Leita í fréttum mbl.is

Viðskiptamenn ársins, Hilmar og Jón sammála: Ísland þarf ESB-aðild og nýjan gjaldmiðil

Hilmar Veigar PéturssonJón SigurðssonMarkaðurinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, valdi viðskiptamenn ársins í dag. Fyrir valinu urður Hilmar V. Pétursson, forstjóra töluleikjafyrirtækisins CCP og Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, sem framleiðir stoðtæki. Bæði þessi fyrirtæki eru leiðandi á heimsvísu. Þeir Hilmar og Jón ræða ýmis mál, þar á meðal Evrópumál og gjaldeyrismál. Orðrétt segir í viðtalinu:

,,Vilja aðild að esb

Þeir Jón og Hilmar, sem hlutu jafn mörg stig, voru ekki að hittast í fyrsta sinn þegar þeir settust niður með blaðamanni Markaðarins"Við höfum oft spjallað saman um rekstur fyrirtækja hér og framtíðarhorfur," segir Jón og rifjar upp þegar þeir, ásamt forráðamönnum Marels og samheitalyfjafyrirtækisins Actavis, funduðu með ráðherrum, þingmönnum og ýmsum öðrum í stjórnsýslunni á fyrstu fjórum mánuðum ársins um leiðir út úr kreppunni með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

"Við vildum koma sjónarmiðum okkar áleiðis. Það er þetta klassíska, aðild að Evrópusambandinu (ESB) og upptaka evru," bætir Hilmar við. Önnur mál á dagskrá voru eðli bankastarfsemi hér í framtíðinni, afnám gjaldeyrishafta og samskipti við útlönd.

Þeir segja ráðamenn hafa tekið vel í aðild Íslands að ESB á fyrri hluta árs. Eftir því sem leið á árið hafi viðhorfið snúist við.

"Við reyndum að koma þessari umræðu upp úr þeim hjólförum sem hún var í. Undirtektirnar voru ótrúlega jákvæðar og í engu hlutfalli við það sem seinna varð," segir Jón. "Nú er engu líkara en við séum að fleka fjallkonuna."

Þeir eru sammála um að rekstrarhorfur alþjóðlegra fyrirtækja sem staðsett eru hér á landi séu mjög slæmar ef ekki verði mörkuð stefna til framtíðar.

Hilmar segir í raun aldrei hafa verið mögulegt að ræða um rekstrarhorfur fyrirtækja í því sveiflukennda ástandi sem hér hafi verið um áratuga skeið. "Ég hef oft líkt uppbyggingu í atvinnustarfsemi hér við það að búa í árfarvegi. Hann er frjósamur og góður. Þar er fullt af sprotum og mikil gróska. En svo fer að rigna. Þá kemur flóð og það ryður öllum sprotunum í burtu. Þegar grynnkar aftur í ánni er aftur talað um hvað farvegurinn er góður. Svona gerist þetta á um tíu ára fresti. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónur en ekkert virðist virka," segir hann og leggur áherslu á nauðsyn þess að finna varanlega lausn á gjaldmiðlamálum Íslendinga. Hann bendir sömuleiðis á að myntsvæði heimsins hafi stækkað síðustu ár og orðið einfaldari. Það haldist í hendur við alþjóðavæðinguna og aukinn hraða í samskiptum og viðskiptum.

Péturskrónan á Bíldudal

Hilmar bendir á að krónan hafi virkað vel í einangruðu samfélagi þar sem viðskipti við útlönd voru lítil sem engin.

Þeir Jón taka Péturskrónur sem dæmi. Sú króna var mynt sem athafna- og kaupmaðurinn Pétur Thorsteinsson á Bíldudal notaði í viðskiptum sínum við heimamenn í kringum síðustu aldamót. Þær hafi gegnt hlutverki sínu í samfélaginu sem þá var mjög einangrað. "Þetta hrundi auðvitað allt hjá honum þegar fólk gat farið yfir á Patreksfjörð," segir Jón og bendir á að sama máli gegni um íslensku krónuna. Hún sé óvirkur gjaldmiðill í alþjóðlegum viðskiptum.

"Krónan hefur nýst okkur jafn vel og svarthvíta sjónvarpið á sínum tíma. Það var gott en nú er bara komið litasjónvarp. Við getum haldið áfram og talað um hvað árfarvegurinn er frjór og góður og vonað að það fari ekki að rigna. Eða við gerum það sama og aðrar þjóðir í kringum okkur hafa komist að og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi."

Einkennileg andstaða

Þeir Jón og Hilmar furða sig á þeirri andstöðu sem orðin er gegn aðild Íslands að ESB. Framtíðarleið sem þeir telja farsæla til frambúðar. "Það er partur af samfélaginu sem virðist hafa stóra hagsmuni af því að beita sér gegn ESB og beitir öllum klækjum til að mála það sem vond útlendingasamtök sem vilji koma höndum yfir allt sem hér er. Það stenst enga skoðun," segir Hilmar og bendir á að þótt andstaðan kunni að þjóna sérhagsmunum þá gangi viðhorfið ekki upp. Íslensk fyrirtæki verði að tryggja sér fjármögnun sem að mestu leyti sé erlend. Það komi sér afar illa þegar gengi krónunnar sveiflist til og frá sem lauf í vindi.

Einu rökin fyrir krónunni telur hann vera þau hversu öflugt stjórntæki hún hafi reynst í gegnum tíðina. "Hún hefur verið tæki fyrir stjórnvöld til að stýra kaupmætti almennings án þess að hann upplifi það. En þetta er ekki svona lengur," segir hann og bendir á að almenningur sé að gera sér grein fyrir þessu. Skýrasta dæmið sé verð á appelsínusafa sem í erlendri mynt hefur lítið sem ekkert breyst milli ára. Öðru máli gegni um verð á appelsínusafa hér, sem sveiflist út um allar trissur.

Hættir að hugsa í krónum

Eftirtektarvert er að menn viðskiptalífsins að mati dómnefndar Markaðarins hugsa ekki í krónum. "Við hættum að nota krónur árið 2002 og hugsum alfarið í erlendri mynt," bendir Jón á en fyrirtækið gerir upp í Bandaríkjadölum. Sömu sögu er að segja af CCP, sem lagði krónuna niður sem starfsrækslumynt árið 2006 og hefur greitt starfsfólki laun í evrum frá því snemma á þessu ári. Starfsfólk Össurar fær laun sín enn greidd í krónum.

Þeir segja vandasamt að skipta út gjaldmiðli einhliða hjá fyrirtækjum hér enda sé krónan raunveruleiki starfsfólksins sem starfi hjá fyrirtækjunum hér.

"Við getum ekki ákveðið þetta fyrir starfsfólk okkar. Þótt færa megi rök fyrir því að skiptin séu skammtímaávinningur fyrir starfsfólkið þá er langtímaáhætta fólgin í því. Í raun vorum við að selja starfsfólkinu gengisáhættu. En við vildum bjóða upp á þetta og héldum námskeið fyrir fólkið. Þótt evran liti vel út þá varð starfsfólkið að breyta lífi sínu í samræmi við það," segir Hilmar.

Hér tala engir útrásarvíkingar!

(Feitletranir: ES-blogg)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já þeir koma og fara þessir menn ársins. Ég óska þeim til hamingju með þennan árangur á Íslandi. Þökk sé sjálfstæðri mynt og sveigjanlegu hagkerfi Íslands. Annars væru þeir þar ekki. En sumt at þessu segja Finnsk fyrirtæki líka. Að mynt Finna, evran, setji þeim stólinn fyrir dyrnar. Því flytja þau úr landi, til landa með sjálfstæða mynt. Og ekki ætla ég að minnast á öll írsku fyrirtækin heldur. En hið alþjóðlega fyrirtæki Dell Computer var að flýja evrulandið Írland. Flutti stærstan hluta starfseminnar frá evrulandinu Írlandi og út fyrir myntbandalagið. Enda eru allir bankar á Írlandi de facto gjaldþrota og geta ekki lánað írskum fyrirtækjum peninga. Þýsk fyrirtæki kvarta líka yfir skori á lánsfé frá bankakerfi Þýskalands.

Hagnaður fyrirtækja utan evrusvæðis er líka miklu meiri og betri en innan evrusvæðis. Tap fyrirtækja er líka minna utan evrusvæðis en innan þess.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 30.12.2009 kl. 19:54

2 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Skortur á lánsfé um þessar mundir er alþjóðlegt vandamál.

,,Hagnaður fyrirtækja utan evrusvæðis er líka miklu meiri og betri en innan evrusvæðis. Tap fyrirtækja er líka minna utan evrusvæðis en innan þess."

Geturðu komið með eitthvað sem styður þessa fullyrðingu þína?

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 30.12.2009 kl. 22:06

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er undarlegt með ykkur í Evrópusamtökunum sem skrifið hér nafnlausar ESB-smáauglýsingar í þennan smáauglýsingadálk ykkar hér um ESB, að þið vitið yfirhöfuð ekki neitt um Evrópu.

  • Þið vitið ekkert um fólkið í ESB
  • Þið vitið ekkert um atvinnustarfsemi í ESB
  • Þið vitið ekkert um markaðsmál í ESB
  • Þið vitið ekkert um gjaldmiðlamál ESB
  • Þið vitið ekkert um skortinn á lýðræði í ESB
  • Þið vitið ekkert um ömurlegar framtíðarhorfur ESB
  • Þið vitið ekkert um 30 massíft atvinnuleysi í ESB

Þið þekkið ESB álíka mikið og íslenskir kommúnistar þekktu Sovétríkin mikið á meðan þeir básúnuðu út himnaríki Sovétríkjanna út um alt á Íslandi áratugum saman. Þið eruð það sem kallast; 100% cluelass.  

Af hverju ESB heldur áfram að breytast í stórríki fátæktar og armæðu 

Evran grefur undan samkeppnishæfni. Sterkt gengi evrunnar grefur undan arðsemi evrópska fyrirtækja þrátt fyrir að viðsnúningur sé hafin í helstu hagkerfum myntbandalagsins. Samkvæmt afkomutölum fyrirtækja á þriðja ársfjórðungi var samdráttur hagnaðar fyrirtækja á evrusvæðinu mun meiri en evrópskra fyrirtækja sem starfa í ríkjum sem eru ekki í Myntbandalaginu.

Breska blaðið Financial Times fjallar um greiningu hollenska fjármálafyrirtækisins ING á afkomu 311 evrópskra fyrirtækja á heimasíðu sinni í dag. Fram kemur í umfjölluninni að fyrirtæki í ríkjum á borð við Bretland og Sviss hafi þurft að þola 2,6% samdrátt í sölu og 1,2% samdrátt hagnaðar í heildina að undanförnu. Sambærilegar tölur fyrir fyrirtæki á evrusvæðinu sýna 12,5% samdrátt í sölu og 27% samdrátt hagnaðar á þriðja fjórðungi. Vísbendingar um þessa þróun má sjá annarstaðar.

Samkvæmt Thomson Reuters-fréttaveitunni er umtalsverður munur á afkomu fyrirtækja á evrusvæðinu og þeirra sem starfa utan þess. Nú hafa 36 af þeim 50 fyrirtækjum sem eru í EuroStoxx50-vísitölunni birt afkomu sína fyrir þriðja fjórðung. Að meðaltali jókst hagnaður og sala hjá þeim fyrirtækjum sem eru ekki skráð á evrusvæðinu um 6% og 7,4% á meðan að evrufyrirtækin sýndu aðeins 1,8% aukningu á hagnaði og 1,2% aukningu á sölu.

Ljóst er að sterk evra hefur grafið undan samkeppnisstöðu fyrirtækja á evrusvæðinu og ljóst er að breytinga í þeim efnum er ekki að vænta.

Evran grefur undan samkeppnishæfni

Næsta skref. Evrópska skulda og gjaldþrotabandalagið.

Efnahagsleg herlög verða bráðum sett á evrusvæði undir yfirskyni "fjármálalegs stöðugleika". Öllu verður fórnað til að bjarga myntbandalaginu frá hruni. Velmegun og velferð þegnana mun verða fórnað. Þetta sáum við líka í Sovétríkjunum.

Gunnar Rögnvaldsson, 30.12.2009 kl. 23:56

4 identicon

þetta eru sannarlega glæsilegir fulltrúar íslensks útflutningsiðnaðar. Gunnar kemur með háðsglósur um að þessi fyrirtæki hafi verið byggð upp í skjóli krónunnar. Það held ég að sé misskilningur - útflutningsfyrirtækin hafa tapað gríðarlega á hinu falska gengi krónunnar sl. áratug.

Það sorglega er að ólíklegt er að þessi fyrirtæki haldi áfram að vera íslensk fyrirtæki.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 10:49

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Viðskiptamenn ársins á Íslandi vita nákvæmlega hvað það er sem okkur vantar hér og það er auðvitað aðild að ESB og evran. Gunnar Rögnvaldsson er svarinn andstæðingur ESB sem getur ekki rætt þessi mál af raunsæi, heldur virðist vera um hatur að ræða.

Umsóknarferlið er í gangi og samningaviðræður framundan. Þá fyrst verður tímabært að ræða um kosti og galla þegar við förum að sjá um hvað nást samningar. Að mínu áliti verður staða okkar Íslendinga utan ESB það fallvölt að við verðum að ganga þarna inn, þó einhverjum líki ekki allt eins og gengur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.1.2010 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband