Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

FRBL-leiðari: ESB-málið þvælist fyrir Sjálfstæðisflokknum

Viðbrögðin streyma "inn" eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins um helgina og okkur hér á ES-blogginu finnast Evrópumálin að sjálfsögðu mest spennandi, þó ekki megi t.d. gera lítið úr atvinnumálum, sem og fleiri!

Ólafur Þ. Stephensen fjallar um landsfundinn í leiðara FRBL og segir þar: "Evrópumálin halda...áfram að þvælast fyrir flokknum. Það er til dæmis mótsögn í því að vilja skoða hvaða kosti Ísland eigi á nýjum gjaldmiðli og að leggjast gegn því að farin verði nærtækasta leiðin til að skipta um gjaldmiðil; að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu.

Þó var greinilega meiri sáttatónn í sjálfstæðismönnum en á síðasta landsfundi. Afdráttarlausar tillögur um að hætta aðildarviðræðunum við ESB voru þannig felldar. Málamiðlunartillagan sem samþykkt var, um að gera hlé á viðræðum og byrja ekki aftur fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, breytir þó litlu. Hún einkennist af því sama og Evrópustefna Sjálfstæðisflokksins hefur gert um árabil; að reyna að fresta málinu til að halda flokknum saman.

Hvort þessi moðsuða dugir til er hins vegar óvíst, nú þegar aðildarviðræður eru komnar á rekspöl og margir stuðningsmenn (og mögulegir stuðningsmenn) flokksins líta á ESB-aðild sem lykilatriði í endurreisn íslenzks efnahagslífs og samkeppnisfærni atvinnulífsins.
Það verkefni endurkjörins formanns Sjálfstæðisflokksins að höfða til breiðs hóps og endurheimta fyrri styrk flokksins er því áfram erfitt og snúið."


Á að gera hlé þegar líður að lokum samningaviðræðna?

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins lauk í dag. Þar var rætt um Evrópumál og vill flokkurinn gera hlé á viðræðum og taka þær ekki upp fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu eftir næstu kosningar.

Næstu kosningar verða vorið 2013, gefið að ,,ríkisstjórn hinn níu lífa", lifi af. Sem verður að tekjast líklegt, miðað við það sem á undan er gengið.

Þá verða viðræður um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál að öllum líkindum langt komnar og jafnvel lokið. Á þá að hætta við og eyða nokkur hundruð milljónum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Er það skynsamlegt? Er þá ekki bara betra að klára málið og kjósa um samninginn?

Annars er það markverðast í þessu öllu saman að öfgafyllstu tillögurnar að norðan og úr Eyjum voru kolfelldar.  Sjálfstæðisflokkurinn varð því ekki öfgunum að bráð. Sem verður að teljast jákvætt.

Formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, Benedikt Jóhannesson, var sáttur við niðurstöðuna, eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö. Viðbrögð Össurar Skarphéðinssonar eru hér.


Össur með grein um ESB í FRBL

Á Eyjunni stendur þetta: "Ávinningur Evrópusamvinnunnar er óbreyttur hvað sem krísunni líður. Kostir innri markaðar Evrópu munu áfram skila sér í bættri samkeppnishæfni, auknum útflutningi og atvinnu eins og Samtök atvinnulífsins þekkja svo vel. Og grundvallarkostir evrunnar sem felast meðal annars í stöðugleika, innra og ytra aðhaldi, lægri vöxtum og verðbólgu, aukinni fjárfestingu og atvinnu hafa ekki breyst.

Skrifar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, í Fréttablaðinu í dag þar sem hann ítrekar að þó Evrópusambandið glími við alvarlegan skuldavanda margra aðildarlanda sinna nú um mundir breyti það engu um grundvallarkosti sambandsins.

Þá bendir Össur á að þegar loks kemur að ákvörðunartöku Íslendinga um aðild eða ekki verði að öllum líkindum búið að ráða bót á þeim vandamálum sem sambandið glímir við í dag. Þannig bjóðist Íslandi aðild að enn sterkara Evrópusambandi þegar til komi."

 


FRBL: Sterkur sjávarútvegur - sterkt "spil" í samningaviðræðum við ESB

FréttablaðiðÍ Fréttablaðinu í dag er rætt við Kolbein Árnason, formann samningahóps um sjávarútveg. Fram kemur meðal annars að ef Ísland gangi í ESB, verði landið stærsta sjávarútvegslandið í sambandinu. Kolbeinn segir:

"„Við hljótum að leggja áherslu á þennan styrk í okkar nálgun að viðræðunum að það sé fengur í að hafa okkur innan borðs,“ segir Kolbeinn og vísar til þess að sjávarútvegur hér á landi sé sjálfbær og skili arði. Ef til inngöngu kæmi yrði Ísland stærsta fiskveiðiríkið í ESB með um þriðjung af heildarafla sambandsins.

„Við höfum staðið okkur vel og greinin skilar okkur arði. Það, ásamt öðrum stórum greinum eins og álframleiðslu og ferðamannaiðnaði, yrði til þess að ef við gengjum í sambandið myndum við í grunninn leggja meira af mörkum til sambandsins en það sem við fengjum beint þaðan.“

Að sögn Kolbeins styrkir þetta stöðu Íslands varðandi stjórn eigin mála.

Ennfremur segir í fréttinni: "Efasemdir hafa verið á lofti um að við hugsanlega inngöngu Íslands geti reglum sambandsins verið breytt þannig að þær sérlausnir sem Ísland fengi yrðu mögulega ógiltar. Kolbeinn segir þær áhyggjur vera óþarfar.

„Við leggjum áherslu á að fastsetja reglurnar um okkar hagsmuni inn í fyrirhugaðan aðildarsamning. Það jafngildir grundvallarsáttmálum sambandsins og verður þess vegna ekki breytt nema með okkar samþykki. Hagsmunirnir yrðu þá tryggðir, ekki bara við inngöngu heldur til framtíðar.“


ESB: Rúmlega helmingur landsmanna vill fá að kjósa um aðild - Fréttatíminn um nýja könnun Já-Ísland

FréttatíminnUm 53% landsmanna vilja fá að kjósa um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem samtökin Já-Ísland létu Capacent gera. Fréttatíminn segir frá þessu. Kíkjum á nokkrar tölur:

Um 70% kjósenda Vinstri Grænna vill halda áfram viðræðum, 99% kjósenda Samfylkingar, þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokks og um 20% kjósenda Framsóknarflokksins.

Inni í blaðinu er svo ítarlegt viðtal við Stefán Hauk Jóhannesson, aðalsamningamann Íslands gagnvart ESB. Samkvæmt honum hafa viðræðurnar gengið vel og mun hraðar en hjá öðrum ríkjum sem staðið hafa í viðræðum við ESB undanfarin ár.

Í lok viðtalsins segir Stefán að mikilvægt sé að kostir og gallar aðildar séu ræddir.

Það er ekki hægt verði hætt við, þá hangir þetta mál yfir Íslandi eins og Demóklesarsverð!

Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já-Ísland, er ánægður með útkomuna, samkvæmt Fréttatímanum. Miðað við þær aðstæður sem við er að glíma í Evrópu um þessar mundir.


Áskorun til landsfundar Sjálfstæðisflokksins

Í Morgunblaðinu í dag birtist áhugaverð grein eftir Þórð Magnússon, stjórnarformann Eyris Invest, Marorku og fleiri fyrirtækja. Greinin er áskorun til landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Þórður segir: "Nú ræðir Sjálfstæðisflokkurinn hugmyndir um að hætta viðræðum við Evrópusambandið áður en fyrir liggur hvað í þeim samningi felist. Slík nálgun væri í hæsta máta óábyrg og væri merki þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki það afl sem þjóðin þarf nú til að auka stefnufestu og styrkja framtíðarsýn þjóðarinnar. Til að taka yfirvegaða ákvörðun um hvar hagsmunum íslensku þjóðarinnar er best varið, þurfum við að ljúka samningsferlinu til að sjá hver er besti mögulegi samningur sem við náum. Sá samningur sem þannig næst fram verður borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar þar sem kostir og gallar eru vegnir yfirvegað. Ferlið getur vart orðið lýðræðislegra.

Þetta væri heldur ekki niðurstaða sem styrkir flokkinn því samkvæmt skoðanakönnunum eru um 50% stuðningsmanna flokksins fylgjandi því að ljúka samningaferlinu við sambandið og allt að 70% landsmanna hafa verið því fylgjandi að ljúka þessum viðræðum. Sá samningur sem þannig næst fram, verði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Ferlið getur vart orðið lýðræðislegra og í fullu samræmi við hugsjónir sjálfstæðismanna.

Það hefur blásið um efnahagslíf heimsins á síðustu misserum og Evrópusambandið hefur ekki farið varhluta af því frekar en aðrir. Af þeim sökum er ekki fýsilegt að hraða viðræðum heldur er það hvatning til að viðræðurnar séu yfirvegaðar og nægur tími sé tekinn til að ljúka viðræðunum. Vonandi tekst Evrópusambandinu að komast út úr mestu erfiðleikunum á næstu 2-5 árum. Við gætum þá jafnframt verið komin með samning sem íslenska þjóðin getur tekið afstöðu til."

Í lokin segir Þórður: "Sjálfstæðisflokkurinn þarf að einbeita sér að málum sem leiða til aukinnar hagsældar, bættra skilyrða atvinnurekstrar og aukinnar atvinnuþátttöku og bættra kjara launþega en ekki innbyrðis deilna. Viðræður við Evrópusambandið eru nú í ákveðnu ferli sem samþykkt var á alþingi. Fáum niðurstöðu í þær viðræður. Tækifæri okkar eru mikil og við eigum ekki og megum ekki eyða öllum okkar kröftum í fortíðina, innbyrðis deilur og átök um mál sem eru í bærilegu lagi en væri hægt að breyta svo vísað sé til átaka um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Þessi átök auka ekki hagsæld og velferð þjóðarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn á að beina kröftunum að uppbyggingu til framtíðar. Þannig getur flokkurinn haft áhrif til góðs, verður beinn þátttakandi og gerandi í því að skapa þá hagsæld sem íslensk þjóð á skilið og getur búið við."
 


FRBL: Tvær greinar

FRBLTvær góðar Evrópugreinar birtust í Fréttablaðinu í dag, eftir Dr. Jón Orm Halldórsson, og Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóra. Dr. Jón Ormur segir í byrjun sinnar greinar:

"Evrópa breyttist á röskum þrjátíu árum frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar til loka þeirrar síðari úr drottnara heimsins í undirsáta tveggja nýrra risavelda. Um Nató sem varð til upp úr hruni evrópsku heimsveldanna var sagt að tilgangur þess væri að halda Rússlandi úti, Bandaríkjunum inni og Þýskalandi niðri.
Tilgangur
Evrópusambandið var stofnað litlu seinna af sama tilefni og að hluta í ekki alveg óskyldum tilgangi. ESB átti að binda saman kjarnaríki Evrópu. Það átti að tryggja batnandi lífskjör og sem jafnasta dreifingu þeirra með því að auka samkeppnishæfni atvinnulífs í Evrópu samhliða samfélagslegum áherslum. Tilraunin var flókin en hún var studd af einu sterkasta lögmáli efnahagslífsins. Því að opin viðskipti á milli landa auka skilvirkni og velmegun. Og öðru lögmáli sem fær nú aukna athygli. Jöfnuður og lýðræði stuðla ekki aðeins að friði í mannfélaginu heldur líka að efnahagslegri velmegun.
Tilgangi þegar náð
ESB og Nató tryggðu ekki aðeins besta frið í árþúsunda sögu Evrópu heldur leiddi samvinnan innan ESB til stórkostlegra efnahagslegra, félagslegra og pólitískra framfara í álfunni."

Í grein Benedikts, sem er formaður Sjálfstæðra Evrópumanna segir :

"Í júní 2009 samþykkti Alþingi að Ísland skyldi sækja um aðild. Margt er þó með þeim hætti að rétt er að staldra við. Flestir eru sammála um að umgjörð samningaviðræðnanna sé í ólestri vegna sundurþykkis stjórnarflokkanna. Á degi hverjum birtast sögur um vanda einstakra Evrópuríkja og enginn veit á þessari stundu hvernig tekst til um viðbrögð. Endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er ekki lokið. Niðurstöður skipta Íslendinga miklu máli. Því er eðlilegt að margir vilji sjá hvernig til tekst. Í slíku stórmáli þarf að vanda til verka á öllum sviðum og stuðla að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar um vinnubrögð.

Þó að menn greini á um aðild að Evrópusambandinu er æskilegt að ná samstöðu um hvernig málinu skuli lokið. Sjálfstæðismenn ættu að sameinast um að beina málinu í nýjan farveg þannig að erfiðustu þáttum verði ekki að fullu lokið fyrr en árið 2013. Með því að sameinast um eftirfarandi verklag tryggja flokksmenn trausta meðferð þessa mikilvæga máls og lýðræðislega afgreiðslu þess óháð afstöðu til aðildar:

1. Nefnd formanna þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi ásamt utanríkisráðherra taki við yfirumsjón með viðræðunum.

2. Formlegar samningaviðræður um sjávarútvegsmál, landbúnaðar- og dreifbýlismál og gjaldmiðlasamstarf hefjist árið 2013. Samningaviðræðum um aðra kafla verði framhaldið með eðlilegum hraða.

3. Unnar verði fyrir árslok 2012 skýrslur útfrá íslenskum hagsmunum um:
a) Endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
b) Samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma m.v. krónu annars vegar og evru hins vegar.
c) Framtíðarstöðu í landbúnaði og byggðaþróun með samanburði milli óbreyttar stöðu og aðildar.

4. Samningurinn öðlast því aðeins gildi að hann verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu."


Ólafur um ær, kýr og ESB í FRBL

Ólafur StephensenLeiðari Fréttablaðsins í dag snerist um landbúnaðarmálin og var skrifaður af Ólafi Þ. Stephensen, sem skrifar:

"Margt er athyglisvert og sumt óvænt í skýrslu Daða Más Kristjánssonar, dósents í hagfræði, og Ernu Bjarnadóttur, hagfræðings Bændasamtakanna, um hugsanleg áhrif aðildar að Evrópusambandinu á landbúnaðinn.

Athygli vekur til dæmis það mat skýrsluhöfunda að sauðfjárbændur virðist í fljótu bragði ekki hafa mikið að óttast þótt Ísland gangi í ESB og tollar á innfluttar búvörur falli niður. Verð á lambakjöti muni líklega ekki lækka, enda hafi sauðfjárbændur þá greiðan aðgang að mörkuðum í ESB fyrir kjöt sem ekki seljist á Íslandi. Þetta hefur komið fram áður í skýrslum sérfræðinga en Bændasamtökin hafa ekki haldið þessari hlið málsins mikið á lofti.

Hins vegar telja hagfræðingarnir að í ljósi þess að flestar aðrar búvörur séu mun ódýrari í ESB en á Íslandi muni verð á þeim þurfa að lækka, verði tollverndin afnumin. Mjólkurvörur geti til dæmis þurft að lækka um fjórðung að meðaltali og egg og svína- og kjúklingakjöt um hátt í helming til að innlend vara verði samkeppnishæf við innflutning.

Stundum gætir ákveðinna mótsagna í málflutningi talsmanna Bændasamtakanna um þennan verðmun. Þannig skrifaði Erna Bjarnadóttir grein í síðasta Bændablað um könnun sem var gerð á verði búvara á Norðurlöndunum eftir hrun krónunnar og leiddi í ljós að íslenzku vörurnar væru „samkeppnisfærar við vöruverð á hinum Norðurlöndunum“. Ef það ætti við um ESB almennt þyrfti enga tollvernd til að viðhalda samkeppnishæfni íslenzkra búvara. Tölurnar í skýrslunni sýna hins vegar skilmerkilega hver ávinningur neytenda af ESB-aðild væri."


Fækkun í landbúnaði á Vestfjörðum: 100 lögbýli - 11.000 fjár! Án aðkomu ESB!

Nokkur umræða hefur spunnist um landbúnaðarmál, en ný skýrsla um ESB og landbúnaðarmál kom út fyrir skömmu. Kannski meira um hana síðar.

En það var athyglisverð frétt að vestan í einum fréttatíma RÚV um daginn sem festist í huga ritara. Þar kom fram að á undanförnum árum hefur fækkað um 100 lögbýli á Vestfjörðum. Fækkun búfjár nemur um 11.000! Fréttin var annars um fiskeldi fyrir vestan, ef ritara misminnir ekki!

Allt þetta án aðkomu ESB á nokkurn hátt og gildir það almennt um breytingar á íslenskum landbúnaði (en um miðja síðustu öld var um 40-50% af vinnuaflinu hér á landi starfandi við landbúnað, en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar!).

Fram hefur einnig komið í umræðunni að Ísland hefur nánast enga byggðastefnu, heldur einhvern "vísi" að byggðarstefnu. ESB er hinsvegar með öfluga byggðarstefnu, sem miðar meðal annars að því að halda byggð í sveitum.

Vita Bændasamtökin af þessu?


Pressan.is: Ólafur Margeirsson um gjaldeyrishöft og verðtryggingu

Umræðan um gjaldmiðilsmálin er lífleg þessa dagana. Einn þeirra penna sem lætur reglulega í sér heyra um efnahagsmál er Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði í Englandi. Hann skrifar á Pressunni og nýjasti pistill hans heitir "Gjaldeyrishöft og verðtrygging." Hann segir meðal annars:

"Núverandi áætlun Seðlabankans er að losa höftin árið 2015. Til þess afnám haftanna sé í fyrsta lagi mögulegt og í öðru lagi til allrar frambúðar þarf tvennt að gerast: það verður byggja upp skuldlausan gjaldeyrisforða – ellegar er vonlaust að vonast til sæmilega stöðugs gengis – og það verður að draga úr skammtímaskuldum þjóðarbúsins. Innifalið í skammtímaskuldum eru fjármunir sem bíða eftir því að geta komist úr landi. Nánast ómögulegt er að meta þá fjármuni með einhverri nákvæmni en Seðlabankinn hefur þó nefnt ca. 150-180ma.kr. í því samhengi. Þá fjármuni þarf að sigta hægt og rólega út og eru gjaldeyrisuppboð Seðlabankans liður í því.

Alvarlegasta vandamálið er hins vegar uppbygging nettó gjaldeyrisforða. Brúttó gjaldeyrisforði Seðlabankans er ríflega 900ma.kr. Það er dágóður slatti en hann er allur fenginn að láni! Innifalið í 900ma.kr. brúttó forðanum er 280ma.kr. lánalína frá AGS, erlendar langtíma lántökur Seðlabankans, innistæður frá þrotabúum gömlu bankanna (ríflega 300ma.kr.) og innistæður ríkissjóðs í erlendri mynt (270ma.kr.) en erlendar skuldir ríkissjóðs koma á móti. Þegar allt er tekið saman er nettó gjaldeyrisforði Seðlabankans, a.t.t. stöðu ríkissjóðs, neikvæður um 117ma.kr. (1,0ma. USD)."

Síðar segir Ólafur: "Ef Seðlabankinn ætlar að kaupa erlendan gjaldeyri til að styrkja forðann, eins og hann verður að gera ef afnám hafta á að eiga sér stað til frambúðar árið 2015, veikist krónan. Veikari króna ýtir verðbólgu upp á við og venjulega svarið við slíku...er stýrivaxtahækkun til að auka fjármagnskostnað heimila sem hafa þá minna fé milli handanna. Minni kaupgeta heimila þýðir að fyrirtæki geta ekki hækkað verðið, jafnvel þó þau hafi hvata til þess vegna hærra innflutningsverðlags. En það kostar líka dýpri efnahagslægð."

Ólafur telur að ef lyfta eigi höftunum verði Seðlabankinn að kaupa erlendan gjaldeyri...."en kaupi hann gjaldeyri lækkar krónan og verðbólga hækkar og við því getur hann ekkert gert þótt hann vildi því stýrivextir hans eru gagnslausir vegna verðtryggingarinnar á skuldum heimila. Og verðtryggingin, hækki verðbólga, setur efnahagsreikning heimila í enn meira uppnám heldur en hann þegar er í."

Niðurstaða Ólafs í lok greinarinnar er þessi: "Seðlabankinn er í klemmu sem hann kemst ekki úr meðan verðtrygging er á meirihluta skulda heimila. Verðtryggingin á skuldum heimilanna stöðvar þar með að hægt sé að afnema höftin til frambúðar árið 2015 eins og stefnt er að."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband