Leita í fréttum mbl.is

Guðbjartur Hannesson um leitina að stöðugleikanum í DV

Guðbjartur HannessonGuðbjartur Hanesson, velferðarráðherra og formannsframbjóðandi Samfylkingar, skrifar grein um Evrópumálin í DV þann 25.1. Greinin hefst með þessum hætti: "

Eitt mesta þrætuepli íslensku þjóðarinnar undanfarin ár og áratugi er samband hennar við erlendar þjóðir. Fjárhagslegir hagsmunir, stundum sérhagsmunir, yfirgnæfa venjulega þá umræðu og gnýrinn er oft mikill. Umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu, sem í fyllingu tímans verður borin undir þjóðina í formi samnings, hefur í þessum klassíska anda orðið eitt stærsta bitbein stjórnmála nútímans. Stóryrði eru ekki spöruð og flokkar klofna. Grundvöllur þessarar umræðu er alls ekki nýr eins og Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur rekur svo ágætlega í bókinni Upp með fánann sem kom út fyrir síðustu jól. Þar fjallar höfundur um gríðarlega flokkadrætti og átök um uppkastið svonefnda árið 1908 sem fjallaði um samband okkar við Dani á tímum sjálfstæðisbaráttu.

Viðskipti og frelsi
En svo segir líka frá því í nýlegri grein í Vísbendingu eftir Ásgeir Jónsson hagfræðing að Jón forseti Sigurðsson hafi talið viðskipti og frelsi til milliríkjaviðskipta vera forsendu sjálfstæðis og fullveldis. Þar skipti gjaldmiðillinn ekki máli heldur stöðugleikinn. Kannast einhver við rökin?

Ásgeir rekur í greininni hálfgerða sorgarsögu krónunnar og segir: „Stóran hluta af þessum óstöðugleika má rekja til íslensku krónunnar sem varð að sjálfstæðum gjaldmiðli við stofnun fullveldis árið 1918 og það á sama tíma og alþjóðlegt myntstarf um gullfót steytti á skerjum. Þannig hófst saga gjaldeyrisvandræða og verðbólgu sem staðið hefur óslitið fram á okkar daga. Þessi óstöðugleiki sést vel á þeirri staðreynd að við fullveldi var íslenska krónan jafngild þeirri dönsku en nú þarf 2000 íslenskar krónur (ef myntbreytingin 1980 er tekin með í reikninginn) til þess að kaupa eina danska.“

Samfylkingin hefur af festu og einurð stutt aðild að Evrópusambandinu og vill leysa þjóðina úr álögum haftakrónu með upptöku evru sem staðist hefur mikla prófraun að undanförnu. Aðild er í senn efnahagsstefna Samfylkingarinnar en einnig stefna um pólitískt samstarf við vina- og viðskiptalönd á mörgum öðrum sviðum svo sem um öryggismál, menningar- og menntamál og raunhæfa leið til lækkunar vaxta og almenns verðlags. Staða viðræðnanna og aðildarumsóknarinnar gerir að verkum að hún verður að kosningamáli. Ég er ekki tilbúinn til þess að falla frá þessum víðsýnu og almennu markmiðum flokks míns eftir þingkosningar í vor."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband