Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Tími krónunnar liðinn

Samtök Atvinnulífsins héldu fund um krónuna fyrr í mánuðinum þar sem komist var að því að tími krónunnar væri liðinn, og að peningalegt sjálfstæði þjóðarinnar með íslensku krónuna væri skynvilla þar sem sveiflur koma að mestu að utan. Á síðu SA er hægt að lesa útdrátt úr því sem framfór á fundinum;

Daniel Gros sagði að á þeim sex árum sem liðin eru frá því evran tók við sem sameiginleg mynt ESB landa hafi reynslan verið jákvæð fyrir aðildarlönd Efnahags- og myntbandalagsins (EMU). Evran hafi staðist vel alþjóðlegar sveiflur og lítil áföll verið innan evru-svæðisins. Einhliða upptaka Svartfjallalands á evru hafi tekist vel þó svo að stofnanir ESB hafi í byrjun verið henni mjög mótfallnar. Gros benti þó á að aðstæður á Íslandi væru með allt öðrum hætti...

Ásgeir Jónsson sagði að Íslendingar ættu að hætta að hugsa í gengisvísitölu eða dollurum, og hugsa heldur í evrum. Krónan væri eins konar smástirni í kringum evruna. Hlutdeild evru í viðskiptum Íslendinga hefði farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum og gengissveiflur krónu gagnvart evru væru minni en margir virtust ætla. ... Staðan væri í rauninni sú að á Íslandi væri minnsta myntsvæði í heimi sem liggi að stærsta myntsvæði í heimi. Upptaka evru væri því augljós kostur fyrir Íslendinga.


Hægt er að skoða glærur frummælanda á http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4020/. Nú í kvöld var haldin ráðstefna um Evrópusambandið á vegum SA, en sú ráðstefna var ekki opin almenningi. Það verður spennandi að heyra hvað var rætt þar næstu daga, og sjá hvort atvinnulífið fari ekki að taka frumkvæðið um inngöngu í Evrópusambandið eins og gerðist í mörgum núverandi aðildarlöndum ESB.


Skoðum evruna

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, Jón Þór Sturluson, hagfræðingur og aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, skrifar góða grein í 24 Stundir í dag um evruna. Þar segir Jón Þór meðal annars:

,,Síðan 2001 hafa Íslendingar búið við fljótandi gengi og svokallað verðbólgumarkmið. Óhætt er að fullyrða að sú stefna hefur ekki dugað til að draga nægilega úr hagsveiflum á Íslandi, svo hér geti talist sómasamlegur stöðugleiki....

Sífellt fleiri eru þeirrar skoðunar að skuldbindandi tenging við annan gjaldmiðil sé leiðin til að skapa hér stöðugleika. Við blasir að evran er sá gjaldmiðill, annar en krónan, sem skiptir íslenskt efnahagslíf langmestu máli"

Greinina er einnig hægt að lesa á netinu á slóðinni: http://www.mbl.is/bladidnet/2008-01/2008-01-24.pdf

Mbl Bloggarar eru líka að velta fyrir sér stöðu krónunnar, Eyþór Arnalds segir hana á krossgötum á meðan blogg vinir hans hafa meiri áhyggjur; Guðmundur Löve skrifar að seðlabankinn blæði þjóðarhagnum út, á meðan Vilhjálmur Þorsteinsson segir seðlabankann vera í miklum vanda sem verði ekki leyst með öðru en upptöku evru. Það er því ljóst að gjaldeyrismálin eru enn í brennidepli, þrátt fyrir allann hamaganginn í pólitíkinni síðustu daga.


Krónan er ímyndað stjórntæki hræddra manna!

Guðmundur Löve hefur tekið þátt í íslensku útrásinni í yfir áratug. Hann skrifar áhugaverðan pistil inn á bloggið sitt í framhaldi af neitun Seðlabanka Íslands að samþykkja evruskráningu Kaupþings.

Guðmundur segir meðal annars:

,,Ef við skoðum hagsmuni almennings og fyrirtækja í landinu, þá er það harla fátt sem mælir með að halda í íslensku krónuna, en rökin á móti henni eru ærin:
  • Óþolandi gengissveiflur sem skekkja allt neyslu- og fjárfestingarmynstur þjóðarinnar
  • Óþolandi vaxtastig sem bitnar aðallega á þeim sem síst skyldi: Þeim sem skulda yfirdrátt og eru með óverðtryggð lán, til dæmis til að brúa fyrstu íbúðakaup.
  • Verulegur kostnaður og óhagræði fyrir fyrirtæki sem eiga viðskipti við útlönd: Það er nú einu sinni þannig að áhætta (einnig gengisáhætta) kostar peninga, og fyrirtæki verða að eyða peningum í að verja sig gagnvart duttlungum krónunnar á alla lund — peningum sem væri betur varið í annað.

 

Hægt er að lesa bloggið í heild sinni á http://loeve.blog.is/blog/loeve/entry/412320/


Springur í Kosovo?

Hugleiðingar um fortíð og framtíð á Balkan-skaga. Höfundur: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, MA í stjórmálafræði.
 
Í Suður-Serbíu, er að finna litla ,,dýnamítstúbu”, sem heitir Kosovo. Þar voru haldnar kosningar fyrir skömmu, en í þeim sigraði flokkur Hacim Thaci, fyrrum skæruliðaforingja. Hann er nú orðinn forsætisráðherra Kosovo og bíða hans erfið verkefni, m.a. að standa við loforð um að lýsa yfir sjálfstæði.

Íbúar Kosovo eru alls um 2.2 milljónir og af þeim eru um 95% Albanir. Kosovo var fram til ársins 1999 stjórnað af Serbum, sem álíta sig ,,eiga” þetta bláfátæka, en auðæfaríka hérað. Serbar álíta Kosovo vöggu serbneskrar menningar og á það rætur sínar að rekja til mikils bardaga sem háður var á Svartþrastavöllum í Kosovo árið 1389. Þar féll prins nokkur að nafni Lazar fyrir hendi Tyrkja og hafði andlát hans örlagaríkáhrif á Serba og er svo enn. Dauði Lazars ýtti undir þá sálfræðilegu afstöðu margra Serba til umheimsins að þeir séu sífelld fórnarlömb, hvað sem á gengur og að allt sé meira eða minna samsæri gegn þeim.
 
Serbar mega því ekki heyra á það minnst að Kosovo veriði aðskilið frá Serbíu á nokkurn hátt, það er líkt og að rífa úr þeim hjartað og skilja eftir gapandi svöðusár. En Serbar hafa farið illa með Kosovo,  kúgað albanska þegna þess og litið á þá sem undirsáta. Í Kosovo voru Serbar forréttindastétt. Í gömlu Júgóslavíu kommúnismans, sem var við lýði frá 1945-1995, og var lengst af stjórnað af einsræðisherranum Jósep Bros Tító (lést 1980) nýttu Serbar sér Kosovo á skipuagðan hátt og sóttu þangað ýmis auðæfi. Félagsleg aðstaða Albana í héraðinu, sem smám saman fékk stöðu sjálfstjórnarhérðs, var þó afar slæm. Til dæmis var menntakerfið og heilbrigðiskerfið meðal Albana rekið neðanjarðar, m.a. fyrir fjármagn frá Albönum, búsettum erlendis.
 
Eftir upplausn Júgóslavía, sem átti rætur að rekja til hugmynda Slobodan Milosevic um Stór-Serbíu og gengdarlausrar þjóðernishyggju, voru lýðveldin sem mynduðu landið; Slóvenía, Króatía og Bosnía/Hersegóvína, orðin sjálfstæð ríki. Svartfjallaland (einnig lýðveldi!) fylgdi lengi Serbíu að málum og lýsti ekki yfir sjálfstæði fyrr en á síðasta ári. Hrun Júgóslavíu kostaði hryllilegar blóðsúthellingar, dauða og hörmungar.Um var að ræða mannskæðustu átök frá lokum seinni heimsstyrjaldar. 
 
Staða Kosovo var hinsvegar óleyst, en frelsisþrá Albana engu að síður sterk. Skæruliðar Albana hófu árásir á serbneska embættismenn og til átaka kom árið 1996. Réðist her Júgóslavíu (les. Serbíu) inn í Kosovo árið 1998 til þess að brjóta frelsisher Kosovo (KLA) á bak aftur. Serbar stunduðu þar s.k. þjóðernishreinsanir og frömdu grimmdarverk. Leiddi það til loftárása NATO á Serbíu, sem stóðu í nokkra mánuði árið 1999. Eftir þetta tóku svo Sameinuðu þjóðirnar við stjórn Kosovo og er svo enn. 
 
Hacim Thaci, (fyrrum leiðtogi KLA), sagði eftir kosningasigurinn það vera áætlun sína að gera líkt og áðurefnd lýðveldi, þ.e. að lýsa yfir sjálfstæði. Olli þetta strax mikilli spennu og reiði í Serbíu, þar sem sterk öfl, sem lifa á þjóðernishyggju, eru enn til staðar

Málið er afar flókið, allar sáttatillögur farið út um þúfur og vann Martti Ahtisaari, fyrrum forseti Finnlands og fulltrúi Sameinðu þjóðanna um málefni Kosovo lengi að tillögu um ,,sjálfstæði undir eftirliti,” sem ekki hlaut samþykki í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Lausn Serba á málefnum Kosovo er hinsvegar ,,sjálfsákvörðunarréttur undir eftirliti,” nokkuð sem Kosovo-Albanir hafna alfarið. Þeir vilja sjálfstæði strax, atvinnu og lífsgæði, en atvinnuleysi, spilling og eymd einkenna daglegt líf í héraðinu. 

Þá verður einnig að tryggja öryggi þeirra 50.000 Serba sem enn búa í Kosovo. Þegar mest lét bjuggu um 200.000 Serbar í Kosovo, en 75% þeirra hafa verið hraktir á brott eða yfirgefið héraðið. Hræðsla er meðal þeirra, enda álitnir vera fulltrúar nýlenduherra og kúgunarkerfis.

Ástandið í Kosovo er í raun afleiðing þeirra þjóðfélagstilraunar sem ríkjasambandið Júgoslavía var, þar sem reynt var að halda mjög mismunandi þjóðarbrotum undir einum hatti í nafni sósíalisma. Þegar það sýndi sig ekki vera mögulegt blossaði hatrömm þjóðernishyggja upp, með hörmulegum afleiðingum. Serbar eru því enn að glíma við afleiðingar eigin gerða. Þeim virðist það hinsvegar þrautin þyngri, en reiða sig á stuðning Rússa á margan hátt, m.a. vegna sameinginlegrar menningar og trúarhefða, en bæði Rússar og Serbar tilheyra réttrúnaðarkirkjunni.

 
Ætlunin er að Evrópusambandið taki á næstunni við að gæta öryggis Kosovo, en þar eru nú um 17.000 hermenn á vegum NATO. Utanríkisráðherra Serba sagði í samtali við BBC World að sjálfstæðisyfirlýsing Kosovo-Albana væri ólögleg, rétt eins og sjálfstæðisyfirlýsingar Slóvena, Króata og Bosníumanna, hefðu verið á sínum tíma. Segjast þeir muni beita öllum lögfræðilegum aðgerðum til þess að hindra sjálfstæði Kosovo. Þá hóta þeir að slíta öllum viðræðum við ESB um aðild að sambandinu. Spurningin er hvort þeir grípi til annarra aðgerða? Samskipti Serba og Albana hafa ekki verið góð, en nú virðist frostið vera algjört milli þessara aðila. En það sem skiptir máli verða viðbrög Serba í þessari deilu, lýsi Kosovo yfir sjálfstæði. Þau geta haft mikil áhrif á stjórnmálaástandið á Balkanskaga. 

Verði viðbrögð Serba reiði og gremja, er allt eins líklegt að í gang fari öfl sem sækja innblástur sinn til þjóðernishyggju og þjóðernisrembu. Taki hinsvegar Serbar skynsamlega á málunum, geta þeir með þeim hætti áunnið sér traust og virðingu umheimsins, ekki minnst Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Í kjölfar þess gætu landinu opnast ýmsar dyr, en þær hafa hingað til verið lokaðar, ekki síst vegna tregðu serbneskra stjórnvalda að framselja stríðsglæpamennina Ratko Mladic og Radovan Karadzic, sem báðir eru eftirlýstir vegna stríðsglæpa í Bosníu.

Serbía hefur mikilla hagsmuna að gæta, ástandið í landinu þarf að komast í eðlilegt horf, Serbía á erindi í samfélag þjóðanna með eðlilegum hætti, alla leið inn í Evrópusambandið. 

Slóvenía tók við forsæti ESB nú um áramótin, en landið fékk aðild að ESB árið 2004 og hefur þegar tekið upp Evruna. Það segir ákveðna sögu að á sama tímapunkti eru Serbar í raun að glíma við fortíðina og afleiðingar eigin gerða í Kosovo. 

Fulltrúar ESB vilja hraða nálgun Serbíu að ESB og var það einmitt utanríkisráðherra Slóvena, sem lagði fram þá tillögu. Vilja Slóvenar að Serbar samþykki ákveðinn undirbúningssamning ganvart ESB. Það hefur hinsvegar mætt andstöðu, m.a. frá Hollendingum, sem vilja að Mladic verði handtekinn fyrst. Andstaða Hollendinga er skiljanleg, þar sem það voru hollenskar hersveitir á vegum ESB, sem horfðu upp á Bosníu-Serba, undir stjórn Mladic, myrða um 8000 óvopnaða múslimska karlmenn í smábænum Srebrenica sumarið 1995. Er þetta einn svartasti bletturinn á evrópskri samtímasögu.

Það verður spennandi að fylgjast með viðbrögðum Serba við tillögu Slóvena. Munu þeir samþykkja þessa tillögu, frá fyrrum ,,bræðralýðveldi” í landi þar sem eitt sinn allt lék í lyndi, en sökum þjóðernishyggju og andstæðra skoðana, liðaðist í sundur í hryllilegum átökum, sem enn eru að mörgu leyti óuppgerð? Eða segja þeir nei og berja höfðinu við steininn? Þeir sem eiga völina eiga kvölina.

Serbar hafa sagt því að þeir muni ekki beita vopnavaldi í Kosovo, kjósi íbúar þess að lýsa yfir sjálfstæði. Slíkt væri líka glapræði. Það er hinsvegar ekki hægt að segja til um hvernig hópar sem stjórnvöld hafa ekki stjórn á bregðast við, lýsi Kosovo yfir sjálfstæði. 

Frá árinu 1999 eru áhrif Serba á málefni Kosovo nær engin og serbnesk lög gilda ekki þar lengur. Það er hið svokallaða ,,alþjóðasamfélag” sem stýrir Kosovo.

Ef við gefum okkur að Kosovo verði frjálst land, er ekki þarmeð sagt að allt falli í ljúfa löð og líf íbúanna verði hrein sæla. Langt í frá. Þá byrjar hin raunverulega vinna; að byggja upp land sem í áratugi hefur mátt þola kúgun og yfirgang, rányrkju og félagslega niðurlægingu. Og að þessu verkefni þarf hið alþjóðlega samfélag; stofnanir og ríki, svo sannarlega að koma að. Róm var ekki byggð á einum degi og það sama á við um Kosovo. Svo sannarlega!

Staðreyndir um Júgóslaívu:

Nafnið þýðir ,,land S-Slava.”

Júgósalvía 1: Stofnuð árið 1918 sem ,,Konungdæmi Serba, Slóvena og Króata”, einnig kölluð ,,Konunglega Júgóslavía.”

Júgóslavía 2: Stofnuð 1945 af Jósep Bros Tító, marskálki, kölluð á ensku ,,Communist Yugoslavia.”. Þekkt á íslensku undir heitinu Alþýðulýðveldið Júgóslavía. Samanstóð af lýðveldunum: Slóveníu, Króatíu, Bosníu&Herzegóvínu, Serbíu, Montenegró og Makedóníu.

Innan Serbíu var svo að finna tvö sjálfsstjórnarsvæði (,,autonomus provinces”) en þetta voru Vojvodina í N-hlutanum og Kosovo í S-hlutanum.

Í þeim átökum sem brutust út 1991 sluppa tvö síðastnefndu lýðveldin nær algerlega. Makedónía lýsti yfir sjálfsstæði haustið 1991 og Montenegró (Svartfjallaland) var í nánu pólitísku sambandi við Serbíu á meðan átökunum stóð (leiðtogi þess, Momir Bulatovic, fylgdi Slobodan Milosevic að málum).

Júgóslavía 3: Sambandslýðveldið Júgóslavía (Federative Republic of Yugoslavia). Myndað árið 1992, eftir að Slóvenía, Króatía Bosnía&Herzegóvína höfðu lýst yfir sjálfstæði. Samanstóð því einungis af Serbíu og Svartfjallalandi. Sambúðin var stormasöm á seinni hluta tímabilsins og stóð til 2003, en þá breyttist þetta ríki í enn lausara sambandsríki eða ríkjasamband. Svartfjallaland sleit sig svo endalega frá Serbíu árið 2006, þegar það lýsti yfir sjálfstæði.

Árið 1981 töldust íbúar Júgóslavíu vera rúmlega 22 milljónir manna. Í Serbíu búa í dag um 10 milljónir manna (þar með talið 2 milljónir í Kosovo).

Gjaldmiðill: Dínar

Höfuðborg: Belgrad

Staðreyndir um Kosovo:

Íbúafjöldi: Um 2.2 milljónir, yfir 90% Albanir, sem flestir iðka islam (flestir tilheyra sunníta-reglunni). Um 5% eru Serbar, sem tilheyra réttrúnaðarkirkjunni.

Höfuðstaður: Pristina.

Stærð: 10.900 ferkílómetrar (Ísland=115.000 fkm)

Atvinnuleysi: Um 50-60%

Gjaldmiðill: Evra

Kosovo er ríkt af ýmsum málmum, s.s.blýi, nikkel, gulli og silfri, en ekki síst krómi (um 20% forða alls heimsins) Þá er einnig að finna mikið kolum og jarðgasi í Kosovo.

Styttri útgáfa af greininni birtist í Morgunblaðinu 5. janúar.
Höfundur er með mastersprófi í stjórnmálafræði frá háskólanum í Uppsölum.

 

Ísland er í Evrópu(sambandinu)

Erfiðleikar við að hafa minnsta gjaldmiðil í heimi hafa verið eldsneyti umræðu um Evrópusambandsaðild undanfarið ár og ekkert bendir til annars en að sú umræða muni aukast og dýpka á þessu ári. Ein af meginrökunum fyrir því að taka upp annan og stöðugri gjaldmiðil er að komast undan gjaldeyrisáhættu og minnka viðskiptakostnað. Öll íslensk fyrirtæki verða fyrir áhrifum af sveiflum í gengi íslensku krónunnar gagnvart gjaldmiðlum viðskiptaríkja og þarfnast aukins stöðugleika og minni viðskiptakostnaðar. Best er að hafa sama gjaldmiðil og viðskiptaríki því þá hverfur gjaldeyrisáhætta og kostnaður við að færa úr einum gjaldeyri í annan. Í þessu ljósi má setja spurningamerki við hugmynd Björgólfs Thors í áramótablaði Viðskiptablaðsins um upptöku svissnesks franka og við athugasemd forsætisráherra í Kryddsíld Stöðvar 2 um að bandaríkjadollar væri betri kostur en evra. Viðskipti við Sviss eru aðeins um 2% af utanríkisviðskiptum Íslands og viðskipti við Bandaríkin um 10% og fara minnkandi sem hlutfall af heildarutanríkisviðskiptum. Viðskipti Íslands við EES-ríki (ESB og EFTA) eru hins vegar um 70% af öllum utanríkisviðskiptum Íslands og viðskipti Íslands við þau ríki sem þegar hafa tekið upp evruna eru ríflega helmingur af utanríkisviðskiptum og fara vaxandi.

Jafnvel þó einhliða upptaka evru sé fræðilega fær þá er hún kostnaðarsöm og hefur í för með sér algert áhrifaleysi á peningamálastefnu. Umræða um evru þróast því fjótt í umræðu um aðild að Evrópusambandinu. Í þeirri umræðu er iðulega rætt um gildi þess að hafa frelsi til athafna utan ESB, til dæmis við gerð viðskiptasamninga – eins og kom m.a. fram í viðtalinu við Björgólf Thor. Tilhneigingin er sú að bera saman ESB-aðild og fullt frelsi til að móta utanríkisviðskipti. Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland nýtur mjög takmarkaðs frelsis í alþjóðaviðskiptum. Ísland hefur tekið yfir reglur ESB á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær til, sem eru vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, frjálst flæði fjármagns og fólks og samkeppnisreglur. Í stuttu máli þá mótast allt viðskiptalíf Íslands af ákvörðunum ESB, ef undan er skilinn sjávarútvegur, landbúnaður og viðskiptasamingar við ríki utan ESB. Þýðir þetta að Íslandi sé í sjálfs valds sett að setja reglur um sjávarútveg og landbúnað eða að Ísland verði ekki fyrir áhrifum af ákvörðunum ESB á þessum sviðum? Nei, þvert á móti. Vegna fjórfrelsisins og afleiddra reglna þá mótast allt okkar viðskiptaumhverfi af ESB. Íslensks fyrirtæki geta ekki keypt fisk frá Rússlandi, öðru fullvalda ríki utan ESB, nema að viðkomandi rússneskur útflytjandi hafi uppfyllt heilbrigðisreglur og fengið úttekt hjá starfsmönnum ESB. Íslensk fyrirtæki geta ekki keypt tómatsósu frá Bandaríkjunum nema þær uppfylli reglur ESB og innri markaðarins. Íslendingar geta ekki selt Færeyingum spægipylsu nema að hafa til þess vottorð frá ESB.

Ísland hefur, í samfloti við önnur EFTA-ríki, 16 fríverslunarsamninga. Meginmarkmið samninganna er að reyna að tryggja íslenskum fyrirtækjum sömu samkeppnisskilyrði og fyrirtækjum í ESB og að halda einsleitni innri markaðarins. ESB er langstærsta viðskiptaveldi heims, með hartnær tvöfalt meiri utanríkisviðskipti en Bandaríkin. Jafnvel þó íslenska utanríkisráðuneytið hafi sýnt fádæma dugnað og útsjónarsemi við gerð fríverslunarsamninga, þá er erfitt eða ómögulegt að tryggja íslenskum fyrirtækjum sömu kjara og fyrirtæki aðildarríkja ESB njóta einfaldlega vegna þess að samningsstaða og tengsl ESB eru sterkari. Við aðild að Evrópusambandinu munu íslensk fyrirtæki njóta sömu kjara og samkeppnisaðilar í ESB. Rétt er að vega og meta það takmarkaða frelsi sem við höfum til að gera alþjóðlega viðskiptasamninga í því ljósi. Ísland er nú þegar hálfgildings Evrópusambandsríki vegna áhrifa EES-samningsins og viðskiptamynsturs. Hálfgildings aðildarríki vegna þess að Ísland á ekki aðild að ákvarðanatökuferli ESB og getur, t.a.m., ekki tekið upp evru eins og ESB-ríki. Full aðild felur í sér ákveðið afsal formlegs fullveldis en hin hagnýtu áhrif eru fyrst og fremst þau að áhrif Íslands aukast á sama tíma og opnast fyrir þátttöku í myntbandalaginu.

Aðalsteinn Leifsson, lektor í viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Greinn birtist í Viðskiptablaðinu 3. janúar 2008


Evran í The Independen

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, stundum er látið svo að Englendingar séu upp til hópa miklir andstæðingar Evrópusamrunans og sérstaklega hins sameiginlega gjaldmiðils ESB. Það er hins vegar ekki rétt og þeir eru margir sem telja að Bretar ættu að taka upp evruna sem gjaldmiðil. Sjá meðfylgjandi leiðara í hinu virta dagblaði ,,The Independent" á miðvikudaginn.

http://comment.independent.co.uk/leading_articles/article3300994.ece


Hættulegir einangrunarsinnar

Maður veit varla hvort maður á að hlæja eða gráta eftir að hafa lesið grein Bjarna Harðarsonar alþingismanns í 24 stundum rétt fyrir jólin. Það er langt síðan þvílíkt samansafn af fordómum, rangfærslum og afbökunum á staðreyndum hefur verið sett á blað í Evrópuumræðunni hér á landi. Líklegast þarf maður að fara alla leið aftur í umræðuna um EES samninginn á árunum 1992-93, þegar einangrunarsinnar reyndu í örvæntingu að koma í veg fyrir samþykkt samningsins á Alþingi, til að finna sambærilegan málflutning. Ef til vill eru svipaðir tímar að koma upp á Íslandi núna og það skýri öfgarnar í málflutningi alþingismannsins.

Kveikjan að þessari grein Bjarna virðast hafa verið ummæli Eiríks Bergmanns Einarssonar í Silfri Egils fyrir skömmu þar sem hann var fenginn til að gefa sína sýn á þróun mála í Evrópu. Bjarni titlar Eirík formann Evrópusamtakanna en það er hann ekki og hefur aldrei verið. Sá sem þessa grein skrifar er formaður Evrópusamtakanna og hefur verið um nokkurra ára skeið. Eiríkur er ekki heldur stjórnmálamaður heldur forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst og hefur rannsakað Evrópusamrunanna hér á landi um margra ára skeið. Þeir eru örugglega vanfundnir íslenskir fræðimenn sem þekkja þennan málaflokk betur en Eiríkur.

Bjarni skrifar eins og í gangi sé alsherjarsamsæri embættismanna í Brussel að troða vilja sínum á saklausa borgara Evrópu. Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þróun Evrópu undanfarna áratugi vita að Evrópusambandið er samband sjálfstæðra ríkja sem hefur vaxað og dafnað í skjóli aukins lýðræðis og alþjóðavæðingar undanfarna áratugi. Kjarni valdsins liggur hjá þjóðríkjum Evrópusambandsins í formi ráðherraráðsins. Þessi bábilja sem einangrunarsinnar klifa sífellt á um að Ísland muni tapa fullveldi og sjálfstæði ef það gengi í Evrópusambandið á ekki við rök að styðjast. Eru til dæmis Bretland, Danmörk, Svíþjóð og Holland ekki sjálfstæð ríki? Auðvitað eru þau það og Ísland yrði áfram frjálst og fullvalda ríki þótt það gengi í Evrópusambandið líkt og vinaþjóðir okkar á meginlandinu.

Stjórnarsáttmálinn sem kenndur er við Lissabon gengur fyrst og fremst út á að aðlaga Evrópusambandið að þeim veruleika sem blasir við með stækkun þess undanfarin misseri. Stjórnskipulag sambandsins var að mestu leyti sett upp með hliðsjón af 6 aðildarríkjum en þau eru nú orðin 27 og á eftir að fjölga á komandi árum. Bjarni virðist gleyma því að öll þessi ríki hafa af fúsum og frjálsum vilja gengið inn í þetta bandalag enda telja þau hagsmunum betur borgið í þessu samfloti en hvert og eitt að reyna að verja sína hagsmuni. Þvert á það sem Bjarni reynir að færa rök fyrir þá hlusta leiðtogar Evrópu á íbúa sína og hafa ákveðið að aðlaga sáttmálann að vilja meirihluta fólks í álfunni.

Það er undarlega árátta margra einangrunarsinna að blanda Stalín og Hitler í evrópuumræðuna líkt og Bjarni gerir í grein sinni. Það er vægast sagt mjög ósmekklegt enda vita þeir sem eitthvað hafa kynnt sér sögu Evrópu eftir seinna stríð að helsti hvatinn að samruna Evrópu er einmitt sá að koma í veg fyrir að þeir hildarleikir sem álfan gekk í gegnum árin 1914-18 og 1939-1945 endurtæki sig. Það hefur gengið eftir enda hefur aldrei áður í sögu Evrópu verið jafn langt friðarskeið og undanfarin 60 ár.

Bjarni hefði betur lesið ágæta grein Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, sem var birt fyrir skömmu á heimasíðunni framsokn.is., áður en hann reið fram á ritvöllinn. Í greininni segir Jón meðal annars: ,,Í stofnunum Evrópusambandsins geta Íslendingar vænst skilnings úr ýmsum áttum. Vitað er um afstöðu smáþjóða til margra mála. Þarna eru mörg eyjasamfélög, landshlutar og minnihlutaþjóðir, auk Norðurlandamanna. Það er ekki skynsamlegt að útiloka hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrirfram". Auk þess hefði Bjarni Harðarson gott af að kynna sér dæmin sem Jón nefnir um aðildarsamninga að ESB. Þar sýnir Jón að umræður manna hérlendis byggjast að miklu leyti á misskilningi.

Sem betur fer tókst einangrunarsinnum ekki að koma í veg fyrir samþykkt EES-samningsins fyrir rúmum áratug. Færa má sterk rök fyrir því að lífskjör Íslendinga væru ekki jafn góð og þau eru í dag ef Evrópusinnar í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum hefðu ekki sameinast um að koma samningnum í gegn. Það sama á við í núverandi ástandi. Staða íslensku krónunnar er byrði á efnahagslífinu og kemur í veg fyrir áframhaldandi jákvæða þróun atvinnumála hér á landi. Einnig hafa verið færð rök fyrir því að matvælaverð myndi lækka hér á landi við inngöngu í Evrópusambandið. Lækkun vaxta og lækkun matvælaverðs myndi þýða mikla kjarabót fyrir almenning hér á landi. Látum því ekki hættulega einangrunarsinnar koma í veg fyrir áframhaldandi þróun íslensk samfélags.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband