Leita í fréttum mbl.is

Grein Carl Bildt og Olli Rehn úr MBL

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía og Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB rituðu sameiginlega grein í Morgunblaðið í gær. Evrópusamtökin fengu leyfi þeirra til þess að birta hana hér á blogginu:

Góð byrjun hjá Íslandi

FYRIR tuttugu árum, bauð framkvæmdastjórn ESB undir forystu Jacques Delors, Íslandi og öðrum EFTA-löndum að fara „þriðju leið“ milli ESB-aðildar og þess að standa alfarið fyrir utan. Það boð leiddi til myndunar Evrópska efnahagssvæðisins. Finnland og Svíþjóð, lönd djarfra rallýökumanna, skrensuðu fljótt á „þriðju leiðinni“, en tóku svo stefnuna beint í átt að ESB-aðild, fyrst með umsókn og loks aðild árið 1995. Ísland og Noregur ákváðu hins vegar að halda áfram á „þriðju leiðinni“.


Allar götur síðan hefur kastljós stækkunarmála ESB beinst að suðausturhorni Evrópu á meðan kyrrt hefur verið um að litast í norðurhluta álfunnar. Evrópusamband byggt á hugsjónum um frið, velmegun, frelsi og lýðræði, nær nú til 27 ríkja og tæplega 500 milljóna manna. Það er ekki síst á tímum sem nú, í skugga alþjóðlegra efnahagserfiðleika, að mikilvægi þess að vinna saman að lausn hnattrænna vandamála kemur í ljós. Fyrir vikið er ESB sterkari og áhrifameiri gerandi á alþjóðavettvangi, í loftslagsmálum og á sviði orkuöryggis og fjármálaregluverks, svo fátt eitt sé nefnt.


Eftir snarpar umræður ákvað Ísland að sækja um aðild að ESB í júlí á þessu ári. Einn helsti hvati þess var fjármálakreppan sem reið yfir landið. Það minnir nokkuð á aðstæður í Svíþjóð í byrjun 10. áratugarins þegar ákvörðun var tekin að sækja um aðild að ESB.


Þó svo að skuggi óvissu hafi svifið yfir ESB í tengslum við fullgildingu Lissabon-sáttmálans komust aðildarríkin fljótt að samkomulagi um að biðja framkvæmdastjórn ESB að hefja undirbúning álitsgerðar um umsókn Íslands. Hraðinn og einurðin sem einkenndi ákvarðanatöku aðildarríkjanna sýndi að þau töldu Ísland eiga heima í ESB, ef það svo kysi.


Í byrjun september lagði framkvæmdastjórn ESB spurningalista fyrir íslensk yfirvöld til að meta hversu vel landið væri í stakk búið fyrir aðild. Síðustu svör íslenskra stjórnvalda voru afhent 19. október, heilum mánuði á undan áætlun. Við óskum stjórnvöldum og stjórnsýslu landsins til hamingju með þann árangur. Mat framkvæmdastjórnarinar er að gæði svaranna séu góð. Það hversu hratt og örugglega spurningunum var svarað segir sína sögu um gæði íslenskrar stjórnsýslu. Það er gott veganesti inn í komandi aðildarviðræður.

Við vitum vel að það er ósk stjórnvalda að álitsgerðin um umsóknina verði samþykkt sem allra fyrst og að aðildarviðræður hefjist. Hins vegar verðum við að taka mið af aðstæðum sem hvorki við né Ísland höfum stjórn á. Vegna tafa við fullgildingu Lissabon-sáttmálans er réttur núverandi framkvæmdastjórnar til ákvarðanatöku takmarkaður við daglegri stjórnun. Hún hefur ekki ekki umboð til að taka mikilvægar ákvarðanir eins og að mæla með að hefja aðildarviðræður við nýtt umsóknarríki. Af þeim ástæðum hefur samþykkt álitsgerðarinnar verið frestað þangað til ný framkvæmdastjórn tekur við, líklega í byrjun febrúar.

Þó er ljóst að miklu hefur verið áorkað af hálfu allra aðila á undanförnum sex mánuðum. Aðildarríki ESB hafa sýnt vilja til að vinna hratt og náið með Íslandi. Innan framkvæmdastjórnar ESB vinna menn nú hörðum höndum við aðildarumsókn Íslands. Vinnan við spurningalistann í haust bar vott um skilvirkni og gæði í stjórnsýslu hins aldargamla lýðræðisríkis.

Aðildarríki ESB hafa brugðist jákvætt við umsókn Íslands að ESB. Ályktun ráðherraráðs utanríkismála í sumar, um umsókn Íslands, bar þess glöggt vitni. Í ályktuninni kom fram að Ísland byggir á langri lýðræðishefð, hefur í fjölda ára átt í nánu samstarfi við ESB og hefur alla möguleika á að leggja mikið af mörkum til samstarfsins. Einnig kom í ljós einhugur um að veita Íslandi aðgang að sérstökum aðlögunarsjóði sambandsins sem veitir umsóknarríkjum tæknilega aðstoð. Aðildarríkin eru reiðubúin að taka ákvörðun um að hefja aðildarviðræður um leið og framkvæmdastjórnin hefur skilað áliti sínu.

Ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga hafa lagt fram sannfærandi rök fyrir umsókninni. Það er brýnt að vinnan haldi áfram og að rödd og rökstuðningur Íslendinga fyrir því hvers vegna þeir sækist eftir aðild haldi áfram að heyrast í Evrópu. Að sama skapi er mikilvægt að ESB sé sýnilegt á Íslandi. Það er nauðsynlegt að við aukum á næstu mánuðum gagnkvæm samskipti okkar og að við hlustum vel á þjóðfélagsumræðuna.

Stjórnmálamönnum í lýðræðisríkjum er skylt að starfa í umboði og með stuðningi ríkisborgaranna. Á sama tíma er nauðsynlegt að leiðtogar séu framsýnir og að þeir hafi dug og þor til að taka erfiðar pólítískar ákvarðanir. Ákvörðun um aðild er aldrei auðveld og hefur oft skipt þjóðum í tvo hópa, með eða á móti. Kosningabaráttan í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svíþjóð um aðild að ESB var til að mynda átakamikil. Mjótt var á munum og þó að meirihluti kjósenda hafi í atkvæðagreiðslunni stutt inngöngu Svíþjóðar var stuðningur þeirra við ESB lengi á eftir í algjöru lágmarki. Stuðningurinn í Svíþjóð við ESB mælist hins vegar einn sá mesti í Evrópu í dag, samkvæmt skoðanakönnunum. Það er skoðun okkar að ESB-aðild hafi hjálpað Svíþjóð að komast upp úr þeirri sársaukafullu efnahagslægð sem landið gekk í gegnum í byrjun tíunda áratugarins. ESB-aðildin skapaði aðstæður sem stuðluðu að stöðugleika og trúverðugleika, og juku á bjartsýni.

Okkar reynsla er að Svíum hafi tekist vel að verja hagsmuni sína, einkum mikilvæga þjóðarhagsmuni. Fyrir okkur er það góð vísbending um möguleika smærri ríkja að hafa áhrif á ákvarðanatöku í Brussel.
Það er trú okkar að Íslendingar, á sama hátt og Svíar og fleiri þjóðir sem hafa tekið ákvörðun um að gerast aðilar að ESB, muni í auknum mæli koma auga á þá kosti sem fylgja því að vera aðili að ESB.

Olli Rehn er framkvæmdastjóri stækkunarmála ESB – Carl Bildt er utanríkisráðherra Svíþjóðar.

Upprunalega birt í MBL, 21.12.2009

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Bara ein bein tilvitnun í áróðurs grein þessara 2ja sjálfskipuðu og ólýðræðislegu Cómmzara ESB Stórríkisins sem sýnir vel þversögnina í aðildar umsókn Íslands:

"Stjórnmálamönnum í lýðræðisríkjum er skylt að starfa í umboði og með stuðningi ríkisborgarana"

ESB umsóknin og allt það vesein er ekki í umboði og með stuðningi meirihluta ríkisborgara þessa lands okkar. Þvert á móti er andstaðan við ESB gríðarleg öflug og vaxandi !

Þessi aðildarumsókn að stórríki ESB hefur sundrað þjóðinni illilega og það á versta tíma, aðeins minnihluti þjóðarinnar vill inn í ESB apparatið.

Því ber að draga þessa umsókn til baka sem allra fyrst og síðan reyna að vinna að því að sameina þjóðina við að byggja upp landið án afskipta og yfirráða þessa handónýta yfirríkjabandalags !

Gunnlaugur I., 22.12.2009 kl. 22:44

2 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Gunnlaugur: Núverandi stjórn situr í umboði meirihluta þjóðarinnar. Hvernig er lögmál fulltrúa og meirihlutalýðræðis? Meirihlutinn ræður! Þetta mál mun hafa sinn lýðræðislega framgang.

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 22.12.2009 kl. 22:54

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Trúboðar sem hafa ekkert lesið nema bíbíuna hafa ekki frá neinu öðru segja.

Guðmundur Jónsson, 23.12.2009 kl. 09:41

4 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Guðmundur: Kafarar sem ekki hafa súrefni geta ekki andað!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 23.12.2009 kl. 10:31

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Þessi grein tvímenninganna er athyglisverð enda enn eitt dæmið um vaxandi áhyggjur ráðamanna í Brussel af ESB-umsókn ríkisstjórnarinnar :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 23.12.2009 kl. 14:18

6 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Já mér fannst þessi grein þeirra Olla og Kalla bara mjög sérstök.

Þeir sjá ástæðu til að hrósa íslenskri stjórnsýslu fyrir hversu "Fljótt og örugglega spurningunum var svarað" heilum mánuði á undan áætlun. Þeir Olli og Kalli deila greinilega ekki áhyggjum bændasamtakanna sem vöruðu sérstaklega við því að svara spurningunum í of miklulm flýti. Þessi svör geta nefnilega skipt töluverðu máli þegar kemur að samningum. Það var a.m.k. reynsla Finna.

Samninganefnd Íslands þarf að áskilja sér allan þann tíma sem hún þarf til að komast að bestu mögulegum samningum við ESB. Föllum ekki fyrir skjalli um hversu fljót við erum að semja (af okkur).

Þeir sjá líka ástæðu til að nefna mikilvægi þess að kjörnir leiðtogar séu framsýnir og hafi dug og þor til að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir. Þetta bendir til að Olli og Kalli óttist að það verði ekki meirihluti fyrir ESB aðild hjá þjóðinni og ríkisstjórnin þurfi því að þvinga aðildina í gegn.

Þetta geta ég ekki skilið öðruvísi en að þeir Olli og Carl telja íslensku þjóðina ekki hafa nægilegt vit til að taka skynsamlega ákvörðun í ESB málinu.

Frosti Sigurjónsson, 23.12.2009 kl. 17:29

7 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Eins og allir vita sem fjalla um þessi mál, eru upplýsingar afgerandi. Bendum á færsluna: http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/996353/

Frosti nefnir ekki HVERNIG svörin skipta máli, fróðlegt væri að heyra það. Þá ber einnig að ítreka að það er markmið samninganefndarinnar að ná sem bestum samningi fyrir Ísland, sjá m.a. hér. Í þessum texta er beinlínis sagt að gæta eiga hagsmuna Íslands í hvívetna.

Þjóðin mun (vonandi) á næstu misserum fá tækifæri til þess að mynda sér skoðun á málinu, hver þegn fyrir sig, hafi hann eða hún löngun til þess! Þetta er mikilvægt mál sem tekist verður á um. Það ber að gera af fagmennsku og rökhyggju ekki með falsi eða óheiðarleika. Megi Ísland sem þjóð verða þeirrar gæfu aðnjótandi!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 25.12.2009 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband