Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Evrópa-hvenær eða hvort? Furðuleg fréttamennska

Viðskiptaráð og fastanefnd ESB í Osló héldu áhugaverðan fund um viðskiptastefnu Evrópusambandsins á Grand Hótel í fyrradag. Bæði Viðskiptablaðið og Fréttablaðið birtu góðar fréttir af fundinum en Evrópusamtökunum blöskrar hins vegar umfjöllun Morgunblaðsins um þennan fund. Fyrirsögnin í blaðinu í gær var; ,,Ísland nær betri viðskiptasamningum en ESB". Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland gerir nánast aldrei fríverslunarsamninga eitt og sér. Það er í langflestum tilfellum innan EFTA samstarfsins. Eina undantekningin þar á er samningur við Færeyinga sem Íslendingar gerðu beint. Svo er reyndar verið að semja við Kínverja en það er ekki frágengið.

Það er reyndar rétt að Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, minntist á að EFTA löndin hafi í einstaka tilfellum náð betri samningum en ESB. Hann slóg hins vegar alla varnagla í þessu efni og sagði að þetta væru sérhæfðir samningar á vissum sviðum. Aðalatriðið í málflutningi hans var að við förum oftast í kjölfar Evrópusambandsins enda stærsta viðskiptablokk heimsins þar á ferð með her sérfræðinga á sínum snærum . Að slá síðan fram sem alhæfingu í fyrirsögn að Ísland nái betri viðskiptasamningum en ESB er ekki mjög traustvekjandi blaðamennska.

Staðreyndin er sú að samningar ESB eru mun fleiri og ná yfir víðfeðmara svið. Í flestum tilfellum hafi EFTA löndin komið í kjölfarið á ESB löndunum og jafnvel sett inn í samninga að EFTA löndin myndu fá sambærileg kjör og ESB löndin myndu semja um. Á mörgum mjög mikilvægum sviðum komust við ekki að eins og til dæmis í aðildarviðræðum á milli ESB og Bandaríkjanna um loftferðamál sem er auðvitað gríðarlega mikilvægt mál fyrir land eins og Ísland. Með þessu er ekki verið að segja að við eigum að vera með einhverja minnimáttarkennd gagnvart Evrópusambandinu en að halda því fram að land með 0.01% af heimsviðskiptum geti náð betri samningum en ESB með tæplega 20% af viðskiptum heimsins er annað hvort vísvitandi blekkingarleikur eða stórkarlalegt mikilmennskubrjálæði.

Morgunblaðið þegir síðan þunnu hljóði yfir því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðfinna Bjarnadóttir, sem var fundarstjóri, varpaði fram stórmerkilegri pólitískri yfirlýsingu á fundinum að það væri ekki spurning hvort heldur hvenær Íslendingar myndu kjósa um aðild að Evrópusambandinu. Það hentar greinilega ekki ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins að segja frá slíkum málum.

Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem Morgunblaðið tekst á einhvern ótrúlegan hátt að afbaka efni funda um Evrópumál. Skemmst er rifja upp frásögn Morgunblaðsins af fundi sem Háskólinn í Reykjavík hélt fyrr á þessu ári með hollendingunum Pierre Mathjisen. Þar vísaði fyrirsögn Morgunblaðsins í efni fundarins en það var fullkomlega röng túlkun á orðum ræðumannsins. Maður þakkar fyrir að það eru aðrir fjölmiðlar í landinu sem ekki hafa svona ferkantaða heimssýn eins og ritstjórn Morgunblaðsins.

En þá að einhverju jákvæðu. Í Viðskiptablaðinu í gær er ágæt grein eftir Auðbjörgu Ólafsdóttur blaðamann þar sem hún fjallar um evrópumál og stöðu Sjálfstæðisflokksins í umræðunni. Auðbjörg segir meðal annars;

,,Hversu lengi enn mun Sjálfstæðisflokkurinn viðhalda tortrygginni stefnu sinni í Evrópumálum? Fyrr eða síðar mun forysta Sjálfstæðisflokksins þurfa að horfast í augu við að sífellt stækkandi hluti kjósenda flokksins er hlynntur Evrópusambandsaðild og enn stærri hluti hugsanlegra framtíðarkjósenda flokksins. Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup framkvæmdi í síðasta mánuði fyrir Samtök Iðnaðarins eru 50% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins hlynntir aðild."

Martröð evrópska seðlabankastjórans

Ummæli Jean-Claude Trichet seðlabankastjóra Evrópu um að best væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið eru mjög skiljanleg. Hann lét þessi orð falla á blaðamannafundi í fyrradag í tengslum við spurningu um aðkomu EFTA ríkjanna að evrusvæðinu. Martröð bankastjórans væri sú að Ísland tæki einhliða upp evru án þess að uppfylla Maastricht skilyrðin og myndi síðan sækja um aðild að Evrópusambandinu nokkru síðar. Sú staða myndi setja Evrópusambandið í erfiða pólitíska klemmu. Ísland er nefnilega spennandi kostur sem nýtt aðildarland. Við erum vel stæð, kæmum meðal annars með góða þekkingu á sjávarútvegi og orkumálum inn í sambandið og við kunnum að starfa í fjölþjóðlegu samstarfi samanber EES og EFTA. Ef við uppfylltum hins vegar ekki þessi hagfræðilegu skilyrði evrusvæðisins en værum samt að nota evru sem gjaldmiðil, þá stæði ESB frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að hafna góðum kosti eða aðlaga aðildarskilyrðin að okkar stöðu. Það er því ekkert skrýtið að bankastjórinn vilji koma í veg fyrir slíkan hausverk og hvetur okkar því til að sækja um aðild að ESB fyrst.

Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland getur alveg tekið upp evru einhliða án þess að fá til þess samþykki Evrópusambandsins eða bankastjórnar evrópska seðlabankans. Þetta benti Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum utanríkisráðherra, réttilega á fyrir nokkrum misserum en hlaut bágt fyrir hjá ýmsum aðilum. Það er dálítið kómískt að nú eru margir þessara aðila í fararbroddi þeirra sem vilja alvarlega skoða þann möguleika að Ísland taki upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið.

Mín skoðun er nú samt sú að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og byrji strax á því að aðlaga íslenskt efnahagslíf að Maastricht skilyrðinum um lága verðbólgu, lítinn fjárlagahalla og minnkandi skuldir in opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu. Það hefur margoft komið fram í máli nánast allra íslenskra hagfræðinga sem hafa skrifað um þessi mál á undanförnum misserum að það myndi bæta hag útflutningsfyrirtækjanna, ferðaþjónustuaðila og í raun alls almennings. Við ættum því að hlusta á Jean-Claude Trichet með okkar hag í huga en ekki evrópska seðlabankans!

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna


Öskubuskur eða góðar álfkonur?

Ágæta áhugafólk um alþjóðamál, við vekjum athygli ykkar á opnu málþingi um svæðisbundnar alþjóðastofnanir á morgun þriðjudag á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ og stjórnmálafræðiskorar HÍ;

Svæðisbundnar alþjóðastofnanir: Öskubuskur eða góðar álfkonur? - Þriðjudaginn 9. október kl. 9.00-12.30 í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar

Alþjóðamálastofnun og stjórnmálafræðiskor Háskóla Íslands standa fyrir opnu málþingi um hlutverk og markmið svæðisbundinna alþjóðastofnana. Málþingið er haldið í tengslum við áfanga Alyson Bailes um evrópskar öryggisstofnanir og tekur á því hvernig ríki í Evrópu geta nýtt sér svæðisbundnar stofnanir til þess að tryggja öryggi sitt. Á málþinginu flytur Alyson Bailes erindi um svæðisbundnar stofnanir, þar sem hún skoðar hlutverk þeirra í að tryggja öryggi og lýðræði í samrunaþróun Evrópu. Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði bregst við erindi Alyson og leiðir umræður. Næst kynna Victoria Popescu, sendiherra Rúmeníu gagnvart Svíþjóð, og Natalia Gherman, sendiherra Moldóvu gagnvart Svíþjóð, annars vegar svæðisbundið samstarf ríkja við Svartahaf og hins vegar Central European Initiative og samstarf ríkja í suðaustur Evrópu. Að loknu kaffihléi verður rætt um svæðisbundið samstarf á Norðurlöndum og í Eystrasalstslöndum. Þar taka þátt Alyson Bailes, Kornelíus Sigmundsson, sendiherra, og Madeleine Ströje-Wilkens, sendiherra Svíþjóðar gagnvart Íslandi.

Málþingið er haldið í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar. Það hefst kl. 9 og stendur til 12:30. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.


Viðskiptablaðið um Evrópumál

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, Viðskiptablaðið gaf út í dag sérstakt fylgiblað um Evrópumál með hefðbundnu blaði sínu í dag. Þar er fjallað um Evrópumál frá ýmsum sjónarhornum. Þar er meðal annars rætt við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Karl Ólason, forstjóra Icelandair, Ólaf Darra Andrason hagfræðing ASÍ, Bjarna Má Gylfason hagfræðing Samtaka iðnaðarins, og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóra LÍÚ.

Í viðtalinu við Ólaf Darra hjá ASÍ segir hann að innganga í Evrópusambandið og upptaka evru geti fært almenningi margvíslegan ávinning; mögulega meiri efnahagslega stöðuleika, lægra vöruverð og lægri vexti. Ekki er hægt að nálgast blaðið í heild sinni á Netinu en við hvetjum fólk til að nálgast Viðskiptablaðið á næsta sölustað. En heimasíða Viðskiptablaðsins er http://www.vb.is


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband