Leita í fréttum mbl.is

Seðlabankastjóri: Góður valmöguleiki að taka upp Evru

Már GuðmundssonÁ vef Vísis má lesa: ,,Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að það geti verið góður valmöguleiki fyrir Ísland að taka upp evru, þrátt fyrir skuldavandann. Már Guðmundsson, segir að skuldavandi evruríkja, sé ekki tilkominn vegna sameiginlegu myntarinnar heldur vegna skorts á eftirliti í bankakerfinu." (Hér er öll fréttin)

Rétt eins og Íslendingar gátu Írar haft öflugt eftirlit með bankakerfinu. ESB ræður nefnilega ekki yfir íslensku fjármálaeftirliti, það gera Íslendingar sjálfir! 

Því þýðir lítið að skella skuldinni á ESB og segja að allt hér sé "vondum evrópskum reglum" að kenna. Það hefur hinsvegar verið reynt. Sjá hér

Bendum einnig á færslu frá Þýskalandi sem tengist þessu. 


Hvar er hagnaðurinn af krónunni?

Ein krónaAndstæðingar ESB fara mikinn þessa dagan í kjölfar atburða á Írlandi. Og skella skuldinni á Evruna og segja hana rót allra vandræða Íra.

En vandi Íra er skuldavandi, ekki gjaldmiðilsvandi. Og væri kenningu Nei-sinna beitt á Bandaríkin er hægt að draga þá ályktun að dollarinn sé einnig algerlega handónýtur gjaldmiðill. Hversvegna? Jú, skuldir Bandaríkjamanna nema meira en 13 trilljónum dollara (samkvæmt ameríska kerfinu). Kalifornía, sem er talið vera áttunda stærsta hagkerfi heims, er nánast gjaldþrota og hefur verið það lengi. Notar dollar!

Vandi Íslendinga er hinsvegar tvöfaldur: Skuldavandi og gjaldmiðilskreppa (sem ekkert útlit er fyrir að taki enda).

Sumir segja að krónan gagnist útflutningsfyrirtækjum landsins svo vel. En hvað með almenning? Það eru tvö ár síðan krónan hrundi. Hvernig sést þessi þessi frábæri "árangur" krónunnar hjá almenningi? Sést hann í seðlaveskjum almennings? 

Samkvæmt nýrri spá Hagstofunnar er spáð samdrætti á þessu ári í landsframleiðslu. Ekki virðist krónan koma að gagni í því samhengi. Fæ ríkið auknar tekjur í kassann vegna krónunnar? Af hverju er þá endalaust verið að skera niður út um allt?

Hvar er hinn raunverulegi hagnaður íslensks samfélags af krónunni? Getur einhver svarað því?

Gjaldeyrishöftin þýða að erlendir fjárfestar munu forðast Ísland eins og heitann eldinn - þau þýða líka að Ísland er LOKAÐ hagkerfi. 


Björgvin G. um landbúnað og ESB á Pressunni

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, skrifar pistil á Pressuna um landbúnaðarmál og ESB-málið. Björgvin segir m.a.: ,,Stærsta ákvörðun þjóðarinnar á næstu misserum er hvort Ísland eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu og taka upp evru í stað krónu og EES-samnings. Aðild og upptaka evru er greiðasta leiðin til endurreisnar landsins og stóri lærdómurinn af hruni efnahagskerfisins.

Hvar stæðu Írar t.d. nú er þeir væru að glíma við gjaldmiðilshrun ofan í vanda fjármálakerfisins? Líklega enn þá verr en við Íslendingar gerðum fyrir tveimur árum síðan. Þó Írar gangi nú í gegnum erfiðleika má ekki gleyma því að á ríflega tveimur áratugum hefur staða þjóðarinnar tekið stakkaskiptum frá bláfátækri bændaþjóð á bekk með þeim auðugustu í heimi.

Umræðan um þetta stærsta hagsmunamál þjóðarinnar er því miður á stigi fáránleikans á stundum. Þar er alið á ótta um innlimun í stórríki ESB, afsal auðlinda, fullveldis og sjálfstæðrar tilveru þjóðarinnar. Alið á því að Ísland yrði undir í leit bandalagsins ógurlega að auknu „lífsrými“ og því sé allt að óttast, jafnvel sé þjóðerni, tunga og samfélag í stórhættu.

Sá þáttur mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu sem er mér mjög hugleikinn snýr að landbúnaðar- og byggðamálum og um þann þátt aðildar helga ég einn kafla í bók minni Stormurinn - reynslusaga ráðherra.

Um þau álitaefni er lítið rætt af málefnalegri yfirvegun, en talsvert af fordómum og yfirdrifnum hræðsluáróðri um endalok landsbúnaðarins eins og við þekkjum hann, ef til aðildar kæmi.

Sá málatilbúnaður er að mínu mati fráleitur því að þótt aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér ýmsar breytingar á umhverfi landbúnaðar- og byggðamála, þá er fjarri því að hún yrði greininni til meira tjóns en gagns heldur þvert á móti tel ég að við aðild að ESB felst meiri ávinningur en tjón fyrir landbúnaðinn til lengri tíma litið."

Allur pistillinn á Pressunni  (sem einnig á myndina)


Hvessir hjá Jóni Bjarnasyni vegna Bjarna Jónssonar

Jón BjarnasonHér á árunum fyrir hrun, þegar Ísland var "óspilltasta" land í heimi, mærðu menn hina íslensku stjórnsýslu. Það var talað um að kerfið væri fljótvirkt og það sem margir nefndu sem mikinn kost var það sem kallað er "stuttar boðleiðir."

Menn voru ekkert hrifnir af neinu "regluverki" eða embættismannakerfi, sem að sögn er þungt og svifaseint. Það verður jú að redda málunum og það helst í gær!

Ritara flýgur þetta í hug í sambandi við Jón Bjarnason, sem lét jú aldeilis í sér heyra á Alþingi í dag og það vegna ráðningu sonarins í starfshóp sjávarútvegráðuneytisins sem er gert að fara yfir skýrslu Hafró um áhrif dragnótaveiða í Skagafirði.

Um daginn réði Jóna Bjarnason, "nýjan" flokksfélaga sinn og einn frammámanna í Nei-samtökum Íslands, Bjarna nokkurn Harðarson, bóksala í starf sem upplýsingafulltrúa ráðuneytisins. Alls sóttu 29 um starfið, en enginn var boðaður í viðtal!

Þetta er allt að sjálfsögðu gott dæmi um opna, faglega og gagnsæja stjórnsýslu í hæsta gæðaflokki!

Í sambandi við aðildarumsókn Íslands að ESB standa Íslandi til boða svokallaðir IPA-styrkir, sem eru m.a. hugsaðir til þess að nútímavæða og betrumbæta íslenska stjórnsýslu.

Jón Bjarnason hefur afþakkað slíkt. Er það nema von?

Vantar ekki einhvern í skúringarnar í ráðuneytinu?

(Frétt á Vísir.is um málið og MBL.is


Að sitja í súpunni!

SúpaMár Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að EKKI sé hægt að létta gjaldeyrishöftunum á næstu mánuðum. Enginn veit nefnilega hvernig króna bregst við, verði henni sleppt lausri.

Krónan verður því áfram í öndunarvélinni. Þetta eru ekki skemmtileg tíðindi fyrir ríki sem vill vera hluti af opnu, alþjóðlegu hagkerfi. Það er nefnilega Ísland ekki um þessar mundir - við sitjum í súpunni.


Aðildarviðræður Íslands við ESB:Sjónarhorn frá Brussel

Sterkara Ísland!Á www.sterkaraisland.is stendur: ,,Föstudaginn 26. nóvember heldur Graham Avery erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ. Hann er heiðursframkvæmdastjóri ESB og einn af aðalráðgjöfum European Policy Centre í Brussels. Hann mun fjalla um aðildarviðræður Íslands við ESB séð frá Brussel." Allir velkomnir!

Öll fréttin 


Tónninn úr Hádegismóum

MBLTónninn frá Hádegismóum vegna ESB verður harðari og harðari, á sam tíma sem fréttir berast af því að eigendur blaðsins dæli inn peningum í reksturinn. Hér er eitt lítið dæmi:

,,Öfugt við íslenska lygalaupinn sem segir þvert gegn því sem fyrir liggur að engar aðlögunarviðræður eigi sér nú stað eru hinir evrópsku talsmenn evrópska stórríkisins opinskáir og hreinskilnir. Þeir fara ekki í launkofa með hvað fyrir þeim vakir og hvað það er sem þeir telja heiminum og Evrópu fyrir bestu. Væru þeir spurðir »hvað væri í pakkanum« utan um Evrópu framtíðarinnar myndu þeir svara hreinskilnislega: »Öflugt evrópskt stórveldi stýrt frá Brussel án truflandi áhrifa smáríkja á jaðri þess.«

Í leiðaranum var annars fjallað um Evruna. Það sem vekur hinsvegar athygli er orðfæri ritstjórans, þar sem hann kalla Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, "lygalaup." 

Það mætti halda að það sé "sturlungi" sem sitji í ritstjórastólnum, það er reitt hátt til höggs og hér skortir alla fínstillingu. 

Kannski er ritstjórinn verulega gramur yfir því sem gerðist hjá VG um helgina, þegar talsmenn þess að hætta aðildarviðræðum við ESB urðu að játa sig sigraða? 


Ögmundur virkilega gramur (VG) vegna Baldurs

Baldur ÞórhallssonViðtal Spegilsins í fyrrakvöld við Baldur Þórhallsson (mynd) hefur valdið titringi í dómsmálaráðuneytinu, þ.e.a.s hjá dómsmálaráðherranum, Ögmundi Jónassyni

Hann er fúll vegna ummæla Baldurs um "tveggja-mánaða-leiðina" að ESB, sem Ögmundur setti fram um daginn í blaðagrein.

Eyjan fjalllar um þetta og Ögmundur skrifar sjálfur um þetta. Nú svo er hægt að hlusta á Spegilinn (fyrsta efni þáttarins)! 


Þorgerður Katrín í MBL: Málið þarf að klára!

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag um ESB-málið. Fyrirsögnin er: Engan hringlandahátt.

Þorgerður vill klára samningferlið og hún segir m.a.: ,,Það hafa ýmsir stigið fram á síðustu vikum og mánuðum og sagt að best væri að hægja á umsóknarferlinu eða hætta við umsóknina og draga hana til baka, m.a. til að spara í ríkisfjármálum. Undir þetta sjónarmið hefur síðan verið kynt á ýmsum stöðum, öllum frekar fyrirsjáanlegum. Það er að sjálfsögðu virðingarvert að menn vilji spara þótt það væri óskandi að óumflýjanleg sparnaðarskref í fjárlögum væru tekin af meiri festu og framsýni í stað þess að láta skoðanakannanir stýra tillögugerð í þeim efnum. 

En það verður líka að segja hlutina eins og þeir eru. Fyrir suma er einfaldlega aldrei rétti tíminn til að sækja um aðild að ESB, líkt og fyrir aðra er aldrei rétti tíminn til að lækka skatta eða virkja einkaframtakið í velferðar- eða menntamálum."

Síðar segir Þorgerður: ,,Þrátt fyrir umdeilda aðferðafræði ríkisstjórnarflokkanna tveggja fór málið í gegnum þingið og þann lýðræðislega farveg sem fylgir því að fá mál samþykkt. Meirihluti Alþingis Íslendinga samþykkti að fara í aðildarviðræður og er það ferli nú hafið. Málið þarf því að klára, á endanum með aðkomu þjóðarinnar, og hætta að tala um það í viðtengingarhætti. Það ætti að vera hagur jafnt stuðningsmanna sem andstæðinga að sá vilji verði hið endanlega úrskurðarvald.

Það væri óskandi, í ljósi þess að aðildarferlið er hafið, að forystumenn íslenskra stjórnmála bæru gæfu til þess að sameinast um að ná sem bestum samningi fyrir Íslands hönd þannig að þjóðin geti verið þess fullviss, þegar hún gengur að kjörborðinu í fyllingu tímans, að allir hafi lagt sitt af mörkum í þágu íslenskra hagsmuna. Leitum frekar að því sem sameinar okkur í málinu en sundrar.

Að stoppa viðræðurnar á þessu stigi og afturkalla umsóknina bæri vott um hringlandahátt og er ekki í samræmi við þá festu sem þarf að vera í sem flestum málaflokkum - ekki síst utanríkismálum."

(Leturbreyting ES-blogg) 


 


Um að halda opnu - leiðari FRBL

Í leiðara Fréttablaðsins í dag fjallar Ólafur Þ. Stephensen um ESB-málið, sérstaklega  í ljósi atburða helgarinnar og skrifar: ,,Þrír stjórnmálaflokkar eru klofnir í afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu. Þetta eru Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn. Í stað þess að horfast í augu við að skoðanir eru skiptar og finna leiðir, sem færa deiluna af vettvangi flokkanna, reyna flokksmenn í öllum þremur stjórnmálahreyfingum að knýja fram "skýra afstöðu", sem stuðlar fyrst og fremst að því að viðhalda klofningi og deilum innan flokkanna."

Síðar segir: ,,Hagsmunir allra þessara flokka eru að halda málinu opnu, halda aðildarviðræðunum áfram og útkljá málið svo í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru sömuleiðis hagsmunir þeirra að baráttan fyrir atkvæðagreiðsluna fari fram á vettvangi já- og nei-hreyfinganna en rífi ekki flokkana í sundur. Það er ennfremur líklegt til að þjóna hagsmunum allra þessara flokka að sem beztur samningur náist við ESB. Þá geta Evrópusinnar innan þeirra ekki sagt, segi þjóðin nei við aðildarsamningi, að brögðum hafi verið beitt til að koma í veg fyrir að Ísland fengi bezta hugsanlega samning.

Vilji Framsóknarflokkurinn til dæmis ná betri fótfestu í þéttbýlinu, heldur hann málinu opnu. Sama á við um VG, vilji flokkurinn halda í ýmsa þá kjósendur, sem komu til hans í síðustu kosningum og eru jákvæðir gagnvart ESB-aðild. Og þetta á við um Sjálfstæðisflokkinn ef hann vill ná aftur til sín kjósendum, sem fóru yfir til Samfylkingarinnar vegna stefnunnar í Evrópumálum og ef hann vill hindra að fyrir næstu kosningar verði til nýr Evrópusinnaður hægriflokkur."

Allur leiðarinn 


Árni Finnsson um ,,græna aðlögun" á Smugunni

Árni FinnssonÁrni Finnsson, formaður Náttúruverndarráðs skrifar áhugaverðan pistil á Smuguna, sem hann kallar ,,Græn aðlögun."

Árni ræðir umhverfismál og segir m.a: ,,Þau eru einn mikilvægasti málaflokkur evrópskra stjórnmála og til að ná árangri verður eitt yfir alla að ganga. Markmið Evrópusambandsins eru sameiginleg. Í gildi eru sameiginleg lög um náttúrvernd, útstreymi gróðurhúsalofttegunda, mengunarvarnir og síðast en ekki síst aðkomu almennings að stefnumótun í umhverfismálum í samræmi við Árósamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Í kjölfar aðildarumsóknar Íslands fer framkvæmdastjórn ESB í Brussel fram á að íslensk lög og stjórnarhættir standist þær kröfur sem gerður eru í umhverfismálum innan sambandsins."

Og síðar segir Árni: ,,Ísland hefur áður aðlagast umhverfislöggjöf ESB í samræmi við ákvæði EES-samningsins, t.d. lög um mat á umhverfisáhrifum. Til að Ísland geti öðlast fulla aðild verður íslenska náttúruverndarlöggjöfin að standast evrópskar kröfur áður en aðildarsamningur verður undirritaður. Aðildarviðræður eru því mikilvægt tæki til umbóta í löggjöf um náttúruvernd og bæta réttindi almennings til þátttöku í ákvarðanatöku í umhverfismálum hér á landi.

Alveg óháð því hvort aðild að Evrópusambandinu verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu stöndum við því frammi fyrir grænni aðlögun að lagaramma Evrópusambandsins. Það yrði mikið framfaraspor og allir þeir sem vilja auka veg umhverfisverndar á Íslandi hljóta fagna slíkri aðlögun." (Leturbreyting ES-blogg)


Allur pistillinn 


Aðalsteinn um ESB og auðlindamál á morgun

Aðalsteinn LeifssonAðalsteinn Leifsson, lektor við HR, mun á morgun fjalla um auðlindamál og ESB, í hádeginu, á Sólon í Bankastræti. Þetta er einn af hádegisfundum Samfylkingarinnar um Evrópumál.

Bendum hér einnig á góða grein eftir Aðalstein frá því í fyrra. 


„Vér einir vitum“ eftir sr. Þóri Stephensen

Sr.Þórir StephensenÍ Morgunblaðnu um helgina ritaði sr. Þórir Stephensen m.a: ,,Fyrirsögn þessarar greinar er tilvitnun í Friðrik 6., einn af okkar gömlu konungum, sem taldi sig þiggja vald sitt milliliðalaust frá Guði. Þá var rætt um breytingar á prentfrelsisákvæðum í Danmörku. Svar konungs, „Vi alene vide,“ kom í veg fyrir aukið frelsi og hefur gjarnan verið notað um þvermóðsku og yfirgang stjórnvalda. Það hefur oft heyrst i þjóðfélagsumræðunni að undanförnu.
     Í umfjölluninni um ESB og Sjálfstæðisflokkinn hefur nokkrum sinnum verið að því vikið, að Davíð Oddsson, formaður nefndar þeirrar, er samdi Aldamótaskýrslu Sjálfstæðisflokksins, hafi breytt um skoðun í Evrópumálum. Ummæli hans í skýrslunni eru mörg á þann veg, að þau hefðu getað verið skrifuð af ESB-sinna í dag. En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Davíð útskýrir þetta í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 10. júlí sl. Hann segir þar: „Fyrrnefnd skýrsla virðist um margt ágæt, en ekki hefur þó allt það, sem þar var sett fram, staðist tímans tönn.“ Hann segir ennfremur: „ [nú] hafa allar þær upplýsingar sem áður vantaði, komið fram, meðal annars í fjölmörgum samtölum fyrrverandi formanns skýrslunnar .... við menn eins og Delors, Santer og Prodi, sem allir voru formenn framkvæmdastjórnar ESB, auk helstu forystu Evrópuríkja.“


Öll greinin, sem við fengum frá Þóri 


Þorsteinn um "villta vinstrið" í FRBL

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson ritaði bréf af Kögunarhóli sínum í Fréttablaðið í gær. Þar segir m.a.:

,,VG spratt upp úr Alþýðubandalaginu sem áður óx af meiði Sósíalistaflokksins. Þessir flokkar voru lengst af einangraðir í afstöðunni til þátttöku Íslands í vestrænni efnahags- og varnarsamvinnu. Vatnaskil urðu þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákvað á liðnu sumri að skipa flokknum við hliðina á vinstri væng VG varðandi kröfuna um að afturkalla aðildarumsóknina að ESB.

Í síðustu kosningum byggðist neikvæð afstaða Sjálfstæðisflokksins þó á hagsmunamati sem endurskoða þyrfti á hverjum tíma. VG var á grundvelli hugsjóna alfarið andvígt aðild en sagði jafnframt að málið myndi ekki koma í veg fyrir stjórnarmyndun. Framsóknarflokkurinn, Borgarahreyfingin og Samfylkingin voru hins vegar með aðildarumsókn.

Þeir þrír flokkar sem höfðu aðildarumsókn á dagskrá fengu hreinan meirihluta þingmanna. Í atkvæðagreiðslu um umsóknina gekk meirihluti þingmanna Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar úr skaftinu. Á hinn bóginn var meirihluti þingmanna VG fylgjandi. Þrátt fyrir þessa víxlun atkvæða var niðurstaðan í samræmi við skýran vilja meirihluta kjósenda.

Fyrr á þessu ári fundu forystumenn Heimssýnar upp á því að fullyrða að Alþingi hefði alls ekki samþykkt að sækja um aðild. Það hefði aðeins heimilað könnun á þeim möguleika. Ríkisstjórnin hefði því farið út fyrir umboð sitt og rétt væri að afturkalla umsóknina.

Allir læsir menn vita að þessi röksemdafærsla á enga stoð í raunveruleikanum. Hún er hrein hugarleikfimi. Í pólitík getur áróðursskáldskapur af þessu tagi þó orðið að raunverulegu vandamáli. Flokksráð VG glímir við það á fundi í dag.

Vandi VG liggur ekki í því að hafa gert málamiðlun um hugmyndafræðilegt grundvallaratriði. Hann skýrist miklu fremur af þeirri tvöfeldni að byggja málamiðlunina á því að vera bæði með og á móti."

Allur pistill Þorsteins


Írar biðja um og fá stuðning ESB og AGS

Frá DublinRíkisstjórn Írlands bað í kvöld með formlegum hætti um stuðning ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vegna þess vanda sem bankakerfi landsins stendur frammi fyrir. Óvíst er um hve miklar fjárhæðir er að ræða, en talið er að það geti verið allt að 80-90 milljörðum Evra.

Einnig er talið að hluti pakkans fari í að glíma við mikinn fjárlagahalla sem hrjáir Írland.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband