Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hriplek rök gegn inngöngu í ESB

Andstæðingar ESB-inngöngu hamast margir hverjir á þeirri röksemd að Íslendingar muni glata sjálfstæðinu við inngöngu í ESB. En hvernig útskýra ESB-andstæðingar þá staðreynd að þau lönd í Mið- og austur-Evrópu sem losnuðu undan járnhæl kommúnismans létu það verða forgangsverkefni að sækja um aðild að ESB? Pólland, Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland, Tékkland og Slóvakía eru nú öll aðildarríki ESB.

Fengu þessi nýfrjálsu ríki frelsið bara til þess eins að kasta því í burtu, "augnabliki" síðar? Þessi lönd hafa sjaldan eða aldrei verið frjálsari en einmitt nú. Gott dæmi: Slóvenía, sem nú fer með formennsku í ESB, en var árið 1991 aðeins lýðveldi í Júgóslavíu kommúnismans, áður en það sagði sig úr ríkjasambandinu sama ár. Þá réðist Alþýðuher Júgóslavíu inn í Slóveníu og stóð þar yfir stríð í tíu daga. Því lauk með að Alþýðuherinn hraktist þaðan. Frá þeim tímapunkti hefur Slóvenía markvisst unnið sig inn í innsta kjarna ESB, en árið 2004 gekk landið með formlegum hætti í ESB og NATO. Slóvenar gegna nú, eins og áður sagði, formennsku í ESB. Þessi árangur á aðeins fjórum árum frá gildistöku aðildar! Íbúar Slóveníu eru um 2 milljónir og gjaldmiðill landsins er Evra.

Annað dæmi: Eystrasaltslöndin, sem öll voru undir járnhæl Sovétríkjanna. Eftir að þau fengu frelsi frá þeim var stefnan sett á ESB. Eistland, Lettland og Litháen gengu öll í NATO og ESB sama ár, þ.e. 2004. Hagvöxtur og framþróun í þessum löndum er með mesta móti nú um stundir, þau einfaldlega blómstra.

Í Svíþjóð, sem gekk í ESB árið 1995, er það nánast aðeins í Vinstriflokknum (sem er arftaki Kommúnistaflokksins) þar sem raddir, sem tala um miðstýringu frá Brussel, heyrast. Nú heyrast einnig raddir frá sænska Umhverfisflokknum (til vinstri á hinum pólitíska skala) sem vilja kasta fyrir róða þeirri fyrri skoðun sinni að Svíþjóð beri að segja sig úr ESB. Maria Wetterstrand, annar leiðtoga flokksins, tilkynnti það fyrir skömmu að henni fyndist vænlegra til árangurs að vera með í ESB.

Á komandi áratugum verða umhverfismál einn mikilvægasti málaflokkurinn sem mannkyniðglímir við. Hvaða áhrif og HVERNIG vilja Íslendingar og íslensk stjórnvöld hafa í þeim málaflokki (sem er þó aðeins einn af mörgum)? Er ekki sjálfstæði einmitt falið í því að geta valið að vera með í ESB sem fullgilt aðildarríki, sem hlustað er á og hefur eitthvað til málanna að leggja á réttum stöðum? Eða er betra að velja að vera nánast áhrifalaus í útjaðrinum? Og hvað "sjálfstæðisrök" andstæðinga ESB-aðildar varðar, þá tel ég þau vera hriplek. Ísland hættir ekki að vera sjálfstætt land við inngöngu í ESB.

Veröldin hefur breyst og það allverulega síðan Ísland fékk sjálfstæði. Aðstæður í alþjóðamálum eru gjörbreyttar, ekki síst eftir að ,,Kalda stríðinu” lauk. Er hægt að horfa framhjá þeim breytingum þegar fjallað er um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og hvert skuli stefna?

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur.


Aðalfundur Evrópusamtakanna

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, aðalfundur Evrópusamtakanna verður haldinn miðvikudaginn 2. apríl kl.16.00 í sal Þjóðminjasafnsins.

Dagskrá:

  1. Hefðbundin aðalfundarstörf.
  2. Evrópumaður ársins
  3. Erindi Árna Páls Árnasonar alþingismanns
  4. Önnur mál

Ekki spurning hvort heldur hvenær

Ólöf Nordal, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar áhugaverðan pistil í Fréttablaðið í dag um Evrópumál. Þar segir hún meðal annars:

Það dettur engum í hug að útiloka aðild að sambandinu til langs tíma og satt að segja held ég að það sé frekar tímaspursmál en hitt hvenær við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun. En ef umræðan um Ísland og Evrópusambandið á að vera á skynsamlegum nótum, verður að byrja á réttum enda og þar skiptir undirbúningur hér heima fyrir, og þá ekki síst ákvæði stjórnarskrárinnar, miklu máli.

Greinilegt er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru smám saman að átta sig á því að meirihluti íslensku þjóðarinnar telur að hagsmunum sínum sé betur borgið með aðild að Evrópusambandinu. Stutt er síðan Guðfinna Bjarnadóttir þingmaður flokksins lýsti svipaðri skoðun og Ólöf. Það verður áhugavert að fylgjast með Evrópuumræðunni. innan Sjálfstæðisflokksins á komandi misserum.

Hægt er að lesa grein Ólafar á þessi slóð http://vefblod.visir.is/index.php?s=1865&p=50512


Um talnaleikfimi og reglugerðir ESB

Nokkrar deilur hafa blossað upp um hve mikið af regluverki Evrópusambandsins við Íslendingar tökum upp í gegnum EES samninginn. Menn flagga tölum frá 6,5% upp í 80% eftir því hvað viðkomandi vill sanna hve samtvinnað Ísland er reglugerðarsetningu Evrópusambandsins. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ESB land tekur upp allt regluverk Evrópusambandsins þannig að svona talnaleikfimi segir ekki nema hluta sannleikans. Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, hefur rannsakað þetta manna mest og hefur bent á að Ísland taki upp um 80% af því sem Svíþjóð taki upp. Sú tala segi mun meira en þær tölur sem menn eru að deila um hér á landi.

Ísland tekur reyndar upp nánast allt reglugerðaverk Evrópusambandsins varðandi innri markaðinn og þar með flest þau lög sem tengjast verslun og viðskipum þar með talið samkeppnislöggjöf, neytendavernd og þjónustutilskipun ESB. Löggjöf Evrópusambandsins hefur því áhrif á nánast hvern einasta einstakling á Íslandi á hverjum degi. Það má því örugglega færa rök fyrir því að við höfum tekið upp á milli 70-80% af ESB reglum sem snerta málefni hins innri markaðar.

Við tökum hins vegar ekki upp einstakar reglugerðir sem tengjast tímabundnum aðgerðum eins og niðurgreiðslu á mjólkurafurðum í Mið-Evrópu, svæðisbundnum aðgerðum í landnýtingu á Írlandi eða skyndilokunum á veiðsvæðum í Eystrasalti. Evrópusambandið setur lög með reglugerðum, tilskipunum og ákvörðunum. Tilskipanir (directives) eru rammlöggjöf og yfirleitt viðamestar en reglugerðir (regulations) og ákvarðanir (decisions) eru margfalt fleiri en hafa yfirleitt tímabundna og/eða takmarkaða lögsögu.

Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður fór mikinn á síðum Morgunblaðsins fyrir skömmu og vísaði þar í svar sem Davíð Oddsson þáverandi utanríkisráðherra hafði gefið við fyrirspurn hans um hve við tækjum upp af lögum ESB. Í svarinu kom fram að frá því EES-samningurinn gekk í gildi árið 1994 og fram til ársins 2004 hafi ESB samþykkt 1.047 tilskipanir, 27.320 reglugerðir og 10.569 ákvarðanir. Ísland hafði á þessum tíma tekið upp 2.527 gerðir frá ESB þar á meðal stóra lagabálka varðandi samkeppnismál, um óréttmáta viðskiptahætti, neytendamál, umhverfsvernd og fleira. Með því að blanda saman öllum þessum gerðum fékk utanríkisráðherrann út að Ísland taki 6.5% af reglugerðaverki ESB í innlend lög.

Flestir hugsandi menn sjá að sú framsetning gefur alls ekki rétta mynd af mikilvægi þeirrar lagasetninga sem Ísland hefur tekið upp. Fyrst skal nefna að ótækt er að leggja tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir Evrópusambandsins að jöfnu enda greinir ESB ávalt vel þar á milli. Í öðru lagi er mikilvægi þessara lagagerða mjög misjafnt og ekki hægt að leggja þær allar að jöfnu. Í þriðja lagi er síðan ljóst að ekkert land tekur upp allar þessar reglugerðir og því er þessar tölur ekki samanburðarhæfar.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þessi mál er gott að lesa grein Eiríks Bergmanns Einarsson ,,Á kafi í Evrópusamrunanum” á slóðinni http://www.bifrost.is/default.asp?sid_id=22905&tId=1 en þar fjallar hann um hve vandmeðfarið er með svona tölfræðiupplýsingar. Eftir því sem ég best veit hefur engin dregið í efa þær rannsóknir sem Eiríkur birtir þar.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna


Ráðstefnan; ,,Er Ísland hagkvæmt myntsvæði?"

Ágæta áhugafólk um Evrópumál, við vekjum athygli ykkar á mjög áhugaverðri ráðstefnu á vegum Rannsóknastofnunar í fjármálum við Háskólann í Reykjavík í dag kl.13.00 um myntsvæði. Heiti ráðstefnunnar er ,,Er Ísland hagkvæmt myntsvæði?"

Ráðstefnan verður haldin í stofu 101 í HR 19. mars kl. 13:00-16:00. Eftirtaldir aðilar tala.

  • Andrew K. Rose, Berkeley háskóla í Bandaríkjunum: The Economics of Currency Areas: What do the Data Say? / Hagfræði gjaldmiðlasvæða. Hvaða segja tölurnar?
  • Þórarinn G. Pétursson, Seðlabanka Íslands: The challenge of doing monetary policy in very small open economies / Vandamál sjálfstæðrar peningastefnu í mjög litlu opnu hagkerfi
  • Francis Breedon, Tanaka Business School, Imperial College í Lundúnum: Out in the cold: Iceland‘s trade performance outside the EU and EMU. Lífið utan EMU: Er krónan viðskiptahindrun?
  • Ólafur Ísleifsson, Háskólanum í Reykjavík – Samantekt og umræða

Fundarstjóri: Kirstín Flygenring

Hægt er að lesa nánar um ráðstefnuna hér.


Góð hugmynd SUF

Þjóðin á rétt á því að fá að vita hvernig aðildarsamningarnir okkar verða, þannig að það er hagsmunarmál fyrir alla - sama hvort þeir séu með eða á móti aðild - að aðildarviðræður fari framm þannig að umræðan geti byggst á raunverulegum aðildarsamningum en ekki aðeins á því hvernig samið hefur verið við önnur lönd Evrópu til þessa. Þar sem samningaviðræður milli Íslands og Evrópusambandsins munu taka innan við ár, vegna þess að við höfum þegar tekið upp 3/4 af regluverki þess í gegnum EES samninginn og Schengen, þá er augljóslega mikið hagsmunamál fyrir Íslensku þjóðina að fá að vita nákvæmlega hvað það myndi þýða að klára að taka upp síðasta fjórðung regluverks Evrópusambandsins hér á landi.

Ungir Jafnaðaramenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, ályktaði um sama efni í síðustu viku, og þá ályktun má sjá hér. Þar segir meðal annars;

Meirihluti þjóðarinnar er hlynntur samningaviðræðum - þar á meðal margir sem eru andvígir aðild Ísland að Evrópusambandinu. Ungir Jafnaðarmenn telja það hagsmunamál bæði þeirra sem eru fylgjandi og andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu að samningsmarkmið verði skilgreind, sótt um aðild og landsmönnum öllum gefinn kostur á að kjósa um aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað tökum við yfir margir reglugerðir ESB?

Enn og aftur hefur umræðan blossað upp um hve mikið Íslendingar taka upp af reglugerðum ESB. Árni Snævarr fréttamaður svarar Sigurði Kára Kristjánssyni í Morgunblaðinu í dag, eftir að Sigurður Kári var enn og aftur að halda á lofti 6.5% tölunni. Olli Rehn, stækkunastjóri ESB sem sér um aðildarsamninga við nýjar aðildarþjóðir, segir að Ísland hafi tekið yfir 3/4 af regluverki sambandsins. Eiríkur Bergmann, forstöðumaður Evrópufræðsetursins á Bifröst, skrifaði ágæta grein um þetta árið 2005. Þar segir meðal annars:

,,Evrópusambandið setur lög með ýmsum hætti sem hafa mismunandi vægi. Tilskipanir (e. directives) eru rammalöggjöf og yfirleitt viðamestar en reglugerðir (e. regulations) og ákvarðanir (e. decisions) eru margfalt fleiri. (Eiríkur Bergmann Einarsson: 2003, kafli 3.8). Samkvæmt svari utanríkisráðherra, þar sem fram kemur að byggt er á upplýsingum frá EFTA-skrifstofunni í Brussel, hefur Evrópusambandið sett eftirfarandi fjölda reglna frá því EES-samningurinn gekk í gildi árið 1994 og fram til ársins 2004: Samtals 1.047 tilskipanir, 27.320 reglugerðir og 10.569 ákvarðanir. (sjá viðauka). Evrópusambandið greinir mjög skýrt á milli þessara ólíku gerða en í svari utanríkisráðherra er þeim öllum grautað saman og látið duga að nefna að á sama tíma hafi Íslendingar tekið upp alls 2.527 gerðir í gegnum EES-samninginn, (sjá viðauka). Með þessari aðferð fékk utanríkisráðherrann út að Ísland taki 6.5% af reglugerðaverki ESB í innlend lög.

Þessi framsetning gefur ekki rétta mynd af stöðu og þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum. Fyrst skal nefna að ótækt er að leggja tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir Evrópusambandsins að jöfnu enda greinir ESB ávalt vel þar á milli. Sem dæmi þarf oft sérstaka lagalega ákvörðun þegar ákveðið er að niðurgreiða einstaka búvörur til einstakra bænda í einstökum aðildarríkjum. Ákvarðanir eru því ekki bindandi fyrir aðildarríkin heldur aðeins fyrir þann sem hún snertir. Einstaka lagaákvarðanir ESB rata því ekki endilega inn í reglusafn aðildarríkjanna. Þegar meta á hvaða hlutfall af reglugerðaverki ESB ratar inn í íslensk lög verður því að draga slíkar ákvarðanir frá. Eins er vægi þessara gerða afar ólíkt. Hlutfall og umfang tilskipana skipta mestu og ekki síður til hvaða sviða þær ná. EES-samningurinn nær fyrst og fremst til innri markaðarins, sem er innsti kjarninn í evrópsku samstarfi, en þar hefur verið meiri tilhneiging en annarstaðar að notast við tilskipanir. Reglugerðir eru hins vegar mjög notaðar í landbúnaði sem hefur sérstakann sess innan stofnana ESB en getur vart talist til mikilvægustu sviða í starfsemi ríkja þess. Sú aðferð að slá saman þessum tegundum lagaákvarðana gefur því villandi mynd."

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á eftirfarandi slóð: http://www.bifrost.is/default.asp?sid_id=22905&tId=1


Á harðahlaupum frá veruleikanum

Það er merkilegt að fylgjast með umræðum um Evrópumál á undanförnum misserum. Sífellt fleiri eru að átta sig á því að núverandi fyrirkomulag efnhagsmál gengur ekki og jafnvel hörðustu andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu vilja skoða málefni íslensku krónunnar. Þeir fara hins vegar um víðan völl til að leita óraunhæfra leiða eins og að taka upp svissneskan franka, danska eða norska krónu þegar beinast liggur við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og í kjölfarið fá aðild að Myntbandalagi Evrópu.

Morgunblaðið er í fararbroddi þessara afla og er á margan hátt í sérkennilegri afneitun. Á sama tíma og það birtir forsíðufréttir um slæma stöðu krónunnar og erfiðleika almennings á Íslandi vegna hávaxtastefnu yfirvalda hyllir það andstæðinga Evrópusambandsaðildar Íslands. Fréttaflutningur blaðsins af nýloknu Iðnþingi er gott dæmi um þetta. Mjög mikill samhljómur var á þinginu um breyttar áherslur í efnhagsmálum en samt sem áður birtir blaðið fyrirsögn þar sem segir að skiptar skoðanir hafi verið um málið. Í umfjöllun um þingið er til dæmis ekki minnst á ræðu Össurar Skaphéðinssonar iðnaðarráðherra né Valgerðar Sverrisdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, en þess í stað er birt viðtal við nánast eina framsögumannsins á þinginu sem sá meinbugi á nánari samvinnu við Evrópusambandið, Illuga Gunnarsson þingmann.

Það skal tekið fram að undirritaður hefur mikið álit á Illuga og telur að hann hafi verið einna málefnalegastur allra andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ræða Illuga á Iðnþingi olli mér hins vegar vonbrigðum því hún var full af gömlum tuggum um hagvöxt í Evrópu og útilokun Íslendinga frá alþjóðlegum viðskiptasamningum. Það kom því á óvart, en þó ekki, að Morgunblaðið skyldi mæra ræðuna með leiðara nokkrum dögum eftir Iðnþingið.

Illugi varpar þeirri hugmynd fram að við leitum leiða til að fá aðild að myntbandalaginu í gegnum EES samninginn í samvinnu við Norðmenn. Með þessum hugmyndum er bara verið að koma sér undan því að horfast í augu við staðreyndir. Íslensk og norsk stjórnvöld reyndu ítrekað á árunum 2001-2003 að fá EES samninginn uppfærðan en fengu alltaf sama kurteislega svarið frá Evrópusambandinu. ,,EES samningurinn verður virtur en hann er barn síns tíma og við höfum engan áhuga né hagsmuni af því uppfæra hann- punktur og basta.” Þetta getur Illugi fengið staðfest hjá hvaða embættismanni utanríkisráðuneytisins eða EFTA.

Einnig heldur Illugi því fram að áhugi almenning á Evrópusambandsaðild sé eingöngu mikill þegar kreppir að í efnhagsmálum. Þetta er ekki rétt því nánast í hverri einustu könnun Capacent Gallup frá árinu 1995 hefur mikill meirihluti landsmann lýst yfir áhuga að við tökum upp viðræður við Evrópusambandið.

Á meðan andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu geta ekki bent á aðra raunhæfa langtímalausn á efnhagsvandræðum Íslendinga þá er ekki hægt að segja annað en það þeir séu á harðahlaupum frá veruleikanum. Með því eru þeir að skaða hagsmuni almennings og gjaldeyrisskapandi atvinnugreina með því að taka hagsmuni gamla íslenska flokkakerfisins fram yfir þjóðarhag.

Andrés Pétursson er formaður Evrópusamtakanna


Árni Snævarr með góðan pistil

Árni Snævarr skrifar frábæran pistil inn á heimasíðu sína um Sjálfstæðisflokkinn og ESB. Þar segir Árni meðal annars:

Illugi Gunnarsson, alþingismaður hélt fróðlega ræðu á Iðnþingi á dögunum. Morgunblaðið segir að ræðan sæti miklum tíðindum og marki nýtt upphaf í baráttunni fyrir að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Ef þetta er rétt er sú barátta komin í öngstræti. Það sem merkilegast var við ræðu Illuga er að í henni fellst fullkomið málefnalegt rökþrot. Enginn frýr Illuga þó vits – allra síst ég. Ef ræðan er á annað borð stefnumarkandi þá er hún það fyrir þær sakir að andstæðingar ESB hafa gefið upp á bátinn röksemdir um að með því að halda okkur við EES samninginn stöndum við vörð um fullveldi okkar. Ekkert er fjarri sanni enda höfum við nú þegar tekið inn 75% eða meira af löggjöf Evrópusambandsins að sögn Olli Rehn, stækkunarstjóra framkvæmdastjórnarinnar, án þess að hafa tekið nokkurn meiri þátt í mótun hennar en hvaða lobbýisti í Brussel sem er.

Hægt er að lesa grein Árna inn á http://arni.eyjan.is/2008/03/horse-horse-my-kingdom-for-horse.html

Við minnum líka á fund Evrópusamtakanna og Alþjóðamálstofnunar HÍ á eftir kl.17.15 með Gunnillu Carlson, þróunarmálaráðherra Svíþjóðar, um norrænu víddina innan ESB. Hann fer fram í stofu 104 á Háskólatorgi.


Norræna víddin innan Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 12.mars næstkomandi mun þróunarmálaráðherra Svíþjóðar, Gunilla Carlsson, halda fyrirlestur um samvinnu Norðurlandanna innan stofnana Evrópusambandsins, bæði framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins. Einnig mun hún fjalla um mikilvægi samstarfs landa og landssvæða til að ná fram markmiðum sínum. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 104 á Háskólatorgi og er haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Evrópusamtakanna. Fundarstjórn verður í höndum Alyson Bailes, stjórnarkonu Alþjóðamálastofnunar.

Gunilla Carlsson hefur mikla reynslu af starfi Evrópusambandsins. Hún sat á Evrópuþinginu árin 1995-2002, þar sem hún var meðal annars formaður þingflokks Moderat-flokksins frá árinu 1999. Á árunum 2004-2006 starfaði hún sem varaformaður European People´s Party í Evrópuþinginu. Frá árinu 2002 sat hún jafnframt á sænska þinginu og var þar meðal annars í nefndum um Evrópumál, utanríkismál og menntun. Árið 2006 tók hún við starfi þróunarmálaráðherra Svíþjóðar og hefur gegnt þeirri stöðu síðan.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum. Aðgangur ókeypis. Sjá einnig á http://www.hi.is/ams


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband