Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Evrópusinnar fögnuðu upphafi aðildarviðræðna Íslands og ESB

Bergur-EbbiEvrópusinnar fögnuðu upphafi eiginlegra aðildarviðræðna Íslands og ESB á veitingastaðnum B5 í kvöld.

Þar var margt góðra gesta og stemmningin góð. Bergur Ebbi og Dóri DNA stóðu fyrir uppistandi eins og þeim er einum lagið og hlutu góðar móttökur fyrir.

Kvöldið hófst með ávarpi tveggja helstu stjórnenda samtakanna Já-Ísland, sem stóðu fyrir herlegheitunun, en það eru Jón Steindór Valdimarsson og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Svo skemmtilega villi til að Jón Steindór á einmitt afmæli í dag, 27. júní. Evrópusamtökin óska Jóni til hamingju með daginn!

ESB-hittingur27-6-11Eins og áður sagði var margt góðra gesta, hér eru nokkur nöfn í viðbót: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra, Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, Pétur Gunnarsson, blaðamaður, Vilhjálmur Þorsteinsson, CCP, Andrés Jónsson, almannatengill, Þorsteinn Erlingsson, laga og textahöfundur, Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, Dr. Baldur Þórhallsson, Tryggvi Gunnarsson, talsmaður neytenda, Hólmfríður Sveinsdóttir, stjórnsýsluráðgjafi, Guðbjörn Guðbjörnsson, þróunarstjóri, Ólafur Arnalds, hagfræðingur og Pressupenni og Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður með meiru, svo einhverjir séu nefndir.


ESB-umræða á fleygiferð!

Jón Karl HelgasonNokkrar greinar hafa birst í blöðunum þessa vikuna um Evrópumál. Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur skrifaði í Fréttablaðið:

"Samkvæmt nýrri mannfjöldaspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að við Íslendingar verðum orðnir 433 þúsund eftir hálfa öld, árið 2060. Samkvæmt lágmarksspá gæti niðurstaðan reyndar orðið 384 þúsund og samkvæmt hámarksspá gæti hún orðið 491 þúsund. Íslendingum mun með öðrum orðum fjölga um 66 til 173 þúsund á þessu tímabili. Þetta eru tölur sem mikilvægt er að hafa í huga þegar lagt er mat á ávinninginn sem felst í því að Ísland verði fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Andstæðingar aðildar leggja mikla áherslu á að standa þurfi vörð um hagsmuni landbúnaðar og sjávarútvegs. En þó svo mikilvægt sé að standa vörð um allar atvinnugreinar má þeim og öðrum Íslendingum vera ljóst að fjölgun starfa hér á landi á næstu áratugum mun ekki verða í þessum tveimur atvinnugreinum. Menntakerfi þjóðarinnar hefur tekið mið af þessari staðreynd á undanförnum áratugum. Þeir sem kjósa um aðildarsamning Íslands við ESB eftir eitt til tvö ár þurfa einnig að gera það. Þær kosningar snúast um framtíðina, þær snúast um það hvernig við sjáum fyrir okkur samfélagsþróunina hér á landi á næstu fimmtíu til hundrað árum."

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur og stjórnarmaður í Evrópusamtökunum skrifar grein um málefni Grikklands í Morgunblaðið í dag og segir þar m.a.:

"...það eru fleiri ,,innanlandsástæður“ fyrir vandræðum Grikkja, þ.e.a.s. sem hafa ekkert með ESB að gera; það er nánast hluti af menningu Grikkja að borga ekki skatta og talið er að allt að 70% af vissum starfsstéttum komist upp með að borga nánast enga skatta. Skatttekjur gríska ríkisins eru því allt of lágar og sagt er að landið þurfi í raun að taka upp nýtt skattkerfi. Þá er svört atvinnustarfsemi talin vera um einn fjórði hluti af heildarhagkerfinu. Spilling á ýmsum stöðum er einnig talin hafa alvarleg áhrif á hagkerfið. Og á spillingunni vinna Grikkir einungis sjálfir, með viðeigandi stofnunum.

Almenn efnahagsleg óstjórn og sérlega rausnarlegt lífeyriskerfi (látnir einstaklingar fengu lífeyri og lífeyrisréttindi erfðust!) eru líka talin vera orsakavaldar. Til dæmis fjölgaði opinberum starfsmönnum um 100.000 á stjórnarárum hægrimannsins Kostas Karamanlis frá 2004-2009 og útgjöld gríska ríkisins um 60%! Gríska ríkið er stór eigandi fyrirtækja og umfangsmikill ríkisrekstur í landinu, hið opinbera er um 40% af þjóðarframleiðslunni. 

ESB hefur hvatt Grikki til þess að einkavæða og t.d. hafa heyrst þær raddir að ESB sé að ,,þvinga“ Grikki til einkavæðingar. Það skondna er að þessar raddir koma helst frá aðilum sem hér á landi stóðu fyrir einni umfangsmestu einkavæðingu á Vesturlöndum hin síðari ári. Það er ekki sama Jón eða séra Jón!

Einnig hefur verið nefnt að útgjöld til hernaðarmála eru mjög há í Grikklandi, eða um 4% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall er mun lægra í flestum Evrópulöndum.

Allt hér að ofan eru þættir sem ESB hefur ekkert með að gera, heldur eru ákvarðanir og aðgerðir grískra aðila, einstaklinga sem og yfirvalda."

Baldur ÞórhallssonÞá skrifar Dr. Baldur Þórhallsson einnig grein í Morgunblaðið í dag og segir þar:

"Ef Ísland gengur í Evrópusambandið fær það fullan aðgang að öllum stofnunum sambandsins. Helstu stofnanir sambandsins eru fimm.

Forsætisráðherra Íslands tæki sæti í leiðtogaráði ESB sem kemur iðulega saman sex sinnum á ári. Þar eru nær allar ákvarðanir teknar samhljóða. Forsætisráðherra Íslands hefði í krafti þessa góðan möguleika á að hafa áhrif á framtíðarstefnu sambandsins. Leiðtogar smáríkja eins og Danmerkur og Lúxemborgar hafa sannað að sú er raunin.

Íslenskir ráðherrar sætu í fagráðherraráðum ESB sem fara með löggjafarvaldið ásamt Evrópuþinginu. Utanríkisráðherra Íslands sæti í ráðherraráði utanríkismála. Það leysir meðal annars úr ágreiningsmálum innan sambandsins. Fjármálaráðherra Íslands sæti í ráðherraráði fjármála. Það er orðið eitt valdamesta ráð í Evrópu í dag. Í ráðherraráði sjávarútvegsmála, eins og í öðrum ráðum, er ætíð reynt að ná sátt um mál áður en þau eru afgreidd. Þjóðir tala sig að niðurstöðu og tekið er tillit til hagsmuna ríkja.

Ísland myndi eiga sex þjóðkjörna þingmenn á Evrópuþinginu. Þingmennirnir myndu skipa sér í hefðbundna þingflokka, þ.e. Evrópuþingmenn Sjálfstæðisflokksins myndu taka sæti í þingflokki hægrimanna. Evrópuþingmenn eiga góða möguleika á að láta til sín taka innan þingflokkanna og fá þá á sitt band. Þeir geta einnig haft umtalsverð áhrif á löggjöf sambandsins innan nefnda þingsins þar sem mesta vinnan fer fram. Þetta hafa til dæmis þingmenn hægrimanna á Möltu sýnt. Evrópuþingið er í dag valdamikill löggjafaraðili og lætur í vaxandi mæli til sín taka.

Innan framkvæmdastjórnar ESB myndi Ísland hafa áhrif á mótun löggjafar sambandsins með framkvæmdastjóra í æðstu stjórn hennar og með ráðningu fjölda Íslendinga í störf á hennar vegum.

Auk þessa fengju Íslendingar einn af 28 dómurum í Evrópudómstólnum sem og sæti við ákvarðanatökuborðið í öllum öðrum undirstofnunum og ráðum ESB eins og í Seðlabanka Evrópu."

Umræðan er á fleygiferð! 

 


Evrópusinnar fagna upphafi aðildarviðræðna

Næstkomandi mánudag hefjast samningaviðræður Íslands og ESB með formlegum hætti.

Þeim áfanga ætla Evrópusinnar að fagna með "hittingi" á veitingastaðnum B5, Bankastræti.

Sértilboð verða í gangi varðandi veigar og eru allir Evrópusinnar hvattir til að mæta og fagna þessum mikilvæga áfanga á Evrópuvegferð Íslands! 


Evrópuvefurinn opnaður

Háskóli ÍslandsEvrópuvefur Háskóla Íslands var formlega opnaður í dag. Í frétt á Visir.is segir: "Alþingi hefur gert þjónustusamning við Vísindavef Háskóla Íslands um samningu og rekstur Evrópuvefs. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, opnaði vefinn í dag á Háskólatorgi og mun Evrópuvefurinn starfa í nánum tengslum við Vísindavefinn.

Tilgangur vefsins verður að veita hlutlægar og málefnalegar upplýsingar um hvað það sem fólk kynni að vilja vita og inna um varðandi Evrópumál og Evrópusambandið. Vefurinn verður með svipuðu sniði og Vísindavefurinn.

Aðspurður hvernig vefurinn hyggðist gæta að hlutleysi í svörum sínum sagði Þorsteinn Vilhjálmsson, aðalritstjóri vefsins að starfsmenn vefsins hefðu verið vandlega valdir úr hópi 108 umsækjenda. Þær væru báðar einstaklega vel að sér um Evrópumál en væru hvorki harðir stuðningsmenn né andstæðingar evrópuaðildar. Auk þess verði opið fyrir málefnalegar athugasemdir og leiðréttingar lesenda vefsins.

Í fréttatilkynningu vefsins segir ennfremur:

Í umfjöllun um Evrópusambandið verður aðildarumsókn Íslands að sjálfsögðu höfð í huga en einnig verður reynt að veita almennar upplýsingar enda er Evrópusambandið hluti af umhverfi okkar hvort sem Ísland gengur í það eða ekki. Í fyrstu verður lögð nokkur áhersla á sögu Evrópu og ESB enda má þar finna skýringar á ýmsum atriðum í umræðunni.

Stefnt er að því að svör á Evrópuvefnum verði vönduð, einföld og skýr almenningi og án rökvillna. Sérhæfð fræðiorð eru útskýrð, yfirleitt í sérstakri skrá, og samsvarandi orð á ensku sýnd þannig að lesandi geti aflað sér meiri upplýsinga á því máli. Málefnalegar athugasemdir undir fullu nafni verða leyfðar við svör."

Öll frétt Vísis og Evrópuvefurinn sjálfur.

Hér er t.d. svar um Heimskautalandbúnað, hvað það þýðir í umræðunni um ESB og hér er annað sem snýr að hinni margumræddu verðtryggingu.

Þá er DV einnig með frétt um þetta.

 


Bryndís Schram skrifar bréf til Styrmis Gunnarssonar

Bryndís SchramÞað er eitthvað rómantískt og einlægt yfir bréfi Bryndísar Schram til Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, sem Eyjan hefur verið að skrifa um. Bryndís og Styrmir eru skólasystkini og það einkennir bréfið, sem er langt.

Morgunblaðið neitaði að birta bréfið.Í því kemur Bryndís að sjálfsögðu inn á Evrópumálin og segir um þau: "Við erum svo fá og smá, segir þú, að við verðum utangátta og áhrifalaus. Þú segir, að aðild að ESB feli í sér framsal fullveldis (sjálfstæðis) í hendur rísandi stórríkis, sem muni gleypa okkur með húð og hári (þetta hljómar eins og slitin plata með Hjörleifi Guttormssyni). Í staðinn boðar þú, að við eigum að „búa að okkar“ og „rækta okkar eigin garð“ – eins og við getum ekki gert það ekki áfram, líkt og aðrar þjóðir gera í Evrópusamstarfinu? Þú verður að bera fram haldbetri rök fyrir sinnaskiptum þínum, því að mótbárur þínar standast ekki gagnrýna skoðun.

Smáþjóðir Evrópu – sem eru í miklum meirihluta innan Evrópusambandsins – sóttust ekki eftir aðild að Evrópusambandinu með það fyrir augum að farga fullveldi sínu. Þvert á móti. Þær gerðu það til þess að tryggja fullveldi sitt í framtíðinni í krafti samstöðunnar og til að styrkja hagsmunagæslu sína í reynd.

Það er misskilningur hjá þér, Styrmir minn, að Evrópusambandið sé miðstýrt risaveldi, þar sem hagsmunum smáþjóða er fórnað að geðþótta stórþjóða. Evrópusambandið er samstarfsvettvangur fullvalda ríkja. (JB segir mér, að það taki til sín rétt rúmlega 1% af þjóðartekjum aðildarþjóðanna. Það er allt og sumt). Þú segir sjálfur, að smáþjóðir eigi að einbeita sér að því að verja brýnustu þjóðarhagsmuni sína en láta önnur mál – sem þær fá engu um ráðið – afskiptalaus. Látum það vera. En þess eru engin dæmi, að stórþjóðir innan Evrópusambandsins hafi borið smáþjóðirnar ofurliði í málum sem varða brýnustu þjóðarhagsmuni þeirra. Spurðu hvaða sérfræðing sem er.

Aðildarsamningur okkar mun skera úr um það, þegar þar að kemur, hvort okkur tekst að tryggja okkar brýnustu þjóðarhagsmuni í þessu samstarfi. Öðrum smáþjóðum hefur tekist það. Og því skyldum við óttast, að við getum það ekki líka?

Þú hefur opinberlega dregið upp hrollvekjandi mynd af okkar þjóðfélagi og lýst því, hvernig eiginhagsmunapot og sérhagsmunagæsla hefur tröllriðið því á undanförnum áratugum. Þú hefur jafnvel gengið svo langt að kalla þetta „ógeðslegt þjóðfélag“ – bæði spillt og rotið. Ég þykist vita, að þarna talir þú af mikilli reynslu. Ég vona, að þú sért mér sammála um, að það sé mikið til vinnandi að koma í veg fyrir að spilling sérhagsmunanna verði alls ráðandi í þjóðfélaginu á ný. Við þurfum að koma í veg fyrir, að sagan endurtaki sig, Styrmir.

Aðild að Evrópusambandinu – með þeim kröfum sem þar eru gerðar um virðingu fyrir mannréttindum, opna stjórnsýslu, neytendavernd og aðhaldi sjálfstæðra dómstóla – er skref í þá átt. Við erum nú þegar – af brýnni nauðsyn – á kafi í samstarfi Evrópuþjóða gegnum EES og Schengen (landamærasamstarfið). En hingað til höfum við sætt okkur við að vera áhrifalausir aukameðlimir – eins konar laumufarþegar um borð. Hvers vegna ættum við ekki að þora að stíga skrefið til fulls?

Þú skildir þetta með NATO. Þú skildir þetta með varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þú skildir þetta með EFTA og EES. Hvaðan er hún sprottin allt í einu þessi vanmetakennd um, að við séum slíkt undirmálsfólk, að við getum ekki gætt hagsmuna okkar í samstarfi við aðrar þjóðir? Þeir sem hafa eitthvað að segja, sem máli skiptir – þeir hafa áhrif. Það er bara þannig. Að vera – eða vera ekki? – Það er spurningin!

Salobrena 21. júní, 2011

Með vinarkveðju,

Bryndís"

Allur pistill Bryndísar


Ísland ræður hraðanum

Morgunblaðið var með fréttaskýringu í dag um upphaf aðildarviðræðna Íslands og ESB, sem hefjast næskomandi mánudag. Fréttaskýringin hefst svona:

"Eiginlegar aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hefjast næstkomandi mánudag, 27. júní. Þá lýkur jafnframt formlega rýnivinnu sem hófst í nóvember á síðasta ári.

Rýnivinnan fólst í nákvæmri greiningu á löggjöf ESB sem Ísland þarf að gangast undir. Vinnunni var ætlað að varpa ljósi á það hversu reiðubúið landið er, í hverjum málaflokki fyrir sig, til að ganga í sambandið. Þegar hinar eiginlegu viðræður hefjast munu samninganefndir ESB og Íslands fara nákvæmlega í gegnum hvern samningskafla fyrir sig í aðildarsamningnum. Samningskaflarnir eru 33 talsins í jafnmörgum málaflokkum.

Viðhorf framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til inngöngu Íslands voru til umræðu á hádegisfundi sem fór fram í gær á vegum Rannsóknarseturs um smáríki og sendinefndar ESB á Íslandi. Alexandra Cas Granje, sviðsstjóri stækkunarstofu ESB, flutti þar erindi. Hún er yfirmaður þeirrar skrifstofu sem fer með aðildarviðræður ESB við Ísland, Króatíu, fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedóníu og Tyrkland.

Granje sagði að stjórnvöld á Íslandi mundu algjörlega ráða því hversu langan tíma inntökuferlið tæki. Ísland væri bílstjórinn og réði algjörlega hraðanum. Hún sagði jafnframt undangengna rýnivinnu sanna að Ísland væri í algjörum sérflokki miðað við önnur ríki sem nýlega hefðu gengið í Evrópusambandið þar sem Ísland uppfyllti þegar vel flest skilyrði sem sambandið setti ríkjum sem vildu inngöngu. Í máli Granje kom fram að nú væri ljóst að þrjá málaflokka væntanlegs aðildarsamnings þyrfti að skoða sérstaklega vel. Það væru landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og umhverfismál. Það síðastnefnda vegna hvalveiða Íslendinga sem Granje segir á engan hátt samræmast stefnu ESB." (Leturbreyting, ES-blogg)

Í lokin segir svo: "Ekki voru allir jafn sáttir á fundinum en við upphaf fyrirlesturs Granje ruddist æstur mótmælandi inn og hrópaði ókvæðisorð um hugsanlega inngöngu Íslands Í ESB. "

Kursteisi, eða hitt þó heldur!


OECD mælir með Evru!

EvraÁ MBL:is segir: "Litið til lengri tíma á Ísland að taka upp evruna að mati OECD. Ísland er með minnstu sjálfstæðu flotmynt í heiminum. Önnur smáríki eru annað hvort ekki með sína eigin mynt eða með fastgengi.

Segir stofnunin að upptaka evrunnar muni draga verulega úr sveiflum í verði innfluttrar vöru og þjónustu og draga almennt úr sveiflum í verðbólgunni þar sem um helmingur af utanríkisviðskiptum Íslendinga er við ríki sem eru með evruna eða hafa fest gengi myntar sinnar við evruna, segir í Morgunkorni Íslandsbanka."

Frétt MBL og skýrsla OECD


Efnhagslegt sjálfsmorð fyrir Grikki að yfirgefa Evruna!

Yannis StournarasEinn virtasti hagfræðingur Grikkja, Yannis Stournaras (mynd), sagði í viðtali við Sænska dagblaðið þann 22. mars síðastliðinn að það myndi jafngilda efahagslegu sjálfsmorði fyrir Grikkland að yfirgefa Evruna:

"Öll lán myndu hækka gríðarlega og allir bankar landsins myndu verða gjaldþrota. Þeir sem tala um að Grikkland eigi að yfirgefa Evruna, vita hreinlega ekkert hvað þeir eru að tala um," sagði Yannis í samtali við Sænska dagblaðið.

Grikkir fóru inn í Evruna á 340 drökmum (gamli gjaldmiðillinn þeirra), en rætt hefur verið um að í dag myndi gengið vera um 1000 drökmur, eða nærri þrefalt, ef Grikkir myndu fara aftur yfir í drökmuna.

Í viðtalinu segir Yannis að ,,meðal Grikkinn" taki skynsamlega á málunum, hann telur umbótavilja grísku stjórnarinnar mikinn og telur að hlutirnir séu á réttri leið.

Hann hefur sinnt ráðgjafahlutverki fyrir ríkisstjórn Grikklands (á 9.áratugnum) og hann sat í samninganefnd Grikklands um Evruna. Hann hefur einnig kennt við Oxford-háskóla í Bretlandi. 


Vel heppnaður fundur kvenna um ESB og neytendamál!

Konur héldu góðan fund um neytendamál og ESB í Kornhlöðunni í gærkvöldi. Um 100 konur úr öllum flokkum mættu og hefur ES-bloggið hlerað að fundurinn hafi heppnast frábærlega vel.

Í kynningu um fundinn sagði: "Fróðlegur kvennafundur um það fjölmarga í okkar daglega lífi sem viðkemur neytendamálum og Evrópusambandinu. Allt á milli transfitusýru til hagkvæmari húsnæðislána!"

Ræðukona kvöldsins var Brynhildur Pétursdóttir ritstjóri Neytendablaðsins og hét fyrirlestur hennar ESB og neytendamálin.

Það er gaman að heyra að konur skuli sýna ESB og neytendamálum þennan mikla áhuga!


Benedikt í Bæjarins besta á Ísafirði um "Orustuna um Ísland"

Benedikt JóhannessonÁ vefnum JáÍsland.is er sagt frá grein eftir Benedikt Jóhannesson, formann Sjálfstæðra Evrópumanna, sem hann ritar í Bæjarins besta á Ísafirði um ESB-málið. Í grein sinni segir Benedikt:

"Nýlega var kynnt á vefsvæðinu visir.is könnun Evrópusambandsins, Flash Euro-barometer on Youth, sem gerð var meðal ungs fólks í 31 Evrópulandi í byrjun árs. Hún sýndi að um 85 prósent íslenskra ungmenna hafa áhuga á því að vinna í öðru Evrópulandi í framtíðinni. Þar af hafa rúmlega 40% áhuga á því að flytja þangað og vinna þar til langtíma.

Hlutfall þeirra sem vilja flytja til útlanda til vinnu reyndist hæst meðal ungmenna á Íslandi. Ungt fólk í mörgum Evrópulöndum vill gjarnan vinna utan heimalands síns, en ekki er vitað til þess að Ísland sé vinsæll áfangastaður. Ungir Tyrkir eru heimakærastir, en 15% þeirra hafa áhuga á því að flytja úr landi.

Könnunin hefur ekki vakið mikinn áhuga stjórnmálamanna enn sem komið er, en hún sýnir vanda þjóðarinnar í hnotskurn. Unga fólkið sem vorkennir bændum og útgerðarmönnum og vill leyfa þeim að halda sig utan Evrópusambandsins vill langflest sjálft ganga í þetta sama samband til lengri eða skemmri tíma. Ástæðan er einföld. Ungmennin telja að þeirra eigin framtíð sé bjartari innan Evrópusambandsins en utan. Þau hyggjast greiða atkvæði með fótunum en vilja leyfa íslenskum bændum að búa við óbreytta tollvernd og styrki. Þeir sem eftir verða geta borgað brúsann."

Greinin í BB 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband