Leita í fréttum mbl.is

MBL: "Orðinn leiður á þjóðsagnaspuna um Evrópusambandið"

Pétur J. EiríkssonPétur J. Eiríksson, fyrrum yfirmaður Icelandair Cargo, skrifar góða grein um Evrópumálin í Morgunblaðið í dag. Þar bregst Pétur við skrifum Tómasar Inga Olrich, fyrrum menntamálaráðherra, sem hefur látið í sér heyra að undanförnu um sama málaflokk á síðum Morgunblaðsins. Pétur segir í grein sinni:

"Eins og vinur minn, Tómas Ingi Olrich, bendir á í ágætri grein hér í Morgunblaðinu sl. laugardag eru margvísleg og veigamikil rök fyrir því að Ísland eigi að gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Hann nefnir þar og hefur eftir aðildarsinnum mikilvægi þess að skipa okkur í sveit með öðrum Evrópuþjóðum, hafa tækifæri til að móta framtíð Evrópu og eiga í nánu sambandi við þær þjóðir sem búa við mest og best lýðræði, mannréttindi, velferð, öryggi og hagsæld. Þetta eru góð rök sem Tómas bendir okkur á en þó engan veginn tæmandi. Reyndar telur hann okkur hafa fátt jákvætt fram að færa gagnvart öðrum Evrópuþjóðum á meðan við sjálf erum ekki lengra komin með tiltekt heima hjá okkur. Þar er ég Tómasi ósammála og tel okkar reisn meiri og heimóttaskap minni en hann vill vera láta. Reyndar hefur það verið svo að stærstu framfaraspor okkar höfum við stigið samhliða nánari tengslum við önnur lönd og alþjóðleg samtök. Má þar nefna aðild okkar að varnarsamstarfi vestrænna þjóða, samstarf Norðurlanda, aðild að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu."

Síðan heldur Pétur áfram og snýr sér að nokkrum rökum fyrir aðild Íslands að ESB og byrjar á gjaldmiðlinum:

"Sú þjóðsaga er sögð að hún sé bjargvættur alls í kjölfar hrunsins á meðan raunsagan er sú að hrun hennar gerði kreppuna dýpri en annars hefði orðið. Hrun krónunnar hefur engu bjargað, útflutningur, hvorki sjávarútvegs né stóriðju, hefur ekki aukist sem hefði átt að gerast ef kenningin gengi upp. Ferðaiðnaðurinn var löngu farinn að vaxa með tveggja stafa tölum áður en gengið hrundi og bað ekki um gengisfellingu. Hrun krónunnar hefur einungis orðið til að auka á skuldakreppu og skerða lífskjör með því að laun almennings eru færð atvinnurekendum án þess að nokkurt tilefni væri til. Nú blasir við gamla sagan um aukna verðbólgu, háa vexti, höft og láglaunahagkerfi samfara lítilli framleiðni og tortryggni umheimsins. Aðildarsinnar vilja ekki gera þessa fortíð að framtíð og vilja því taka upp nýjan gjaldmiðil sem gæti gerst með aðild að ESB. Einangrunarsinnar mættu gjarnan færa fram aðra lausn ef til er."

Síðan víkur Pétur að rökum aðildarsinna og segir:

"Aðildarsinnar vilja losa íslenskan landbúnað úr því kerfi stöðnunar sem nú lamar hann. Þeir sjá betra skjól fyrir hann í styrkjakerfi ESB, sem miðar að því að viðhalda byggðum í sveitum, en í framleiðslustyrkjum í anda Sovétríkjanna sem engu hafa skilað nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum. Hvað vilja einangrunarsinnar gera?

Aðildarsinnar vilja sjá matarverð færast í átt þess sem er í Evrópu. Það er ekki lögmál að verðlag sé hærra á Íslandi en annars staðar.

Aðildarsinnar vilja aukið vöruval í verslunum og vilja losna við gamaldags hugsun um einokun og vernd. Það er heldur ekki lögmál að vöruval eigi að vera minna hér en annars staðar frekar en að íslenskir atvinnuvegir geti ekki keppt. Þeir vilja að neytendur geti pantað sér vörur erlendis frá án þess að opinberir embættismenn þurfi að skipta sér af eða að þörf sé á að greiða margvísleg aukagjöld.

Aðildarsinnar vilja létta kostnaði af íslenskum útflytjendum með því að aflétt verði landamæraeftirliti með íslenskum vörum. Þeir vilja að Íslendingar njóti góðs af fjölmörgum viðskiptasamningum sem Evrópusambandið hefur gert við aðrar þjóðir.

Aðildarsinnar vilja að Íslendingar geti lifað og verið eins og aðrar Evrópuþjóðir, notið sama frjálsræðis en þurfa ekki að vera settir undir höft, takmarkanir og aukin ríkisafskipti sem því miður virðast fara vaxandi í okkar samfélagi.

Þeir vilja ekki undirgangast aukið skrifræði, hvorki í Brussel né Reykjavík, en margt bendir til að það síðara sé orðið minna skilvirkt og þyngra en það fyrra.

Ég er einn þeirra sem telja margt jákvætt við röksemdir aðildarsinna og er orðinn leiður á þjóðsagnaspuna um Evrópusambandið."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá honum að skjóta aðeins á Samfylkinguna.

Hún verður bráðlega að fara að sýna að hún vill ganga í ESB. 

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 17.8.2011 kl. 19:02

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Þið sleppið lokaorðum Péturs, þar sem hann andmælir aukinni miðstýringu.

Enda hefði hann ekki getað verið óheppnari með tímasetningu, að birta þetta daginn eftir að Merkel og Sarkozy lögðu fram tillögur um aukna miðstýringu í efnahagsmálum.

Haraldur Hansson, 17.8.2011 kl. 21:25

3 identicon

Haraldur:  Miðstýring og ekki miðstýring.  Þegar menn eru að vinna að sama markmiði, þá þurfa menn að vera samstiga.  Það er eins með þjóðir.

ESB er lýðræðislegt "fyrirbæri" þó svo að annað sé sagt á Íslandi. 

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 17.8.2011 kl. 21:29

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Smá pæling: Hvers vegna er svona algengt að aðildarsinnar noti uppnefni um þá sem ekki eru þeim sammála í Evrópumálum?

Evrópusamtökin kalla þá iðulega "Nei-sinna" hér á blogginu, Þorsteinn Pálsson kallar þá "Evrópuandstæðinga" eins kjánalegt og það nú er, og Pétur þessi Eiríksson notar orðið "einangrunarsinnar".


Ég veit að uppnefni eru oft hálmstrá þess sem hefur vondan málstað að verja og ég veit líka að málstaður ykkar er virkilega slæmur. En í ljósi þess að Evrópusamtökin hafa óskað eftir málefnalegri umræðu væri til bóta að vera örlítið málefnalegri. Það kostar ekkert.

Haraldur Hansson, 17.8.2011 kl. 21:32

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Haraldur Hansson,

Það er beinlínis HLÆGILEGT þegar þú sakar aðra um að vera ómálefnalegir þegar ÞÚ OG FJÖLMARGIR AÐRIR andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu birtið hér SÖMU rangfærslurnar hvað eftir annað, þrátt fyrir að hafa MARGSINNIS verið LEIÐRÉTTIR.

DÆMI:


"Það er ekki gott að þurfa að beita verndartollum, en vonum að Jón Bjarnason stigi ekki skrefi lengra og banni innflutning á landbúnaðarvörum, eins og ESB gerði á Möltu.

Maltverjar þurftu að gjöra svo vel að hætta að flytja inn kjöt við inngöngu, sem ekki var frá ESB löndum."

Haraldur Hansson
, 27.8.2010 kl. 01:15"

"INNFLUTNINGSBANN er nú EINGÖNGU sett á AF HEILBRIGÐISÁSTÆÐUM."

Matarverð á Íslandi og í Evrópusambandinu - Hagfræðistofnun árið 2004, sjá bls. 9


"Evrópusambandið er TOLLABANDALAG.

ENGIR TOLLAR eru lagðir á þær vörur sem fluttar eru MILLI LANDA INNAN SAMBANDSINS.


Gengi Ísland í Evrópusambandið yrðu TOLLAR á vörur frá Evrópusambandsríkjum FELLDIR NIÐUR en þaðan kemur ríflega helmingur alls innflutnings."

Hver yrðu áhrif aðildar á íslenska neytendur?

Þorsteinn Briem, 17.8.2011 kl. 22:25

6 Smámynd: Geir Magnússon

Það er nú hver síðastur að ganga í EB, það mun ekki lifa óbreytt út árið 2012. Afætulöndin verða rekin fyrir vanskil og slóðaskap. Ef einhver vill veðja um þetta þá lát mig vita í netfang coot1@verizon.net

Geir Magnússon, 17.8.2011 kl. 23:09

7 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Hans: Ert þú með eitthvað betra orð yfir ykkur Nei-sinna en einmitt það? Þið segið nei við ESB, nei við viðræðum og væntanlega Nei við samningi, hvernig sem hann kemur til með líta út og nei við því að leyfa þjóðinni að kjósa um hann!

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 17.8.2011 kl. 23:31

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geir Magnússon,

ÍSLENDINGAR ERU
HEIMSINS MESTU AFÆTUR.

Samt sem áður er Evrópusambandið í viðræðum við Ísland um aðild að sambandinu.

Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja voru að sögn Ríkisskattstjóra 22.675 milljarðar króna í árslok 2008, sem er andvirði 170 Kárahnjúkavirkjana.

Þorsteinn Briem, 17.8.2011 kl. 23:33

9 Smámynd: Örn Ægir Reynisson

Hvers vegna þessi þrúgandi þögn um aðildar­viðræðurnar? Hvað er verið að fela?


17. ágúst 2011 klukkan 07:57

Í gær var haldinn lokaður fundur í utanríkismálanefnd Alþingis. Nefndarmenn eru bundnir trúnaði og mega ekkert segja. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að alþingismenn fái litlar upplýsingar um stöðu aðildarferils Íslands að ESB. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir í Morgunblaðinu að „sér sýnist ferlið eigi eftir að tefjast talsvert vegna þess hvaða kafla eigi eftir að opna í viðræðunum, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarkafla.“

Hvað á þessi þögn að þýða um þetta stóra mál? Hvernig stendur á þessari þögn? Hvað má ekki segja? Af hverju á eftir að opna þá kafla, sem Bjarni Benediktsson nefnir? Er einhver fyrirstaða í sambandi við þá? Er verið að leyna einhverju? Eða öllu heldur: Hverju er verið að leyna?

Þingmenn stjórnarflokkanna hljóta að sjá að hver svo sem afstaða manna er til aðildarumsóknarinnar gengur þessi leynd ekki lengur. Hún er þinginu til skammar. Hún er stjórnarflokkunum til skammar.

Er þetta ekki sama fólk og hefur krafizt opins samfélags og gagnsærrar stjórnsýslu?

PS: „Ekki náðist í Árna Þór“ segir í frétt Morgunblaðsins í dag! Af hverju er Árni Þór í felum?

Örn Ægir Reynisson, 17.8.2011 kl. 23:36

10 Smámynd: Örn Ægir Reynisson

Sjö röksemdum ESB-aðildarsinna svarað


Björn Bjarnason
17. ágúst 2011 klukkan 19:12

Hið einkennilega við umræður aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er að enginn stjórnmálamaður gengur fram fyrir skjöldu og lýsir því afdráttarlaust hvers vegna Íslendingar skuli stíga þetta örlagaríka skref. Eftir upphaf aðildarviðræðna kjósa stjórnmálamenn að láta hjá líða að færa rök fyrir aðildinni en halda fast í áróðurinn um „rétt“ fólks til að segja álit sitt á niðurstöðu í aðildarviðræðunum og hún skuli lögð undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í þessum áróðri er undan skilið að sameiginleg niðurstaða í viðræðum fulltrúa ESB og Íslands næst ekki nema allt falli í einn farveg, með öðrum orðum að Íslendingar lagi sig að kröfum ESB sem eru í eðli sínu einhliða enda um það að ræða að íslenskt stjórnkerfi og þjóðfélag lagi sig að ramma sem settur er 27 eða 28 ríkjum með Króatíu, sem væntanlega verður aðili að ESB árið 2013.

Að sjálfsögðu vita þeir sem standa í fararbroddi í viðræðunum við ESB að um einhliða ramma er að ræða af hálfu Evrópusambandsins. Til að komast hjá þeim skerjum sem eru á leiðinni er einfaldlega sagt að samið verði um sérlausnir fyrir Ísland. Þeirri leið til stuðnings er vitnað til þess að Finnar hafi fengið heimild til að greiða aukalega styrki úr eigin vasa til bænda á afskekktum norðurbyggðum enda samþykki framkvæmdastjórn ESB reglur um styrkina. Þá er bent á að Maltverjar megi nota smábáta til veiða á um 1.000 lestum á fiski innan 25 mílna frá Möltu.

Með þessum inngangi fagna ég því að aðildarsinni, Pétur J. Eiríksson hagfræðingur, skuli hafa ritað grein í Morgunblaðið 17. ágúst til að kynna rök aðildarsinna sem eru annars eðlis en þau að málið snúist um að „dílinn“ beri að leggja undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér skal litið á rök Péturs, hann segir:

1. „Nú blasir við gamla sagan um aukna verðbólgu, háa vexti, höft og láglaunahagkerfi samfara lítilli framleiðni og tortryggni umheimsins. Aðildarsinnar vilja ekki gera þessa fortíð að framtíð og vilja því taka upp nýjan gjaldmiðil sem gæti gerst með aðild að ESB. Einangrunarsinnar mættu gjarnan færa fram aðra lausn ef til er.“

Ástæða er til að staldra þarna við tvennt.

Í fyrsta lagi er alrangt að kalla þá „einangrunarsinna“ sem eru andvígir aðild Íslands að ESB. Fyrir því er auðvelt að færa rök að Ísland yrði þá fyrst einangrað ef til aðildar að ESB kæmi. Stjórnkerfið tæki alfarið að snúast um það sem er að gerast í Brussel. Hvorki yrði mannafli, fé né tími aflögu til að leggja rækt við önnur alþjóðleg samskipti. Framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra ESB tækju að sér íslensk málefni út á við og slegið yrði slöku við þátttöku í NATO, Norðurlandaráði, Norðurskautsráðinu og jafnvel Sameinuðu þjóðunum. Réttur Íslands sem strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hyrfi til ESB. Tvíhliða samskipti við Bandaríkin, Kanada, Rússland og Kína mundu mæta afgangi og jafnvel einnig við Færeyjar, Grænland og Noreg sem yrðu áfram utan ESB. Íslendingar eru í EFTA, hafa gert EES-samninginn við ESB og auk þess gerst aðilar að Schengen-samstarfinu. Að kenna stuðning við þetta alþjóðasamstarf við einangrun er fráleitt.

Í öðru lagi er rangt að þeir sem vilja standa utan evru-lands hafi ekki boðað aðra lausn í gjaldmiðilsmálum en að ganga í ESB og taka upp evru. Bent hefur verið á upptöku Bandaríkjadollars og færð hafa verið skýr rök fyrir því að taka upp Kanadadollar. Þá ber að halda því til haga að síður en svo eru allir sammála um að kasta eigi krónunni fyrir róða.

Í öðru lagi segir Pétur J. Eiríksson:

2. „Aðildarsinnar vilja losa íslenskan landbúnað úr því kerfi stöðnunar sem nú lamar hann. Þeir sjá betra skjól fyrir hann í styrkjakerfi ESB, sem miðar að því að viðhalda byggðum í sveitum, en í framleiðslustyrkjum í anda Sovétríkjanna sem engu hafa skilað nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum. Hvað vilja einangrunarsinnar gera?“

Af þessum orðum mætti draga þá ályktun að landbúnaður sé með miklum blóma í ESB-ríkjunum. Því fer víðs fjarri að þar uni bændir glaðir við sitt. Pétur ætti að færa rök fyrir því að framleiðslustyrkir til íslensks landbúnaðar hafi engu skilað „nema niðurníðslu í sveitum, einokun og tómum hillum í verslunum“. Þetta og að líkja íslensku landbúnaðarkerfi við Sovétríkin þar sem Stalín gekk að bændum dauðum í orðsins fyllstu merkingu með samyrkjubúunum er argasta níð og ekki framlag til málefnalegra umræðna. Er með ólíkindum að aðildarsinnar telji sig þurfa að seilast svo langt í rangfærslum til að fegra málstað sinn. Víst er að vilji menn umbætur í íslenskum landbúnaði er mun skynsamlegra að vinna að þeim á eigin forsendum í stað þess að fá formúluna frá Brussel. Hún á einfaldlega ekki við hér á landi en gengur hins vegar að íslenskum landbúnaði dauðum í núverandi mynd og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar um aldir.

Í þriðja lagi segir Pétur J. Eiríksson:

3. „Aðildarsinnar vilja sjá matarverð færast í átt þess sem er í Evrópu. Það er ekki lögmál að verðlag sé hærra á Íslandi en annars staðar.“

Það er einfaldlega ekkert lögmál að matarverð sé hærra hér á landi en annars staðar. Hinn 29. júní 2011 birtist þessi frétt á Evópuvaktinni:

„Vorið 2009 var hlutfallslegt verðlag matvæla á Íslandi 4% hærra en að meðaltali í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, að því er segir í frétt frá Hagstofu Íslands, 29. júní 2010. Sé þetta mikil breyting frá könnun, sem gerð var árið 2006, þegar verðlag matvæla hefði verið hæst á Íslandi, eða 61% hærra en í Evrópusambandinu.

Ein helsta röksemd þeirra, sem mæla með aðild Íslands að ESB, hefur verið sú, að með aðild stórlækki verðlag á matvælum hér á landi.

Hér fer tilkynning Hagsofu Íslands í heild:

“Niðurstöður úr evrópskri könnun á verði matvæla, áfengis og tóbaks, sem gerð var vorið 2009, hafa verið gefnar út og er að finna á vef Hagstofu Íslands. Í þeim ríkjum sem þátt tóku var hlutfallslegt verðlag matvæla á Íslandi 4% hærra en að meðaltali í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Það er mikil breyting frá fyrri könnun, sem gerð var árið 2006, en þá var verðlag hæst á Íslandi eða 61% hærra en í Evrópusambandinu. Breytingin skýrist fyrst og fremst af gengisbreytingum en í könnuninni er verð á sambærilegri körfu matvæla borið saman í evrum.

Í könnuninni nú var verðlag hæst í Noregi, 54% hærra en meðaltalið, í Danmörku 39% hærra og í Finnlandi 20% hærra. Í Svíþjóð var verðlag hið sama og á Íslandi. Samanburðurinn náði til Íslands auk 36 annarra Evrópuríkja, það er 27 núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins, Noregs, Sviss, Albaníu, Bosníu Hersegóvínu, Króatíu, Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalands og Tyrklands. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, hafði umsjón með könnuninni en Hagstofa Íslands sá um framkvæmd hennar á Íslandi. Í könnuninni er notað meðalverð og -gengi ársins 2009.““

Í fjórða lagi segir Pétur J. Eiríksson:

4. „Aðildarsinnar vilja aukið vöruval í verslunum og vilja losna við gamaldags hugsun um einokun og vernd. Það er heldur ekki lögmál að vöruval eigi að vera minna hér en annars staðar frekar en að íslenskir atvinnuvegir geti ekki keppt. Þeir vilja að neytendur geti pantað sér vörur erlendis frá án þess að opinberir embættismenn þurfi að skipta sér af eða að þörf sé á að greiða margvísleg aukagjöld.“

Það þarf nokkurt hugmyndaflug til að ímynda sér að það sé undir aðild að ESB komið hve mikið vöruval sé í íslenskum verslunum. Hugmyndaauðgi kaupmanna og áhugi viðskiptavina ræður hvernig vöruvali er háttað. Aðild að ESB kann hins vegar að þrengja svigrúm íslenskra kaupmanna frá því sem nú er. Hér eru seldar innfluttar vörur frá Bandaríkjunum sem framkvæmdastjórn ESB lítur hornauga vegna regluverks Evrópusambandsins. Afskipti opinberra embættismanna af því sem selt er í verslunum minnka síður en svo við aðild að ESB. Í raun er miklu auðveldara að draga úr þeim á einhliða hátt utan ESB heldur en þegar valdið verður í höndum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel.

Í fimmta lagi segir Pétur J. Eiríksson:

5. „Aðildarsinnar vilja létta kostnaði af íslenskum útflytjendum með því að aflétt verði landamæraeftirliti með íslenskum vörum. Þeir vilja að Íslendingar njóti góðs af fjölmörgum viðskiptasamningum sem Evrópusambandið hefur gert við aðrar þjóðir.“

Ákvarðanir um kostnað sem fylgir útflutningi eða eftirliti með honum falla undir ríkisstjórn og alþingi og eru alls ekki bundnar við aðild Íslands að ESB. Fríverslunarbandalag Evrópu, EFTA, hefur gert fjölmarga fríverslunarsamninga auk þess sem Íslendingar hafa unnið að gerð tvíhliða samninga eins og t.d. við Kínverja. Þeim viðræðum lauk þegar íslenska ríkisstjórnin tók stefnu á aðild að ESB.

Í sjötta lagi segir Pétur J. Eiríksson:

6. „Aðildarsinnar vilja að Íslendingar geti lifað og verið eins og aðrar Evrópuþjóðir, notið sama frjálsræðis en þurfa ekki að vera settir undir höft, takmarkanir og aukin ríkisafskipti sem því miður virðast fara vaxandi í okkar samfélagi.“

Aðildarsinnar fengu ríkisstjórn sem sótti um aðild að ESB og greiddu fyrir það með því að sitja undir stjórnarháttum í þeim dúr sem Pétur lýsir í sjötta lið sínum. Þeir sem eru andvígir höftum, takmörkunum og auknum ríkisafskiptum eru að meirihluta einnig andvígir aðild að ESB. Spurningin sem Pétur þarf að svara snýst um hvort hann vilji halda áfram stuðningi við sjónarmið Samfylkingarinnar í ESB-málum og samstarf hennar við VG til að ná markmiðum sínum eða hvort hann vill vinna að því að málsvarar frelsis haldi um stjórnartaumana.

Í sjöunda lagi segir Pétur J. Eiríksson:

7. „Ég er einn þeirra sem telja margt jákvætt við röksemdir aðildarsinna og er orðinn leiður á þjóðsagnaspuna um Evrópusambandið. Það er til dæmis kominn tími til að grafa goðsögnina um að sambandið stefni í ofurríki og aukna miðstýringu. Ekkert aðildarlandanna stefnir að slíku. Ekkert. Þeir sem segja að vilji til að auka aga í ríkisfjármálum evruríkjanna feli í sér aukna miðstýringu sambandsins eru annaðhvort illa lesnir eða vilja ekki vita betur.“

Hefði Pétur frestað ritun greinar sinnar fram yfir 16. ágúst 2011 hefði hann orðið að breyta lokafullyrðingu sinni um að það sé „þjóðsagnaspuni“ og „goðsögn“ að ekkert aðildarlanda ESB stefni í „ofurríki og aukna miðstýringu“. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, komu saman í París þriðjudaginn 16. ágúst og ákváðu að bjarga evrunni með því sem á frönsku er nefnt gouvernement économique á evru-svæðinu, það er efnahagsríkisstjórn. Þar er um að ræða yfirþjóðlega stjórn í evru-ríkjunum í efnahags- og ríkisfjármálum. Verði þessi tillaga valdamestu þjóðarleiðtoga evru-ríkjanna að veruleika myndi miðstýring stóraukast og að lokum verða til „ofurríki“ innan ESB. Ísland ætti ekki annan kost en að ganga í þetta „ofurríki“ því að aðildarsinnar telja mestu skipta að komast í Evrulandið sem Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, nefnir svo en þau Merkel og Sarkozy vilja að hann stjórni fundum þeirra sem gegna forystu í ófjárráða ríkjum innan Evrulandsins.

Hér hef ég rætt sjö röksemdir Péturs J. Eiríkssonar hagfræðings og því miður ekki fundið eina sem mér finnst standast nánari skoðun. Hitt er síðan táknrænt og varla tilviljun þegar aðildarsinni sest niður til að ræða rökin fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu kýs hann að minnast ekki á sjávarútvegsmál. Þau eru hins vegar helsti þröskuldurinn á aðildarleiðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að gera hlé á ESB-aðildarviðræðunum. Evrópusambandið hefur annað yfirbragð núna en sumarið 2009 þegar alþingi samþykkti aðildarumsóknina. Allar skoðanakannanir hafa síðan sýnt að meirihluti þjóðarinnar er á móti aðild. Þegar ég kynni þessa skoðun mína í samtölum fæ ég gjarnan svarið: „Já, en viltu ekki ljúka málinu og láta greiða atkvæði um það. Íslendingar munu aldrei samþykkja aðild.“

Við þessu á ég þetta svar: Það mun aldrei liggja fyrir sameiginleg niðurstaða í viðræðum fulltrúa Íslands og ESB nema íslensk stjórnvöld hafi gengið á bak orða sinna um gæslu íslenskra hagsmuna eins og þeir hafa verið kynntir, til dæmis í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis. Ég er á móti því að þannig verði gengið til verks. Að mínu áliti eru stjórnvöld þegar komin inn á þá braut eins og þögnin um það sem gerðist á fundi utanríkismálanefndar alþingis 16. ágúst sýnir. Þar átti að spyrja utanríkisráðherra um viðkvæmustu þætti viðræðnanna við ESB og allir kjósa að þegja um það sem hann sagði. Þetta er ekki gert vegna íslenskra hagsmuna heldur í þágu þeirra sem vilja halda leynd yfir því sem er að gerast í viðræðunum þar sem íslenska viðræðunefndin er skref fyrir skref að ganga að skilyrðum ESB. Að túlka reglur alþingis um trúnað á þann veg að þær leiði til þagnar um þróun í þessa átt er fráleitt.

Örn Ægir Reynisson, 17.8.2011 kl. 23:40

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ornolfur Arnason "Ég helt að erlendir bankar hefðu tapað 7-8 þúsund milljörðum á íslenska bankahruninu."

Thorvaldur Gylfason
"Rétt hjá Örnólfi. Útlendingar töpuðu fimmfaldri landsframleiðslu, Íslendingar töpuðu tvöfaldri landsframleiðslu.

Skellurinn í heild var sem sagt sjöföld landsframleiðsla, sem er heimsmet.
"

Þorsteinn Briem, 17.8.2011 kl. 23:41

12 Smámynd: Örn Ægir Reynisson

Kratar og aðrir aðildarsinnar farið að gera ykkur grein fyrir að Íslendingar eru ekki á leið inní Evrópusambandið þessi Landráð verða stöðvuð

Örn Ægir Reynisson, 17.8.2011 kl. 23:44

13 Smámynd: Örn Ægir Reynisson

Steini Briem  efnahagsböðlar evrópusambandsin féngu féð að láni á lágum vöxtum keyptu hér allt upp rændu og rupluðu og afhentu síðan erlendum kröfuhöfum restina af góssinu með esb umsóknini

Örn Ægir Reynisson, 17.8.2011 kl. 23:49

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Örn Ægir Reynisson,

Það er harla einkennilegt af þér að kalla MEIRIHLUTA Svía, Dana og Finna LANDRÁÐAMENN.

Þú skrifar hér Í ANDA Anders Breivík.

Þorsteinn Briem, 17.8.2011 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband