Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

GLEÐILEGT NÝTT ÁR!

Flugeldar

Evrópusamtökin óska öllum landsmönnum, nær og fjær, gleðilegs nýs árs!

Þakkir fyrir það gamla!

ESB-málið verður í deiglunni á árinu 2011, rétt eins og það var á árinu sem er að líða.

Evrópusamtökin munu reyna að stuðla að opinni og lýðræðislegri umræðu um málið, með því að veita ýmsum röddum rými hér á blogginu.

 


Þráinn Bertelsson í Fréttatímanum: Geðveika þjóðrembu helst að finna í ESB-málinu

Þráinn BertelssonÞráinn Bertelsson, þingamaður er í viðtali í áramótaútgáfu Fréttatímans og ræðir þar ýmislegt, eins og menn gera gjarnan um áramót. Hann drepur niður fæti við ESB-málið og segir um það:

„Þannig að ég er hóflega bjartsýnn og þótt ég sé sem betur fer aldrei mjög bjartsýnn þá er ég alls ekki svartsýnn á framtíðina. Þessi geðveika þjóðremba hefur minnkað og hana er kannski helst að finna í einhverjum taugabiluðum fjandskap við Evrópusambandið eða eitthvað svoleiðis. En það er bara eins og gengur. Við verðum aldrei sammála um alla hluti en ég held að það stefni í að við getum verið sammála um fleira og fleira og þá kannski ákveðin grundvallargildi sem eru þá forsenda þess að framtíðin geti verið farsæl.“

Um stjórnmálin og afturhvarfið til þeirra segir Þráinn:

„Það er gífurlegur munur á því að hafa áhuga á stjórnmálum og að taka þátt í þeim. Munurinn er eiginlega svipaður því að skrifa bók og gagnrýna hana. Og ég held að það sé nú miklu erfiðara að skrifa bókina en gagnrýna en mér finnst þetta ákaflega spennandi og skemmtilegt. Það sem kom mér á óvart var að sjá að í lýðræðinu okkar eru áhrif og völd einstaklinga miklu minni en ég hélt að þau væru. Ég hélt að einstakir þingmenn gætu fengið miklu meira áorkað og svo framvegis heldur en raunin er. Og það er bara gott. Það er alveg prýðilegt að breytingar og lagasetningar þurfi að fara í gegnum þessa mulningsvél sem 63 þingmenn eru. Það er bara alveg nauðsynlegt. Ég vildi bara óska að ég gæti látið meira gott af mér leiða en ég er ánægður með að mér finnst vera hlustað á sumt af því sem ég segi sem telja má skynsamlegt...Það koma leiðinlegir tímar þegar maður er að skrifa. Það er líka stundum gaman að gera kvikmyndir en mestur tíminn fer í bið og einhver vandræði. Þetta er eins í stjórnmálunum. Það er stórkostlega gaman að geta stuðlað að framfaramálum en síðan er mikið um leiðinlegt tuð sem skilar litlu. Þetta er bara eins og annað í lífinu. Stundum er gaman og stundum ekki. Ég geri ekkert tilkall til þess að lífið sé eins og samfelld fullnæging. Þetta er ekkert skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef verið á en þarna er margt af bæði góðu og skemmtilegu fólki.“  


Jórunn Frímannsdóttir skorar á Bjarna Ben í ESB-málinu: Legðu tillögu Unnar Brár til hliðar

Jórunn FrímannsdóttirSjálfstæðiskonan Jórunn Frímannsdóttir skrifaði áramótahugleiðingu á Eyjublogg sitt í gær og fjallar þar að mestu leyti um ESB-málið og tillögu Unnar Brár Konráðsdóttur að draga umsókn Íslands til baka (Nei-sinnar gefast ekki upp!!).

Jórunn segir: "Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í júní síðastliðnum, var afar sögulegur fundur og var mörgum ansi heitt í hamsi eftir hann þ.á.m. undirritaðri. Þar samþykktu landsfundarfulltrúar vonda ályktun um að draga til baka umsókn um ESB, þegar fyrrverandi forystumönnum flokksins tókst að fá samþykkta breytingu á ályktun fundarins, sem annars stefndi í að verða ágætis málamiðlun.

Ég hef lengi velt fyrir mér afstöðu ýmissa frammámanna í flokknum mínum. Hvers vegna hafa ýmsir sjálfstæðismenn hreinlega skipt um skoðun varðandi umsókn um aðild að ESB? Það er fróðlegt að lesa grein Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar frá 8. desember 2008 þar sem þeir færa sannfærandi rök fyrir mikilvægi þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Til að sjá hvaða samningum við getum náð og leyfa þjóðinni að kjósa.

Í mínum huga er það í hróplegu ósamræmi við stefnu flokksins og hugmyndafræði að leggjast gegn aðildarumsókn. Ég veit ekki hvað varð til þessarar stefnubreytingar. Ég hef velt því fyrir mér um nokkurt skeið hvort það geti verið að flokkurinn, með afstöðu landsfundar og tillögu Unnar Brár um að draga umsókn til baka, haldi nú ríkisstjórninni saman. Við Sjálfstæðismenn máluðum okkur algerlega út í horn með þessari ályktun Landsfundar. Héldu menn virkilega að þeir gætu fellt ríkisstjórnina á þessu? Halda einhverjir Sjálfstæðismenn að við förum í samstarf með Vinstri grænum? Ég held ekki.

Það er ekki hægt að horfa upp á það, meðan allt er á hraðri niðurleið í þessu landi og alger stöðnun að verða að veruleika að Sjálfstæðismenn og Samfylking geti ekki starfað saman. Samvinna þessara tveggja flokka er að mínu mati það eina sem getur komið hagkerfinu í gang og atvinnulífinu af stað. Núverandi ríkisstjórn er algerlega óhæf til þess og finnst mér málum svo komið að þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar beri hreinlega skylda til þess að slíðra sverðin og vinna saman að þeim brýnu málum sem nú þarf að leysa og það án tafar. Sjálfstæðismenn á alþingi með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar þurfa að vinna áfram að samningi við ESB og leggja frumvarp Unnar Brár til hliðar svo þessir tveir flokkar geti unnið saman." (Feitletrun: ES-blogg)

Allur pistill Jórunnar 


Steingrímur J. Sigfússon um ESB - krónuna í DV-viðtali

Steingrímur J. SigfússonSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra Íslands er í ítarlegu viðtali í DV í dag. Margt ber þar á góma og m.a. ræðir hann ESB-málið.

Jóhann Hauksson
, blaðamaður, spyr Steingrím: "Þú nefndir steinvölur sem bagalegt væri að hrasa um á vegferð ykkar inn í nýjan pólitískan veruleika. Er ekki ESB-málið augljóslega ein af þessum steinvölum sem viðbúið er að þið hrasið um í stjórnarsamstarfinu? Ýmsir, meðal annars Eva Joly, hafa bent á að græningjar víða um Evrópu telji málstað sínum best borgið innan Evrópusambandsins. Annað er uppi á teningnum hjá VG.

Svar Steingríms:„Grænir flokkar og flokkar til vinstri eru skrautleg flóra í Evrópu. Ég þekki þá marga og þeir eru afar mismunandi og hafa mismunandi afstöðu til Evrópusamvinnunnar. Sumir grænir flokkar eru mjög fylgjandi henni, aðrir gagnrýnir eins og gengur.

En við tökum afstöðu á okkar forsendum og út frá okkar stöðu. Ég myndi ekki kalla ESB-málið steinvölu. Það er nú frekar stór steinn. Það er eitt af erfiðu málunum sem við höfum þurft að glíma við. Ég átti nú frekar við það ef einhver minni háttar ágreiningsmál yrðu okkur til vandræða eins og lokaafgreiðsla fjárlaganna sem ég tel að hafi verið óheppileg.

Búið var að leggja mikla vinnu í að skapa grundvöll samstöðu um afgreiðslu þeirra. Mér fannst það vera orðið ágreiningsmál af minna tagi, það er að segja um það hvort nægjanlega langt hafi verið gengið. En önnur mál eru vitanlega miklu stærri, eins og hvernig ESB-málið spilast og hvernig okkur vegnar í sambandi við atvinnu- og efnahagsmálin.

Eitt af því sem mér finnst vera spennandi og er að teiknast upp nú um þessi áramót þegar ýmis mál eru leyst og að baki er að við eigum nú að geta gefið okkur tíma til að móta framtíðarstefnu á ýmsum sviðum. Hér þarf að leggja grunn að atvinnumálum og fara yfir það hvernig við getum stuðlað að raunverulega sjálfbærum hagvexti í stað þenslu- og bóluhagvaxtar sem tekinn er að láni.

Hvernig við ætlum að umbreyta okkar orkubúskap yfir í umhverfisvæna orkugjafa. Hvernig við ætlum að haga okkar peninga- og gjaldeyrismálum. Og það tengist að sjálfsögðu Evrópumálunum. En þar sýnist mér að öll nauðhyggja sé stórhættuleg.“

Um krónuna segir Steingrímur:  „Við hljótum að gera ráð fyrir þeim möguleikum að við verðum hér áfram með sjálfstætt myntkerfi með eigin gjaldmiðil. Annað væri ábyrgðarlaust. Mér blöskrar tal þeirra manna sem telja að unnt sé að stilla dæminu þannig upp að það sé útilokað. Hvað ætla þeir menn að segja ef þjóðin hafnar ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu? Þar með væri úti um þann möguleika að taka upp evru, að minnsta kosti eftir þeirri leið. Ætla þeir þá að segja að okkar bíði þar með engin framtíð?

Við þurfum að kortleggja vandlega alla þessa valkosti og hafa stefnu sem getur gert ráð fyrir fleiri en einum möguleika í þessu efni. Það er enginn vandi því samfara að minni hyggju. Það kallar að vísu á vandaða og agaða hagstjórn og ábyrga framgöngu í efnahags- og ríkisfjármálum sem við eigum hvort eð er að temja okkur. Ég vil einnig nefna stefnu varðandi menntun og rannsóknir. Við þurfum að breyta ýmsu þar. Okkur skortir fagfólk á ýmsum sviðum í atvinnulífi framtíðarinnar. Við þurfum að endurskoða margt sem snýr að innviðum samfélagsins. Við gætum til dæmis hugað að því hvernig unnt sé að virkja landið allt í heils árs ferðamennsku. Það kallar á áherslubreytingar. Það væri mjög gott að geta snúið sér að svona hlutum þegar björgunarstarfið er að baki.“

Jóphann Hauksson spyr: "Þannig að afstaða þín til krónunnar hefur ekkert breyst?"

Steingrímur J: „Nei. Satt best að segja hef ég verið iðinn við að benda á að krónan hefur nú gagnast okkur vel á ýmsa lund. Augljóst er að veikara gengi krónunnar skapar útflutningsgreinunum betri samkeppnisskilyrði. Það er vissulega fórn á hina hliðina gagnvart innfluttri vöru, skuldunum og svo framvegis. En það er vonlaust að neita því að þetta skapar okkur skilyrði fyrir myndarlegum afgangi í viðskiptum við útlönd sem hjálpar okkur að greiða niður skuldir. Erfiðleikarnir á evrusvæðinu leiða í ljós að það fylgja því einnig vandamál að reyra mismunandi svæði og lönd undir eina mynt nema menn séu með umfangsmikið millifærslukerfi til þess að mæta vandanum hjá þeim sem eiga undir högg að sækja hverju sinni.“

JH/DV: "Stöðugleiki hefur verið æðsta ósk allra hér á landi frá ómunatíð. Er ekki óstöðugleikinn eitthvað tengdur krónunni?" 

SJS: „Við höfum innleitt stöðugleika. Verðbólga er lág og vextir einnig. Það er tvímælalaust eitt af því mikilvægasta sem hefur gerst. Ég held að forsendur til að halda þessum stöðugleika séu góðar ef okkur verða ekki á mistök. Ég held jafnframt að þetta sé spurning um árina og ræðarann. Er það ekki óábyrg efnahagsstjórn og kæruleysi í skattamálum og stjórn ríkisfjármála sem hefur fyrst og fremst verið orsök óstöðugleika fremur en í sjálfu sér sú staðreynd að við séum með eigin gjaldmiðil."

Í lokaorðum sínum segist Steingrímur vera í góðu skapi og að 2011 leggist vel í sig.

 Sem er gott, fjármálaráðherra í fúlu skapi...er það góður fjármálaráðherra? (útlegging ES-bloggs, til að forðast allan misskilning!!)

Eyjan er einnig með frétt um viðtalið við Steingrím. 

 


Andri Geir um krónuna og hagvöxt árið 2011

andri-geir-a.gifAndri Geir Arinbjarnarson gerir gjaldmiðilsmál að umtalsefni í pistli á Eyjubloggi sínu og segir þar:

"En hvað með Ísland sem hefur sveigjanlegan gjaldmiðil sem hefur verið gengisfelldur svo um munar til að „leiðrétta“ samkeppnisstöðu þjóðarbúsins?  Við teljum okkur, jú, standa mun betur en jaðarríki evrulandanna, enda felldum við gengið, settum á höft, felldum bankana og réðumst á ríkishallann – allt eftir formúlu mikilla hagfræðispekinga?  Hvers vegna er þá ekki bullandi hagvöxtur hér?  Af hverju er hagkerfið að dragast saman 2010 og aðeins er spáð 1.9% hagvexti 2011 sem sumir telja bjartsýnisspá enda byggð á uppgangi í einkaneyslu?  Af hverju er Ísland enn í hópi þeirra landa þar sem hagvöxtur er hvað hægastur eftir rúm 2 ár frá risagengisfellingu?  Nei, það er ekki nóg að róma hina sveigjanlegu krónu, við megum ekki gleyma skuggahlið krónunnar sem viðheldur fölskum raunveruleika.  En gjaldmiðilinn er aðeins nauðsynlegt tól, án öflugs skipstjóra sem fylgir skynsamlegri og vel markaðri stefnu mun okkur miða hægt áfram eins og tölurnar sýna."

Allur pistillinn


Gleðileg jólin Reykjvíkurbréfs MBL!

MBL"Jóla-Reykjavíkurbréf" Morgunblaðsins hefur vakið athygli og orðið mönnum tilefni til hugleiðinga. Þykir t.a.m. lítið talað um jólin í bréfinu.

Rekur höfundur bréfsins söguna hér á landi frá 2007 til dagsins í dag. Við skulum kíkja á brot úr bréfinu:

Um 2008: "Seðlabanki Íslands hafði með lögum verið sviptur allri eftirlitsskyldu með fjármálastofnunum fyrir tæpum áratug í samræmi við þá tísku sem hafði orðið ofan á í þeim efnum í Evrópu. Svo langt var gengið að ekki er á bankann minnst í lögum um eftirlit með fjármálastofnunum. Óljóst orðalag í lögum um hann sjálfan um að bankinn eigi að fylgjast með fjármálastöðugleika án nokkurra þvingunarúrræða af neinu tagi hefur verið notað til að falsa þessa mynd af þeim sem hafa einbeittastan brotavilja. Bankanum voru engar heimildir fengnar til að gæta þess »eftirlitshlutverks«. Hvers vegna ekki? Vegna þess að eftirlitshlutverkið með fjármálafyrirtækjum hafði með lögum alfarið verið flutt annað."

Um 2009: "Jafnframt skyldi upplausnin, reiðin, niðurlægingin og vantrúin á öllu sem íslenskt er, sem magnaðist upp eftir »hrun«, notuð til að keyra þjóðina inn í Evrópusambandið, sem hún væri í hjarta sínu á móti. Þetta væru einu aðstæðurnar sem gætu dugað til að koma henni þangað inn. Hlúa skyldi að hatrinu og heiftinni og nýta vel, því auðvitað væri hætta á að þjóðin næði áttum fyrr en síðar. Þessum stjórnvöldum tókst þetta ætlunarverk sitt allvel, en þó best að kasta árinu á glæ."

Hvernig var annars bókatitillinn? "Þetta eru asnar, Guðjón"


Meira um gjalmiðilsmál (FRBL)

FRBLLeiðari FRBL í dag fjallar um gjalmiðilsmál og þar skrifar Ólafur Þ. Stephensen m.a. "Í skýrslu sinni benti Seðlabankinn á að verði horfið frá gömlu stefnunni um sjálfstæðan, fljótandi gjaldmiðil og verðbólgumarkmið og tekin upp fastgengisstefna, sé ákjósanlegast að tengja gengi krónunnar við evruna. Bankinn geldur varhug við að gera það með einhliða upptöku eða öðrum veikari formum tengingar, en telur að bezti kosturinn sé sá að taka upp evruna með inngöngu í Evrópusambandið og þar með Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Þetta er í raun stefna ríkisstjórnarinnar, sem hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu, en stefnuna skortir trúverðugleika og slagkraft vegna óeiningar í stjórnarliðinu.

Ísland þarf peningastefnu sem til skemmri tíma litið gerir afnám gjaldeyrishaftanna mögulegt og undirbyggir til lengri tíma upptöku evrunnar. Hins vegar þarf líka varaáætlun, sem hægt er að grípa til fari svo að Íslendingar samþykki ekki aðildarsamning við Evrópusambandið þegar þar að kemur.

Hver sem niðurstaðan verður um mótun peningastefnu og hvort sem Ísland fær nýjan, stöðugan gjaldmiðil eða missir af því tækifæri, er ljóst að eigi íslenzkt efnahagslíf að verða samkeppnisfært þarf miklu harðari aga í hagstjórninni. Það á ekki sízt við um ríkisfjármálin, sem sjaldnast hafa stutt við peningamálastefnu Seðlabankans sem skyldi. Ákvarðanir um launahækkanir á vinnumarkaði mega heldur ekki verða umfram þá innstæðu sem verðmætasköpun fyrirtækjanna skapar, ef menn geta ekki lengur gripið til þess ráðs að lækka laun almennings með því að fella gengið.

Það er rétt af Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem skrifaði grein um peningastefnuna í Fréttablaðið í gær, að vilja efna til víðtæks samráðs og umræðu um mótun nýrrar stefnu. Hann bendir réttilega á í grein sinni að of margir stjórnmálaflokkar hafi til þessa komizt upp með að skila auðu þegar spurt hefur verið hvernig peningastefnu eigi að móta til framtíðar. Enginn hefur sýnt með sannfærandi hætti fram á hvernig íslenzku efnahagslífi á að vera betur borgið í framtíðinni með krónunni en með alþjóðlegum gjaldmiðli. Nú fer að verða tímabært að flokkarnir sýni á spilin."

Allur leiðarinn 


Verður VG stærsta bomban? "Ég hugsa, þessvegna er ég"

BombaÞað er eins og dómsdagur nálgist, á fréttavefjum má les að formaður Nei-sinna og einn "þremenningagnna" í VG, bóndinn Ásmundur Einar Daðason, sé kominn í kaupstað. 

Lilja Mósesdóttir íhugar úrsögn úr VG, Atli Gíslason gerist heimsspekilegur og svarar "Cogito, ergo sum" og vitnar þar með í René Descartes og þessarar frægu setningar hans, sem er talin hafa lagt grunninn að vestrænni heimsspeki. 

Vá, þetta er "hevví stöff" sem er í gangi!

Þetta allt að sjálfsögðu vegna hinnar frægu hjásetu Atla, Ásmundar og Lilju þegar greidd voru atkvæði um fjárlög fyrir næsta ár á Alþingi. Og ESB-málið spilaði þar sterka rullu.

Það líður að áramótum og þá fara Íslendingar að SPRENGJA!

Boðað er til fundar hjá VG þann 5. jan. Þá er það bara spurningin: Verður sá fundur stærsta og mesta áramótabomban? 


Andrés Pétursson (form. Evrópusamtakanna) um völd, áhrif og Morgunblaðið

Andrés PéturssonFormaður Evrópusamtakanna, Andrés Pétursson, ritar grein í Morgunblaðið í dag um Morgunblaðið og nálgun ritstjóra þess gagnvart ESB-málinu. Við birtum grein Andrésar hér í heild sinni: 

 UM VÖLD OG ÁHRIF

Höfundi leiðara Morgunblaðsins hefur orðið tíðrætt um lýðræðishalla Evrópusambandsins. Orð eins og „skrifræðið í Brussel“ og hið „ólýðræðislega bákn“ eru höfundinum einkar hjartfólgin. 

Staðreyndin er hins vegar sú að Evrópusambandið er metnaðarfyllsta tilraun sem reynd hefur verið til að finna lausn á ýmsum sameiginlegum vandamálum sem ekki verða leyst eingöngu innan landamæra núverandi þjóðríkja. Þar má til dæmis nefna mengun, alþjóðleg glæpastarfsemi og ýmis mál sem tengjast yfirþjóðlegum samgöngum og viðskiptum

En hver er aðalástæðan fyrir því að ekki er meira um beinar kosningar til hinna ýmsu stofnana eða embætta innan Evrópusambandsins til að auka lýðræðið innan sambandsins. Ástæðan er einföld; aðildarlönd Evrópusambandsins hafa ekki verið tilbúin að láta meiri völd til stofnana Evrópusambandsins.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort sá sem heldur á pennanum í leiðaraskrifum Morgunblaðsins þekki ekki raunverulegt verklag hinna ýmsu stofnana ESB eða hvort viðkomandi sé svo sannfærður um hið illa innræti Evrópusambandsins að það skuli nota hvert tækifæri til að sverta ímynd þess.

Morgunblaðið taldi sig til dæmis hafa himin höndum tekið þegar Frosti Sigurjónsson framkvæmdastjóri skrifaði grein á bloggsíðu sína fyrir skömmu. Þar heldur Frosti því fram að þungamiðja valds í Evrópusambandinu sé hjá framkvæmdastjórninni og Evrópuþingið sé valdalítið.

Gallinn við þessa framsetningu Frosta er sú að þær forsendur sem hann gefur sér, annaðhvort vegna þekkingarskorts eða vísvitandi rangfærslna, standast ekki. Staðreyndin er sú að valdamiðja Evrópusambandsins er hjá ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu þar sem sitja lýðræðislega kjörnir fulltrúar aðildarríkjanna. Evrópuþingið, sem einnig er kosið í beinni kosningu af íbúum ESB landa, hefur síðan smám saman verið að auka völd sín á kostnað Framkvæmdastjórnarinnar.

Lagasetningarferli Evrópusambandsins er nokkuð langt og það getur tekið upp í mörg ár að koma lagasetningu í gegnum Framkvæmdastjórnina, Evrópuþingið og ráðherraráðið. Mjög margir aðilar, bæði Evrópuþingmenn, starfsmenn Framkvæmdastjórnarinnar, hagsmunaaðilar, grasrótarsamtök, þrýstihópar og fleiri, hafa möguleika á því að hafa áhrif á lagagerðina.

Ýmsum finnst ferlið óþarflega langt og flókið en það gefur að minnsta kosti mjög mörgum aðilum tækifæri til að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu. Einnig minnkar þetta möguleikana á því að illa unnin lagagerð komist í gegnum þetta ferli.

Morgunblaðið ætti því að fagna en ekki gera lítið úr þeirri kynningu sem í vændum er varðandi Evrópusambandið. Flestir þeir sem talað er við kvarta undan því að þekkja ekki nægjanlega vel til varðandi störf og stefnu ESB.

Allir ættu því að geta sameinast um það að fagna meiri upplýsingum um þetta mikilvæga málefni. Eða óttast Morgunblaðið að Íslendingar geti ekki tekið skynsamlega ákvörðun um tengsl sín við sambandið í ljósi upplýstrar umræðu?


Guðmundur Gunnarsson um "timburmenn krónunnar"

Guðmundur GunnarssonÁ bloggi sínu segir Guðmundur Gunnarsson: " Krónan er ein helsta ástæða þeirra erfiðleika sem við eigum við að etja. Stjórnmálamenn hafa ítrekað á undaförnum áratugum leyst rekstrarvanda útflutningsfyrirtækja með gengisfellingum. Þetta hefur verið rómað af mörgum, en fáir bent á þá staðreynd vandinn hverfur ekki, hann er einfaldlega fluttur yfir á launamenn með því að lækka laun þeirra, þeim er gert að greiða upp afglöp eigenda fyrirtækjanna. Þetta hefur leitt til þess að a.m.k. sum fyrirtæki hafa ekki verið rekin með eðlilegum hætti þar sem forsvarsmenn þeirra hafa ætíð treyst á þessa lausn.

Í lokuðu hagkerfi gekk þetta upp og þegar fiskvinnsla og landbúnaður voru aðalatvinnuvegir þjóðarinnar. Krónan var ein af meginástæðum fyrir aðdraganda hrunsins og hrun hennar hefur sett mörg heimili og fyrirtæki í vonlausa skuldastöðu. Auk þess blasir við sú staðreynd að við verðum að fjölga störfum hér á landi og það verður ekki gert í útgerð eða landbúnaði. Það verður einvörðungu gert með fyrirtækjum í tækniiðnaði og þar þarf að koma til erlend fjárfesting og greiður aðgangur íslenskra fyrirtækja að erlendum birgjum og eðlilegum viðskiptum um heim allan. Það verður ekki gert með krónunni. Ekkert erlent fyrirtæki tekur við krónu sem greiðslu og í dag eru íslensk fyrirtæki krafinn af erlendum birgjum um staðgreiðslu í erlendum myntum."

Allur pistill Guðmundar 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband