Leita í fréttum mbl.is

,,Tími umsóknar kominn" segir Jón Sigurðsson

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, Jón Sigurðsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skrifar merkilega grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann hvetur til þess að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Jón segir meðal annars;

,,Úrslit í Evrópumálum verða aðeins ráðin við samningaborð og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."

Þetta hljóta að teljast stórtíðindi því Jón hefur hingað til viljað stíga varlega til jarðar í þessum efnum og ekki talið rétt að ganga til viðræðna við ESB að svo komnu máli. En hann hefur greinilega skipt um skoðun í ljósi mikilla sviptinga í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri.

Í ljósi þessara ummæla og yfirlýsinga Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, að undanförnu má búast við fjörugum umræðum á fundum Framsóknarmanna á næstunni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ágætu evrópusinnar!

Hérna skrifar feiminn sjálfstæðismaður sína fyrstu athugasemd inn á síðuna ykkar. Ég hef að vísu þorað að kíkja á síðuna á undanförnum tveimur árum, en hef þó alltaf haft vaðið fyrir neðan mig, þar sem ég var við skriftir á mastersritgerð minni í MPA námi, sem bar titilinn "Áhrif aðildar Íslands að ESB".

Nú er ég hins vegar að koma út úr skápnum - líkt og margir aðrir Evrópusinnar. Ég hef um nokkurn tíma reynt að hefja máls á þessum "öfuguggahætti" mínum innan flokksins og síðastliðinn laugardag gekk ég svo langt að lýsa því yfir við fjölda sjálfstæðismanna að ég væri eiginlega evrópusinni og einn af þeim, sem vildi skilgreina samningsmarkmið Íslendinga og ganga til viðræðna við ESB.

Það kom mér á óvart að ég var ekki einn á báti og nokkrir aðrir á fundinum voru minnar skoðunar, þótt sumir þori auðsjáanlega ekki enn að opinbera sig. Á síðasta landsfundi flokksins reyndi ég að hafa áhrif á orðalag ályktunar um utanríkismál er vörðuðu ESB, en varð því miður undir. Munurinn var minni en ég hélt eða 40/60%. Ég er hins vegar ekki jafn viss um hvernig þetta færi við atkvæðagreiðslu í dag.

Kær kveðja frá ESB Sjálfstæðismanni, sem bjó 12 ár í ESB og varð ekki meint af!

Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 29.4.2008 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband