Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Sundurlyndisfjandinn

Jón Steindór Valdimarsson (mynd), framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifar merkilegan leiðara í nýjasta tölublað fréttabréfs SI. Þar fjallar hann um það harðræði sem gekk yfir Ísland á 19. öld og dregur upp hliðstæðu við núverandi ástand. Jón segir meðal annars:


,,Því er ekki að neita að ótrúlega auðvelt er að draga hliðstæður frá þessum löngu liðnu tímum til orðræðu nútímans og afstöðu til þeirra viðfangsefna sem við stöndum frammi fyrir. Sannar það sjálfsagt að mannskepnan er ávallt söm við sig. Við eigum þó ekki annan kost en gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að hið nýja Ísland nútímans hljóti sömu örlög og hið fyrra. Við verðum að velja veg samvinnu og samskipta í stað einangrunar.

Sameiginleg sýn

Við þurfum að sameinast um grundvallaratriði, langtímamark­mið og viðhorf, sem stuðla m.a. að því að gera atvinnulífið þróttmikið og samkeppnishæft og þjóðina upplitsdjarfa. Við þurfum að:

  • leggja áherslu á útflutning vöru og þjónustu með miklum virðisauka
  • standa vörð um iðn-, verk- og tæknimenntun hvers konar
  • nýta auðlindir af skynsemi
  • ganga í Evrópusambandið og taka upp evru
  • endurvinna traust á alþjóðavettvangi
  • viðurkenna að margt er gott að vinna í samvinnu við aðrar þjóðir
  • viðurkenna að Íslendingar eru dugmiklir en það eru aðrar þjóðir líka
  • koma í veg fyrir að ungt og vel menntað fólk hverfi úr landi
  • gera íslenskum fyrirtækjum unnt að vaxa og dafna og sækja á erlenda markaði
  • gera Ísland fýsilegt fyrir erlenda fjárfesta, t.d. á sviði gagna- og tölvuvinnslu
  • örva nýsköpunar- og sprotastarfsemi
  • muna að dramb er falli næst

Látum ekki sannast að við Íslendingar séum þrjóskir, sjálfumglaðir og þykjumst geta allt best sjálfir og einir. Látum ekki okkar drauma verða að martröð."

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vef Samtaka iðnaðarins:

http://www.si.is/upplysingar-og-utgafa/leidari-si/nr/3815

 


Bændablaðið úr fríi

Hver er framtíð íslensks landbúnaðar?Bændablaðið er komið úr sumarfrí og er það vel. Blaðið eyðir að þessu sinni miklu púðri á fund norræna bænda, sem haldinn var í Reykjavík fyrir skömmu. Þar kemur margt athyglisvert fram og t.a.m. mikið fjallað um ábyrgð bænda varðandi loftslagsmál í framtíðinni. ESB hefur sett upp metnaðarfullt "prógramm" varðandi þann málaflokk og stór mikil ráðstefna um þessi mál verður haldin í Kaupmannahöfn nú í desember. Fram kemur í viðtali við formann dönsku bændasamtakanna að bændur leiki stórt hlutverk í þessum málaflokki.

Þá er einnig rætt við formann norsku bændasamtakanna, Nils Björke, sem segist vona að Íslendingar gangi aldrei í ESB! Kemur s.s. ekkert á óvart. Það má e.t.v. lesa út úr viðtalinu að ástandið í norskum landbúnaði virðist vera nokkuð álíka og hjá þeim íslenska; lágar tekjur, þörf á fjármagni til uppbyggingar og lítil nýliðun, þ.e. ungt fólk kemur ekki inn í greinina. Í framhaldi af þessu verður manni spurn hvort norskur landbúnaður sé að fullu í standi til að tryggja matvælaöryggi Norðmanna? Vitað er jú t.d. að Norðmenn versla mikið yfir landamærin til Svíþjóðar.

Í viðtali við varaformann sænsku bændasamtakanna, Elisabeth Gauffin, kemur hinsvegar annað sjónarhorn fram. Eftir að hafa minnkað stuðning við landbúnað á tíunda áratugnum, sem hún segir hafa verið högg fyrir stéttina breyttist staða sænskra bæna til hins betra: "Aðild að ESB veitti sænskum bændum bæði stöðugleika varðandi sitt rekstrarumhverfi og einnig aðgang að styrkjum í stað þeirra sem við höfðum misst." Út úr þessu má því lesa að sænskir bændur hafi gengið í gegnum ákveðið breytingarferli, en fengið til baka aftur það sem þeir misstu, með aðild að ESB.

Enda kvarta sænskir bændur ekki og þar er nýliðun ekki vandamál, t.d. hafa ungar konur í auknum mæli gerst bændur. Meira um stöðu sænskra bænda í þessari grein

Fleiri greinar í BBL fjalla um ESB og Evrópumál. Sem kannski skýtur nokkuð skökku við þegar samtök bænda hafna alfarið aðildarviðræðum við ESB, vilja ekki ræða málið. Er það ekki einkennileg afstaða atvinnugreinar sem nýtur stórkostlegra ríkisstyrkja, sem jú koma frá íslenskum skattgreiðendum?

(Útgjöld hins opinbera til landbúnaðar voru tæpir 10.4 milljarðar árið 2005 og reiknaður stuðningur við framleiðendur landbúnaðarvara árið 2006 var 66%. Heimild: Hagtölur landbúnaðarins, 2007).

 


Góður Frisvold

Paal-FrisvoldPaal Frisvold, nýkjörinn formaður norsku Evrópusamtakanna, hélt afar góðan fyrirlestur í Odda í gær, fyrir fullum sal áhrofenda. Megin umtalsefni hans var EES samningurinn og þróun hans. Sagði Frisvold að samningurinn væri bæði elskaður og hataður í Noregi. Hann talaði hinsvegar á mjög áhrifaríkan hátt um aðkomu EES-landanna að meðferð löggjafar í ESB og líkti því saman við að reyna að sjá með lokuð augun. "Við erum í myrkri að þessu leyti," sagði Frisvold. Hann gerið það einnig að umtalsefni að EES-löndin væru bara "áhorfendur" og að málefni EES kæmu alltaf á eftir mikilvægari málum innan ESB. Hann taldi að samningurinn sé ekki fullnægjandi í kjölfar allra þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í alþjóðakerfinu og gagnvart nýjum áskorunum framtíðar.

Eftir fyrirlesturinn var svo spurningatími, sem var afar fjörugur.

Paal Frisvold var í viðtali í Speglinum í gær. 


ESB opnar sendiráð í Reykjavík?

RÚVSamkvæmt frétt RÚV stefnir ESB að því að opna sendiráð á Íslandi í byrjun næsta árs: "Evrópusambandið undirbýr stofnum sendiráðs á Íslandi með 12 starfsmönnum. Starfsemi þess á að hefjast um áramót en leitað verður að húsnæði og sendiherra á næstunni. Nú er sendiráð Evrópusambandsins gagnvart Íslandi í Ósló en hið nýja verður óháð því," segir m.a. í frétt RÚV, sem má lesa hér.


Íri stýrir eftirlitsnefnd Evrópuþings

Pat Írski stjórnmálamaðurinn Pat "the Cope" Gallagher, mun stýra eftirlitsnefnd Evrópuþingsins, en hún mun fylgjast með aðildarviðræðum Íslands og ESB. Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Pat hefur mikla reynslu sem stjórnmálamaður og hefur m.a. gegnt ráðherrastöðum. Hann var einnig fiskútfytjandi á árum áður. Hann er þingmaður Evrópuþingsins (MEP) fyrir Fianna Fáil.

Heimasíða Pat: http://www.patthecope.com/

Wikipedia:


Iðnaðurinn rétti úr kútnum

euroInnstreymi pantana og verkefna hjá iðnfyrirtækjum innan Evrusvæðisins jókst um rúmlega 3% í júní. Þetta er varlega metið sem enn eitt merki þess að það versta sé að baki í efnahagskreppunni. Hjá þeim löndum sem eru fyrir utan Evrusamvinnuna minnkaði þetta hinsvegar aðeins.

Heildareftirspurn eftir vörum og þjónustu innan iðnaðargeirans jókst, mest á Írlandi (tæp 15%), og svipað í Ungverjalandi og Búlgaríu. Um verulegan samdrátt var hinsvegar að ræða í Danmörku eða um tæp 30% í júní.

EuObserver greindi frá í frétt


Miðvikudagsfundur í ODDA

Vekjum athygli ykkar á þessum áhugaverði fyrirlestri á miðvikudaginn, sem í eldri tilkynningu var sagður í Lögbergi. Fyrirlesturinn hefur verið fluttur í ODDA 101.

Tilkynning:

Í Háskóla Íslands, Odda stofu 101, miðvikudaginn 26. ágúst kl. 12.00-13.15:


Á opnum hádegisfyrirlestri, sem fram fer á ensku, í Háskóla Íslands nk. miðvikudag, mun einn helsti sérfræðingur Norðmanna í málefnum EES og ESB, Paal Frisvold, formaður norsku Evrópuhreyfingarinnar, ræða áhrif aðildarumsóknar Ísland að Evrópusambandinu í Noregi. Norðmenn ganga til þingkosninga í haust og er líklegt að ESB aðild landsins verði meðal lykilkosningamála og myndi breytt afstaða Noregs vissulega hafa áhrif á aðildarumsókn Íslands  Með Paal  í för verður Vidar Björnstad, þingmaður Verkamannaflokksins á norska Stórþinginu og áhrifamaður í norsku verkalýðshreyfingunni og mun hann taka þátt umræðum að loknum fyrirlestri Paal.
 

Að fundinum standa Stofnun stjórnsýslufræða og Evrópusamtökin.

Paal Frisvold er þekktur í Noregi sem einn helsti sérfræðingur landsins í málefnum EES samningsins og samskiptum Noregs við ESB. Hann stofnaði ráðgjafafyrirtækið The Brussels Office árið 2001 og hefur meðal annars unnið mörg verkefni á sviði umhverfismála.

Sjá m.a. hér

Hann var nýverið kjörinn formaður norsku Evrópuhreyfingarinnar.

Fundarstjóri verður Siv Friðleifsdóttir alþingismaður.


ESB tekur ekki auðlindir

Eins og sjá má í eldri færslu var s.k. fjarfundur haldinn í gær í Utanríkisráðuneytinu. Þar var opið hús og var það hluti af Menningarnótt Reykjavíkur. Til viðtals voru starfsmenn sendiráðs Íslands í Brussel, undir forystu Stefáns Hauks Jónssonar(mynd). Fjöldi fólks kíkti við og spurði spurninga. M.a. var Stefán spurður um auðlindamálin, en talsvert hefur borið á þeim fullyrðingum í umræðunni að ESB muni hrifsa til sín auðlindir Íslands. "ESB tekur ekki auðlindir," sagði Stefán Haukur skýrt.

Hann hefur ekki áhyggjur af svokallaðri "stækkunarþreytu," sem einnig hefur verið nefnd og sagði hana frekar eiga við Búlgaríu og Rúmeníu, frekar en Ísland. "Ísland er hreinlega á öðrum stalli varðandi aðlögun að ESB og við uppfyllum Kaupmannarhafnarskilyrðin," sagði Stefán.

Mörg lönd boðið aðstoð

Hann sagði einnig að hann fyndi fyrir mjög miklum velvilja gagnvart Íslandi og að fjöldi þjóða hefði boðið fram aðstoð sína, t.d. Slóvakía vegna gjaldmiðilsmála, en ekki er langt síðan Slóvakar tóku upp Evruna. Stefán sagðist ekki finna fyrir neikvæðni eða gagnrýni gagnvart Íslandi vegna kreppunnar sem Ísland glímir við.

Fram kom á fundinum að kostnaður vegna umsóknar er talinn vera um 900 milljónir króna og að allt verði gert til þess að halda honum í lágmarki. Meðal annars væri hægt að sækja um framlag til ESB vegna kostnaðarins. Líklegt er því að beinn kostnaður Íslands við aðildarferlið verði undir þessari tölu.

Til samanburðar má nefna að framleiðslustyrkir íslenska ríkisins til bænda námu 8.8 milljörðum árið 2005. Heildarútgjöld íslenska ríkisins til landbúnaðar árið 2005 voru rúmlega 10 milljarðar. (heimild: Hagtölur landbúnaðarins 2007). Þetta gerir tæpar 130.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Sendiráðið einskonar upplýsingaveita

Stefán sagði aðalhlutverk sendiráðsins vera að liðka fyrir öllum samskiptum, afla upplýsinga og veita upplýsingar, "halda boltanum rúllandi," eins og hann orðaði það. Þá væri EES-samningurinn enn í fullu gildi og það þyrfti að halda honum gangandi.

Fram kom á fundinum að Ísland þyrfti að fara í gegnum fjögur stig, fram að atkvæðagreiðslu um aðild: 1) Formleg umsókn (lokið), 2) Undirbúningur fyrir opnun aðildarviðræðna. Á þessu stigi er gerð skýrsla til framkvæmdastjórnar ESB og verðu hún vonandi tekin fyrir á leiðtogafundi í Desember. Takist þetta leiðir það til 3) Aðildarviðræðna. Stefán sagði að þær gætu jafnvel tekið eitt ár og að mögulega yrði þeim lokið í byrjun 2011. Þá tæki við 4) Fullgildingarferli, en það getur tekið 12-18 mánuði. Aðild (með fyrirvara um útkomu úr þjóðaratkvæðagreiðslu) væri því möguleg árið 2012.


Evrópuvefur Utanríkisráðneytisins opnaður

Össur SkarphéðinssonÍ tilefni umsóknar Íslands að ESB, og á opnu húsi vegna menningarnætur í Utanríkisráðuneytinu, opnaði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sérstakan Evrópuvef kl. 15.15 í dag. Í opnunarávarpi á vefnum segir m.a.:

"Í þingsályktunartillögu Alþingis sem fól ríkisstjórninni að sækja um ESB-aðild er mikil áhersla lögð á samráð og gegnsæi í öllu umsóknar- og aðildarviðræðurferlinu. Við í utanríkisráðuneytinu erum þessu algjörlega sammála og ætlum að kappkosta að veita allar upplýsingar jafnóðum og með eins einföldum og skýrum hætti og kostur er, og eiga náið samráð við alla hlutaðeigandi. Umsókn Íslands um aðild að ESB og fyrirhugaðar aðildarviðræður er ekki bara verkefni íslenskra stjórnvalda eða stjórnmálamannanna - það er verkefni allrar þjóðarinnar.

Á þessari heimasíðu verður að finna upplýsingar íslenskra stjórnvalda um það sem lýtur að umsókn Íslands og aðildarviðræðum við ESB. Hér verður meðal annars lýsing á skipulagi umsóknar- og aðildarviðræðuferilsins, helstu gögn og aðrar upplýsingar um þátttöku Íslands í Evrópusamvinnunni. Einnig er hér að finna tengla á aðrar heimasíður um Ísland og ESB."

Vefslóðin er: http://evropa.utanrikisraduneyti.is/

Evrópusamtökin hvetja alla áhugamenn um þessi mál að kynna sér vefinn.


ESB á menningarnótt: Fjarfundur

IS-ESBUtanríkisráðuneytið í samstarfi við Alþjóðamálastofnun HÍ og RÚV, Rás 1, efnir til borgarafundar á opnu húsi í utanríkisráðuneytinu á Menningarnótt, 22. ágúst:

Brussel í beinni
Fjarfundur með fastanefnd Íslands gagnvart ESB í Brussel í Sveinsstofu utanríkisráðuneytisins. Í tvo tíma, milli kl.15.00-17.00,  gefst gestum færi á að spyrja fastanefndina spörunum úr.  Öllum gestum er frjálst að taka þátt og við því að búast að á staðnum verði áhugafólk, fræðimenn og sérfræðingar sem vill heyra mat fastanefndar Íslands í Brussel á margvíslegum málum, s.s.

Hvert er viðhorfið til Íslands í Brussel þessa dagana? 
Hver eru verkefni sendiráðsins/fastanefndarinnar í Brussel nú og á næstu misserum? 
Hvert er hlutverk fastanefndarinnar í aðildarviðræðunum sem framundan eru? 
Hvernig verður upplýsingamiðlun háttað til að auðvelda almenningi að fylgjast með gangi mála þegar aðildarviðræðurnar fara í gang? 
Verður smæðin okkur fjötur um fót í aðildarviðræðunum? 
Getur Ísland staðið undir þeim kröfum sem ætla má að ESB geri til aðildarríkja stjórnsýslulega?      

Umræðunni stýra Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, og Magnús Árni Magnússon, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, sem fá til liðs við sig valda einstaklinga eftir því sem tilefni er til.

Rás 1 tekur upp fundinn og nýtir efnið til þáttagerðar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband