Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Styrkir ESB samgöngumál? Spurning á Evrópuvefnum - svarið er já!

GöngMjög áhugaverða spurningu er að finna á Evrópuvefnum um samgöngumál, en hún hljómar einfaldlega svona: Myndi Evrópusambandið veita styrki til að byggja jarðgöng eða brýr á Íslandi ef til aðildar kæmi?

Svarið byrjar svona: "Tæpum þriðjungi af uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins er varið til að bæta samgöngur í aðildarríkjunum á tímabilinu 2007-2013. Ef Ísland gerðist aðili að sambandinu má gera ráð fyrir að stuðningur til slíkra verkefna fengist einnig hér á landi. Ákvörðun um hvaða verkefni hlytu stuðning, jarðgöng, brúarsmíði, almenningssamgöngur eða annað, yrði í flestum tilfellum tekin af íslenskum stjórnvöldum í samræmi við forgangsatriði byggðastefnu ESB, leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar og aðstæður á Íslandi.

***

 Samanlagt renna 28% úr uppbyggingarsjóðunum til samgöngumála eða tæpir 77 milljarðar evra á tímabilinu 2007-2013. Tæp 19% sjóðanna (50 milljarðar evra) eru þar að auki eyrnamerkt umhverfismálum en samgönguverkefni sem hafa bætt áhrif á umhverfið geta einnig fallið í þann flokk. Langstærstur hluti framlaganna úr uppbyggingarsjóðunum rennur til fátækustu svæða sambandsins (rúm 80%) en um skiptingu sjóðanna á milli svæða má lesa í svari við spurningnni Hver er byggðastefna ESB? (Leturbreyting, ES-blogg)

Svarið í heild sinni er hér


Bryndís Ísfold með skemmtilegt innlegg á Eyjunni!

 Bryndís Ísfold HlöðversdóttirBryndís Ísfold Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri hjá Já-Íslands, skrifar skemmtilegan pistil á Eyju-blogginu og segir þar meðal annars:

"Nú þegar hausta tekur og inn um lúguna streyma tilboð um leiðina að granna mittinu, sléttum maga – vil ég minna á að áhrifaríkasta megrunin er alveg ókeypis.

Í kúrnum felst nefnilega sú staðreynd að hér í Krónulandi hækka verðbólga og vextir jafnt og þétt og því má gera ráð fyrir að afar lítill peningur sé eftir á hverju heimili til að kaupa mat.   Nú ef einhver afgangur er,  má reyna að skrapa saman fyrir íslenskri mjólkur- og kjötframleiðslu en verðinu á þeim nauðsynjavörum er tryggilega haldið uppi með sérstaklega háum verndartollum sem heldur þjóðinni frá alfarið frá öllu ofáti.

Það gleymist gjarnan að höfum þegar niðurgreitt tvisvar sinnum meira til þessarar framleiðslu en nágrannar okkar í Evrópusambandinu gera fyrir sambærilega landbúnaðarframleiðslu.  En allt skal í sölurnar lagt til að forðast fitudrauginn ógurlega.

Fæstir hafa auðvitað ekki efni á þessu varning hvort eð er og geta haldið sér gangandi á bankabyggi og grænkáli.  Ekki má lengur flytja inn kjöt og mjólkurvörur erlendis frá nema á því séu um 600% tollar og krónugreyið dugar skammt í slíkum kaupum."

Síðar segir Bryndís: "Fyrir þá sem vilja endilega troða sig út af útlenskum varningi þá er gaman að segja frá því að þrátt fyrir ítrekaðar hörmungaspár Evrópuandstæðinga þá gengur bara býsna vel í ESB og áhugavert að bera Krónukúrinn við þann í Evrópusambandinu.   Það er tollafrelsi á milli ríkjanna og bara heilmikið í boði og bæði verð á matvælum almennt lægra og það sem besta er – engin verðtrygging.

Standard & Poor gefur 21 ESB ríki betra lánshæfismat en Íslandi, 15 þeirra nota evru. Þrjú ríki ESB fá lakari lánshæfismat en Ísland og aðeins eitt þeirra notar Evru.  Svipaða sögu er að segja af einkunnargjöf Fitch þegar það kemur að lánshæfismati.  26 ESB ríki fá betri lánshæfismat en Ísland, 16 þeirra nota evru. Aðeins eitt ríki innan ESB fær lakari lánshæfismat og notar evru.

En þetta eru auðvitað bara fitubollur."

 


Áhugavert í Sprengisandi

Í Bylgjuþættinum Sprengisandi síðastliðinn laugardag var rætt við Dr. Þórarinn Pétursson aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands um verðtryggingu og fleira. Þar kom meða annars fram að litlum gjaldmiðlum fylgdu gjarnan töluverðar sveiflur. Hlusta má á þetta hljóðbrot hér.

Í seinni hluta þáttarins var svo rætt við fyrrum utanríkisráherra, Jón Baldvin Hannibalsson um þátt Íslands í viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Jón kom einnig töluvert inn á ESB-málið og stöðuna í gjaldmiðilsmálum. Hlusta má fyrrihlutann hér og seinnihlutann hér.

Bendum einnig á ritgerð Þórarins um verðbólgumarkmið og gengissveiflur.


Bryndís Gunnlaugsdóttir um ástæður afsagnar varaþingmennsku fyrir Framsókn

Eins og sagt hefur verið frá hér, þá sagði fyrrum formaður Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) af sér varaþingmennsku fyrir flokkinn í vikunni.

Um er að ræða Bryndísi Gunnlaugsdóttur, forseta bæjarstjórnarinnar í Grindavík. Í pistli á Eyjunni skýrir hún frá ástæðum afsagnar sinnar og segir þar meðal annars:

"Ég hef marg oft orðið vitni af lélegum vinnubrögðum og hvernig brugðist er við ábendingum um æskilegri vinnubrögð. Viðbrögð við gagnrýni á vinnubrögð flokksins á landsvísu eru þau að útiloka gagnrýnendur frá starfi flokksins og tryggja að já-menn séu í öllum nauðsynlegum stöðum. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs og líkurnar á því að Framsóknarflokkurinn verði í fararbroddi við að innleiða ný vinnubrögð í pólitík eru litlar að ég tel.

Stefna Framsóknarflokksins tók miklum breytingum á flokksþingi flokksins nú í apríl frá árinu 2009. Ég er ekki að tala eingöngu um stefnu flokksins varðandi Evrópusambandið líkt og svo margir hafa bent á, heldur líka framsetningu á stefnumálum flokksins. Allir þeir sem lesa ályktanir frá 2009, sem er um 50 bls. og bera þær saman við stefnuna sem var samþykkt í ár, sem er rétt rúmar 20 bls., sjá mikla stefnubreytingu.Flokkurinn fór frá hnitmiðaðri og ítarlegri stefnuskrá svo ljóst væri hverju grasrótin vildi stefna að, yfir í loðna og óljósa stefnu þar sem hver og einn framsóknarmaður túlkar stefnuna eftir sínu nefi.(sbr. ESB stefnu flokksins núna, sumir segja að það megi draga til baka viðræður og aðrir ekki og ég get ekki metið hvor hefur rétt fyrir sér enda var bæði fellt að draga til baka viðræður og að halda áfram viðræðum og leggja samning fyrir þjóðina). Ég vil þó ítreka að stefnubreytingin var samþykkt á flokksþinginu og það er meirihlutinn sem ræður – það er lýðræði. Það þýðir samt ekki að ég verði að styðja þá stefnu ef ég hef ekki sannfæringu fyrir henni.

Í ljósu óánægju minnar með vinnubrögð flokksins og þeirra stefnubreytinga sem orðið hafa á stefnu flokksins á landsvísu frá því í seinustu alþingiskosningum þykir mér rétt að segja af mér varaþingmennsku."

 


Fyrrum formaður SUF segir sig úr Framsókn

Á Eyjunni stendur: "

„Falleg orð um ný stjórnmál skipta engu máli ef bak við tjöldin er enþá starfað eftir gömlu leikreglunum,“ segir Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur og fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna, „líkurnar á því að Framsóknarflokkurinn verði í fararbroddi við að innleiða ný vinnubrögð í pólitík eru litlar að ég tel.“

Bryndís segir í bloggi á Eyjunni,  að hún hafi nú sagt af sér sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Hún ætlar áfram að sitja í bæjarstjórninni í umboði Framsóknarfélags Grindavíkur."

Mál Sigmundar Davíðs hrekja enn fólk úr Framsóknarflokknum.

 


Enginn keypti upp laxveiðiár - Kínverji kaupir land - hyggst fjárfesta!

Í morgunútvarpinu á Útvarpi Sögu í gær var rætt við Guðmund Kjartansson, ferðamálafrömuð og spjallið barst að EES-samningnum og hræðsluáróðri andstæðinga hans um að hér myndu útlenskir aðilar kaupa upp allar laxveiðiár og önnur áhugaverð hlunnindi. Guðmundur sagði að EKKERT slíkt hefði gerst!

ES-bloggið vill hinsvegar benda á að með EES-samningum fékk Íslans og Íslendingar markaðsaðgang að Evrópu í magni og umfangi sem aldrei hafði þekkst áður! Tækifæri til viðskipta stórjukust!

Svo eru athyglisverðar fréttir að berast af miklum landakaupum kínversks fjárfestis upp á um 10-20 milljarða, háð samþykki stjórnvalda. Umræddur fjárfestir heitir Huang Nobu og kemur alls ekki frá ESB. Sem er einföld staðreynd!

Á Möltu jukust fjárfestingar Kínverja um 80% eftir aðild. Aðild að ESB kemur því alls ekki í veg fyrir fjárfestingar frá öðrum löndum. Sem er einnig staðreynd!


Áhugavert um matvælalöggjöf ESB

Fréttablaðið birti í dag áhugaverða grein um matvælalöggjöf ESB, en síðari hluti hennar tekur gildi hér á landi í nóvember. Í greininni segir meðal annars:

"Markmið matvælalöggjafarinnar er að vernda líf og heilsu manna og tryggja jafnframt frjálst flæði vöru á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá eiga reglurnar að tryggja hagsmuni neytenda og til að mynda gera þeim kleift að rekja feril matvæla á öllum stigum framleiðslu og dreifingar.

"Ég held að þessar reglur séu vandaðar og settar að mjög vel skoðuðu máli. Almennt séð held ég að þær séu til bóta og þetta sé góð löggjöf," segir Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælaöryggis og neytendamála hjá Matvælastofnun, um nýju reglurnar."

Síðar segir: "Íslensk sláturhús hafa að sögn Sigurðar haft útflutningsleyfi til Evrópuríkja frá árinu 1992. Nú hafi öll sauðfjársláturhús, nokkur stórgripahús og öll stóru mjólkurbúin slíkt leyfi.

Matvæla- og dýralækningastofnun ESB sótti Ísland heim í september á síðasta ári. Markmiðið var að meta framleiðsluferla við kjöt- og mjólkurframleiðslu á Íslandi hjá fyrirtækjum sem flytja út til ríkja

ESB og ganga úr skugga um hvort framleiðslan væri í samræmi við reglur. Voru heimsótt fimm fyrirtæki sem öll höfðu hlotið útflutningsleyfi.

Hjá öllum fimm fyrirtækjum var hins vegar misbrestur á því að reglunum væri framfylgt. Engin gögn voru til staðar um það hvort fyrirtækin hefðu uppfyllt gæðastaðla áður en þau hlutu leyfið. Þá kom í ljós skortur á skipulagi, aðstöðu, tækjum og viðhaldi í þeim öllum auk þess sem ýmsar aðrar athugasemdir voru gerðar við starfsemi þeirra.

Í einu kjötframleiðslufyrirtæki þóttu aðstæður fullkomlega óviðunandi og var þess þegar krafist að leyfið yrði dregin til baka. Í öðru sláturhúsi þótti vera töluverð hætta á smitum milli tegunda auk þess sem skortur var á merkingum. Mjólkurbúin tvö sem heimsótt voru uppfylltu hins vegar kröfur að mestu leyti. Þá töldu skoðunaraðilarað heilbrigði fólks stæði ekki ógn af framangreindum vanköntum.

"Það var strax tekið á þessum athugasemdum held ég. Almennt er ástandið nokkuð gott en ef þú ferð í svona matvælafyrirtæki má lengi finna eitthvað sem er að. Auðvitað má ýmislegt bæta," segir Sigurður, spurður um þessa gagnrýni." (Leturbreyting - ES-blogg)

Þetta er gott dæmi um góða löggjöf frá ESB, sem er í þágu bæði framleiðenda og ekki síst neytenda.

 

 


Krónan er dýr!

Ein krónaPressan.is skrifar: "Veikist krónan mikið meira eru raunverulegar líkur á að Orkuveitan lendi í greiðsluþroti. Forstjóri fyrirtækisins vonast eftir fjármagni frá lífeyrissjóðunum þrátt fyrir lánshæfismatslækkun frá Moody’s.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Hjörleifur Kvaran Orkuveituna þola núverandi ástand á gengi íslensku krónunnar en veikist hún hins vegar mikið meira eru raunverulegar líkur á greiðsluþroti. Segir hann þetta staðan hjá flestum fyrirtækjum landsins í dag og Orkuveituna ekki vera neitt einsdæmi.

Hjörleifur segist hafa beðið lengi eftir að krónan styrktist: ,,stjórnvöld hafa æ ofan í æ sannfært okkur um að það sé að fara að gerast. Fyrst átti krónan að styrkjast með því að Icesave-málið leystist. Svo átti hún að styrkjast með endurskoðun á efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvorugt hefur gerst.“"

Þetta vekur upp þá spurningu: hvernig getur gjaldmiðill í höftum styrkst eitthvað að ráði? En eitt er víst: Krónan er íslensku efnahagslífi dýr! Þetta er sama krónan og átti að bjarga öllur hér!

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka eru afar litlar líkur á að krónan styrkist á næstum mánuðum.


Þorgerður vill samning og þjóðaratkvæði

Þorgerður Katrín GunnarsdóttirEyjan skrifar: "Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er ósammála Bjarna Benediktssyni, flokksformanni, um að draga eigi til baka umsókn Íslands um aðild að ESB. Hún vill að viðræður verði kláraðar og að þjóðin fái síðan að kjósa um samning.

„Mín skoðun hefur ekki breyst,“ sagði Þorgerður Katrín í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Við eigum að klára þetta mál og leyfa síðan þjóðinni að koma að málinu og kjósa um það.“

„Við eigum að treysta þjóðinni, alveg eins og í Icesave, við eigum að fjölga valkostum en ekki ýta þeim út af borðinu,“ sagði hún."


Hversu lágt er hægt að leggjast?

Hún er nokkuð "athyglisverð" greinin sem foringi íslenskra Nei-sinna, Ásmundur Einar Daðason, þingmaður í þokkabót, skrifar í Morgunblaðið í dag. Greinin fjallar að sjálfsögðu um ESB-málið.

Ásmundur kemur með gamlar tuggur um fæðuöryggi, aðlögun og annað sem nei-sinnar hafa verið að hamra á í málefnafátæktinni.

En kannski það alvarlega í grein Ásmundar er sú staðreynd að hann sakar forseta ASÍ Gylfa Arnbjörnsson og Dr. Þórólf Matthíasson um að vera svokallaða leigupenna:

"Þessir og fleiri leigupennar virðast alltaf vera til staðar þegar nauðsynlegt er að verja vondan málstað. Þjóðin lætur hinsvegar ekki segjast og skoðanakannanir sýna að Íslendingar taka málefnalega umræðu fram yfir pólitískan áróður ættaðan frá ESB. Það er vonandi að svo verði áfram."

Þarf Ásmundur ekki að færa sannanir fyrir máli sínu þegar hann ber á borð jafn alvarlegar ásakanir sem þessar?

Hve lágt er hægt að leggjast?

Ekki er þetta allvegana til þess fallið að hefja umræðuna á hærra plan!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband