Leita í fréttum mbl.is

Færri höfuðverkir

Benedikt Jóhannesson ritstjóri skrifar áhugaverðan pistil í nýjast hefti Vísbendingar um upptöku evru á Möltu og samanburð við aðstæður hér á landi. Pistillinn fylgir hér með góðfúslegu leyfi höfundar;

Í hinu virta hagfræðiriti The Economist birtist grein 14. júlí síðastliðinn um inngöngu Möltu í evrusamstarfið. Í greininni kom fram að Malta teldi sig eiga samleið með Evrópuþjóðum og að svo hefði verið um langan aldur. Seðlabankastjóri Möltu, Michael Bonello, sagði: „Fyrir þjóð sem á í miklum viðskiptum eins og við er þetta einum höfuðverknum minna.“ Og áfram segir í greininni: „Þrír fjórðu hlutar viðskipta Möltu eru við Evrópusambandið. Aðild að evrunni leiðir til þess að ekki þarf lengur að greiða fyrir það að skipta gjaldmiðli sem er hvergi notaður nema á lítilli Miðjarðarhafseyju. Þetta mun hjálpa túristum frá evrusvæðinu og stækkandi hópi útlendra fyrirtækja sem dragast að sólríku loftslagi og vel menntuðu, enskumælandi vinnuafli. Ferlið sem Malta þurfti að ganga í gegnum til þess að mega ganga í klúbbinn var jafnvel enn betri ástæða fyrir því að taka upp evruna. ... Til þess að geta gengið í evrusamfélagið varð [ríkisstjórnin] að beita sparnaðarráðstöfunum sem hefðu verið óhugsandi ef ekki hefði verið fyrir inngönguskilyrðin.“

Umræðan um evruna hér á landi einkennist oft af því að menn missa af meginatriðunum. Þau eru tvö: Í fyrsta lagi verða Íslendingar að ákveða að þeir vilji taka myntina upp. Öll rök Möltu, sem hér að ofan eru talin, gilda á Íslandi. Aðalrökin gegn evru eru að með henni sé ekki hægt að breyta genginu ef illa viðri hér á landi. Þeir sem þannig tala muna ekki að gengi krónunnar ræðst af framboði og eftirspurn. Það er ekki lengur á færi stjórnmálamanna að stjórna því með handafli. Þó að svo væri er það ekki geðfelld hugsun að stjórnmálamenn flytji fjármuni úr einum vasa í annan en það er einmitt það sem gerist þegar gengið breytist. Í öðru lagi verða Íslendingar að uppfylla ákveðin skilyrði áður en hægt er að tala um að taka upp evru. Þessi skilyrði kveða meðal annars á um litla verðbólgu og lágt vaxtastig. Þau eru ekki uppfyllt núna.

Það er eðlilegt að Íslendingar stefni að því að verða fullgildir aðilar að evrusamstarfinu en ekki óvirkir fylgihnettir þó að það kunni að vera mögulegt. bj


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband