Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Gleðilegt sumar!

SóleyjarEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegs sumars. Hrunvetur nr. 2 búinn!

Þökkum fjörugar umræður á blogginu í vetur.


Baltnesku löndin á leið út úr kreppunni

RigaTalið er að það versta sé yfirstaðið fyrir nágranna okkar í Eystrasaltinu; Lettland, Litháen og Eistland, hvað varðar kreppuna, og að þau séu hægt og bítandi að vinna sig út úr henni.

Þetta kemur fram í viðskiptahluta sænska dagblaðsins Dagens Nyheter. Þó er ástandið enn erfitt og atvinnuleysi í kjölfar kreppunnar enn mikið.

Í löndunum hefur verið gripið til harkalegrs niðurskurðar,en strax á næsta ári er útlitið mun skárra og því má segja að löndin séu á réttri leið í gegnum þann brotsjó sem dundi yfir.

Í Lettlandi hefur t.d. útflutningur aukist, þá helst af skógarafurðum og stáli. Þá eru jákvæðar fréttir frá talsmönnum ferðaiðnaðarins.

Af löndunum þremur er búist við að hagvöxtur verði jákvæður í Eistlandi í ár. Löndin þrjú gengu í ESB árið 2004, í svokallaðri ,,austur-stækkun."


Ísland nafli Evrópu?

Gos-NASAÞað er ekki oft sem Ísland virðist vera nafli Evrópu, en það er svo sannarlega núna. Og ástæðan er að sjálfsögðu Eyjafjallajökull, sem gárungarnir sem hafa ensku sem sitt tungumál, eru farnir að kalla KEVIN, sökum erfiðleika við framburð!

T.a.m. var fréttatími bresku SKY-stöðvarinnar kl. 22 að breskum tíma, nær allur tekinn undir gosið, örvæntingarfulla Breta sem komast ekki heim o.s.frv.

Kostnaður, tap og annað sem tengist þessu er nú þegar orðinn það sem á slæmu máli er "skyhigh", nálgast kannski það sem við köllum, stjarnfræðilegur!

Það væri kannski óskandi að pólitísk áhrif Íslands í Evrópu væru eitthvað í líkingu við þetta, nú er virkilega hlustað á allt sem kemur frá Íslandi!

En það tjón og óþægindi sem fólk er að verða fyrir, er ekki skemmtilegt.

(Mynd-NASA)


Að kasta steinum úr glerhúsi (MBL)

MBLEins og Morgunblaðsins er von og vísa nú um þessar mundir heldur blaðið áfram að andæfa ESB-aðildarumsókninni, nú í leiðara sunnudagsmoggans. Morgunblaðið heldur áfram að agnúast yfir kostnaði við aðildarumsókninni, sem er þó miklu minni heldur en þær afskriftir sem fram fóru þegar núverandi eigendur blaðsins, Óskar Magnússon og vinir hans, keyptu það. Þá voru um þrír milljarðar afskrifaðir. Kaupverð MBL hefur EKKI verið gefið upp (sjá hér).

Áætlað er að kostnaður við ESB-ferlið verði um 800-1000 milljónir króna, eða um 1/3 þess fjár sem afskrifað var hjá Mogganum. Allt verðu gert til þess að halda kostnaði í lágmarki, m.a. á hluti viðræðnanna að fara fram hér heima. Stór hluti ferlisins verður miklu léttara í vöfum vegna aðildar Íslands að ESB. ESB mun taka þátt í kostnaðinum os svo framvegis.

Sennilegast er allt þetta nöldur um kostnað frá MBL og mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að viðkomandi hafa ekkert annað að segja.

Að stóru leyti snýst ESB um verslun og viðskipti. Hlutir sem ættu að vera flestum, ef ekki öllum Sjálfstæðismönnum hjartfólgnir. Þessvegna er svolítið erfitt að skilja þessa andstöðu þeirra. Eru þeir á móti aukningu á verslun og viðskiptum og betri aðstæðum fyrir íslensk fyrirtæki? Eða eru aðstæðurnar sem þeir hafa skapað þessum fyrirtækjum svona rosalega góðar?

Í langflestum ríkjum sem gerast aðilar að ESB hafa verslun og viðskipti aukist, m.a. vegna aukins markaðsaðgangs og þess háttar. Pólland (sem gekk inn 2004) er gott dæmi um slíkt. Frá aðild helfur landið fengið 70 milljarða EVRA frá ESB, til að byggja innviði pólsks samfélags, á fjölmörgum sviðum. M.a. hafa aðstæður pólskra bænda hafa einnig stórbatnað, en fyrir aðild var Pólland eitt fátækasta ríki Evrópu. Þetta kom fram í máli tveggja pólskra fræðimanna sem staddir eru hér á landi í boði H.Í.

70 milljarðar EVRA eru um 11.900 milljarðar íslenskra króna!

Í leiðaranum er svo verið að tala um að almenningur ,,borgi brúsann!“ Að nota þau orð verður að skoðast í því samhengi að þar er annar ritstjóra, Davíð nokkur Oddsson, fyrrum Seðlabankastjóri, en talið er að fleiri hundruð milljarðar hafi tapast í bankanum í stjórnartíð hans. Bara s.k. ,,ástarbréf“ Seðlabankans og Landsbankans eru talin hafa kostað ríkið (les: almenning) um 80 milljarða. Til samanburðar kostar rekstur íslenska menntakerfisins um 50 milljarða á ári!

Er þetta ekki pínulítið eins og að kasta steinum í glerhúsi?

 


Össur: ESB-aðild lykill að endurreisn, en ekki töfralausn

Össur Skarphéðinsson,,Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hvetur til þess að umsóknarferlið um aðild að Evrópusambandinu verði sem faglegast, hvort sem mönnum kann að þykja kostur eða galli við að ganga í sambandið. Hann telur umsókn um aðild að ESB grundvallarþátt í endurreisn Ísland, en segir jafnframt að ESB sé engin töfralausn." 

Þannig byrjar frétt Eyjnnar um ráðstefnu um Evrópumál, sem haldin var í Kópavogi í dag og Eyjan greinir frá. Ennfremur sagði Össur: ,,Umsókn um aðild er þannig grundvallarþáttur í endurreisn Íslands. Við þurfum traustari umgjörð utan um okkar atvinnu- og efnahagslíf. Við þurfum langtímastöðugleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki og við þurfum að rjúfa vítahring verðbólgu, vaxta og verðtryggingar sem allt sligar. Við þurfum að losa okkur við kollsteypuhagkerfið.”  

Frétt Eyjunnar  og Utanríkisráðuneytis


Berlingske Tidende: ESB-aðild leið út úr krísunni

Berlingske_TidendeHið virta danska dagblað, Berlingske Tidende skrifar um Ísland i leiðara fyrr í vikunni. Óhætt er að segja að höfundur fari fögrum orðum um okkur, að við séum dugleg og sterkbyggð. En hann segir einnig að við verðum að gera upp það hrun sem dundi yfir okkur. Og í lok leiðarans segir að Ísland hafi nú fengið að greiða það dýru verði að standa fyrir utan ESB, eða eins og segir á dönskunni:

,,Midt i krisen har Island betalt prisen for at stå alene – udenfor EU og kun med opbakning fra et vagt forpligtet Norden. EU-kommissionen har i en ny rapport anbefalet, at der åbnes optagelsesforhandlinger med Island. Ø-staten opfylder alle kriterierne for medlemskab. De nye islandske regering har selv sat EU-kursen, og man kan kun håbe, at den også finder opbakning hos en traditionelt EU-skeptisk og atlantisk orienteret befolkning."

Allur leiðarinn


ESB-fréttir ekki í forgangi hjá Morgunblaðinu...!!

Evrópa-myndÁ netsíðu Morgunblaðsins, www.mbl.is er að finna ESB-síðu, sem sett var upp í ritstjórnartíð Ólafs Þ. Stephensen. sem kunnugt er tóku Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen við af honum.

Það hefur hinsvegar vakið athygli þessa síðuritara að síðan sú virðist ekki vera í forgangi hjá ritstjórum blaðsins. Síðast var sett inn frétt þarna 19.3, eða næstum því fyrir mánuði síðan!

En mikið hefur gerst í henni Evrópu síðan þá! Og til þess að ritstjórarnir gleymi ekki alveg hvernig Evrópa lítur út, birtist hér mynd af henni með þessari frétt!


Skuggalegar verðhækkanir!

VisitalaHagstofa Íslands hefur birt skuggalegar tölur um hækkun matvæla. Í frétt á RÚVsegir að matvæli hér á landi hafi hækkað um 36% undanfarin tvö ár. Þá segir í frétt MBL í dag að verð á innfluttum matvælum hafi hækkað um tæp 63%! Jú, talan er rétt, 63%. Þetta er byggt á tölum frá Hagstofu Íslands.

Að sjálfsögðu er það hrun íslensku krónunnar, sem er orsök þessara hækkana, þetta er kostnaður okkar Íslendinga að lifa ekki við efnahagslegan stöðugleika og hafa minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi. Og þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta verið og segja má að við séum orðin vön þessu. En þetta þarf ekki að vera svona.

Sérfræðingar sem fjallað hafa um gjaldmiðilsmál og þá sérstaklega upptöku EVRU, hafa bent á að við aðild að ESB og síðar upptöku Evru sem gjaldmiðils, geti matvælaverð lækkað um allt að 20-25%

(Myndin sýnir þessar hækkanir)

Heimildir:

http://www.ruv.is/frett/matarverd-hefur-haekkad-um-36

MBL

Hagtölur Apríl 2010


Geir Haarde um HRUNIÐ: ESB-reglum (og bönkunum) að kenna!

Geir HaardeÞað er einkar áhugavert hvernig Geir H. Haarde, fyrrum FJÁRMÁLA og FORSÆTISRÁÐHERRA, greinir hrun íslenska efnahagskerfisins eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis. Það má sjá og heyra í fréttum RÚV í gærkvöldi. Aðal-skúrkarnir eru samkvæmt henni, eigendur bankanna og regluverk ESB.

En hvernig var þessu regluverk háttað? Það er fróðlegt að kíkja á hvað skýrslan segir um það. Rannsóknarnefndin hafnar nefnilega þeirri skýringu að EES reglur hafi ráðið því að allt fór úr böndum og segir:

,,Ekki var tekið tillit við innleiðingu reglna, til sérstakra aðstæðna á Íslandi, t.d. hættu á nánum hagsmunatengslum og aukinnar áhættu og hagsmunaárekstra með samþjöppun eignarhalds."

„Í öllum atriðum voru reglur rýmkaðar og athafnafrelsi lánastofnana aukið verulega. Lágmarkskröfur tilskipana ESB um starfsemi lánastofnana fjölluðu ekki beinlínis um þessar auknu starfsheimildir. Íslandi var því ekki skylt vegna EES samningsins að auka starfsheimildir lánastofnana á þennan hátt“

Sé gluggað enn frekar í þetta kemur eftirfarandi í ljós:

,,Í kjölfar aðildar Íslands að EES-samningnum voru starfsheimildir íslenskra
lánastofnana og þar með fjármálafyrirtækja rýmkaðar verulega. Þetta var gert
samhliða því að tilskipanir Evrópusambandsins um fjármálamarkaðinn voru
innleiddar í íslenskan rétt en þær tilskipanir fólu almennt í sér lágmarkssamræmingu
á tilteknum atriðum sem snertu stofnun og rekstur lánastofnana
ásamt meginreglunni um gagnkvæma viðurkenningu.
Tilskipanirnar bönnuðu
hins vegar aðildarríkjunum ekki að viðhalda eða setja sér strangari reglur en
þar var kveðið á um gagnvart lánastofnunum í viðkomandi heimaríki enda
væru þá uppfyllt ákveðin meginsjónarmið sem reglur Evrópusambandsins
og EES-samningsins gera kröfu um.
Í úttekt sem unnin var fyrir rannsóknarnefndina
um innleiðingu gerða samkvæmt EES-samningnum á sviði fjármálaþjónustu
í íslenskan rétt, og birt er sem viðauki 6 með rafrænni útgáfu
skýrslunnar, kemur fram að
hér á landi var almennt ekki valin sú leið að nota
það svigrúm sem leiðir af gerðunum, þ.m.t. tilskipunum, til setja strangari
reglur um starfsheimildir fjármálafyrirtækja.
Ljóst er af skýringum sem fram
komu á Alþingi þegar framangreindar breytingar voru gerðar á lögum að þar
réðu fyrst og fremst sjónarmið um að bæta samkeppnisstöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna
á Evrópska efnahagssvæðinu og skapa þannig einsleitni og
gagnkvæm starfsskilyrði fyrir fjármálafyrirtæki. EES-samningurinn opnaði
erlendum fyrirtækjum leið til að bjóða upp á fjármálaþjónustu hér á landi
og íslensku fyrirtækin gátu hafið starfsemi í aðildarríkjum samningsins, t.d.
með stofnun útibúa."

Ennfremur segir: ,,Það var hluti af hinni pólitísku stefnumörkun stjórnvalda um það hvaða lagaumhverfi þau vildu búa innlendum lánastofnunum innan þess ramma sem reglur Evrópusambandsins og EES-samningsins settu." 

(Litaletur: ES-bloggið)

Samkvæmt þessu er ljóst að íslensk stjórnvöld höfðu FULLAR HEIMILDIR til þess að hafa mun virkara eftirlit með fjármálastofnunum og þeim aðgerðum sem þau sjálf stóðu fyrir! Regluverk ESB var því ekki hindrun í þeim efnum!

Þarf að segja eitthvað meira?

 


Jón Sigurðsson - Rannsóknarskýrslan

Þjóðin er enn í hálfgerðu losti eftir útgáfu skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis um bankahrunið. Upplýsingarnar sem þar koma fram renna stoðum undir verstu áhyggjur manna um orsakir þessarar kollsteypu íslenska efnahagskerfisins. Vonandi verður samt skýrslan upphafið af málefnalegri umræðu um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og að upphrópanir um vondu útlendingana heyri sögunni til.

Jón SigurðssonEinn af þeim sem skrifar um skýrsluna er Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra og Seðlabankastjóri. Hann segir meðal annars í grein á Pressunni.


,,Í skýrslunni segir að síðustu forvöð til varnaraðgerða hafi verið árið 2006. En það kemur ekki skýrt fram að þáv. ríkisstjórn stóð fyrir hjöðnunaraðgerðum haustið 2006 og árangur af þeim varð grunnur að skattabreytingum í marsmánuði 2007. Með þessu er ekki fullyrt að þetta hafi nægt, heldur bent á að þarna var viðleitni til að hægja á og draga úr þenslu. Ný ríkisstjórn hvarf alveg frá slíku aðhaldi eftir kosningarnar.
Ég batt á sínum tíma miklar vonir við að framhald gæti orðið á aðhaldsstefnu þeirri sem upp var tekin haustið 2006 og frekari aðgerðir gætu komið í kjölfarið. Sumarið 2007 var ljóst að ekkert slíkt var í boði. Þegar leið á árið varaði þáv. formaður Framsóknarflokksins aftur og aftur við hættunum. Í marsmánuði 2007 þótti mér ljóst að gjaldeyris- og fjármálakerfi þjóðarinnar væri að hrynja og lýsti þeirri skoðun í blaðagreinum. Greinar mínar voru teknar sem einhliða Evrópuáróður.

Nú þurfum við að læra af skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Nýtt fjármálakerfi er í mótun í heimshluta okkar og mikilvægt að ekki verði aftur horfið að skuldahagkerfi og flotpeningum með sama eða svipuðum hætti og var. Endurmóta þarf eftirlitskerfi og viðurlög og tryggja að ábyrgð fylgi frelsi í hagkerfinu. Eins og Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefur bent á eigum við tvo kosti: krónukerfi með höftum eða þátttöku í evrusamstarfi ESB."

Hægt er lesa greinina í heild sinni á þessari slóð:

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaJonSigurdsson/skyrslan-um-bankahrunid

(Mynd: Pressan)



 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband