Leita í fréttum mbl.is

Springur í Kosovo?

Hugleiðingar um fortíð og framtíð á Balkan-skaga. Höfundur: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, MA í stjórmálafræði.
 
Í Suður-Serbíu, er að finna litla ,,dýnamítstúbu”, sem heitir Kosovo. Þar voru haldnar kosningar fyrir skömmu, en í þeim sigraði flokkur Hacim Thaci, fyrrum skæruliðaforingja. Hann er nú orðinn forsætisráðherra Kosovo og bíða hans erfið verkefni, m.a. að standa við loforð um að lýsa yfir sjálfstæði.

Íbúar Kosovo eru alls um 2.2 milljónir og af þeim eru um 95% Albanir. Kosovo var fram til ársins 1999 stjórnað af Serbum, sem álíta sig ,,eiga” þetta bláfátæka, en auðæfaríka hérað. Serbar álíta Kosovo vöggu serbneskrar menningar og á það rætur sínar að rekja til mikils bardaga sem háður var á Svartþrastavöllum í Kosovo árið 1389. Þar féll prins nokkur að nafni Lazar fyrir hendi Tyrkja og hafði andlát hans örlagaríkáhrif á Serba og er svo enn. Dauði Lazars ýtti undir þá sálfræðilegu afstöðu margra Serba til umheimsins að þeir séu sífelld fórnarlömb, hvað sem á gengur og að allt sé meira eða minna samsæri gegn þeim.
 
Serbar mega því ekki heyra á það minnst að Kosovo veriði aðskilið frá Serbíu á nokkurn hátt, það er líkt og að rífa úr þeim hjartað og skilja eftir gapandi svöðusár. En Serbar hafa farið illa með Kosovo,  kúgað albanska þegna þess og litið á þá sem undirsáta. Í Kosovo voru Serbar forréttindastétt. Í gömlu Júgóslavíu kommúnismans, sem var við lýði frá 1945-1995, og var lengst af stjórnað af einsræðisherranum Jósep Bros Tító (lést 1980) nýttu Serbar sér Kosovo á skipuagðan hátt og sóttu þangað ýmis auðæfi. Félagsleg aðstaða Albana í héraðinu, sem smám saman fékk stöðu sjálfstjórnarhérðs, var þó afar slæm. Til dæmis var menntakerfið og heilbrigðiskerfið meðal Albana rekið neðanjarðar, m.a. fyrir fjármagn frá Albönum, búsettum erlendis.
 
Eftir upplausn Júgóslavía, sem átti rætur að rekja til hugmynda Slobodan Milosevic um Stór-Serbíu og gengdarlausrar þjóðernishyggju, voru lýðveldin sem mynduðu landið; Slóvenía, Króatía og Bosnía/Hersegóvína, orðin sjálfstæð ríki. Svartfjallaland (einnig lýðveldi!) fylgdi lengi Serbíu að málum og lýsti ekki yfir sjálfstæði fyrr en á síðasta ári. Hrun Júgóslavíu kostaði hryllilegar blóðsúthellingar, dauða og hörmungar.Um var að ræða mannskæðustu átök frá lokum seinni heimsstyrjaldar. 
 
Staða Kosovo var hinsvegar óleyst, en frelsisþrá Albana engu að síður sterk. Skæruliðar Albana hófu árásir á serbneska embættismenn og til átaka kom árið 1996. Réðist her Júgóslavíu (les. Serbíu) inn í Kosovo árið 1998 til þess að brjóta frelsisher Kosovo (KLA) á bak aftur. Serbar stunduðu þar s.k. þjóðernishreinsanir og frömdu grimmdarverk. Leiddi það til loftárása NATO á Serbíu, sem stóðu í nokkra mánuði árið 1999. Eftir þetta tóku svo Sameinuðu þjóðirnar við stjórn Kosovo og er svo enn. 
 
Hacim Thaci, (fyrrum leiðtogi KLA), sagði eftir kosningasigurinn það vera áætlun sína að gera líkt og áðurefnd lýðveldi, þ.e. að lýsa yfir sjálfstæði. Olli þetta strax mikilli spennu og reiði í Serbíu, þar sem sterk öfl, sem lifa á þjóðernishyggju, eru enn til staðar

Málið er afar flókið, allar sáttatillögur farið út um þúfur og vann Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands og fulltrúi Sameinðu þjóðanna um málefni Kosovo lengi að tillögu um ,,sjálfstæði undir eftirliti,” sem ekki hlaut samþykki í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Lausn Serba á málefnum Kosovo er hinsvegar ,,sjálfsákvörðunarréttur undir eftirliti,” nokkuð sem Kosovo-Albanir hafna alfarið. Þeir vilja sjálfstæði strax, atvinnu og lífsgæði, en atvinnuleysi, spilling og eymd einkenna daglegt líf í héraðinu. 

Þá verður einnig að tryggja öryggi þeirra 50.000 Serba sem enn búa í Kosovo. Þegar mest lét bjuggu um 200.000 Serbar í Kosovo, en 75% þeirra hafa verið hraktir á brott eða yfirgefið héraðið. Hræðsla er meðal þeirra, enda álitnir vera fulltrúar nýlenduherra og kúgunarkerfis.

Ástandið í Kosovo er í raun afleiðing þeirra þjóðfélagstilraunar sem ríkjasambandið Júgoslavía var, þar sem reynt var að halda mjög mismunandi þjóðarbrotum undir einum hatti í nafni sósíalisma. Þegar það sýndi sig ekki vera mögulegt blossaði hatrömm þjóðernishyggja upp, með hörmulegum afleiðingum. Serbar eru því enn að glíma við afleiðingar eigin gerða. Þeim virðist það hinsvegar þrautin þyngri, en reiða sig á stuðning Rússa á margan hátt, m.a. vegna sameinginlegrar menningar og trúarhefða, en bæði Rússar og Serbar tilheyra réttrúnaðarkirkjunni.

 
Ætlunin er að Evrópusambandið taki á næstunni við að gæta öryggis Kosovo, en þar eru nú um 17.000 hermenn á vegum NATO. Utanríkisráðherra Serba sagði í samtali við BBC World að sjálfstæðisyfirlýsing Kosovo-Albana væri ólögleg, rétt eins og sjálfstæðisyfirlýsingar Slóvena, Króata og Bosníumanna, hefðu verið á sínum tíma. Segjast þeir muni beita öllum lögfræðilegum aðgerðum til þess að hindra sjálfstæði Kosovo. Þá hóta þeir að slíta öllum viðræðum við ESB um aðild að sambandinu. Spurningin er hvort þeir grípi til annarra aðgerða? Samskipti Serba og Albana hafa ekki verið góð, en nú virðist frostið vera algjört milli þessara aðila. En það sem skiptir máli verða viðbrög Serba í þessari deilu, lýsi Kosovo yfir sjálfstæði. Þau geta haft mikil áhrif á stjórnmálaástandið á Balkanskaga. 

Verði viðbrögð Serba reiði og gremja, er allt eins líklegt að í gang fari öfl sem sækja innblástur sinn til þjóðernishyggju og þjóðernisrembu. Taki hinsvegar Serbar skynsamlega á málunum, geta þeir með þeim hætti áunnið sér traust og virðingu umheimsins, ekki minnst Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í kjölfar þess gætu landinu opnast ýmsar dyr, en þær hafa hingað til verið lokaðar, ekki síst vegna tregðu serbneskra stjórnvalda að framselja stríðsglæpamennina Ratko Mladic og Radovan Karadzic, sem báðir eru eftirlýstir vegna stríðsglæpa í Bosníu.

Serbía hefur mikilla hagsmuna að gæta, ástandið í landinu þarf að komast í eðlilegt horf, Serbía á erindi í samfélag þjóðanna með eðlilegum hætti, alla leið inn í Evrópusambandið. 

Slóvenía tók við forsæti ESB nú um áramótin, en landið fékk aðild að ESB árið 2004 og hefur þegar tekið upp Evruna. Það segir ákveðna sögu að á sama tímapunkti eru Serbar í raun að glíma við fortíðina og afleiðingar eigin gerða í Kosovo. 

Fulltrúar ESB vilja hraða nálgun Serbíu að ESB og var það einmitt utanríkisráðherra Slóvena, sem lagði fram þá tillögu. Vilja Slóvenar að Serbar samþykki ákveðinn undirbúningssamning ganvart ESB. Það hefur hinsvegar mætt andstöðu, m.a. frá Hollendingum, sem vilja að Mladic verði handtekinn fyrst. Andstaða Hollendinga er skiljanleg, þar sem það voru hollenskar hersveitir á vegum ESB, sem horfðu upp á Bosníu-Serba, undir stjórn Mladic, myrða um 8000 óvopnaða múslimska karlmenn í smábænum Srebrenica sumarið 1995. Er þetta einn svartasti bletturinn á evrópskri samtímasögu.

Það verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum Serba við tillögu Slóvena. Munu þeir samþykkja þessa tillögu, frá fyrrum ,,bræðralýðveldi” í landi þar sem eitt sinn allt lék í lyndi, en sökum þjóðernishyggju og andstæðra skoðana, liðaðist í sundur í hryllilegum átökum, sem enn eru að mörgu leyti óuppgerð? Eða segja þeir nei og berja höfðinu við steininn? Þeir sem eiga völina eiga kvölina.

Serbar hafa sagt því að þeir muni ekki beita vopnavaldi í Kosovo, kjósi íbúar þess að lýsa yfir sjálfstæði. Slíkt væri líka glapræði. Það er hinsvegar ekki hægt að segja til um hvernig hópar sem stjórnvöld hafa ekki stjórn á bregðast við, lýsi Kosovo yfir sjálfstæði. 

Frá árinu 1999 eru áhrif Serba á málefni Kosovo nær engin og serbnesk lög gilda ekki þar lengur. Það er hið svokallaða ,,alþjóðasamfélag” sem stýrir Kosovo.

Ef við gefum okkur að Kosovo verði frjálst land, er ekki þarmeð sagt að allt falli í ljúfa löð og líf íbúanna verði hrein sæla. Langt í frá. Þá byrjar hin raunverulega vinna; að byggja upp land sem í áratugi hefur mátt þola kúgun og yfirgang, rányrkju og félagslega niðurlægingu. Og að þessu verkefni þarf hið alþjóðlega samfélag; stofnanir og ríki, svo sannarlega að koma að. Róm var ekki byggð á einum degi og það sama á við um Kosovo. Svo sannarlega!

Staðreyndir um Júgóslaívu:

Nafnið þýðir ,,land S-Slava.”

Júgósalvía 1: Stofnuð árið 1918 sem ,,Konungdæmi Serba, Slóvena og Króata”, einnig kölluð ,,Konunglega Júgóslavía.”

Júgóslavía 2: Stofnuð 1945 af Jósep Bros Tító, marskálki, kölluð á ensku ,,Communist Yugoslavia.”. Þekkt á íslensku undir heitinu Alþýðulýðveldið Júgóslavía. Samanstóð af lýðveldunum: Slóveníu, Króatíu, Bosníu&Herzegóvínu, Serbíu, Montenegró og Makedóníu.

Innan Serbíu var svo að finna tvö sjálfsstjórnarsvæði (,,autonomus provinces”) en þetta voru Vojvodina í N-hlutanum og Kosovo í S-hlutanum.

Í þeim átökum sem brutust út 1991 sluppa tvö síðastnefndu lýðveldin nær algerlega. Makedónía lýsti yfir sjálfsstæði haustið 1991 og Montenegró (Svartfjallaland) var í nánu pólitísku sambandi við Serbíu á meðan átökunum stóð (leiðtogi þess, Momir Bulatovic, fylgdi Slobodan Milosevic að málum).

Júgóslavía 3: Sambandslýðveldið Júgóslavía (Federative Republic of Yugoslavia). Myndað árið 1992, eftir að Slóvenía, Króatía Bosnía&Herzegóvína höfðu lýst yfir sjálfstæði. Samanstóð því einungis af Serbíu og Svartfjallalandi. Sambúðin var stormasöm á seinni hluta tímabilsins og stóð til 2003, en þá breyttist þetta ríki í enn lausara sambandsríki eða ríkjasamband. Svartfjallaland sleit sig svo endalega frá Serbíu árið 2006, þegar það lýsti yfir sjálfstæði.

Árið 1981 töldust íbúar Júgóslavíu vera rúmlega 22 milljónir manna. Í Serbíu búa í dag um 10 milljónir manna (þar með talið 2 milljónir í Kosovo).

Gjaldmiðill: Dínar

Höfuðborg: Belgrad

Staðreyndir um Kosovo:

Íbúafjöldi: Um 2.2 milljónir, yfir 90% Albanir, sem flestir iðka islam (flestir tilheyra sunníta-reglunni). Um 5% eru Serbar, sem tilheyra réttrúnaðarkirkjunni.

Höfuðstaður: Pristina.

Stærð: 10.900 ferkílómetrar (Ísland=115.000 fkm)

Atvinnuleysi: Um 50-60%

Gjaldmiðill: Evra

Kosovo er ríkt af ýmsum málmum, s.s.blýi, nikkel, gulli og silfri, en ekki síst krómi (um 20% forða alls heimsins) Þá er einnig að finna mikið kolum og jarðgasi í Kosovo.

Styttri útgáfa af greininni birtist í Morgunblaðinu 5. janúar.
Höfundur er með mastersprófi í stjórnmálafræði frá háskólanum í Uppsölum.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

"Ástandið í Kosovo er í raun afleiðing þeirra þjóðfélagstilraunar sem ríkjasambandið Júgoslavía var, þar sem reynt var að halda mjög mismunandi þjóðarbrotum undir einum hatti í nafni sósíalisma."

Minnir óneitanlega á Evrópusambandið ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.1.2008 kl. 10:55

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það væri þá áhugavert að sjá útskýringu þína á því afvherju öll Austur-Evrópu löndin, þar á meðal ríki fyrrum Júgoslavíu, eru komin eða á leiðinni inn í Evrópusambandið?

Aðgangur að stórum frjálsum markaði og góðar leikreglur fyrir markaðsbúskap útskýrir það líklegast að miklu leiti - sé ekki hvernig það tengist sósíalisma á neinn hátt. Samþætting innri markaðarins til að tryggja frið í Evrópu er eitthvað sem þessi lönd hafa líklegast áhuga á líka, því þegar íbúar landa og fyrirtæki eru orðin háð góðu aðgengi að evrópskum mörkuðum, þá er ansi erfitt fyrir stjórnvöld að byrja að níðast á þeim aftur með einhverjum sósíalískum tilburðum - því er Evrópusambandið í raun einn helsti boðberi hins frjálsa markaðar í heiminum.

Það er mun líklegra að ófriður komandi áratuga gætu orðið útaf minnimáttarkennd illa gefna einstaklinga gagnvart útlendingum eða öðrum trúarbrögðum.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 16.1.2008 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband