Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Stefán Haukur í ítarlegu viðtali um ESB-ferlið

Stefán JóhannessonFréttablaðið birti í helgarútgáfu sinni ítarleg viðtal við Stefán Hauk Jóhannesson, aðalsamningamann Íslands gagnvartt ESB. Í viðtalinu segir m.a.: 

,,Er það rétt sem Joe Borg sagði á dögunum að Ísland væri heppið að vera ekki í hópi fjölda ríkja að semja um inngöngu eins og Malta var á sínum tíma. Eða lendir meiri vinna á ykkur en ef Ísland væri að sækja um aðild samferða öðrum ríkjum?

Sú vinna sem lendir á okkur yrði hvorki meiri né minni við það að vera í hópi með öðrum. ESB semur við hvert og eitt ríki á eigin forsendum en hefur viljað semja við nokkur ríki í einu því það er að mörgu leyti auðveldara fyrir ESB að gera það þannig.

Þegar við gerðum EES-samninginn var mikill styrkur að því að vera í hópi með hinum EFTA-löndunum. En það var ekki síst af því að þau ríki töluðu einni röddu við ESB. Þetta á ekki við í aðildarviðræðum, því þar er hvert ríki að semja fyrir sig.

Það væri kannski ekki verra að vera með öðrum ríkjum í hópi en það að við séum ein veitir ef til vill meiri sveigjanleika fyrir ESB til að nálgast sérlausnir fyrir okkur án þess að ég vilji fullyrða neitt um það.

Þið eruð að fara að karpa við hörkuþjóðir eins og Þjóðverja og Englendinga. Eigið þið einhvern séns í fimm hundruð milljóna manna samband?

Það er mikil einföldun að horfa á höfðatölu í þessu samhengi. Þetta snýst um að hafa þekkingu og reynslu á þeim málefnasviðum sem samningarnir snúast um. Það fólk sem hefur verið beðið um að taka að sér þetta verkefni hefur gert það í krafti sérfræðiþekkingar sinnar og reynslu.

Ég tel að það sé góð sátt um samninganefndina og í samningahópum taka þátt sérfræðingar úr ýmsum áttum, sérfræðingar og hagsmunaaðilar, og það er það sem við erum að byggja á og njóta góðs af.

Ég held við þurfum ekki að hafa áhyggjur af stærð ESB. Evrópusamvinnnan snýst að miklu leyti um málamiðlanir, að finna sameiginlegar lausnir og taka tillit til séraðstæðna í hverju ríki. Í EES-samningaviðræðunum sást hvað íslensk stjórnsýsla getur þegar á reynir."

Í viðtalinu er m.a. komið inn á aðkomu bænda að þessu ferli og um það segir í viðtalinu: 

,,Í næstu viku er fjögurra daga fundur um landbúnaðarmál. Bændasamtökin eru í einum samningahópanna en segjast ekki vilja taka þátt í þessu ferli. Í hverju taka þau ekki þátt og hvað þýðir það? Hamlar það ykkur í þessu rýniferli?

Við höfum átt prýðilegt samstarf við Bændasamtökin en þau hafa gefið til kynna að þau muni ekki taka þátt í rýnifundum úti í Brussel, sem eru vonbrigði. Þetta þýðir að við þurfum að styðjast við þá krafta sem við höfum í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hefur tekið þátt í þessu á landbúnaðarsviði.

Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búa þau yfir mikilli þekkingu. Ég vil ekki vera með getgátur um hvort þetta tefji fyrir, við vinnum bara eins og við getum. Þetta hefur ekki áhrif á rýniferlið núna, því það er ESB sem skýrir sína hlið í næstu viku. En á seinni fundunum, sem verða í lok janúar, þurfum við að gera grein fyrir íslenskri löggjöf og það er mikil vinna að undirbúa það.

Auðvitað hefði verið betra að hafa Bændasamtökin í því og ég vona að þau geri það. Við stefnum á að vera undirbúin fyrir þá fundi og ég á ekki von á öðru.

Þetta getur þá þýtt að Ísland fer verr undirbúið en ella í viðræðurnar?

Hjáseta Bændasamtakanna getur komið niður á undirbúningi og því gæti staða okkar verið lakari en ella."


Allt viðtalið 


Hilmar Veigar um gjaldmiðilsmál - mjög athyglisvert!

Hilmar Veigar PéturssonVekjum athylgi á þessari videoklippu með Hilmari Veigari, forstjóra CCP, þar sem hann talar um gjaldmiðilsmál: http://thjod.is/2010/11/hilmar-veigar/ 

Þessi krækja er líka áhugaverð! 

 


KRÓNAN HRUNDI! Sagan í endurritun?

KrónurÞað er afar áhugavert hvernig fjallað er um gjaldmiðilsmál á Íslandi. Nýtt dæmi er úr frétt MBL.is en þar stendur að Íslendingar ...hafi fellt gengi gjaldmiðils síns og þannig örvað útflutning, á meðan Írar búi við fastgengi evrusvæðisins."

Hvaða ranghugmyndum er verið að koma inn hjá fólki!? Eru menn algerlega búnir að gleyma því hvað gerðist haustið 2008?

Rifjum það upp, það eru aðeins tvö orð; KRÓNAN HRUNDI!

Eins og spilaborg! 

Er verið að reyna að endurskrifa söguna? Ekki skrýtið að sú hugmynd skjóti upp kollinum! 


Seðlabankastjóri: Góður valmöguleiki að taka upp Evru

Már GuðmundssonÁ vef Vísis má lesa: ,,Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að það geti verið góður valmöguleiki fyrir Ísland að taka upp evru, þrátt fyrir skuldavandann. Már Guðmundsson, segir að skuldavandi evruríkja, sé ekki tilkominn vegna sameiginlegu myntarinnar heldur vegna skorts á eftirliti í bankakerfinu." (Hér er öll fréttin)

Rétt eins og Íslendingar gátu Írar haft öflugt eftirlit með bankakerfinu. ESB ræður nefnilega ekki yfir íslensku fjármálaeftirliti, það gera Íslendingar sjálfir! 

Því þýðir lítið að skella skuldinni á ESB og segja að allt hér sé "vondum evrópskum reglum" að kenna. Það hefur hinsvegar verið reynt. Sjá hér

Bendum einnig á færslu frá Þýskalandi sem tengist þessu. 


Hvar er hagnaðurinn af krónunni?

Ein krónaAndstæðingar ESB fara mikinn þessa dagan í kjölfar atburða á Írlandi. Og skella skuldinni á Evruna og segja hana rót allra vandræða Íra.

En vandi Íra er skuldavandi, ekki gjaldmiðilsvandi. Og væri kenningu Nei-sinna beitt á Bandaríkin er hægt að draga þá ályktun að dollarinn sé einnig algerlega handónýtur gjaldmiðill. Hversvegna? Jú, skuldir Bandaríkjamanna nema meira en 13 trilljónum dollara (samkvæmt ameríska kerfinu). Kalifornía, sem er talið vera áttunda stærsta hagkerfi heims, er nánast gjaldþrota og hefur verið það lengi. Notar dollar!

Vandi Íslendinga er hinsvegar tvöfaldur: Skuldavandi og gjaldmiðilskreppa (sem ekkert útlit er fyrir að taki enda).

Sumir segja að krónan gagnist útflutningsfyrirtækjum landsins svo vel. En hvað með almenning? Það eru tvö ár síðan krónan hrundi. Hvernig sést þessi þessi frábæri "árangur" krónunnar hjá almenningi? Sést hann í seðlaveskjum almennings? 

Samkvæmt nýrri spá Hagstofunnar er spáð samdrætti á þessu ári í landsframleiðslu. Ekki virðist krónan koma að gagni í því samhengi. Fæ ríkið auknar tekjur í kassann vegna krónunnar? Af hverju er þá endalaust verið að skera niður út um allt?

Hvar er hinn raunverulegi hagnaður íslensks samfélags af krónunni? Getur einhver svarað því?

Gjaldeyrishöftin þýða að erlendir fjárfestar munu forðast Ísland eins og heitann eldinn - þau þýða líka að Ísland er LOKAÐ hagkerfi. 


Björgvin G. um landbúnað og ESB á Pressunni

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, skrifar pistil á Pressuna um landbúnaðarmál og ESB-málið. Björgvin segir m.a.: ,,Stærsta ákvörðun þjóðarinnar á næstu misserum er hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu og taka upp evru í stað krónu og EES-samnings. Aðild og upptaka evru er greiðasta leiðin til endurreisnar landsins og stóri lærdómurinn af hruni efnahagskerfisins.

Hvar stæðu Írar t.d. nú er þeir væru að glíma við gjaldmiðilshrun ofan í vanda fjármálakerfisins? Líklega enn þá verr en við Íslendingar gerðum fyrir tveimur árum síðan. Þó Írar gangi nú í gegnum erfiðleika má ekki gleyma því að á ríflega tveimur áratugum hefur staða þjóðarinnar tekið stakkaskiptum frá bláfátækri bændaþjóð á bekk með þeim auðugustu í heimi.

Umræðan um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er því miður á stigi fáránleikans á stundum. Þar er alið á ótta um innlimun í stórríki ESB, afsal auðlinda, fullveldis og sjálfstæðrar tilveru þjóðarinnar. Alið á því að Ísland yrði undir í leit bandalagsins ógurlega að auknu „lífsrými“ og því sé allt að óttast, jafnvel sé þjóðerni, tunga og samfélag í stórhættu.

Sá þáttur mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu sem er mér mjög hugleikinn snýr að landbúnaðar- og byggðamálum og um þann þátt aðildar helga ég einn kafla í bók minni Stormurinn - reynslusaga ráðherra.

Um þau álitaefni er lítið rætt af málefnalegri yfirvegun, en talsvert af fordómum og yfirdrifnum hræðsluáróðri um endalok landsbúnaðarins eins og við þekkjum hann, ef til aðildar kæmi.

Sá málatilbúnaður er að mínu mati fráleitur því að þótt aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér ýmsar breytingar á umhverfi landbúnaðar- og byggðamála, þá er fjarri því að hún yrði greininni til meira tjóns en gagns heldur þvert á móti tel ég að við aðild að ESB felst meiri ávinningur en tjón fyrir landbúnaðinn til lengri tíma litið."

Allur pistillinn á Pressunni  (sem einnig á myndina)


Hvessir hjá Jóni Bjarnasyni vegna Bjarna Jónssonar

Jón BjarnasonHér á árunum fyrir hrun, þegar Ísland var "óspilltasta" land í heimi, mærðu menn hina íslensku stjórnsýslu. Það var talað um að kerfið væri fljótvirkt og það sem margir nefndu sem mikinn kost var það sem kallað er "stuttar boðleiðir."

Menn voru ekkert hrifnir af neinu "regluverki" eða embættismannakerfi, sem að sögn er þungt og svifaseint. Það verður jú að redda málunum og það helst í gær!

Ritara flýgur þetta í hug í sambandi við Jón Bjarnason, sem lét jú aldeilis í sér heyra á Alþingi í dag og það vegna ráðningu sonarins í starfshóp sjávarútvegráðuneytisins sem er gert að fara yfir skýrslu Hafró um áhrif dragnótaveiða í Skagafirði.

Um daginn réði Jóna Bjarnason, "nýjan" flokksfélaga sinn og einn frammámanna í Nei-samtökum Íslands, Bjarna nokkurn Harðarson, bóksala í starf sem upplýsingafulltrúa ráðuneytisins. Alls sóttu 29 um starfið, en enginn var boðaður í viðtal!

Þetta er allt að sjálfsögðu gott dæmi um opna, faglega og gagnsæja stjórnsýslu í hæsta gæðaflokki!

Í sambandi við aðildarumsókn Íslands að ESB standa Íslandi til boða svokallaðir IPA-styrkir, sem eru m.a. hugsaðir til þess að nútímavæða og betrumbæta íslenska stjórnsýslu.

Jón Bjarnason hefur afþakkað slíkt. Er það nema von?

Vantar ekki einhvern í skúringarnar í ráðuneytinu?

(Frétt á Vísir.is um málið og MBL.is


Að sitja í súpunni!

SúpaMár Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að EKKI sé hægt að létta gjaldeyrishöftunum á næstu mánuðum. Enginn veit nefnilega hvernig króna bregst við, verði henni sleppt lausri.

Krónan verður því áfram í öndunarvélinni. Þetta eru ekki skemmtileg tíðindi fyrir ríki sem vill vera hluti af opnu, alþjóðlegu hagkerfi. Það er nefnilega Ísland ekki um þessar mundir - við sitjum í súpunni.


Aðildarviðræður Íslands við ESB:Sjónarhorn frá Brussel

Sterkara Ísland!Á www.sterkaraisland.is stendur: ,,Föstudaginn 26. nóvember heldur Graham Avery erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ. Hann er heiðursframkvæmdastjóri ESB og einn af aðalráðgjöfum European Policy Centre í Brussels. Hann mun fjalla um aðildarviðræður Íslands við ESB séð frá Brussel." Allir velkomnir!

Öll fréttin 


Tónninn úr Hádegismóum

MBLTónninn frá Hádegismóum vegna ESB verður harðari og harðari, á sam tíma sem fréttir berast af því að eigendur blaðsins dæli inn peningum í reksturinn. Hér er eitt lítið dæmi:

,,Öfugt við íslenska lygalaupinn sem segir þvert gegn því sem fyrir liggur að engar aðlögunarviðræður eigi sér nú stað eru hinir evrópsku talsmenn evrópska stórríkisins opinskáir og hreinskilnir. Þeir fara ekki í launkofa með hvað fyrir þeim vakir og hvað það er sem þeir telja heiminum og Evrópu fyrir bestu. Væru þeir spurðir »hvað væri í pakkanum« utan um Evrópu framtíðarinnar myndu þeir svara hreinskilnislega: »Öflugt evrópskt stórveldi stýrt frá Brussel án truflandi áhrifa smáríkja á jaðri þess.«

Í leiðaranum var annars fjallað um Evruna. Það sem vekur hinsvegar athygli er orðfæri ritstjórans, þar sem hann kalla Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, "lygalaup." 

Það mætti halda að það sé "sturlungi" sem sitji í ritstjórastólnum, það er reitt hátt til höggs og hér skortir alla fínstillingu. 

Kannski er ritstjórinn verulega gramur yfir því sem gerðist hjá VG um helgina, þegar talsmenn þess að hætta aðildarviðræðum við ESB urðu að játa sig sigraða? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband