Leita í fréttum mbl.is

Á harðahlaupum frá veruleikanum

Það er merkilegt að fylgjast með umræðum um Evrópumál á undanförnum misserum. Sífellt fleiri eru að átta sig á því að núverandi fyrirkomulag efnhagsmál gengur ekki og jafnvel hörðustu andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu vilja skoða málefni íslensku krónunnar. Þeir fara hins vegar um víðan völl til að leita óraunhæfra leiða eins og að taka upp svissneskan franka, danska eða norska krónu þegar beinast liggur við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í kjölfarið fá aðild að Myntbandalagi Evrópu.

Morgunblaðið er í fararbroddi þessara afla og er á margan hátt í sérkennilegri afneitun. Á sama tíma og það birtir forsíðufréttir um slæma stöðu krónunnar og erfiðleika almennings á Íslandi vegna hávaxtastefnu yfirvalda hyllir það andstæðinga Evrópusambandsaðildar Íslands. Fréttaflutningur blaðsins af nýloknu Iðnþingi er gott dæmi um þetta. Mjög mikill samhljómur var á þinginu um breyttar áherslur í efnhagsmálum en samt sem áður birtir blaðið fyrirsögn þar sem segir að skiptar skoðanir hafi verið um málið. Í umfjöllun um þingið er til dæmis ekki minnst á ræðu Össurar Skaphéðinssonar iðnaðarráðherra né Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, en þess í stað er birt viðtal við nánast eina framsögumannsins á þinginu sem sá meinbugi á nánari samvinnu við Evrópusambandið, Illuga Gunnarsson þingmann.

Það skal tekið fram að undirritaður hefur mikið álit á Illuga og telur að hann hafi verið einna málefnalegastur allra andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ræða Illuga á Iðnþingi olli mér hins vegar vonbrigðum því hún var full af gömlum tuggum um hagvöxt í Evrópu og útilokun Íslendinga frá alþjóðlegum viðskiptasamningum. Það kom því á óvart, en þó ekki, að Morgunblaðið skyldi mæra ræðuna með leiðara nokkrum dögum eftir Iðnþingið.

Illugi varpar þeirri hugmynd fram að við leitum leiða til að fá aðild að myntbandalaginu í gegnum EES samninginn í samvinnu við Norðmenn. Með þessum hugmyndum er bara verið að koma sér undan því að horfast í augu við staðreyndir. Íslensk og norsk stjórnvöld reyndu ítrekað á árunum 2001-2003 að fá EES samninginn uppfærðan en fengu alltaf sama kurteislega svarið frá Evrópusambandinu. ,,EES samningurinn verður virtur en hann er barn síns tíma og við höfum engan áhuga né hagsmuni af því uppfæra hann- punktur og basta.” Þetta getur Illugi fengið staðfest hjá hvaða embættismanni utanríkisráðuneytisins eða EFTA.

Einnig heldur Illugi því fram að áhugi almenning á Evrópusambandsaðild sé eingöngu mikill þegar kreppir að í efnhagsmálum. Þetta er ekki rétt því nánast í hverri einustu könnun Capacent Gallup frá árinu 1995 hefur mikill meirihluti landsmann lýst yfir áhuga að við tökum upp viðræður við Evrópusambandið.

Á meðan andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu geta ekki bent á aðra raunhæfa langtímalausn á efnhagsvandræðum Íslendinga þá er ekki hægt að segja annað en það þeir séu á harðahlaupum frá veruleikanum. Með því eru þeir að skaða hagsmuni almennings og gjaldeyrisskapandi atvinnugreina með því að taka hagsmuni gamla íslenska flokkakerfisins fram yfir þjóðarhag.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband