu stöðu. Ég ólst að hluta til upp í Noregi og bjó þar þegar umræða um aðild Noregs stóð sem hæst. Á þessum tíma gengu um bekkinn minn svokallaðar vinabækur.

Einn daginn tók ég með mér heim slíka bók í eigu bekkjarsystur minnar. Eftir að hafa fyllt út fullt nafn, augnlit, nafn systkina og uppáhalds gæludýr kom ég að spurningunni „Ja eller Nei til EU" (Já eða Nei við ESB). Þessi spurning var mér ofviða og líkt og svo oft áður leitaði ég til föður míns. Hvað þýðir þetta? Spurði ég hann. Hverju hann svaraði man ég ekki. Næsta spurning var: vil ég það? Svarinu við þeirri spurningu mun ég aldrei gleyma. Það var: nei. Hann gerði mér vissulega grein fyrir því að ég yrði að mynda mér sjálf skoðun um þetta málefni en engu að síður sat svarið fast í huga mér og var ég orðin ESB andstæðingur ellefu ára gömul án nokkurar þekkingar á hugtakinu.

Eftir tvo áfanga í Evrópurétti í háskólanum var ég í raun heldur ekkert nær því að vita hvað fælist í EES og ESB né hvaða áhrif það hefði á íslenskt samfélag. Ég tel það tímabært að umfjöllun um ESB og EES sé bætt í kennsluskrár framhaldsskóla landsins svo að allir geti, á upplýstan hátt, lært um kosti og galla þess út frá raunhæfum forsendum og skilið hlutverk okkar innan þess. Ég er ekki, með þessari grein, að lýsa yfir stuðningi við aðild að ESB. Ég tel hinsvegar að það sé Íslandi og íslensku samfélagi fyrir bestu að vera upplýst um stöðu okkar innan ESB og Evrópu. Óháð því hvort við gerumst aðilar eða ekki."

Þröstur Ólafsson, hagfræðingur, skrifaði einnig grein í FRBL fyrir skömmu, sem byrjar svona:"Á umrótatímum hafa þjóðir tilhneigingu til að skreppa inn í sig og loka sig af. Þær bera kvíðboga fyrir slæmum tíðindum og áföllum, sem ríða yfir umhverfi þeirra, og bregðast oft við á kunnuglegan hátt. Sökudólgar eru búnir til sem vega að velferð þeirra og frelsi. Oft eru þessir misindismenn í gervi útlendinga.

„Umsátur“ óvinveittra útlendinga er gamalgróin útþvæld klisja, sem dregin er upp úr dótakistu þeirra, sem beina vilja sjónum þjóðar í vanda frá eigin mistökum. Það er ljótur leikur. Vondur málstaður þarf á óvinum að halda og séu þeir ekki í sjónmáli, verður að búa þá til. Þá er sáð í frjóan akur fordóma og þekkingarleysis, því hræðslan nærist á hleypidómum. Það bregst ekki."

Og þegar Jón Ormur Halldórsson lætur frá sér efni, er nær undantekningalaust um áhugaverða hluti að ræða í grein í FRBL fyrir stuttu síðan segir hann í byrjun hennar:

"Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, benti á það á sínum tíma að erfitt væri fyrir Íslendinga að ganga í ESB þó ekki væri nema vegna þess að landsmenn gætu ekki vitað í hvers konar samband þeir væru að ganga. Á þeim tíma sýndist ESB stöðugra en það gerir nú og því var athugasemdin bæði skörp og þörf. Óvissan um framtíðarskipan ESB hefur stórlega aukist síðustu mánuði.

Góðar fréttir
Þetta kann að vera hið besta mál fyrir Íslendinga og aðra Evrópumenn en kannski af öðrum ástæðum en fyrst sýnist. Þarfir Evrópuþjóða fyrir samvinnu eru nefnilega ólíkar. Í þeim efnum hafa andstæðingar ESB rétt fyrir sér. Nú virðist sem svo að áhugamenn um Evrópusamvinnu á meginlandi álfunnar hafi komið auga á þetta. Hingað til hafa þeir haft hugann við einhverja endastöð og helst deilt um hvernig allt eigi nákvæmlega að líta út fyrir alla Evrópu í langri framtíð. Þannig er lífið hins vegar ekki og allra síst í þeirri óhemju frjóu, skapandi, fjölbreyttu, ríku og lýðræðislegu álfu sem Evrópa er. ESB er auðvitað tæki en ekki markmið.

Skopmyndir
Á meðan áhugamenn um Evrópusamvinnu ræddu endastöð samruna í álfunni áttu andstæðingar ESB alltaf erfitt með að gera upp við sig hvort Evrópa væri að hrynja eða verða að miðstýrðu sambandsríki og heimsveldi. Menn hafa líka lent í basli með að finna valdið innan ESB. Í ólíkum löndum hafa menn að auki verið óvissir um hvort þetta sé risasamsæri kapítalisma eða nokkuð hreinn sósíalismi. Í íslenskri umræðu hafa einfaldir furðuheimar ævintýra fengið að njóta sín og orðræðan oft lent utan kallfæris við veruleika."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband