Leita í fréttum mbl.is

Davíð Oddsson árið 2001 um ,,tímbundið" vandamál krónunnar

Björn Ingi Hrafnsson, fréttastjóri Fréttablaðsins rifjaði upp skýrslu Hnattvæðingarnefndar frá árinu 2002 í gein í síðustu viku. Þessi nefnd starfaði árin 2001 og 2002 í umboði þáverandi utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Í skýrslunni segir meðal annars:

Meginkosturinn við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil er að breytingar á gengi hans geta auðveldað aðlögun að breyttum ytri aðstæðum. Meginókosturinn er á hinn bóginn að gengisfellingarmöguleikinn getur dregið úr aga við hagstjórnina. Í löndum þar sem gengisfall vofir sífellt yfir er óhjákvæmilegt að innlendir vextir verði ævinlega hærri en erlendir vextir og að vaxtamunurinn verði þeim mun meiri sem markaðsaðilar telji líkurnar á gengis­lækkun meiri. Á tímum frjálsra fjármagnsflutninga er ólíklegt að margfalt stærri gjaldeyrisforði en Seðlabankinn ræður nú yfir megnaði að sefa ótta manna við gengisfellingu og draga þar með úr vaxtamun


En hvað sagði hinn oddviti ríkisstjórnarinnar á þessum tíma?

Davíð Oddson þáverandi forsætisráðherra í ræðu hjá bresk-íslenska verslunarfélaginu 6. nóvember 2001:

Góðir fundarmenn.
Á undanförnum mánuðum hefur verið nokkuð flökt á íslensku krónunni á gjaldeyrismarkaði og gengi hennar hefur lækkað. Þessi órói hefur fengið suma þá sem kvikastir eru til að boða að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga nú þegar í Evrópusambandið og taka upp evru. Íslenska myntin sé bersýnilega of smá til þess að hún geti þjónað tilgangi sínum sem trúverðugur gjaldmiðill. Óvissa um gengisþróun komi í veg fyrir erlendar fjárfestingar og skaði íslenskt atvinnulíf. Vissulega er óvissa í gengismálum óheppileg fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið allt. Lækkun á gengi krónunnar nú á rætur sínar fyrst og fremst að rekja til viðbragða hagkerfisins við þeirri þenslu sem hefur látið á sér kræla á undanförnum misserum. Síðustu sjö árin áður en þessa óróa fór að gæta var íslenska krónan ein stöðugasta myntin í okkar heimshluta og stóð vel af sér mikið hrun evrunnar. Var myntin hvorki stærri eða smærri á þeim tíma en nú. Allt bendir til að núverandi vandamál sé tímabundið og leysist um leið og hagkerfið hefur aðlagast nýjum aðstæðum. Einnig er rétt að benda á að lögum um Seðlabanka Íslands var breytt síðastliðið vor. Þá var ákveðið að gengi krónunnar skyldi ekki lengur haldið innan ákveðinna vikmarka en bankanum gert að fylgja framvegis ákveðnum verðbólgumarkmiðum sem ríkisstjórnin ákvað. Til þess var honum veitt aukið sjálfstæði og fullt forræði yfir vaxtaákvörðunum. Það er eðlilegt að það taki markaðinn nokkurn tíma að aðlagast þessari breytingu og þeirri staðreynd að gengi krónunnar getur nú sveiflast töluvert án þess að Seðlabankinn sjái ástæðu til inngripa.


Úps....eru 7 ár tímabundinn vandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Forsendur fyrir þessari spá um gengi krónunar breyttust algjörlega vegna glórulausra útlána íslenskra banka sem eru núna að valda gjaldþrotum margra heimila og fyrirtækja.

Einnig hefur kreppan sem upprunin er í USA orðið til þessarar þróunar á krónunni.  Kreppan er nú komin til landa ESB og hefur þegar valdið töluverðum usla í Danmörku, og í Bretlandi  er allt á niðurleið. Þessi tvö lönd eru þó meðal best settu þjóða ESB, ekki er útlitið bjart fyrir ESB risaeðluna og eins gott að við íslendingar höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá henni!

Guðrún Sæmundsdóttir, 14.7.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband