Leita í fréttum mbl.is

Tvær góðar greinar í FRBL

Sr.Þórir StephensenBendum á tvær áhugaverðar greinar í FRB, sú fyrri er eftir Sr. Þóri Stephensen, sem segir m.a.: "Alþingi ákvað að fara í viðræður við ESB með þá von að ná fram ásættanlegum samningi. Þær hafa gengið vel en nú hefur stærsta stjórnmálaafl í landinu krafist þess að viðræðunum verði slitið. Þar með er í raun farið gegn þingræðinu en flokksræði Sjálfstæðismanna á að koma í staðinn. Hvernig rímar þetta við hugsjónir um frjálsa hugsun, málfrelsi og lýðræði? Krafan um umræðuslitin og það sem henni fylgir lyktar mjög af gömlum einræðishugmyndum og er því mikil vansæmd fyrir samfélag okkar.

Hvað er það sem á að stöðva? Tilraun stjórnvalda til að sjá hvort þarna sé að finna kannski bestu leiðina til að koma íslensku samfélagi á nýja braut, sem leiði til sömu lífsgæða og þær þjóðir njóta sem við berum okkur saman við. Ég lít svo á að þar sé forysta Sjálfstæðisflokksins að bregðast sinni helgustu skyldu, að leita þeirra leiða sem eru þjóðinni til heilla. Það vekur grundvallarspurningu: Við hvað er flokkurinn hræddur?

Enginn veit að óreyndu hvernig hugsanlegur samningur gæti litið út. Þetta er bara tilraun en vissulega mikil von þar að baki. En þetta þarf að koma í ljós til þess að við vitum öll hvort við viljum inngöngu í ESB eða ekki. Um hitt þarf ekki að deila að þar á þjóðin sjálf síðasta orðið. Þess vegna er áhættan í raun engin en ávinningurinn gæti orðið mikill.

ESB-andstæðingarnir eru fleiri og klifa margir á því að þarna sé „ekkert um að semja", við verðum aldrei nema smápeð á taflborði ESB, áhrifalaus með öllu. Þeir tala þar gegn betri vitund, eru að reyna að blekkja okkur hin og þar með að dæma sjálfa sig óhæfa til þingsetu í umboði almennings."

FreyjaÞá síðari skrifar Freyja Steingrímsdóttir, sem situr í stjórn Ungra Evrópusinna: "Aðildarviðræðurnar virka þannig að hvor aðili fyrir sig, ESB og Ísland, hefur sín samningsmarkmið í sérhverjum samningskafla. Af hálfu umsóknarríkis geta þau samningsmarkmið snúist um að njóta sveigjanleika um aðlögunina sem á sér stað eða fá fram ákveðnar sérlausnir sem taka mið af sérstökum aðstæðum í viðkomandi ríkjum. Af hálfu ESB snúast samningsmarkmiðin meðal annars um að fullvíst sé að umsóknarríkið geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í aðild og að jafnræðis sé gætt milli aðildarríkja þegar kemur að innleiðingu sameiginlegrar löggjafar.

Hvert einasta umsóknarríki í síðustu stækkunarlotu ESB hefur haft sín sérhagsmunamál sem samningamenn hafa lagt mikið upp úr að fá sérlausnir um í aðildarviðræðunum. Í þessu samhengi er gott að líta til Möltu, smáríkis með eingöngu 450 þúsund íbúum. Maltverjar náðu góðum samningi við sambandið. Malta fékk yfir sjötíu sérlausnir og margar þeirra voru varanlegar. Þetta voru ekki veigalítil mál sem samið var um heldur snerust þau til að mynda um kaup erlendra ríkisborgara á landi í Möltu, flæði vinnuafls til landsins og 25 sjómílna efnahagslögsögu fyrir innlenda sjómenn. Samninganefnd Möltu lagði mikla áherslu á smæðina og bar það árangur í samningaviðræðunum. Þess má geta að Maltverjar deildu hart um aðild á sínum tíma og skiptust svo að segja í tvö jafnstóra hópa, með og á móti aðild. Í dag er mikill meirihluti Maltverja hlynntur aðild og deilur heyra fortíðinni til."

http://visir.is/vidraedur-um-adlogun/article/2013703199979


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband