Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Ólafur Arnarson: ESB mikilvægt fyrir framtíðina

Ólafur ArnarsonPressupenninn Ólafur Arnarson fjallar um mál Alex Jurshevski, sem birtist í Silfri Egils um helgina og olli nokkru umtali. Það er þó líklegt að sá náungi skilji lítið eftir sig hér á landi. Í þessum nýjasta pistli sínum fer Ólafur yfir sviðið og kemur m.a. inn á Evrópumálin. Um þau segir hann:

,,ESB mikilvægt fyrir framtíðina
 Við verðum að komast út úr verðtryggingunni. Verðtrygging letur fjármagn. Það er betra að liggja með peninga á verð- og ríkistryggðum hávaxtareikningum en að verja þeim í áhættufjárfestingar. Leiðin út úr verðtryggingunni liggur í gegnum upptöku evru. Evru tökum við ekki upp nema að ganga fyrst í Evrópusambandið. Þess vegna er innganga í ESB einhver mikilvægasta efnahagsaðgerð, sem íslensk stjórnvöld geta beitt sér fyrir.

Það er ekki nóg að huga að bráðavandanum. Það verður að horfa fram á veginn og innganga í ESB og upptaka evru eru órjúfanlegur hluti af efnahagslegri velsæld okkar, þegar litið er fram á veginn. Í Evrópumálum hefur Samfylkingin sýnt staðfestu og á hrós skilið fyrir. En vinstri stjórn mun hvorki leysa bráðavandann né leiða okkur til hagsældar í framtíð. Vitað er að í þingliði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru margir þingmenn, sem styðja aðildarumsókn Íslands að ESB.

Sjálfstæðisflokkurinn á krossgötum
 Línur þurfa að skerpast í Evrópumálum og ef það hefur í för með sér formlegan klofning Sjálfstæðisflokksins verður bara svo að vera. Í sjö áratugi var Sjálfstæðisflokkurinn afl framfara á Íslandi. Síðasta áratuginn hefur flokkurinn verið í gíslingu þjóðernisöfgamanna og nýjum formanni hefur því miður ekki tekist að frelsa hann. Frjálslyndir og evrópusinnaðir sjálfstæðismenn geta ekki setið hjá og horft á flokk sinn standa í vegi fyrir mikilvægasta framfaramáli samtímans.

Samtökin Sjálfstæðir Evrópumenn eru mikilvægt skref í þá átt að ljá Evrópusinnum innan Sjálfstæðisflokksins rödd. Það er hins vegar ekki víst að við höfum tíma til að bíða eftir því að stuðningsmenn og andstæðingar ESB aðildar í Sjálfstæðisflokknum útkljái sín mál eftir hefðbundnum ferlum í flokknum. Slíkt getur tekið ár eða áratugi. Uppgjörið verður að eiga sér stað og hagsmunirnir eru miklu stærri en svo, að einhverju máli skipti hvort Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi mynd kemst óskaddaður frá þeim leik."

Allur pistill Ólafs

(Mynd: Pressan)

 


SUF: Fagna því að ESB-málið sé í eðlilegum farvegi

Samband ungra Framsóknarmanna sendi frá sér efirfarandi tilkynningu fyrir skömmu:

esb-merki,,Stjórn SUF, Sambands ungra framsóknarmanna, fagnar því að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er í eðlilegum farvegi eftir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað að mæla með því við leiðtoga sambandsins að hafnar verði aðildarviðræður við Íslendinga.

Ferlið heldur því áfram þrátt fyrir Icesave deilu og mikilvægt er að Ísland mæti til viðræðna með reisn, og gefi aldrei eftir í Icesave málinu vegna umsóknarinnar. Um er að ræða þróun Evrópusamstarfs til  framtíðar og ber að vanda til verka.

Ef til aðildarviðræðna kemur mun reyna á íslensku samninganefndina að verja íslenska hagsmuni í samræmi við ályktun flokksþings Framsóknarflokksins frá 2009 um aðildarviðræður að Evrópusambandinu."

Það er gleðilegt að ungir Framsóknarmenn láti sér annt um málið og ánægjulegt að enn skuli vera ,,Evrópuraddir" innan flokksins. Því það heyrist hvorki hósti né stuna um Evrópumál frá formanni flokksins, sem veltir meira fyrir sér þessa dagana hvaða blaðamenn styðja eða styðja ekki línu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu!


Mogginn og hið refsiglaða ESB!

SvipaHið ESB-neiðkvæða Morgunblað fjallar í dag um vandamál Grikkja í frétt/skýringu eftir Bjarna Ólafsson. Þar fjallar hann um þær aðgerðir sem mögulega verði gripið til, til þess að aðstoða Grikki, sem glíma nú við mikinn (heimatilbúinn), efnhagsvanda, sem engann veginn er Evrunni að kenna, rýni menn í málið.

Það er hinsvegar vinklun MBL og fyrirsögn sem vekur athygli. Fyrirsögnin er þessi: VILL REFSA ESB-RÍKJUM EINS OG GRIKKLANDI. Meginmál greinarinnar er um 500 orð. Hinsvegar er þarna líka að finna 18 orða setningu, sem hljómar svona: ,, Sum ríki hafa komið fram með hugmyndir um hvernig refsa megi þeim sem fara út fyrir ramma sáttmálans.” Hér er verið að tala um stöðugleikasáttmálann, sem ríki þurfa að uppfylla til að mega taka upp Evruna. Þessa 18 orða setningu notar blaðamaður MBL til þess að velja fyrirsögn!

Þetta er náttúrlega til þess að undirstrika fyrir lesendum MBL hve ESB er vont og refsiglatt fyrirbæri! Þetta verður að teljast sérkennileg nálgun. Síðan er heldur ekkert sagt hvaða ríki eru svona svakalega refsiglöð, heldur bara sagt "sum ríki.” Hvaða ríkið eru þetta, er eðlilegt að spurt sé? Því svarar blaðamaður hinsvegar ekki. Eru það kannski Lettland eða Malta?

Morgunblaðið og (rit)stjórar þess hafa ákveðið að Ísland hafi ekkert með ESB að gera. Þess vegna verður að líkindum mörgum spaltkílómetrum eytt í það á næstu vikum og mánuðum til að reyna að segja Íslendingum, hvað þetta sé vont fyrirbæri, sem sé alltaf til í að ,,sparka í einhvern” o.s.frv.Þetta eru vondu útlendingarnir!

En á Morgunblaðinu eru náttúrlega menn sem vita 100% hvað er Íslendingum fyrir bestu! Að leyfa Íslendingum að kjósa um aðild að ESB er í þeirra augum hin mesta vitleysa. Við hvað eru þeir hræddir? Beint lýðræði?

Í leiðara vill MBL að ESB-umsóknin verði dregin til baka og tekur þarmeð undir og bergmálar kröfur bænda og Bændablaðsins. Hvort er hvað? Er að myndast heilagt bandalag á milli Morgunblaðsins og Bændablaðsins?


Wikipedia-lög-ESB

WikipediaWikipedia hefur sett upp áhugverðan lista um stöðu lagakaflana
og hversu erfitt það verður fyrir Ísland að taka upp lög ESB í þessum málaflokkum. Það er mjög gott að skoða þetta, þar sem þetta sýnir á einfaldan hátt stöðu mála hjá íslendingum gagnvart lögum ESB.

Vefsíðan er hérna.

Stór stjórnvöld/Grikkland

Stefan FölsterSænski hagfræðingurinn Stefan Fölster og stjórnmálafræðingurinn Johnny Munkhammar skrifa áhugaverða grein á www.EuObserver.com um Grikkland og ,,stór stjórnvöld" eða á ensku: Big Government. Greinin er að sjálfsögðu á ensku: http://euobserver.com/7/29609 

Einnig velta þeir fyrir sér því gríðarlega verkefni sem Grikkir standa frammi fyrir.

Stefan Fölster (mynd) er aðalhagfræðingur samtaka sænskra atvinnurekenda

Á heimasíðu þeirra er m.a. fjallað um þá ákvörðun ESB að veita nokkur hundruð milljónum EVRA til svokallaðra ,,smálána" (en: micro-loans). Tilgangurinn með þeim er m.a. gera atvinnulausum einstaklingum kleift að stofna til eigin atvinnureksturs. Þessi tegund lána hefur gefið góða raun, t.d. í Asíu og t.d. gert konum kleift að stofna fyrirtæki í auknum mæli. Sjá hér

 


Mogginn lokar fyrir leiðara og Staksteina á netinu - "Bændalínan"

MBLÞeir sem fylgjast með fjölmiðlum vita að öll alvöru dagblöð birt leiðara og skoðanir leiðarahöfunda (s.k."op-ed"-greinar) á netinu. Morgunblaðið var með slíka síðu, www.morgunbladid.blog.is á Mogga-blogginu, en hefur nú lokað henni fyrir öllum, nema áskrifendum blaðsins. Fréttablaðið og DV birta leiðaraskrif á netinu.

Í leiðara MBL í gær, föstudag, skrifar blaðið um landbúnaðarmál og segir: ,,Heitustu stuðningsmenn inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa lagt nokkra áherslu á að reyna að sannfæra bændur um að þeir yrðu ekki síður og jafnvel betur settir innan sambandsins en utan. Því hefur meðal annars verið haldið að bændum að íslenskur landbúnaður fengi bæði miklar undanþágur og styrki við inngönguna í Evrópusambandið. Síðar hefur komið í ljós að ekkert af þessu stenst skoðun."

Hér fylgir blaðið línu Bændasamtakanna, en í frétt um daginn sagði formaður þeirra, Haraldur Benediktsson, að ,,heimsskautaákvæðið" og stuðningur við norður-svæðalandbúnað, sem Svíum, Finnum og Norðmönnum (sem felldu aðild 1994) var boðinn, væri bara sjónhverfingar, eða eins og haft er eftir honum í frétt MBL:

,,Tal um stuðning ESB við svokallaðan norðlægan landbúnað er sjónhverfing. Við teljum að ekkert sé þar á bak við,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Samtökin hafa unnið að athugun á afleiðingum þess fyrir íslenskan landbúnað ef Ísland gengur í Evrópusambandið, meðal annars með fundum með samningamönnum Finna."

Vitað er að Finnar börðust mjög fyrir þessu, einmitt til þess að standa vörð um finnskan landbúnað, en með þessu ákvæði var þeim leyft að halda stuðningi sínum við finnskan landbúnað. Skyldi finnskum bændum finnast þessi ummæli skemmtileg?


Ólafur Stephensen skrifar um Grikkland

FRBLFyrir þá sem kynna sér ofan í kjölinn vandmál Grikkja, sjá það strax að þau eru ekki Evrunni að kenna, eins og t.d. Morgunblaðið hefur verið að básúna.

Fyrrum ritstjóri þess, Ólafur Stephensen, sem nú er tekinn við að ritstýra Fréttablaðinu, skrifar um vanda Grikklands í leiðara í dag. Hann segir m.a.; ,,Kreppa Grikklands orsakast fyrst og fremst af agaleysi við stjórn ríkisfjármála, sem hefði haft alvarlegar afleiðingar hvort sem Grikkland notaði evru eða drökmu. Fjármálakreppan kom illa við ríkissjóð Grikklands eins og annarra ríkja, en Grikkir stóðu verr að vígi en margir aðrir vegna þess að þeir höfðu þanið út ríkisútgjöldin langt umfram efni."

Og síðar segir hann: ,,Einn af þeim kostum sem margir sjá við að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evruna er meiri agi við hagstjórnina. Stjórnvöld ættu þá ekki lengur þann kost að fella gengið til að bregðast við efnahagsvanda. Þeir sem nú vorkenna Grikkjum, Írum og fleiri evruríkjum að geta ekki fellt gengið og neyðast til að skera niður ríkisútgjöld og lækka laun, gleyma því að gengis-felling er bara önnur og ekki alveg jafnaugljós aðferð til að skerða lífskjör fólks."

Allur leiðarinn


Að lokinni Brusselferð...Hörður tilbúinn að segja JÁ! (2.útg)

Hörður HarðarsonEftir að hafa plægt í gegnum neikvæðu ESB-fréttirnar í nýjasta tölublaði Bændablaðsins, er eitt sem vekur hinsvegar jákvæða athygli. Eins og áður hefur verið sagt frá var fulltrúum frá bændum boðið í kynnisferð til Brussel og um þetta er að sjálfsögðu fjallað í blaðinu.

M.a. er rætt við Helga Hauk Hauksson, formann Samtaka ungra bænda. Hann var neikvæður fyrir ferðina og einnig eftir að hann kom heim. Ekkert meira um það að segja, sumum verður ekki haggað.

En það er afstaða Harðar Harðarsonar, formanns Svínaræktarfélags Íslands(mynd), sem hinsvegar verkur athygli. Grípum niður í frétt Bændablaðsins: ,,„Þetta var ágæt ferð, það var farið í gegnum uppbyggingu Evrópusambandsins, reynt að draga fram þau atriði sem mestu máli skipta og svara síðan fyrirspurnum,“segir Hörður. Umfjöllun um landbúnaðarmál var reyndar ekki mjög  fyrirferðarmikil að sögn Harðar en þó gáfust tækifæri til að ræða þau mál í samtölum við fulltrúa sambandsins.

Hörður segir að hann hafi ekki farið í ferðina með það sérstaklega í huga að kynna sér möguleika íslenskrar svínaræktar heldur fremur til að geta myndað sér einhverja heildstæða skoðun á sambandinu. „Ég hygg nú að það séu svo margar hliðar á mögulegri aðild að það sé erfitt að slíta eitt úr samhengi við annað. Í því sambandi skiptir mjög miklu máli umræða um landbúnað og byggðastefnu í samhengi. Ég tel að í aðild felist bæði sóknarfæri og ógnir við okkar aðstæður.

Ef horft er til landbúnaðarins má sjá þetta einnig, ég get nefnt sem dæmi skógrækt sem ég tel að geti haft umtalsverðan ávinning af aðild í ljósi tengsla hennar við byggðastefnu.
Ef við horfum hins vegar til hefðbundnari greina landbúnaðarins og þá einkum úrvinnslugeirans
í kjöti horfir málið kannski aðeins öðru vísi við. Ef við yrðum hluti af heildstæðum markaði innan
Evrópusambandsins er hætt við að margar afurðastöðvar gætu átt í erfiðleikum.“

Hörður segir að úr því sem komið er telji hann að klára eigi samningaviðræður við Evrópusambandið,bera síðan upp þann samning og kjósa um hann. „Ef það verður ásættanlegt þá mun ég segja já, ef hins vegar samningurinn uppfyllir ekki þær kröfur sem ég geri til hans þá segi ég nei.“

Afstaða Harðar er skynsamleg, og hún er algjörlega á skjön við afstöðu leiðtoga Bænda og sem kemur skýrt fram í Bændablaðinu. Bændasamtökin vilja meira að segja draga umsóknina til baka. Þetta er með endemum!

Hörður segist líka vera tilbúinn að segja já við hagfelldum samningi og sér möguleika við aðild. Hörður sker sig því úr meðal bænda og sýnir Hörður þar með ákveðið sjálfstæði, kannski jafnvel hugrekki.En Hörður er örugglega ekki einn meðal bænda sem sjá möguleika í ESB-aðild (vonandi ekki!). Það þyrfti hinsvegar bara að heyrast meira í þeim. Það kemur vonandi.

Viðbót: Morgunblaðið skrifar í gær leiðara um þessa ferð bændanna til Brussel og fjallar þá að sjálfsögðu eingöngu um skoðanir hin unga bændaforingja, sem nefndur er hér að ofan. Augljóslega gerir sá sér ekki grein fyrir því að ESB er smáríkjabandalag, því þar er haft eftir Helga H. Haukssyni:

 ,,Ég álít að þjóð af okkar stærðargráðu eigi lítið erindi inn í Evrópusambandið, áhrif okkar yrðu afar takmörkuð á þeim vettvangi. Ég skora á stjórnvöld að hefja ekki aðildarviðræður,“ segir Haukur Helgi Hauksson, formaður Samtaka ungra bænda, eftir heimsókn sína til Brussel."

Alls eru 21 þjóð af þeim 27 sem eru í ESB svokallaðar smáþjóðir! Og hvernig veit HHH að áhrif okkar yrðu lítil innan ESB. Bendum honum á að kíkja á árangur Möltu (íb.400.000!) Og hvað með sjávarútvegsmálin?? Hefði þjóð sem veiðir um 1.3 milljónir tonna á ári engin áhrif á því sviði? ESB sækir nú þegar ráðgjöf til Íslands á þessu sviði! Eða loftslagsmál, við Íslendingar erum jú alltaf að monta okkur af okkar óspilltu náttúru. Gætum við ekki látið til okkar taka þar? 


Grímur Atlason og Bændablaðið

Grímur AtlasonGrímur Atlason, sveitastjóri, skrifar skarpan pistil um Bændablaðið á bloggi sínu þ. 12.mars. Þar fjallar hann um hinn ríkisstyrkta NEI-áróður blaðsins og Bændasamtakanna gegn ESB umræðunni og mögulegri aðild Íslands að ESB. Bændur segja NEI við ESB, NEI við aðildarviðræðum, NEI við við því að ræða ESB almennt og segjast ekki taka neina ábyrgð á útkomu aðildarviðræðna. Bændasamtök Íslands eru NEI-SAMTÖKIN! Á sínum tíma sögðu bændur líka NEI við símanum og NEI við litasjónvarpi. Þeir vildu halda áfram að sjá heiminn í svart-hvítu!

Bændur dagsins í dag sjá bara svart, ef minnst er á ESB og segja að hér muni landbúnaðurinn leggjast í rúst, dalirnir fara í eyði o.s.frv. Það hefur hinsvegar hvergi gerst við aðild ríkja að ESB.

Árlega fá bændur um 10 milljarða ISK í styrki frá ríkinu, Bændasamtökin sjálf fá rúmlega 500 milljónir í reksturinn á NEI-hreyfingunni.

En um Bændablaðið segir Grímur á bloggi sínu: ,,Bændablaðið er ríkisstyrktur fjölmiðill sem dreift er út um allt land – lesendum að kostnaðarlausu. Þessi fjölmiðill er stundum ágætur og ýmislegt gott þar að finna. Það hefur reyndar dregið úr því merkilega þar upp á síðkastið og meira farið fyrir einstrengingslegum og staglkenndum áróðri. Í þessum fjölmiðli er þannig að finna einkar harða afstöðu gegn hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Leiðarar, greinar og „fréttir“ eru uppfullar af „rökum“ um óágæti þess að Ísland gangi í þetta arma samband."

Og síðar skrifar hann: ,,Í blaðinu  má einnig finna grein um illsku ESB gagnvart smáþjóðum – sem á væntanlega að þýða að sambandið muni kafsigla okkur. Dæmið sem greinahöfundur tekur er Grikkland og samskipti þess við ESB síðustu vikurnar vegna ástandsins þar. Greinahöfundur hefur greinilega ekki kynnt sér forsögu málsins. Hvernig gjörspilltir stjórnmálamenn í Grikklandi komust í sjóði ESB og ríkisins á kostnað almennings – sem þó eins og á Íslandi framlengdi alltaf umboð þeirra í kosningum.

Leiðari formanns bændasamtakanna er eins og alltaf hressandi – en það fer ekki mikið fyrir rökstuddum yfirlýsingum. Alltaf teknar afbakaðar myndir úr samhengi við raunveruleikann."

Færsla Gríms í heild sinni.

Ps. Lesið einnig athugasemdirnar!


Jón Steinsson: Dýr sveigjanleiki?

Jón SteinssonJón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia-háskólann í Bandaríkjunum skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um gjaldmiðilsmál okkar Íslendinga. Þar segir hann m.a.:

,,Sveigjanleikinn sem fylgir því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil - og nýtist svo vel þegar allt er komið í óefni - er dýru verði keyptur. Verðið sem við greiðum fyrir sveigjanleikann eru himinháir vextir ár eftir ár. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%. Gengi krónunnar var nánast hið sama í lok þessa tímabils og það var í upphafi. Lántökukostnaður í krónum var því að meðaltali um 5% á ári hærri en í viðskiptaveginni myntkörfu á þessu 12 ára tímabili. Það segir sig sjálft að það er verulegur baggi fyrir íslenskt atvinnulíf að búa við 5% hærri fjármagnskostnað en fyrirtæki í öðrum löndum."

Og síðar skrifar Jón: ,,Með öðrum orðum, sveigjanleiki krónunnar fælir fjármagn frá Íslandi. Íslenska krónan hækkar því fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja að staðaldri. Yfir tímabilið 1995 til 2007 var þetta krónuálag 5% á ári að meðaltali.

Lykilspurningin þegar kemur að því að velja á milli þess að halda krónunni til frambúðar eða að taka í staðinn upp aðra mynt er því: Er möguleikinn á því að geta fellt gengið í niðursveiflu nægilega mikils virði til þess að hann réttlæti það að íslenskt atvinnulíf þurfi að búa við 5% hærri fjármagnskostnað en samkeppnisaðilar í öðrum löndum ár eftir ár."

Öll greinin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband