Leita í fréttum mbl.is

Bækur um evru og skorað á ríkistjórnina að sækja um aðild að ESB

Í gær gaf Háskólinn á Bifröst út bókina Hvað með evruna? eftir Eirík Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði, og Jón Þór Sturluson, dósent í hagfræði. Bókin er afrakstur tveggja ára rannsóknar sem gerð var að ósk Alþýðusambands Íslands og Samtaka iðnaðarins. Í bókinni eru helstu álitamál varðandi hugsanlega innleiðingu evru á Íslandi greind á einfaldan og aðgengilegan hátt. Fjallað er um myntsamruna í Evrópu og skoðað hvaða áhrif innganga í Evrópusambandið og upptaka evru hefðu á íslenskt efnahagslíf og samfélag.

Helstu niðurstöður bókarinnar eru að Ísland hefur aðeins tvo raunhæfa kosti í peningamálum. Annaðhvort að viðhalda núverandi stefnu með sjálfstæðri krónu á floti eða að ganga í Efnahags- og myntbandalag Evrópu og taka upp evru. Ef ríki hefur á annað borð kost á fullri aðild að myntbandalagi Evrópu er vandséð hvaða hag það hefur af því að taka evruna upp einhliða. Líkast til mun taka alls fjögur ár að semja um aðild að ESB og innleiða evru á Íslandi að því loknu. Evran er því langtímamál og mun ekki duga sem lausn á skammtímavanda í íslensku efnahagslífi. Í bókinni er fjallað um hvaða áhrif innleiðing evru hefði fyrir íslenskt efnahagslíf og samfélag. Stutta svarið er nokkuð skýrt: Í fyrsta lagi verður hagkerfið stöðugra, vextir lægri og viðskiptakostnaður minni. Þá má gera ráð fyrir að viðskipti aukist þegar gengisáhætta minnkar. Verðlag ætti að lækka og kaupmáttur að aukast.

Samtök iðnaðarins fjölluðu um þessi mál á Iðnþingi í gær, og eins og sjá mátti í kvöldfréttum stöðvar2 þá skoruðu samtökin á ríkistjórnina að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Formaður samtakanna, Helgi Magnússon, benti á að Íslendingar hefðu þegar innleitt 3/4 af regluverki sambandsins, og sýnt var viðtal við Olli Rehn, stækkunastjóra ESB, þar sem hann greindi frá því að aðildarsamningaviðræður myndu taka 9-12 mánuði og inngönguferlið taki ekki nema um 2 ár. Í samantekt Vísir.is um Iðnþingið kemur fram að SI vona að nýrri Evrópunefnd verði falið það hlutverk að "móta samningsmarkmið, fara í saumana á samningaferlinu, undirbúa rök vegna sérstöðu þjóðarinnar og hefjast handa við að finna viðunandi lausnir."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband