Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Óli Kr. vonast eftir málefnalegri og vitlegri umræðu

Óli Kr. ÁrmannssonÓli Kr. Ármannsson, leiðarahöfundur Fréttablaðasins í dag skrifar um ESB málið, en hann vonast eftir málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Hann skrifar:

" Full ástæða er til að fagna upphafi viðræðnanna og þeirri vonarglætu sem þær hafa í för með sér um að umræðan hér heima um ágæti aðildar geti orðið málefnalegri og fái byggt á staðreyndum fremur en rakalausum fullyrðingum.

Afstaða til aðildar að ESB virðist oft fremur ráðast af tilfinningum en raunverulegu mati á kostum og göllum. Enda er ekki hægt að leggja slíkt mat á hlutina fyrr en sést svart á hvítu hverju aðildarviðræðurnar skila. Í stað þess að fólk láti afstöðu sína ráðast af draugasögum um missi yfirráða yfir auðlindum, afhroð bændastéttarinnar eða sögum af gerræðislegum valdboðum um lögun gúrkna, getur það látið afstöðuna ráðast af staðreyndum. Niðurstöður viðræðnanna varpa ljósi á hvað er að marka háværan hræðsluáróður hagsmunasamtaka gegn, ekki bara aðild, heldur aðildarviðræðunum sjálfum. Einkennileg er sú afstaða að vilja ekki einu sinni láta á viðræður reyna.

Í öllu falli hlýtur fólk að geta sammælst um að allra hagur sé að sem best niðurstaða fáist í viðræðunum. Þær snúast um hagsmuni lands og þjóðar til framtíðar. Aðildarsamningur sem byggir á viðræðunum verður svo lagður fyrir þjóðina og ætti þá að liggja ljóst fyrir hvernig grundvallarhagsmunir landsins verði tryggðir."

Allur leiðarinn

Einnig er hér frétt Eyjunnar um málið, en þar segir m.a. að Samtök Iðnaðarins fagni þessum tímamótum.

 


Ísland - ESB: Viðræður hefjast formlega

esbis.jpgEvrópusamtökin fagna því að í dag hefjast formlega viðræður Íslands og ESB um aðild að sambandinu. Þetta gerist með þátttöku Íslands í ríkjaráðstefnu, sem hefst í Brussel í dag. Þar mun utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson taka þátt. 

Á vef Bloomberg fréttastofunnar er m.a. greint frá þessu. Það hafa innlendir miðlar einnig gert sjá t.d. hér

Í Fréttablaðinu segir m.a.: "Össur bætir svo við að í ræðu sinni muni hann fara yfir sérstöðu Íslands hvað varðar sjálfbærar fiskveiðar, endurnýjanlega orku og svo stjórnmálalega mikilvæga stöðu Íslands við Norðurskautið.
Össur segist enn fremur ætla að fara yfir það sem einstakt sé varðandi meginmálaflokka Íslands. „Stærsti efnispunkturinn í okkar greinargerð er sjávarútvegurinn. Svo mun ég fara yfir stöðu landbúnaðar hér á landi og hversu gríðarlega mikilvægt það er að búa við fæðuöryggi. Ég fer yfir byggðamál, efnahagsmál og myntsamstarfið auk þess að draga fram hvað Ísland á mikið sameiginlegt með Evrópu," segir Össur.

Á morgun verður m.a. hægt að sjá beint frá fréttamannafundi um málið:

http://video.consilium.europa.eu/


Að hræðast orðið JÁ - goðsagnir um ESB

 Bryndís Ísfold HlöðversdóttirA.m.k. tvo góða pistla er að finna á Eyjunni núna um ESB-málin (og enn fleiri eru að ræða málið). Þeir eru eftir þau Bryndís Ísfold Hlöðversdóttur og Elvar Örn Arnarson. Elvar skrifar um goðsagnir og ESB og segir m.a.:

"Flestar sögusagnirnar eiga uppruna sinn í Bretlandi, þar sem efasemdaraddir gagnvart Evrópusambandinu eru útbreiddar.  Það er vinsælt umfjöllunarefni í bresku pressunni – sérstaklega hjá tabloid-blöðunum –  að segja frá sérkennilegum reglugerðum sem koma frá Brussel. Bretar virðast hafa gaman af því að lesa um embættismennina í Brussel, sem hafa ekkert betra fyrir stafni en að trufla daglegt líf fólk með fáránlegum reglugerðum.

Þessar sögusagnir eru öflugt vopn í höndum andstæðinga Evrópusambandsins, því fæstir hafa fyrir því að afla sér upplýsinga um sannleiksgildi þeirra. Í langflestum tilvikum er bara eitt lítið sannleikskorn í sögunum sem síðan er skrumskælt og ýkt."

Allur pistill Elvars

Pistill Bryndísar fjallar hinsvegar um hræðslu íslenskra Nei-sinna við JÁ-ið, að loknum AÐILDARSAMNINGUM! Birtum hér pistil hennar í heild sinni:

ÓTTINN VIÐ JÁ

Það er magnað að fylgjast með andstæðingum ESB aðildar á AMX, Evrópuvaktinni og nú síðast í utanríkismálanefnd þingsins.  Frá og með deginum í dag eru aðildaviðræður okkar við ESB hafnar og ljóst að nú ættu allir að leggjast á eitt við að ná fram sem bestum samningi fyrir Ísland.  Það vita allir að það er mikil og löng vinna fyrir höndum fyrir samninganefndina og á endanum er það þjóðin sem ákveður hvort hún vilji inn í ESB eða ekki.

Svo virðist hins vegar að þeir fyrrgreindu, sem eru hörðustu andstæðingar ESB aðildar, óttist ennþá ekkert meira en að þjóðin segi já við samningnum þegar hann verður lagður í dóm hennar – því í stað þess að reyna að sannfæra þjóðina um að hún eigi ekkert erindi inn í ESB leggja þeir allt kapp á að þjóðin fái aldrei að velja.   Svo mikil er lýðræðisástin.

Óttinn við já-ið er ekki ástæðulaus hjá andstæðingum ESB því það eru margar góðar ástæður fyrir því að við eigum að íhuga það alvarlega að ganga alla leið inn í ESB.

 

 


Að sigla milli skers og báru?

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÞað er athyglisvert að lesa ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í frétt MBL um ummæli Össurar Skarphéðinssonar þess efnis að stuðningur við ESB-aðild meðal þingmanna fari vaxandi. Það kom fram í annarri frétt um málið.

Í frétt MBL segir: "Það kemur mér á óvart. Mér hefur heyrst þróunin frekar vera hinu megin. Ég veit ekki hvað hann hefur fyrir sér í því,“ segir Sigmundur Davíð. „Menn eins og Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir hafa frekar verið að herðast í andstöðu en hitt.“

En hvað finnst Sigmundi sjálfum? Hvoru megin er hann, já-megin eða nei-megin?

Næstum ekkert hefur heyrst í Sigmundi um Evrópumálin frá því að hann tók við stýrinu í flokknum.

Það hlýtur að teljast merkilegt. Eða er hann bara að reyna eftir fremsta megni að sigla milli skers og báru í Evrópumálunum?

Er ekki tími til kominn að Sigmundur sýni nú lit og fari að ræða Evrópumálin og allt sem sem þeim tengist.

En ekki bara að tala um hvað aðrir segja og gera!


Þorsteinn Pálsson: Heimilin lifa við óhagræði krónunnar, meðan útgerðarftrirtækin gera upp í Evrum

Þorsteinn PálssonÍ Kögunarhólspistli sínum í dag skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins:

"Fjármálaráðherra og talsmenn Heimssýnar keppast við að sannfæra almenning um að sjávarútvegur og landbúnaður geti lagt til þann hagvöxt sem þörf er á til að fjölga störfum um tuttugu þúsund og bæta lífskjörin. Þetta eru fölsk fyrirheit.

Þau virðast vera gefin í þeim eina tilgangi að telja fólki trú um að unnt sé að nota krónuna sem framtíðarmynt. Ljóst má þó vera að vegna náttúrulegra takmarkana verður sjávarútvegurinn ekki uppspretta hagvaxtar. Af sömu ástæðu verða ekki til ný störf þar. Þverstæðan lýsir sér svo í því að útvegsmenn gera bókhaldið upp í erlendri mynt.

Fjölgun starfa verður á nýjum sviðum iðnaðar og þjónustu. Til þess að vænta megi fjárfestinga á nýjum sviðum þarf traust á peningakerfinu. Ríkisstjórnin er klofin um markmið og leiðir í þeim efnum. Eigi krónan að verða nothæf þarf margvíslegar ráðstafanir sem aftur rýra lífskjörin enn frekar.

Um það þegja flestir þunnu hljóði. Framsóknarflokkurinn birti þó mjög upplýsandi skýrslu um þann veruleika fyrir tveimur árum.

Sjálfstæðisflokkurinn og VG ætla að treysta á krónuna til frambúðar. Á sama tíma hafna útvegsmenn henni vegna óhagræðis. Þeir ætlast hins vegar til að heimilin sætti sig við það óhagræði."


Sjá í Fréttablaðinu í dag 


Þýskaland komið á "autobanann" ? Mikil fart á Bretum!

German-FlagDeutsche Welle greinir frá því að könnun sem IFO-stofnunin hefur gert meðal 7000 aðila úr þýska viðskiptalífinu, sýnir mestu aukningu á því sem er kallað "business-confidence" í yfir 20 ár, eða frá því Þýskaland var sameinað.

Hugtakið vísar til væntinga innan viðskiptalífsins og má segja að þær séu mjög jákvæðar um þessar mundir í Þýskalandi. 

Á sérstökum IFO-kvarða, sem er notaður stigu væntingarnar úr tæpum 101 stigi, í rúmlega 106 stig. Sérfræðingar höfðu hinsvegar búist við lækkun á kvarðanum.

Rekja má þetta mikla stökk til mikillar aukningar í útflutningi í Þýskalandi og minnkandi atvinnuleysis á undanförnu ári.

Það virðist því vera sem að það sé góður gangur í "mótornum í Evrópu!"

Öll frétt DW 

Viðbót: Hagvöxtur í Bretlandi hefur einnig tekið verulegan kipp samkvæmt fréttum, m.a. þessari hérna frá Bloomberg:

"The British economy grew at the fastest pace in four years in the second quarter and German business confidence surged to a three-year high this month, indicating Europe’s recovery may be stronger than forecast.

U.K. gross domestic product rose 1.1 percent in the three months through June, almost twice as fast as the 0.6 percent gain predicted by economists in a Bloomberg News survey, the Office for National Statistics said in London today."

Öll fréttin

 


Þetta sagði Bjarni Benediktsson þá!

bjarniben_991582.jpgOg meira af Sjálfstæðisflokknum, nú formanninum Bjarna Benediktssyni (BB).

Hann ritaði ásamt Illuga Gunnarssyni grein í Fréttablaðið  þann 13.desember 2008. Báðir þingmenn á þeim tíma.

Kíkjum aðeins á hana:

Byrjunin:

"Á andartaki færðumst við Íslendingar úr því að vera í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði áhrærir yfir í að leita alþjóðlegrar ásjár til þess að koma landinu úr efnahagslegri herkví og gera gjaldmiðilinn gjaldgengan."

Hér kemur svo afar athyglisverður hluti (leturbreyting, ES-blogg):

"Vandi smárrar myntar

Vegna þeirra efnahagserfiðleika sem fram undan eru er mjög kallað eftir því að stjórnmálaflokkar móti sér sýn og stefnu sem stýrt geti för næstu misseri og ár. Í ljósi aðstæðna er eðlilegt að sú umræða hverfist einkum um peningamálastefnuna, valkosti í gjaldmiðilsmálum og ríkisfjármálin. Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum efnahagsstefnu hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu.

Íslenska krónan er smá og viðkvæm fyrir ytri áhrifavöldum. Á undanförnum árum hafa miklar sveiflur í gjaldmiðlinum valdið fyrirtækjum og heimilum verulegum vanda. Veik staða krónunnar um þessar mundir er okkur reyndar mikilvæg og verður það áfram á næstunni til þess að reisa hagkerfið við, því lágt gengi styrkir útflutninginn og veitir innlendri framleiðslu vernd. Þar með verndum við störfin og aukum framleiðsluna. Ýmis rök hníga því að því að krónan geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma.

En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst. Ekki verður horft fram hjá þeim veikleikum sem felast í smæð myntkerfisins. Meira að segja Bretar velta því nú fyrir sér hvort myntsvæði þeirra sé of lítið til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það kemur því ekki á óvart að forystumenn íslensks atvinnulífs leggi um þessar mundir vaxandi áherslu á að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum á nýjum forsendum. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa á sama tíma sannfæringu fyrir því að án nýs gjaldmiðils muni ekki takast að verja stöðugleika og þar með kaupmátt almennings.

Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins. Rangt væri að gera lítið úr þeirri fórn. Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar. Evrópusambandsaðild er hins vegar miklu stærra og flóknara mál en svo að hægt sé að láta það ráðast af gjaldmiðlinum einum. Með í kaupunum fylgja ýmsir aðrir þættir, sumir jákvæðir en aðrir neikvæðir og þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið vega svo þungt, að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan ESB en innan. Þessi afstaða hefur átt samhljóm meðal þjóðarinnar enda ESB aðild aldrei verið kosningamál hér á landi.

Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika á Íslandi er ljóst að ekkert hefur breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um er að semja í aðildarviðræðum við ESB. Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum.



Þjóðaratkvæðagreiðsla

Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ýtrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli.
Ljóst er að hér er um að ræða mál sem gengur þvert á flokkslínur. Aðrir flokkar hafa hver með sínum hætti opnað á að virkja beint lýðræði til lausnar á aðildarspurningunni og það gengur gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar. Óumdeilanlegt er að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi og innan Evrópusamstarfsins mun hvíla á sterkari grunni að loknu slíku ferli. Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði.

Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna."

Er þetta sami maðurinn sem vill núna draga umsóknina að ESB til baka? Getur hann ekki staðið fyrir þessar skoðanir sem hann setur hér fram ásamt Illuga? Hvað var það sem olli slíkri umpólun sem raun ber vitni? Er það að hafa orðið formaður Sjálfstæðisflokksins? Sér BB kannski eftir því núna að hafa skrifað greinina?

Það er margt skrýtið í henni veröld!

Ps. Greinin í heild sinni.

 


Sjálfstæðisflokkurinn: Enn grínistar innanborðs!

Ha ha ha!Það eru enn til grínistar í Sjálfstæðisflokknum. Sönnun þess er að finna í þessari frétt á visir.is!

Volvo (flutningabílar) í uppsveiflu - eftirspurn eykst

Volvo flutningabíllÝmis teikn eru á lofti um að eftirspurn í hagkerfum heimsins sé að aukast. Eitt slíkt dæmi er að finna í dag í Financial Times. Þar segir blaðið frá aukinni eftirspurn og sölu á Volvo vöruflutningabílum. Hagnaður var af rekstri fyrirtækisins fyrstu 6 mánuði þessa árs, eftir mikla niðursveiflu á síðasta ári.

Það eru markaðir í Asíu og S-Ameríku sem að mestu standa fyrir aukinni eftirspurn.

Volvo spáir einnig aukningu í Evrópu og Bandaríkjunum á seinni helmingi ársins, samkvæmt forstjóranum Leif Johansson.

Volvo er annars stærsti framleiðandi á vöruflutningabílum í heiminum, á eftir þýska Daimler/Benz.

Uppsveiflan hjá Volvo hefur m.a. leitt til aukinna ráðninga hjá fyrirtækinu.

Frétt FT (þarf aðgang)


Orri Hauksson arftaki Jóns Steindórs hjá Samtökum iðnaðarins

Orri HaukssonOrri Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins (SI) í stað Jóns Steindórs Valdimarssonar, sem lét þar af störfum fyrir skömmu.

Orri mun hefja störf í ágúst. Í frétt á vef SI segir orðrétt:

"Orri Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann er 39 ára vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Harvard Business School.

Orri hefur gegnt ýmsum stjórnunarstöðum og hefur undanfarin ár sinnt fjárfestingum og setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja fyrir hönd Novator, aðallega á sviði fjarskipta og hreinna orkugjafa í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Hann var áður framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans. Orri var aðstoðarmaður forsætisráðherra árin 1997 til 2000."

Evrópusamtökin óska Orra velfarnaðar í nýju starfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband