Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Bækur um evru og skorað á ríkistjórnina að sækja um aðild að ESB

Í gær gaf Háskólinn á Bifröst út bókina Hvað með evruna? eftir Eirík Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði, og Jón Þór Sturluson, dósent í hagfræði. Bókin er afrakstur tveggja ára rannsóknar sem gerð var að ósk Alþýðusambands Íslands og Samtaka iðnaðarins. Í bókinni eru helstu álitamál varðandi hugsanlega innleiðingu evru á Íslandi greind á einfaldan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um myntsamruna í Evrópu og skoðað hvaða áhrif innganga í Evrópusambandið og upptaka evru hefðu á íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Helstu niðurstöður bókarinnar eru að Ísland hefur aðeins tvo raunhæfa kosti í peningamálum. Annaðhvort að viðhalda núverandi stefnu með sjálfstæðri krónu á floti eða að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og taka upp evru. Ef ríki hefur á annað borð kost á fullri aðild að myntbandalagi Evrópu er vandséð hvaða hag það hefur af því að taka evruna upp einhliða. Líkast til mun taka alls fjögur ár að semja um aðild að ESB og innleiða evru á Íslandi að því loknu. Evran er því langtímamál og mun ekki duga sem lausn á skammtímavanda í íslensku efnahagslífi. Í bókinni er fjallað um hvaða áhrif innleiðing evru hefði fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Stutta svarið er nokkuð skýrt: Í fyrsta lagi verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Verðlag ætti að lækka og kaupmáttur að aukast.

Samtök iðnaðarins fjölluðu um þessi mál á Iðnþingi í gær, og eins og sjá mátti í kvöldfréttum stöðvar2 þá skoruðu samtökin á ríkistjórnina að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Formaður samtakanna, Helgi Magnússon, benti á að Íslendingar hefðu þegar innleitt 3/4 af regluverki sambandsins, og sýnt var viðtal við Olli Rehn, stækkunastjóra ESB, þar sem hann greindi frá því að aðildarsamningaviðræður myndu taka 9-12 mánuði og inngönguferlið taki ekki nema um 2 ár. Í samantekt Vísir.is um Iðnþingið kemur fram að SI vona að nýrri Evrópunefnd verði falið það hlutverk að "móta samningsmarkmið, fara í saumana á samningaferlinu, undirbúa rök vegna sérstöðu þjóðarinnar og hefjast handa við að finna viðunandi lausnir."


Ísland og Evrópa - Mótum eigin Framtíð

Í dag halda samtök iðnaðarins ársþing sitt á Grand Hótel í Reykjavík. Þar verður meðal annars efnt til umræðu um Evrópumál, yfirskriftin er ,,Ísland og Evrópa-Mótum eigin Framtíð". Það hefst kl.13.00 og er öllum opið. Hægt er að sjá dagskrána á þessari slóð.

Jón Steindór Valdimarsson, nýr framkvæmdastjóri Samtakanna, skrifar skemmtilegan leiðara í nýjasta fréttabréf SI undir yfirskriftinni; ,,Að búa sig til ferðar" Þar segir Jón meðal annars:

Það er hrein rökleysa að halda því fram að þeir, sem vilja aðild að ESB og evru, séu að bjóða fram skyndilausn til að bregðast við bráðum vanda. Skyndilausn sem taki í raun mörg ár að ná fram og þess vegna sé hún ekki tæk. Með aðild að ESB og evru er bent á leið til að breyta til langs tíma þeirri umgjörð sem við setjum efnahags- og þjóðlífi okkar, leið sem tekur nokkur ár að feta þar til settu marki er náð.


Í dag birtist svo þessi greining eftir Auðunn Arnórsson í Fréttablaðinu á stöðu Evrópumála og hver afstaðan sé hjá samtökum atvinnulífs og samtaka iðnaðarins, en það segir meðal annars;

Margt bendir því til að ráðandi öfl í íslenzku atvinnulífi hafi sannfærzt um að ekki sé við íslenzku krónuna búandi til framtíðar og eina raunhæfa lausnin á gjaldmiðilsvandanum sé innganga í ESB og evrópska myntbandalagið. Kostnaðurinn af krónuhagkerfinu er nú á tímum hnattvæðingar, frjáls fjármagnsflæðis og útrásar íslenzkra fyrirtækja einfaldlega miklu meiri en ávinningurinn af því að hafa sjálfstæða mynt á minnsta myntsvæði heims. Meirihluti almennings, sem ber megnið af kostnaði hins óstöðuga krónuhagkerfis, gerir sér einnig grein fyrir því að hag íslenzkra neytenda væri líka bezt borgið með evrunni. Það endurspeglast í skýrri niðurstöðu nýjustu skoðanakönnunar Fréttablaðsins; 55 prósent þjóðarinnar vilja aðildarumsókn.


Það verður gaman að sjá hvaða skilaboð koma frá SI eftir ársþing þeirra í dag.


Mýtan um erlendu togarana við Íslandsstrendur

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, af og til skýtur upp þeirri mýtu að miðin við Íslandsstrendur myndu fyllast af erlendum veiðiskipum ef við gengjum í Evrópusambandið. Þrátt fyrir að margbúið sé að sýna fram á að þetta eigi ekki við rök að styðjast dúkkar þessi dómsdagsspá upp við og við. Nú nýlega hefur þessu til dæmis tvisvar verið haldið fram í greinum í Viðskiptablaðinu. Af því tilefni hafa bæði Aðalsteinn Leifsson, lektor við HR, og Percy Westerlund, sendiherra ESB hér á landi, skrifað greinar til að hrekja þessa bábilju.

Percy Westerlund skrifar í Viðskiptablaðið í dag og þar segir hann meðal annars:

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ein af grunnstoðum sjávarútvegsstefnu ESB og ekkert bendir til þess að henni verði haggað í fyrirsjáanlegri framtíð. Fræðilega séð er hægt að breyta reglunni með auknum meirihluta í ráðherraráði ESB. Hins vegar nýtur reglan víðtæks pólitísks stuðnings í ráðherraráðinu og aldrei hefur komið til alvarlegra álita að hrófla við henni þegar breytingar hafa verið gerðar á sjávarútvegsstefnunni (sem er endurskoðuð á tíu ára fresti). Að auki má benda á að Evrópudómstóllinn hefur oftar en einu sinni staðfest lögmæti reglunnar. Mikilvægast í þessu samhengi er þó að engar meiriháttar breytingar yrðu gerðar á sjávarútvegsstefnu ESB nema með samþykki þeirra aðildarríkja sem mestra þjóðarhagsmuna eiga að gæta.


Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þriðjudaginn 4. mars 2008


Yfirlýsing um að stefnt sé að ESB eykur stöðugleika til skamms tíma

Eyjan.is er með góða úttekt á orðum Árna Páls í Silfri Egils í gær, þar sem hann sagði að til skamms tíma mundi það stuðla að efnahagslegum stöðugleika og auðvelda mönnum að ná tökum á efnahagsástandinu ef íslensk stjórnvöld gefi yfirlýsingu um að þau stefni að aðild að Evrópusambandinu. Í fréttinni segir einnig

Yfirlýsing af þessu tagi hafi haft þau áhrif fyrir ýmis Austur-Evrópuríki að auðvelda þeim við að ná efnahagslegum stöðugleika. Íslendingar eigi við grundvallarvanda að ræða og flest bendi til að alþjóðlegir markaðir hafi vantrú á uppbyggingu íslensks efnahagslífs.

Hagfræðingarnir Ársæll Valfells og Ólafur Ísleifsson tóku undir það síðar í þættinum og kom fram í samtali þeirra við Egil Helgason að frá því að Eystrasaltsríkin lýstu því yfir að þau stefndu að aðild að ESB hefði þróun gjaldmiðils þeirra gagnvart evru verið mjög stöðug.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband