Leita í fréttum mbl.is

Andrés Pétursson: Hundalógík í ESB-umræðu

Andrés PéturssonFormaður Evrópusamtakanna, Andrés Pétursson, skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag um rangfærslur í sambandi við ESB og starfsemi þess. Greinin er hér í heild sinni:

 

HUNDALÓGÍK Í ESB-UMRÆÐU

Sumir einstaklingar virðast halda að með því að endurtaka sömu vitleysuna verði hún á einhvern hátt rétt, sérstaklega ef vitleysan er í ómótstæðilegu samhengi við eigin trúarsannfæringu. Það er erfitt að halda uppi málefnalegum rökræðum þegar menn beita þannig hundalógík.

 

Nýleg grein Frosta Sigurjónssonar framkvæmdastjóra í Morgunblaðinu um völd og áhrif innan Evrópusambandsins er af þessum toga. Það er reyndar með ólíkindum að einstaklingur, sem lætur mikið til sín taka í umræðu um kosti og galla aðildar að ESB, skuli bera þetta á borð. Öllum sem hafa áhuga á sannleikanum er ljóst að það eru 27 ráðherrar aðildarríkja ESB (allir með lýðræðislegt umboð sinna aðildarríkja) og Evrópuþingið (hver einasti þingmaður kosinn beinni kosningu af borgurum ESB) sem fara með lykilvöld (lagasetningarvald) innan ESB. Í greininni endurtekur Frosti margar af þeim röngu staðhæfingum sem hann hefur þegar haldið fram bæði í ræðu og riti um stofnanir og skipulag Evrópusambandsins. Þar má til dæmis nefna rökleysuna um að það séu nafnlausir embættismenn í Brussel sem taki flestar ákvarðanir en ekki löglega kjörnir fulltrúar þjóðanna. Einnig að Evrópuþingið sé áhrifalaus stofnun og að það sé framkvæmdastjórn ESB sem hafi í raun löggjafarvaldið. Ég ætla ekki að eyða prentsvertu aftur í allt það sem Frosti heldur fram í grein sinni heldur vísa í fyrra svar mitt í grein í Morgunblaðinu og lesa má á heimasíðunni evropa.is.

 

Frosti eyðir töluverðu púðri í hinn svokallaða lýðræðishalla Evrópusambandsins og dregur af því ákveðnar niðurstöður sem vert er að ræða. Það er rétt að kjörsókn í einstökum löndum er ekki neitt til að hrópa húrra yfir en það má ekki gleyma því að í sumum löndum er kjörsóknin mjög góð. Þar má til dæmis nefna Belgíu og Lúxemborg þar sem kjörsjókn er um 90% og Möltu þar sem kjörsókn er um 80%. Allir þegnar Evrópu hafa hins vegar rétt á því að kjósa, þannig að halda því fram að kjörsókn sé einhlítur mælikvarði á hve mikið lýðræði sé í viðkomandi landi er í besta falli hálfsannleikur. Almenn kjörsókn í Bretlandi er frekar dræm og yfirleitt ekki nema rúmlega 50% þátttaka í almennum þingkosningum. Það þarf því ekki að koma á óvart að þátttaka í Evrópuþingkosningum þar í landi sé líka frekar slök. Sviss er líka gott dæmi um dræma kosningaþátttöku almennings. Í almennum þingkosningum er þátttaka rétt um 40% og í einstaka atkvæðagreiðslum í kantónum fer kjörsókn jafnvel niður fyrir 20%. Samt eru bæði þessi lönd rótgróin lýðræðisríki. Það er því ljóst að kosningaþátttaka er ekki eini mælikvarðinn á lýðræðishefð þjóða.

 

Oft hafa komið fram tillögur um að auka beint lýðræði í Evrópukosningunum en aðildarlöndin hafa verið mjög treg að láta meiri völd yfir til yfirþjóðlegra stofnana. Núverandi fyrirkomulag er því málamiðlun eins og margt annað í samstarfi ríkja Evrópusambandsins. Að halda því fram að ákvarðanataka í sífellt fleiri málaflokkum færist frá lýðræðislega kjörnum þjóðþingum til embættismanna í Brussel er hreinlega ekki rétt eins og því miður margt annað í þessari grein Frosta. Vonandi er andstæðingum aðildar ekki ofviða að ræða kosti og galla Evrópusambandsins og möguleika almennings til að hafa áhrif á störf og stefnu þess án þess að vera með upphrópanir og rangar eða í besta falli vafasamar fullyrðingar um hvernig fyrirkomulagið er í raun og veru.

MBL, 18.2.2011 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"The debate on European governance, launched by the Commission in its White Paper of July 2001, concerns all the rules, procedures and practices affecting how powers are exercised within the European Union. The aim is to adopt new forms of governance that bring the Union closer to European citizens, make it more effective, reinforce democracy in Europe and consolidate the legitimacy of the institutions. The Union must reform itself in order to fill the democratic deficit of its institutions."

http://europa.eu/legislation_summaries/glossary/governance_en.htm

Jæja, það vandamál leyst. Þið sendið bara Andrés Péturson þangað suður til að segja þeim að þetta sé tóm hundalógik og vandamálið sé ekki til.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband