Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt með því að formlegar viðræður hefjist um aðild Íslands. Það er því ekki úr vegi að skoða hvaða skref eru framundan.
Ráðherraráðið þarf að samþykkja
Það er ráðherraráðið (European Council) sem tekur endanlega ákvörðun um hvort Íslandi verði formlega veitt staða umsóknarríkis og viðræður hafnar eða ekki. Um það verður að ríkja einhugur í ráðherraráðinu en þar sitja ráðherrar frá öllum 27 aðildarríkum ESB. Rætt hefur verið um að ráðherraráðið taki afstöðu í mars en það kann að dragast. Ástæðan er sú að þýska sambandsþingið verður að fjalla um og koma með formlegum hætti að því að móta afstöðu Þýskalands í ráðherraráðinu við ákvarðanir af þessu tagi. Þetta er í fyrsta sinn sem reynir á þessa málsmeðferð eftir að stjórnlagadómstóll í Þýskalandi kvað upp úrskurð í þessa veru. Á þessu stigi er óljóst hvort þýska þingið nær að afgreiða málið í þessum mánuði. Engin ástæða er til að ætla annað en að niðurstaða þingsins leiði til þess að Þýskaland samþykki að hefja aðildarviðræður við Ísland.
Greining
Að því gefnu að ráðherraráðið samþykki að hefja aðildarviðræður við Ísland byrja þær strax í kjölfarið á svokölluðu rýniferli (screening process). Í því felst að farið er í saumana á þeim lögum og reglum sem aðildarríkið verður að laga sig að. Segja má að þetta sé allt laga- og regluverk sem hefur orðið til frá upphafi ESB og er í gildi í samstarfi þeirra 27 ríkja sem fyrir eru. Oft er vísað til þessa með franska orðinu acquis eða orðunum acquis communautaire og mætti etv. útleggja það sem áunnist hefur eða það sem hefur verið ákveðið innan ESB. Í rýniferlinu skýrir ESB reglur sínar fyrir Íslandi og í sameiningu greina ESB og Ísland hvar gætu komið upp vandamál. Rýniferlið er mikilvægur þáttur í því að Ísland átti sig vel á regluverki ESB og fái skýringar á einstökum þáttum þess og þýðingu. Báðir aðilar fá þá skýrari mynd af því sem sameiginlegt er og hvar kann að vera mismunur sem þarf að greiða úr með einhverjum hætti. Í lok þessa ferlis er gefin út sérstök rýniskýrsla (screening-report) og er henni skipt niður í 35 kafla til samræmis við skipulag fyrirhugaðra samningaviðræðna. Rýniskýrslan er grundvallargagn þegar kemur að samningaviðræðum.
Viðfang samninga
Þegar rýniskýrslan liggur fyrir setur Ísland fram samningsmarkmið eða afstöðu sína til hvers og eins kafla í rýniskýrslunni. Framkvæmdastjórn ESB setur einnig fram sín viðhorf (draft common position) og leggur fyrir ráðherraráðið. Í kjölfarið skilgreinir ráðherraráðið sameiginlega afstöðu ESB og þar með er unnt að hefja eiginlegar samningaviðræður um hvern efniskafla.
Samningaviðræðurnar sjálfar eru í höndum aðalsamningamanns Íslands og samninganefndar Íslands annars vegar og fastafulltrúa aðildarríkjanna 27 hins vegar.
Allar efnislegar ákvarðanir eru teknar á svokölluðum ríkjaráðstefnum þar sem öll aðildarríkin 27 og Ísland taka þátt. Hverjum efniskafla er lokað eins og kallað er þegar samkomulag hefur náðst um efni hans. Hins vegar gildir sú regla að ekkert er frágengið og staðfest fyrr en heildarsamkomulag liggur fyrir.
Staðfesting
Náist samkomulag um alla kaflana 35 og þar með heildarsamkomulag eru gerð drög að aðildarsamningi þar sem fram kemur hvenær og hvernig Ísland getur orðið eitt að aðildarríkjum ESB. Þar koma fram öll þau atriði þar sem samkomulag er um aðlögun, tímafresti og sérlausnir. Framkvæmdastjórnin gefur út formlegt álit á aðild Íslands og leggur fyrir Evrópuþingið en það verður að fjalla um og samþykkja aðildina fyrir sitt leyti áður en unnt er að undirrita aðildarsamninginn og senda hann til aðildarríkjanna 27 til samþykktar eða synjunar. Á sama tíma þarf Ísland að taka aðildarsamninginn til afgreiðslu á sínum vettvangi. Þar liggur fyrir að efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi eða hafna aðildarsamningnum.
Ómögulegt er að sjá fyrir hve langan tíma allt þetta ferli mun taka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.