Leita í fréttum mbl.is

Finnland: Evru og ESB-aðild hefur gagnast landinu vel!

Helsinki

Sumir þeir sem eru mótfallnir aðild Íslands að ESB nota stundum það sem kalla mætti "fjarlægðarrökin" í máli sínu.

Að Ísland sé t.d. "langt" frá Evrópu, að landið sé "langt" úti í Atlantshafi og að það þurfi t.d. að fara alla leið til Finnlands, til að finna Evruland!

En í heimi alþjóðlega og hátæknivæddra viðskipta hljómar þetta svolítið skringilega, að ekki sé talað um þá staðreynd að Evrópa er mikilvægasti markaður Íslendinga, rétt eins og Finna!

Í BBC-þættinum Business Daily var á dagskrá mjög athyglisvert innslag um Finnland og Evruna, þann 14.8. síðastliðinn.

Niðurstaða þess var í raun sú að aðild að ESB og Evrunni hefðu gert Finnlandi gríðarlegt gagn og að enginn alvöru umræða væri í gangi um að Finnar færu út úr Evru-samstarfinu. Nema hjá talsmanni flokksins "Sannra Finna" sem sagði að Finnar hefðu bara aldrei átt að fara inn í ESB eða Evruna. Býsna léttvæg rök og í raun það eina sem hann hafði fram að færa!

Það var hinsvegar mun athyglisverðara að hlusta á hagfræðing samtaka finnska atvinnulífsins, sem sagði aðild að ESB og upptöku Evrunnar hafa gert gríðarlega mikið fyrir Finnland. Þeir þættir sem hann nefndi helsta voru:

Lágir vextir

Lág verðbólga

Stöðugleiki í gjaldmiðilsmálum

Hljómar þetta kunnuglega í eyrum Íslendinga? Ó, nei, raunveruleikinn hér á landi er í raun þveröfugur við þetta! Þar að auki býr íslenskt atvinnulíf við gjaldeyrishöft!

Talsmaðurinn sagði það einnig hafa hjálpað til að Finnar hefðu verið búnir að "taka vel til" eftir bankakrísuna sem þeir lentu í um og eftir 1990. Því væri finnska bankakerfið vel statt og í góðu horfi um þessar mundir.

Hann tók það einnig mjög skýrt fram að Evran skaðaði ekki samkeppnishæfni Finnlands, þar sem þeir væru sjálfir búnir að gera það sem gera þyrfti, til þess að halda samkeppnishæfninni. Hér á það kannski við "hver veldur er á heldur" ? 

Við gætum sennilega lært margt af Finnum og greinilegt að þeir hafa tekið mjög skynsamlega á málum - og af yfirvegun. 

Ps. Samkvæmt "fjarlægðarrökunum" ætti t.d. Kýpur alls ekki að vera í ESB, þar sem fjarlægðin til Brussel til Nikósíu eru heilir 2907 km! Það er þó ekki nema 2134 km frá Reykjavík til Brussel! 

Kýpur fer með formennsku í ESB um þessar mundir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband