Leita í fréttum mbl.is

Reynsla Svíþjóðar: Frá EES til ESB

Hádegisfundur í Norræna húsinu, þriðjudaginn 19. janúar frá klukkan 12:00 til 13.30

Ulf DinkelspielUlf Dinkelspiel, fyrrverandi Evrópumálaráðherra og aðalsamningamaður Svíþjóðar í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, heldur fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sænska sendiráðsins á Íslandi. Að erindinu loknu fjallar Birgir Hermannsson, aðjunkt í stjórnmálafræði, stuttlega um bók Dinkelspiels, Den motvillige europén, sem kom út á síðastliðnu ári en í henni gerir hann grein fyrir ferli sínum og einstakri reynslu af Evrópumálum

Ulf Dinkelspiel hefur gegnt lykilhlutverki í samningamálum Svíþjóðar á löngum ferli sínum sem embættis- og stjórnmálamaður. Hann vann að samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma en þá var hann ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti Svíþjóðar. Dinkelspiel sinnti síðan embætti Evrópumálaráðherra frá árinu 1990 til 1993. Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið stóðu yfir frá 1992 til 1994 og var Dinkelspiel aðalsamningamaður Svíþjóðar. Þá var hann í forsvari fyrir Evrópuhreyfinguna í landinu þegar að þjóðaratkvæðagreiðslunni kom haustið 1994. Dinkelspiel hefur að auki nær fjögurra áratuga reynslu í sænsku utanríkisþjónustunni.

Fundarstjóri: Bogi Ágústsson, fréttamaður

Fyrirlesturinn fer fram á ensku – allir velkomnir

Ps. Fyrir þá sem komast ekki á fyrirlesturinn, mun Ulf verða með kynningu og umræður um bók sína kl.15.00 sama dag í Eymundsson, Austurstræti. Þar verður einnig Bogi Ágústsson og mun hann ræða við Ulf um þessi efni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við höfum ekkert að gera með "reynslu Svía", sem eru 29 sinnum fleiri en við og búa ekki við þær aðstæður að eiga gífurlega gjöful fiskimið, sem ennþá stærri þjóðir (Spánverjar*, 46 milljónir, Bretar, 62 milljónir, Þjóðverjar, 82 milljónir, o.fl.) ágirnast og fengju allt vald yfir, ef þær vildu, en við aftur á móti með 0,06% atkvæðavægi í þessu evrópska stórveldi (eftir 2014), ef við létum fallerast og innlimast í óskapnaðinn!

* Sbr. þessa grein: Spænskur ráðherra Evrópumála staðfestir ásækni Spánverja í íslenzk fiskimið; segir Spánverja "himinlifandi" og aðra grein: Ráðherra Spánverja í ESB-málum kallar fiskimið Íslands "fjársjóð" og ætlar Spánverjum að tryggja sér fiskveiðiréttindi hér í aðildarviðræðunum.

Jón Valur Jensson, 13.1.2010 kl. 17:59

2 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Sæll Jón Valur. Hugleiðingar þínar um að lönd ágirnist hitt og þetta eru fullkomlega úr lausu lofti gripnar, enda hefurðu engin dæmi til að nefna til stuðnings. ESB hefur í engu aðildarlandi hrifsað til sín auðlindir viðkomandi lands. Að sjálfsögðu myndum við mótmæla öllum slíkum tilhneigingum af öllum mætti og ekki samþykkja neitt slíkt.

Varðandi atkvæðavægi verður þú einnig að gera þér grein fyrir því að innan Evrópuþingsins eru blokkir sem vinna að hagsmunamálum, þannig að ,,0,06% - hugsunin" er einnig út í hött. Sama gildir um þína ,,innlimunar-þanka!

Þú verður að nálgast þessa umræðu af skynsemi en ekki bara tilfinningum!

Bendi þér á greinasafn á www.Evropa.is 

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 14.1.2010 kl. 09:01

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Verið nú ekki með þetta yfirlæti í svörum. Veit ég vel um hagsmunablokkir innan Evrópubandalagsins, en ég hef einmitt tekið eftir því, að norrænu EB-ríkin, m.a.s. Svíþjóð, eru hálf-desperat að auka vægi sinnar "blokkar" og vilja því fá Ísland inn, með þeirri örlitlu aukningu á atkvæðavægi, sem því myndi fylgja. En þetta er ekki norrænn andi, þetta er ekki að reynast okkur vel, sem erum bæði smá og höfum svo miklu að tapa, þegar eftir því er sótzt. Það er að láta tilganginn helga meðalið að reyna að fá Ísland inn, þó að við myndum bíða af því mikið tjón, en bara af því að Svíar vilja auka sinn hlut heldur meira!

Þið vitið kannski af því, að hlutur Svía í Evrópuþinginu er ekki nema álíka og hlutur Kalmar-borgar í sænska þinginu! Þetta sætta margir Svíar sig illa við – eru farnir að átta sig á fullveldismissi varðandi mörg mikilvægustu löggjafarmál. Samt á hlutur Svíþjóðar í atkvæðavægi í EB eftir að minnka um 36,2% frá og með árinu 2014 miðað við óbreyttan fjölda meðlimaríkja (úr 2,9% niður í 1,85%, skv. töflu í þessari heimild); ef Tyrkland bætist svo í hópinn, verður hlutur Svía ennþá minni!

Þar að auki er þetta viðsjállt með hagsmunablokkir, þær gera oft kröfu til hrossakaupa og vondra málamiðlana.

Þið látið eins og ég sé bláeygur grænjaxl að tala um að "lönd ágirnist hitt og þetta," en í reynd eruð þið sjálfir gersamlega úti að aka, ef þið haldið, að lönd séu hætt að ágirnast auðlindir – þetta hefur löngum verið ástand mála í veröldinni – í Evrópu sem annars staðar – og ekki hvað sízt átt við um stór lönd. Ef þið farið inn á vefsíðurnar sem ég vísaði inn á síðast í hinu innlegginu, þá sjáið þið – nema þið séuð með bundið fyrir augun – ýmis merki mikils áhuga Spánverja á því að komast í feitt á Íslandsmiðum, enda er þar mikið atvinnuleysi og þar á ofan mikið verkefnaleysi fiskiskipa og sjómanna eftir aflabrest í Miðjarðarhafinu, en Spánverjar sóttu á Íslandsmið og myndu vilja gera það áfram. Hjal um eitthvað í skiptum er bara dula yfir það sem þeir ætla sér.

Fiskveiðistefna EB (ESB) er endurskoðuð á 10 ára fresti, og FULLVELDIÐ til að ráða um hana er í höndum Brussel- og Strassborgarvaldsins. Hjalað er um göfug markmið og fiskveiðistjórnun, jafnvel að nýta sér reynslu okkar, en þetta er innantómt skjall og fer þeim líka illa sem hafa farið illa að ráði sínu í þessum málum, eins og sést af fenginni reynslu.

Þetta ber sérstaklega að varast að auki:

1) "Reglan um hlutfallslegan stöðugleika" er ALLS EKKI STÖÐUG Í SESSI ! – henni er hægt að svipta burt, og við hefðum ekkert bolmagn til að rísa gegn því, ef við hefðum látið innlimast.

2) "Veiðireynslan", sem fyrrnefnd "regla" byggist á, er sömuleiðis ekkert fastgreypt í sáttmála Evrópubandalagsins, heldur reglugerðarákvæði sem alltaf er hægt að BREYTA eftir á, t.d. með því að lengja "veiðireynslutímann" í áföngum upp í 40-50 ár, og þá væru Bretar, Belgar og Þjóðverjar komnir með aðstöðu til að hefna sín vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar hér við land.

Þar að auki eru alls kyns aðrar reglur, sem EB gæti sett, sem yrði til að gera nánast ólíft að reka hér sjávarútveg (jafnvel í smáum stíl) nema með eftirgjöf réttinda. Reynsla Finna af regluverki EB í landbúnaði er líka herfileg, það er varla hægt að stunda hann með eðlilegum hætti án ótrúlegrar skriffinnsku, eins og þið getið lesið um í ýmsum tölublöðum Bændablaðsins árið 2009.

Það er ekkert undarlegt við mína innlimunar-þanka, enda veit ég vel, að EB-menn ætlast til þess að útrýmt verði öllum mikilvægustu sjálfstæðis- og fullveldisákvæðum stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til þess að geta látið bandalaginu það eftir að ráða hér sama sem öllu um löggjöf okkar!

Bendi ykkur á, að það er ábyrgara að skrifa undir nafni! Þótt skrifað sé fyrir samtök, ætti að sjást, hver skrifar.

Jón Valur Jensson, 14.1.2010 kl. 20:58

4 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Sæll aftur Jón Valur: Yfirlæti? Þetta var einungis ábending til þín um að það er ekki hægt að benda á nein dæmi um það að ESB (gamla EB) hafi sölsað undir sig náttúruauðlindir aðildarríkis.

Orð um ,,bláeygða grænjaxla" eru þín eigin. En við getum alveg verið sammála um að auðlindir víða um heim eru eftirsóttar. Besta dæmið um slíkt hin síðari ári eru t.d. hin mika auðlindaleit og auðlindaþörf Kinverja, t.d. í Afríku, þar sem slíkt hefur skapað ýmis vandamál í samskiptum Kínverja við innfædda.

,,Þar að auki er þetta viðsjállt með hagsmunablokkir, þær gera oft kröfu til hrossakaupa og vondra málamiðlana."

En þær komast líka að fullt af samningum sem eru til hins betra fyrir íbúa ESB. Hvernig heldur þú t.d. að hin öfluga neytendavernd og réttindi þeirra innan ESB ríkjanna sé til komin? Það eru líka til mjög góðar málamiðlanir!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 15.1.2010 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband