Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Jón Karl Helgason um ESB-fjármagn

Jón Karl HelgasonJón Karl Helgason, bókmenntafræðingur, á skrifar áhugaverða færslu á blogg sitt, sem og á Sterkara Ísland.  Útgangspunktur hans er ætlaður "fjáraustur" ESB til Íslands vegna aðildarviðræðnanna. Um daginn talaði Nei-foringinn, Ásmundur Einar Daðason um ,,ómælda fjármuni" frá ESB. Sem er auðvitað della. Það verður ÁKVEÐNU fjármagni veitt í þetta dæmi, bæði hjá ESB og íslenskum stjórnvöldum!

Jón Karl segir þessa umræðu byggða á misskilningi og skrifar m.a. :

,,Aðlögunarferli Íslands að regluverki og stofnanakerfi ESB hófst árið 1994 með aðild okkar að EES samningunum og er talið að því sé 70% lokið. Aðlögunin heldur samt áfram dag frá degi með upptöku nýrra lagabálka ESB án þess að við Íslendingar höfum nokkuð um þá að segja. Þetta er vissulega gróf ögrun við lýðræði í landinu.

Á síðustu sextán árum hafa milljaraðarnir streymt hingað frá Brussel. Íslensk sveitarfélög, félagasamtök, bændur, nýsköpunarfyrirtæki, opinberar stofnanir og óteljandi vísindamenn og listamenn hafa verið að taka við peningum frá ESB án þess að roðna eða blána. 7. rannsóknaáætlun ESB, Almannavarnaáætlun, Daphne III - gegn ofbeldi á konum og börnum, Evrópa unga fólksins, eTwinning - rafrænt skólasamstarf, Progress - jafnréttis- og vinnumálaáætlun, MEDIA Kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunaráætlun ESB, Menningaráætlun ESB og Menntaáætlun ESB eru dæmi um þau nöfn sem ESB gefur lítt dulbúnum mútugreiðslum sínum.

Þá má ekki má gleyma öllum þeim þúsundum af ungmennum sem hafa verið að fara til lengri eða skemmri dvalar í Evrópusambandslöndum í gegnum ERASMUS námsmannaskiptin."


Allur pistill Jóns Karls

 


Anna Margrét vill KLÁRA DÆMIÐ!

Anna Margrét GuðjónsdóttirAnnar Margrét Guðjónsdóttir, varaþingamaður og stjórnarmaður í Sterkara Ísland, skrifar ágæta grein í Fréttablaðið í dag. Hún vill klára aðildarsamninga við ESB og láta síðan kjósa um málið. Anna skrifar:

,,Nokkrir þingmenn hófu upp raust sína fyrir skömmu og fóru fram á að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Rökin fyrir þessari kröfu eru haldlítil og svo óljós að erfitt er að henda reiður á þeim. Vafasömum fullyrðingum um vilja þings og þjóðar til þessa máls, mikinn kostnað og fulla aðlögun að Evrópusambandinu meðan á aðildarviðræðum stendur er haldið á lofti, svo fátt eitt sé nefnt. Hér er rétt að staldra við og leiða fram nokkrar staðreyndir.

Meirihluti landsmanna, eða 64%, vill ljúka aðildarviðræðunum og fá að taka upplýsta afstöðu með eða á móti aðild þegar samningur liggur fyrir. Það sýnir m.a. skoðanakönnun MMR sem birtist í Fréttablaðinu í lok september sl. Allt tal um að þjóðin vilji hætta aðildarviðræðum er því úr lausu lofti gripið.

Um kostnað vegna aðildarviðræðna má lesa í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis, sem samþykkt var í júlí 2009. Þar kemur fram að áætlaður beinn kostnaður vegna aðildarumsóknarinnar sé metinn á 400 milljónir króna fyrir tímabilið 2009–2012. Þar af er kostnaður utanríkisráðuneytisins áætlaður 300 milljónir en kostnaður annarra ráðuneyta 100 milljónir. Undir þennan kostnað fellur starfsmanna- og ferðakostnaður og aðkeypt sérfræðiráðgjöf. Á sama tíma er gert ráð fyrir að þýðingakostnaður verði samtals 590 milljónir króna en í nefndarálitinu kemur fram að ekki sé hægt að skilgreina hann sem beinan kostnað við aðildarviðræðurnar og eru færð rök fyrir því.

Óttinn við fulla aðlögun á meðan á aðildarviðræðuferlinu stendur byggir á vanþekkingu sem rétt er að uppræta. Hér skulu nefnd dæmi um þrjú verkefni sem gætu fallið undir hina svokölluðu IPA-aðstoð Evrópusambandsins sem framangreindir þingmenn óttast svo mjög."

Öll greinin 


Ómar Valdimarsson: Góðar fréttir af aðlögun

Einu sinni var Mogginn í Austurstræti og þá sáu menn þar rautt, þegar þeir litu til austurs. Það var í þá daga er Sovétríkin voru og hétu. 

Nú sjá mennirnir í Hádegismóum ennþá rautt þegar þeir horfa í austur, en nú er það Evrópa og ESB sem er orsök roðans.

Morgunblaðið í dag gerir sér (mikinn) mat úr ætlaðri AÐLÖGUN Íslands að ESB og finnst þetta hið versta mál. 

Ómar ValdimarssonÓmar Valdimarsson, blaðamaður, bloggar um þetta, finnst áðurnefnd aðlögun af hinu góða og skrifar:

,,Það voru góðar fréttir sem Mogginn flutti í gær af umsóknar/aðlögunarferlinu að ESB. Sambandið ætlast til þess að Íslendingar taki upp Evru, geri umbætur á dóms- og stjórnkerfi og aðlagi atvinnuvegina að þeim búskaparháttum sem tíðkast meðal menningarþjóða Evrópu. 

Mér finnst þetta góðar fréttir því þær gefa til kynna að um síðir megi vænta þess að vit verði haft fyrir okkur um ýmis þau mál sem hafa reynst okkur ofviða. Gleymum því ekki að helstu umbætur á t.d. dómskerfinu hér hafa verið gerðar til samræmis við góða siði í Evrópu. Aðskilnaður lögreglu- og dómsvalds, sem ekki hafðist í gegn fyrr en eldri maður á Akureyri neyddist til að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, er bara eitt dæmi um það. Og þótt ýmislegt umbótastarf sé verið að vinna hér í stjórnkerfinu þessi misserin (eins og þeir vita sem vilja vita), þá þarf vafalaust utanaðkomandi aðstoð til að stíga skrefin til fulls."

Allur pistill Ómars 

Í þessu samhengi má minna á að Ísland hefur farið í gegnum mikla aðlögun að ESB í gegnum EES samninginn, en um 70% af allri löggjöf hér á landi kemur frá ESB. M.a. sagði Geir Haarde á sínum tíma að EES-samningurinn hafi reynst okkur vel. Var sú aðlögun þá slæm?

Og kannski kemur meiri evrópsk aðlögun í veg fyrir handahófskenndar aðgerðir, eins og t.d. þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður, vegna þess að þáverandi forsætisráðherra var ekki sammála stofnuninni!

Sá fyrrum forsætisráðherra ritstýrir nú Mogganum og heitir Davíð Oddsson

Svo má í þessu samhengi vitna í skýrslu þingmanna um Rannsóknarskýrslu Alþingis, en þar semg m.a.: ,, Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki."

Gæt evrópsk "aðlögun" verið lausn á þessu? 

 


Hannes Pétursson skáld í Fréttatímanum: Hægt að vera Evrópusinni og þykja vænt um íslenskar sveitir

Hannes PéturssonHannes Pétursson skáld tjáir sig opinskátt um Evrópumál í viðtali við Fréttatímann í dag. Þar segir hann meðal annars enga þversögn vera í því að vera Evrópusinni og á sama tíma þykja vænt um íslenskar sveitir.

Hægt er lesa nánar um viðtalið inn á bloggi ,,Sterkara Íslands" 

Einnig er hægt að skoða Fréttatímann í heild sinni á þessari slóð.

http://frettatiminn.is/UserFiles/File/ft5.pdf

 

 


Sænskur bóndi valinn formaður efnhags og félagsmálanefndar ESB

Staffan Nilsson

Sænski mjólkurbóndinn, Staffan Nilsson, hefur verið valinn nýr formaður Efnahags og félagsmálanefndar ESB (EESC). Hann rekur einnig búgarð í Hälsingland í Svíþjóð.Nefndin var stofnuð í sambandi við Rómarsáttmala ESB og í henni eiga fulltrúar hagsmunasamtaka á vinnumarkaði sæti, sem og fulltrúar launþega og annarra úr hinu borgaralega samfélagi (ens:civil society).

Meginverkefni nefndarinnar eru að veita framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþinginu ráð  og sérfræðiþekkingu, t.d. í sambandi við lagasetningu.

Hlutverk nefndarinnar hefur styrkst verulega með tilkomu Lissabon-sáttmálans.

Hér má lesa skjöl varðandi hinn nýja formann,en varaformaðurinn er Anna Maria Darmanin, sem kemur frá Möltu. ,,Prógramm" þeirra er hér

,,Sjálfbær, græn þróun," samstaða með þróunarlöndum og aukin áhrif hins ,,borgaralega samfélags" innan ESB eru m.a. áhersluatriði hjá Nilsson og Darmanin.

Smáríki HAFA ÁHRIF innan ESB!

Bændur HAFA ÁHRIF innan ESB!


Mikil ESB-umræða á Smugunni

VGGreinilegt er að ESB-málið hefur hleypt miklu lífi í umræðuna innan VG um málið - á Smugunni.

Hugtakið "Blámenn" hefur blandast inn í það vegna ummæla Bjarna Harðarson, hins nýja upplýsingafulltrúa Jóns Bjarnasonar, á málþinginu. Menn hafa deilt um það hvað Bjarni sagði og hvað ekki og hvernig. Það væri fróðlegt að heyra hljóðupptöku af því - myndband væri enn betra!

Um "Blámenn" ræðir Agnar Kr. Þortsteinsson hér 

Pétur Óli Jónsson tjáir sig einnig um ESB málið hér 

Þetta er málið VG - ræða málið! Ekki gera eins og flutningsmenn "Heimssýnar-tillögunnar" vonuðust til, þ.e. að leggja fram tillögu, í þeirri von að hún yrði samþykkt og ESB-málið þar með dregið til baka.

Íslenska þjóðina á að fá tækifæri til þess að útkljá þetta mál - með því að greiða atkvæði um aðildarsamning. 

Það er hið sanna lýðræði í málinu! 


Smugan: Oddur Ástráðsson svarar Hjörleifi Guttomrssyni um ESB

Oddur ÁstráðssonEins og fram hefur komið hélt VG málþing um utanríkismál um helgina. Eiginlega vara bara eitt utanríkismál sem þar var rætt, eða fékk athygli fjölmiðla, en það var ESB.

Í kjölfar þessa málþings geystist svo Hjörleifur Guttormsson fram á ritvölinn í Morgunblaðinu(!) og birti þar grein. Hana má lesa hér, Mogginn er jú læstur fyrir alla nema áskrifendur, er varðar aðsendar greinar.

Nú, Hjörleifi er svarað af ungum manni, Oddi Ástráðssyni (mynd), á Smugunni, en Oddur er liðsmaður VG. Oddur skrifar:

 ,,Hjörleifur Guttormsson skrifaði þann 26. október á Smuguna grein undir fyrirsögninni VG í blindgötu vegna umsóknar um ESB-aðild“. Þar staðhæfir ráðherrann fyrrverandi að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé í innbyrðis mótsögn vegna þeirrar stöðu sem uppi er; að VG sem aðili að ríkisstjórn standi að umsókn um aðild að ESB á sama tíma og yfirlýst stefna flokksins er gegn aðild. Í grein sinni beitir Hjörleifur klækjum og óræðu, gildishlöðnu orðalagi til að renna stoðum undir þessa staðhæfingu sína. Ég mun hér leitast við að sýna fram á galla í röksemdafærslu Hjörleifs og færa rök fyrir gagnstæðri niðurstöðu.

Um aðdraganda aðildarumsóknar

Það er hárrétt ábending hjá Hjörleifi að þingsályktun um að leggja inn umsókn um aðild að ESB var samþykkt með fulltingi átta þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. En hvað grundvallaði þá afstöðu? Hér er á tvennt að benda:

1.      Í ályktun landsfundar VG, sem haldinn var í Reykjavík 20.-22. mars 2009 segir: Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

2.      Í stjórnarsáttmála VG og Samfylkingar sem varð til að undangegnum stjórnarmyndunarviðræðum eftir síðustu Alþingiskosningar segir: Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Stjórnarsáttmálinn var samþykktur á flokksráðsfundi VG sem veitti forystu flokksins þar með umboð til að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Að fyrrgreindu má sjá að ákvörðun um að mynda ríkisstjórn á vordögum 2009 var tekin í fullu samræmi við landsfundarályktun um Evrópusambandsmál. Eins er vert að benda á að það skilyrði Samfylkingarinnar fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að lögð yrði inn umsókn um aðild að ESB var samþykkt af almennum flokksmönnum á flokksstjórnarfundi. Ákvörðunin var tekin með vitund og vilja meirihluta flokksmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs."

Og í lokin segir Oddur:

,,Aðild eða ekki aðild 

Rétt er að árétta að með því sem hér er skrifað er undirritaður ekki að taka afstöðu með eða á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Tilgangur þessarar greinar er miklu frekar að benda á tvennt: Annars vegar að umræða um kosti og galla aðildar verður að vera bæði gagnrýnin og án fyrirfram gefinna gildisdóma til að niðurstaða umræðunnar geti orðið uppbyggileg fyrir þjóðina til framtíðar. Hins vegar að sú staða sem uppi er er tilkomin með fyrirfram vitund og vilja flokksmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og mun að lokum leiða til lýðræðislegrar niðurstöðu sem þjóðin öll ber jafna pólitíska ábyrgð á.

Ég tel það löngu tímabært að íslensk þjóð fái tækifæri til að taka efnislega afstöðu til kosta og galla aðildar að Evrópusambandinu og hlakka til að fá að taka slíka afstöðu sjálfur. Eins kvíði ég ekki lýðræðislegri niðurstöðu, sama hver hún verður. Það held ég hins vegar að Hjörleifur Guttormsson geri." 

Öll grein Odds 

 

 


Þeir sletta skyrinu sem eiga það (og borða það líka!) - Skyr slær í gegn í Noregi!

SkyrFram kemur á forsíðu Fréttablaðsins í dag að íslenskt skyr hafi slegið í gegn í Noregi: ,,Norska mjólkurbúið Q, sem á síðasta ári hóf framleiðslu á skyri að íslenskri fyrirmynd, hlaut á þriðjudag þekkt norsk nýsköpunarverðlaun fyrir skyrframleiðslu sína.

Íslenska skyrið hefur slegið í gegn í Noregi og á skömmum tíma náð um fjórðungs markaðshlutdeild á markaði fyrir léttar jógúrtvörur. Í rökstuðningi fyrir verðlaunaafhendingunni segir að um nýja, holla vöru sé að ræða sem hafi breytt matarvenjum margra Norðmanna."

Noregur, sem vissulega er ekki í ESB, heldur hluti af EES-svæðinu, er hluti af Evrópu. Íslenskir bændur reka upp harmakvein þegar minnst er á ESB.

En spurningar sem vaknar í kjölfar fréttar FRBL eru m.a. þessar: Taka bændur algjörlega skakkan pól í hæðina varðandi ESB? Er ESB fullt af tækifærum fyrir íslenskar landbúnaðarvörur, sem eru bæði hollar og góðar?

Einnig kemur fram í fréttinni að skyr hafi náð nokkrum vinsældum í Danmörku og Bandaríkjunum.

Hvað segja bændur nú? 


Engar krónur hjá CCP - bara Evrur!

CCPÁ heimasíðu Samfylkingarinnar birtist þetta:

,,Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóri CCP sagði á hádegisfundi Evrópuvaktar Samfylkingarinnar í gær um Evru eða krónu, að fyrirtæki hans væri í raun búið að leggja krónuna einhliða niður, þar sem þau nota hana ekki.

Allir starfsmenn fyrirtækisins fá greitt í Evru í dag. Nú eru tæplega 300 starfsmenn hjá fyrirtækinu hér á landi þar af hafa 80 manns flust til Íslands til að starfa hjá CCP. Alls starfa um 600 manns hjá CCP og bara á þessu ári hafa verið ráðnir um 200 manns til starfa. Fram kom hjá Hilmari að árið 2005 hafi horfið 150 milljón króna hagnaður CCP þegar krónan styrktist uppúr öllu valdi. Hann telur gjaldeyrishöftin „sturluð“ og það sé afar flókið að reka alþjóðlegt fyrirtæki í þessu örmyntakerfi sem við búum við nú. Hilmar fór síðan yfir hið mikilvæga framlag sprotafyrirtækja og hugbúnaðariðnaðarins í hagkerfi landsins."

CCP framleiðir einn besta netleik heims: EVE-Online

Öll umfjöllunin um fundinn


Össur S. á Eyjunni: Margfalt flutt af kjöti til Evrópu en Bandaríkjanna. Áttfalt meira verðmæti

LambakjötÁ Eyjunni segir: ,,Evrópumarkaðurinn er orðinn miklu mikilvægari fyrir íslenska sauðfjárbændur en Bandaríkjamarkaðurinn, að sögn Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Þar liggi líka sóknarfærin í framtíðinni, einsog koma sé fram um þessar mundir. Hann segir verulegt flug á íslensku lambakjöti á mörkuðum í löndum Evrópusambandsins, og verð á uppleið, ekki síst í Bretlandi.

“Tölurnar tala sínu máli,” segir Össur í samtali við Eyjuna. “Árið 2009 voru flutt út 1.460 tonn af lambakjöti til aðildarríkja Evrópusambandsins en ekki nema 57 tonn til Bandaríkjanna. Í verðmætum er munurinn áttfaldur. Það munar um minna.” Hann segir að munurinn sé mikill, ekki síst í ljósi þess að tollur á Bandaríkin sé minna en króna á kílóið og þar að auki hafi hundruðum milljóna verið varið þar í öflugt markaðsátak undanfarin ár.

“Fyrstu átta mánuði þessa árs voru svo flutt út 748 tonn af lambakjöti til Evrópusambandsins á sama tíma og ekki fóru nema 5,7 tonn á Bandaríkjamarkað.” Að hans mati sýna þessar tölur að mestu sóknarfærin virðist liggja innan Evrópusambandsins. Raunar sýni þróun síðustu mánuða ekki bara verðhækkun á mikilvægum mörkuðum innan sambandsins, t.d. Bretlandi, heldur sé nú einnig flutt út ferskt lambakjöt til veitingahúsa á mjög góðu verði. Menn eigi að einhenda sér á að þróa þann markað, slást fyrir hækkuðu verði og hann kveðst reiðubúinn til að berjast fyrir auknum kvóta. Árlegur kvóti af lambakjöti inn á Evrópu er nú 1.850 tonn og útlit fyrir að hann verði fylltur í ár.

Þá segir hann aðild að ESB engu breyta varðandi útflutning á kjöti til Bandaríkjanna."

Öll frétt Eyjunnar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband