Leita í fréttum mbl.is

Verðum að bregðast við breytingum á norðurslóðum

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifaði grein um málefni norðurslóða á vef samtakanna Já Ísland. Greinin birtist hér með leyfi höfundar.

-------------- 

Séu orðin „Kínverjar“ og „Grænland“ slegin inn í hina margfrægu leitarvél Google koma upp fyrirsagnir á borð við „Kínverjar seilast til áhrifa á Grænlandi,“ „Kínverjar með augastað á Grænlandi“ eða „Kínverjar vilja hraða námuvinnslu sinni á Grænlandi.“  Í frétt um hið síðastnefnda segir: „Fjölmenn kínversk sendinefnd með auðlindaráðherra landsins í broddi fylkingar er nú stödd á Grænlandi. Þar ræða Kínverjarnir við grænlenska ráðamenn um starfsemi kínverskra námufyrirtækja í landinu en þeir vilja hraða framkvæmdum við ýmis námuverkefni.

Fimm kínversk námufyrirtæki hafa sótt um vinnsluleyfi á Grænlandi en þar ætla þau m.a. að vinna járn, gull, blý, kopar og sjaldgæfa jarðmálma.

Ekki eru allir Grænlendingar hrifnir af Kínverjunum og þannig hefur dregist verulega að eitt af námufyrirtækjunum hefjist handa við stærstu járnnámu sem fundist hefur á Grænlandi.“ (FRBL/Vísir.is, 27.apríl 2012).

En hvers vegna eru Kínverjar komnir alla leiðina til Grænlands? Jú, hin gríðarstóra kínverska efnhagsmaskína þarf hráefni og það er nánast sama hvar þau er að finna, Kínverjar sækja þau, hvert á land sem er. Sama hvort um er að ræða Angóla eða Grænland.

Síðan þarf að flytja allt heila klabbið og þar kemur Atlanshafið og Norðurslóðir til sögunnar. Svæðið norður af Íslandi er að verða „heit kartafla“ í strategískum skilningi. Með opnun siglingaleiða í gegnum Norðurpólinn mun hafsvæðið í kringum Ísland gerbreyta um „karakter“ ef þannig má að orði komast. Siglingar munu að öllum líkindum stóraukast, stór og gríðarlega öflug skip munu fara þar í gegn á leið frá Evrópu til Asíu og öfugt, að ógleymdum Bandaríkjunum.

Í skýrslu sem utanríkismálaskrifstofa ESB gaf út í lok júni á þessu ári segir að í kringum árið 2050 verði opið í gegnum norðurskautið, að minnsta kosti að sumri til. Þar kemur einnig fram að árin 2005-2010 hafi verið þau fimm heitustu á þessu svæði.

Greinilegt er að innan ESB taka menn þessi mál mjög alvarlega og í skýrslunni segir að um sé að ræða gríðarlega viðkvæmt svæði, þar sem búi um fjórar milljónir manna, þar af svokallaðir frumbyggjastofnar.

Í skýrslunni segir einnig að ESB hafi breytt forgangsröðun vegna þessara mála, til að meðal annars takast á við áskoranir á sviði umhverfisbreytinga, orkumála, fæðuöryggis og lýðfræðilegra breytinga. Stuðla á að auknum rannsóknum til þess að afla upplýsinga, svo hægt verði að vanda ákvarðanatöku.

En hvað með Ísland? Hvernig er Ísland í stakk búið til að takast á við áskoranir, sem eru e.t.v. nokkra áratugi fram í tímann? Ef við leyfum okkur að hugsa nokkra áratugi fram í tímann (eins og sagt er að Kínverjar geri!) eru þá til einhverjar hugmyndir um það, jafnvel áætlanir, hvernig þessi 320.000 manna þjóð (árið 2012) ætlar að taka á þessu stóra verkefni?

Alþingi Íslendinga samþykkti í mars í fyrra þingályktun um „stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.“

Í henni er rætt um að efla og styrkja Norðurskautsráðið, tryggja stöðu Íslands sem strandríkis, að efla skilning á hugtakinu „norðurslóðir,“ byggja á hafréttarsáttmálum Sameinuðu þjóðanna, styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar (er Kína inni í því þá?), styðja réttindi frumbyggja, vinna gegn loftslagsbreytingum, gæta öryggishagsmuna, að auka þekkingu og innlent samráð um málefni norðurslóða og svo framvegis.

Það er gott að Ísland sé búið að mynda sér stefnu. Þó hún sé ekki nema 12 atriði. Mjór er margs vísir, segir jú máltækið.

En það sem er vert að velta fyrir sér, er það hvort landið hafi efnhagslega burði til þess að framkvæma og innleiða þessa stefnu?

Væri e.t.v. betra að sækjast eftir auknu samstarfi við ESB á þessu sviði og þannig verða aðili að öflugasta starfi á þessu sviði á heimsvísu? ESB er öflugasti aðilinn á heimsvísu, sem berst gegn loftslagsbreytingum. Þær eru viðurkenndar sem staðreynd þar á bæ, en ekki dregnar í efa, eins og t.d. af áhrifmiklum mönnum í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni sem vitnað er í hér að fram segir að ESB sé reiðubúið að auka samstarf við þá aðila sem málið snertir.

Fari svo að Ísland verði aðili að ESB, er hér að mínu mati komið eitt sviðið, þar sem Ísland gæti leikið lykilhlutverk í framtíðinni. Í góðu samstarfi við aðrar þjóðir sem málið snertir. Hitt er sjávarútvegur,  verndun og skynsamleg nýting fiskistofna. Um það verður ekki rætt frekar í þessari grein.

Hvort tveggja eru þetta hinsvegar atriði sem skipta eyjuna úti í miðju Atlantshafi gríðarlegu máli. Breytingarnar eru að gerast og við verðum að bregðast við þeim. Of seint í rassinn gripið, verður einfaldlega of seint í rassinn gripið! Látum það ekki henda okkur. Hugsum langt fram í tímann, að hætti Kínverja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þessi grein er góð og á að sína okkur hversvegna gömlu nýlenduveldin vilja nú hirða Ísland með inngöngu þess í ESB.ESB lætur aftaníossa sína um skítverkin í að ljúga íslendinga inn í ESB.Fyrrverandi forsætisráðherra Frakka var hér á ferð fyrir mánuði og varaði íslendinga við kínverjum og reyndar líka indverjum og suður-kóreumönnum.Tilgangur hans var sá einn að hræða íslendinga inn í ESB, svo ESB fengi aðgang að norðurslóðum svo það gæti ekki síst logið Grænland inn í ESB.Nei við ESB.

Sigurgeir Jónsson, 24.11.2012 kl. 13:23

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Evrópuherinn" kemur og leggur undir sig Sandgerði, sem er í Ameríku, að sögn Sigurgeirs Jónssonar.

Þorsteinn Briem, 24.11.2012 kl. 14:25

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta er góð grein og ætti að mynna okkur á að halda okkar striki. ESB er með mikinn áróður í Grænlandi og segir Grænlendingum upp í opið geðið á þeim að þeir þurfi sterkan aðila til að sjá um utanríkismál þeirra því þeir geta það ekki sjálfir þegar um Kína er um að ræða. Það sem engin hér á Íslandi setur í samhengi við þessar væntanlegu framkvæmdir í Grænlandi er að kínamenn þurfa hvíldarstað fyrir 5 til 10 þúsund manns sem munu rótera milli grænlands og kannski nýju kínversku nýlendunar á Grímmsstöðum. Sjáið það fólk mun eiga heima hér kynslóð af kynslóð. Það er leitt að Íslendingar eru svo lokaðir og ímyndunarsljóvir að sjá þetta ekki. Halda virkilega að Nubó sé að byggja upp túristaiðnaðin á Íslandi.

Valdimar Samúelsson, 24.11.2012 kl. 14:46

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Valdimar Samúelsson,

Grænland er í danska ríkinu, Danmörk sér um utanríkismál Grænlendinga og Danmörk er í Evrópusambandinu.

Þorsteinn Briem, 24.11.2012 kl. 14:56

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðild Íslands að Evrópusambandinu:

"Nefndin skoðaði ítarlega þau álitaefni er lúta að vatns- og orkuauðlindum, enda er þar um að ræða grundvallarþætti í auðlindanýtingu á Íslandi.

Meirihlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom EKKERT fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er EKKI viðfangsefni Evrópusambandsins, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna þar sem innri markaðslöggjöfin tekur EKKI á eignarhaldi.

Því er EKKI um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna.
"

"Meirihlutinn leggur áherslu á að náttúruvernd og sjálfbær nýting náttúruauðlinda landsins eigi áfram að vera meðal grundvallarhagsmuna Íslendinga."

"Grundvallaratriði er að EKKI ER HRÓFLAÐ VIÐ FULLVELDISRÉTTI ríkja. Það gildir einnig um ákvæði Lissabon-sáttmálans og annarra sáttmála Evrópusambandsins.

Jafnframt minnir meirihlutinn á að við gerð AÐILDARSAMNINGS Norðmanna á sínum tíma var sett inn BÓKUN um að þeir héldu yfirráðum yfir ÖLLUM sínum auðlindum."

Þorsteinn Briem, 24.11.2012 kl. 15:03

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Steini. Hvaða þjóð ert þú að tala um eftir að við göngumst undir lög ESB. Auðvita erum við frjálsir en við verðum að fara eftir þeirra lögum. Ef við brjótum þau þá verðum vð lögsóttir. Ekki satt.  

Valdimar Samúelsson, 24.11.2012 kl. 16:41

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Valdimar Samúelsson,

Lissabon-sáttmálanum er EKKI hægt að breyta nema með samþykki ALLRA aðildaríkja Evrópusambandsins.

Búið að segja þér það þúsund sinnum en þú munt heldur ekki ná því eftir þúsund skipti í viðbót, frekar en aðrir mórar og skottur.

Þorsteinn Briem, 24.11.2012 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband