Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Aðalfundur Evrópusamtakanna haldinn þann 5. maí

Aðalfundur Evrópusamtakanna verður haldinn að Skipholti 50a fimmtudaginn 5. maí kl.20.00. 


Dagskrá:

1. Hefðbundin aðalfundarstörf (skýrsla stjórnar, reikningar og kosning stjórnar). 
2. ,,Evrópumaður ársins" útnefningin tilkynnt. 
3. ,,Írland og efnhagslífið í Evrópu" Andrea Pappin framkvæmdastjóri írsku Evrópusamtakanna.
4. Önnur mál.


Aðalgestur fundarins verður Andrea Pappin, framkvæmdastjóri írsku Evrópusamtakanna. Hún er ung og kraftmikil kona sem hefur vakið athygli á Írlandi fyrir ferska og nútímalega nálgun á Evrópumálin.


Allt áhugafólk um Evrópumál er velkomið.


Hallur Magnússon: Hættum barnalegri þrætupólitík

Hallur MagnússonHallur Magnússon, forsvarsmaður Evrópuvettvangsins, hefur birt nýjan pistil um Evrópumál á bloggi sínu og segir þar: "Evrópusambandið hefur ákveðið að hefja eiginlegar samningaviðræður við Íslendinga um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það var í raun endanlega staðfest á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í vikunni. Mikilvægt skref.

Fjarvera fulltrúa hingað til mikilvægs stjórnmálaflokks á Íslandi á þessum mikilvæga fundi sameiginlegrar þingmannanefndar vakti athygli mína og áhyggjur. Slík fjarvera er ekki Íslandi til framdráttar á alþjóðavettvangi hvað sem mönnum finnst um ESB.

Fyrstu kaflarnir sem opnaðir verða í aðildarumræðunum eru um opinber útboð, samkeppnismál, upplýsingatækni og fjölmiðlun, vísindi og rannsóknir og menntun og menningu. Reyndar höfum við undanfarna tæpa tvo áratugi notið öflugs stuðnings Evróðusambandsins í flestum þessum málaflokkum – en látum það vera á þessari stundu. Nú erum við farin að ræða mögulegan aðildarsamning.

Nú þurfa stjórnmálamennirnir að hætta barnalegri þrætupólitíkinni og fara að ræða þau pólitísku markmið sem Ísland vill ná í aðildarviðræðunum í hverjum kafla í aðildarviðræðna fyrir sig. Þar skiptir miklu máli í þeirri umræðu að fá áherslur þeirra sem eru gegn aðild ekki síður en þeirra sem eru jákvæðir fyrir mögulegri inngöngu í ESB."

Alllur pistill Halls 


ESB reiðubúið fyrir viðræður

ESBFram kom á Stöð tvö í kvöld að ESB er reiðubúið að hefa aðildarviðræður við Ísland. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var út í kjölfar fundar sameiginlegrar þingmannanefndar ESB og Íslands, sem haldinn var í þjóðmenningarhúsinu í gær.

Að sögn Eiríks Bergmanns, stjórnmálafræðings eru þetta miklar fréttir fyrir Ísland og jafnvel er talið að viðræðurnar geti hafist formlega þann 17.júní næstkomandi. Þá er einmitt eitt ár liðið frá því að Ísland var samþykkt formlega sem "kandídat" að ESB.

 


Grímur Atlason um gamla vonda siði!

Grímur AtlasonGrímur Atlason er einn af mörgun annars ágætum bloggurum þessa lands og er nú aftur byrjaður að láta í sér heyra á Eyjunni. Í nýjum pistli þar skrifar hann um Evrópumál undir fyrirsögninni: Að míga í sauðskinnsskó er gamall vondur íslenskur siður! og Grímur byrjar svona:

"Andstæðingar Evrópusambandsaðildar Íslands hafa farið mikinn upp á síðkastið. Þeir hafa gengið úr stjórnarliði, fagnað krónunni og bent á aðrar þjóðir fullir heilögum íslenskum anda: „Sjáið bara hvernig fór hjá þeim – þessum þarna ESB löndum!“ Já, það er þjóðleg stemming víða í hornum og Morkinskinna er dregin fram og sögð mamma Hringadróttinssögu og annarra bókmennta svo ekki sé minnst á allar Hollywoodmyndirnar. Ormurinn langi er endurgerður en nú ekki færeyskur heldur íslenskur. Þetta er vondur staður að vera á. Steingrímur Joð hitti naglann ágætlega á höfuðið þegar hann sagði: „Uppgangur þjóðrembu-, sérgæsku- og einangrunarsjónarmiða er nákvæmlega jafn óskemmtilegur hver sem kveikjan kann að vera.“"

Síðan segir Grímur: "Hvað er síðan svona frábært við hina íslensku leið? Um mitt ár 2007 var gengisvísitalan um 110 en er í dag 215. Evran hefur styrkst gagnvart krónu um tæp 100% á þessu tímabili. Við búum við gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir algjört hrun þessa gjaldmiðils sem fólk er að fagna. Þrátt fyrir það hefur krónan verið að síga síðustu vikurnar. Verðmæti bankanna felast m.a. kröfum sem ættu með réttu að vera afskrifaðar en eru það ekki svo plúsinn batni í bókhaldinu. Sjávarútvegurinn nær ekki að standa í skilum við lánadrottna sína þrátt fyrir 100% forgjöf í gengisfellingunni. Lánsfé til handa greininni er ekkert og það hefur ekkert með ríkisstjórnina að gera – það er bara ekki hægt að lána gjaldþrota grein peninga. Atvinnuleysið margfaldaðist á einni nóttu – þrátt fyrir að nær allt erlent vinnuafl, sem var hér við störf fyrir hrun, hafi yfirgefið landið. Þetta eru afleiðingar vitleysunnar – mikilmennskubrjálæðisins."

Og Grímur endar pistil sinn á þessum orðum: "Það er mér því algjörlega hulið hvernig getur fólk haldið því fram að það skaði Ísland að láta reyna á samninga við Evrópusambandið. Í þeirri stöðu sem við erum í núna getum við ekki leyft okkur að sýna dæmigerða íslenska minnimáttarkennd sem felst í því að við erum best í öllu. Við erum það hreint ekki og okkar leið út úr kreppunni er hvorki gallalaus eða betri en það sem gerist annarstaðar.

Við vitum hreinlega ekkert um hvernig fer – það á bara eftir að koma í ljós. Þangað til skulum við kanna möguleika Evrópusambandsaðildar – það er forheimska að gera það ekki!"

 


Kolbrún Bergþórsdóttir um þá sem hrópa hæst gegn ESB: Slappið af - þjóðin mun greiða atkvæði um ESB!

Kolbrún BergþórsdóttirKolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar áhugaverða grein í blaðið í dag. Þar gerir hún meðal annars stjórnmál og öfga, einangrunartilhneigingar og Evrópusambandið að umtalsefni.

Kolbrún gerir fyrst að umtalsefni þá tilhneigingu manna að skipta fólki í hin mismunandi lið og segir: "Þeir sem skipta fólki í lið með og á móti líta nánast á það sem svik ef einhver í fylkingunni tekur skyndilega undir málflutning hins liðsins. Um leið er viðkomandi dæmdur sem svikari. Það veit til dæmis Bjarni Benediktsson. Og ætli Siv Friðleifsdóttir þekki þetta ekki sömuleiðis?

Þessi liðsskipting er gamaldags pólitík sem í dag virkar öfgafull. Fæstir eru öfgamenn. Flestir eru miðjufólk sem hallast svo annaðhvort örlítið til hægri eða vinstri, en í grunninn er þetta fólk sammála um flesta hluti. Það þarf ekki að tala sig upp í æsing og á yfirleitt ekki í neinum vandræðum með að ná samkomulagi um hlutina.

Þetta er ósköp einfalt. Meirihluti fólks kýs ekki öfgar. En þeir öfgalausu eru yfirleitt þannig gerðir að þeir hafa ekki ýkja hátt. Þeir sjá enga ástæðu til þess."

Síðan víkur Kolbrún að þeim sem hafa allt á hornum sér og sjá rautt þegar minnst er á Evrópusambandið. Kolbrún segir þenna fámenna hópa láta hátt:

"Þessi hópur spólar ógurlega ef hann veit af því að verið sé að ræða mál sem hann er algjörlega andsnúinn. Eins og til dæmis hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Mál sem einmitt er ástæða til að ræða. En það má víst alls ekki. Sem lýsir furðulegri einangrunarstefnu.

Nú skal því ekki haldið fram að Ísland sé best komið í Evrópusambandinu. Vel má vera að svo sé og svo getur einnig verið að það henti engan veginn. En það er full ástæða til að ræða það mál. Alveg eins og rík ástæða er til að ræða kvótakerfið. Umræða um þessi mál er nauðsynleg og verður að fara fram af skynsemi og yfirvegun. Þar er engin ástæða til að öskra sig hásan."

Í lokin hvetur Kolbrún þennan hóp hreinlega til þess að slappa af og að það verði þjóðin sem muni taka endanlega ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæði:

"Af hverju eru æsingamennirnir svona yfirmáta æstir yfir því? Þeir ættu að reyna að slappa af. Um leið mun þeim líða betur."   

 

 

 

 

Árni Þór Sigurðsson: ESB-málið í eðlilegu ferli - sprellifandi mál! Dúndurfrétt Evrópuvaktar Björns og Styrmis!

Árni Þór SigurðssonÁrni Þór Sigurðsson ræddi við Rás-2 í dag, en hann var á fundi á vegum sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB, sem haldinn var í dag. 

Fram kom í máli Árna að málið er í eðlilegum farvegi og sprelllifandi, þrátt fyrir ummæli ýmissa manna um annað.

Ýmis mikilvæg mál voru rædd á fundinum í dag Hér er allt viðtalið við Árna. 

Samkvæmt Árna hefjast samningaviðræður Íslands og ESB í júní. 

Evrópuvaktin birti hreint magnaða frétt sem tengist þessu, þar sem rætt er um einhver "óviðunandi drög" sem samkvæmt einhverjum heimildarmönnum Evrópuvaktarinnar (les: Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson) eiga að hafa séð og þykja ekki góður pappír í þeirra augum. Orðrétt segir í þessari "dúndurfrétt" Evrópuvaktarinnar:

"Heimildarmenn Evrópuvaktarinnar, sem séð hafa drög að ályktun fundarins segja, að þau séu algerlega óviðunandi frá sjónarhóli þeirra, sem andstæðir eru aðild Íslands að Evrópusambandinu." 

Og þá vaknar spurningin: Eru til einhver möguleg drög að einhverju sem tengist ESB á einhvern hátt sem gætu talist viðunandi frá sjónarhóli þeirra sem eru andstæðingar aðildar Íslands að ESB?

Er það ekki bókstafstrú á Evrópuvaktinni að vera á móti ESB og öllu sem því tengist? 


Franz Gunnarsson á DV-bloggi: Eru hagsmunir Ásmundar Einars ofar hagsmunum landsmanna?

Franz GunnarssonFranz Gunnarsson, gítarleikari og söngvari hljómsveitarinnar Ensími, semur ekki bara rokk og ról, hann bloggar líka á DV. 

Í nýjasta pistli sínum tekur hann "snúning" á "snúningum" Ásmundar Einars Daðasonar, Nei-foringja Íslands. Fyrisögnin er: Eru hagsmunir Ásmundar Einars ofar hagsmunum landsmanna? 

Frans segir: "Það er mjög undarlegt að þingmaðurinn finnist í lagi að skrifa undir stjórnarsáttmála og síðan hlaupast undan skyldum sínum með úrsögn úr þingflokki en haldi svo þeirri fullyrðingu á lofti að þjóðin vilji ekki ESB. Hann segist finna fyrir miklum meðbyr vegna úrsögn úr þingflokknum en fréttir berast úr kjördæminu hans að menn þar á bæjum eru allt annað en sáttir með þessa úrsögn Einars og vilji ekkert með hann að hafa.

Bent hefur verið á tengsl Ásmundar í samfélagi bænda en Bændasamtökin hafa sett sig upp á móti ESB aðild. Því velti ég því fyrir mér hvað gengur manninum til. Er hann að taka þennan snúning fyrir sérhagsmuni bænda og síns eigin eða hvað, hver er ástæðan Ásmundur?"

Að lokum segir Franz: "Ísland er í aðildarferli sem leiðir til samnings sem þjóðin fær að kjósa um. Er það ekki bara í fínu lagi að leyfa þjóðinni að sjá samning og fá svo að vega og meta kosti og galla samningsins? Ásmundur getur þá bara kosið NEI ef hann vill ekki ESB."

Heyr heyr! 

Allur pistill Franz (Mynd: DV)


Steingrímur J. Sigfússon með pistil um Evrópumál á Smugunni

Steingrímur J. SigfússonFjármálaráðherra Íslands, Steingrímur J. Sigfússon skrifaði fyrr í kvöld pistil um Evrópumál á www.smugan.is.

Fyrirsögnin er Víðsýn Evrópuumræða: Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við hér á þessari síður getum alveg hjartanlega verið sammála Steingrími. 

Það sem skilur okkur að er að við erum með inngöngu í ESB, hann er á móti. Það er lýðræðislegt. Steingrímur er formaður flokks sem er opinberlega á móti inngöngu, þó að innan VG séu vissulega menn og konur sem aðhyllast aðild að ESB. Þannig er það í öllum flokkum.

Steingrímur fer víða í pistli sínum, sem hann byrjar svona: "Efnahagslegir og sumpart pólitískir erfiðleikar á Evrusvæðinu og raunar í Evrópu í heild vekja nú áleitnar spurningar um hvert stefni. Ýmsar innri mótsagnir og veikleikar Evrópusamstarfsins verða ljósari þegar harðnar á dalnum. Í umræðu hér á landi virðist sumum fara þannig að þeir fyllast Þórðargleði og útmála allt slíkt sem sönnun þess hvað Evran sé ónýtt og vonlaust fyrirbæri, uppgangur “sannra Finna” sé til marks um hvernig andúð á Evrópusambandinu fari vaxandi þar á bæ, vandræði Íra, Grikkja og Portúgala eru umsvifalaust gerð að rökum gegn því að Ísland eigi erindi inn í Evrópusambandið.

Fremur er óskemmtilegt að sjá þannig rætt um raunveruleg og alvarleg vandamál þjóða sem ætti fremur að fjalla um af skilningi og hógværð. Uppgangur þjóðrembu-, sérgæsku- og einangrunarsjónarmiða er nákvæmlega jafn óskemmtilegur hver sem kveikjan kann að vera. Undarritaður hefur ótal sinnum á undanförnum misserum beðist undan því í viðtölum við erlenda fjölmiðla að fara í mikinn samjöfnuð um leið Íslands út úr kreppunni borið saman við vegferð Grikkja, Íra eða annarra. Við ættum hvað síðust þjóða að setja okkur á háan hest og telja okkur geta haft vit fyrir öðrum, eða höfum við ekkert lært af heimsku og hroka útrásar- og græðgisvæðingaráranna? Auk þess er nú rétt að ljúka verkinu og koma Íslandi endanlega fyrir vind og upp úr kreppunni áður en menn fara að hælast um. Þar hefur sannanlega mikið áunnist og horfur fara jafnt og þétt batnandi, þó að glímunni sé hvergi nærri lokið. Úthald og óbilandi trú á verkefnið er allt sem þarf, það eina sem getur bilað erum við sjálf eins og dæmin sanna. Framtíðarhorfur Íslands eru einhverjar hinar bestu allra Evrópulanda og þetta er umheiminum að verða æ betur ljóst, hvað sem okkur sjálfum líður. En við erum hluti af stærri heild, ekki síst Evrópu, og erfiðleikar þar geta fljótt orðið að erfiðleikum okkar. Þangað flytjum við út stærstan hluta okkar varnings, seljum þangað þjónustu og þaðan koma flestir erlendir ferðamenn til Íslands."

Og í lokin segir Steingrímur: "Leiði þær viðræður við Evrópusambandið sem Alþingi ákvað í ljós að ekki fáist neinn sá frágangur á grundvallarhagsmunum Íslands er boðlegur geti talist, kemur upp staða sem Alþingi þarf að takast á við. Fyrr en á það hefur reynt í eiginlegum samningaviðræðum erum við engu nær. Forðumst á meðan að sundra röðum samherja með hendurnar fullar af afdrifaríkasta verkefni lýðveldistímans, sem sagt því að reisa Ísland úr rústum einkavæðingar- og nýfrjálshyggjustefnunnar.

Það er víðsýn og framtíðarmiðuð stefna sem sannfærir unga jafnt sem aldna með rökum um hvernig Íslandi sé best borgið er ein mun hafa sigur að lokum."

Vonandi leiðir pistill Steingríms til umræðu og ekki síst hér á þessu bloggi, sem er opið öllum áhugamönnum um Evrópumál.

VIÐBRÖGÐ VEL ÞEGIN! 

Allur pistill Steingríms 


Chernobyl 25 árum síðar

ChernobylÞess er nú víða minnst að 25 ár eru liðin frá Chernobyl-kjarnorkuslysinu í þáverandi Sovétríkjunum (Chernobyl er í Úkraínu). Um mjög alvarlegt kjarnorkuslys var að ræða, sem reyndi verulega á nýjan leiðtoga Sovétríkjanna, Mikail Gorbatsjev.

Margir vilja meina að Chernobyl-slysið hafi verið einn af nöglunum í líkkistu Sovétríkjanna, sem liðu formlega undir lok aðeins fimm árum síðar. 

Í þeirri lýðræðisbylgju og með falli Berlínar-múrsins varð til fjöldi "nýrra" og frjálsra A-Evrópuríkja. Nær öll þessi ríki hafa gengið í ESB. Þar er þeirra eðlilegi samastaður í samfélagi þjóðanna.

Chernobyl leiðir hugann að mikilvægi umhverfismála og það er staðreynd að eitt alvarlegt slys getur haft gríðarlega áhrif um alla álfuna.

Fyrir okkur Íslendinga skiptir þetta miklu máli, séstaklega ef litið er  hafsvæðanna í kringum okkur.

Der Spiegel fjallar um málið 

Íslensk síða um slysið 


Skipulag viðræðna við ESB-sem hefjast brátt

island-esb-dv.jpgRýnifundunum fer fækkandi á milli ESB og Íslands, en á þeim hefur löggjöf ESB og Íslands verið borin saman. Því styttist í að samningaviræður Íslands og ESB hefjist. Því er ekki að rifja aðeins upp hvernig þær ganga fyrir sig.

Á heimasíðu Utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um þetta og þar segir:

"Samningaviðræður við ESB um aðild Íslands eru skv. stjórnarskrá á stjórnskipulegri ábyrgð utanríkisráðherra sem fer með samninga við önnur ríki. Verkefnið er hins vegar allrar stjórnsýslunnar, ráðuneyta jafnt sem stofnana, enda um að ræða samninga á sviðum sem falla efnislega undir mörg ráðuneyti.

Að sama skapi eru hafa sveitarfélög ríkra hagsmuna að gæta og því mikilvægt að fulltrúar þeirra hafi skýra aðkomu að málum á sem flestum sviðum.

Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að þar eigi hlutdeild hagsmunaaðilar og félagasamtök sem taki virkan þátt og eigi hlutdeild í ferlinu, líkt og kveðið er á um í meirihlutaáliti utanríkisnefndar Alþingis.

Uppbygging viðræðna gerir ráð fyrir að meginþungi málsins hvíli á samninganefnd sem utanríkisráðherra skipar að höfðu samráði við ríkisstjórn undir forustu aðalsamningamanns en endanlegar ákvarðanir í málefnum tengdum aðildarviðræðum verða í höndum ríkisstjórnar. Í því felst meðal annars að allar ákvarðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum verða samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli.

Tíu samningahópar hafa verið settir á fót um afmörkuð efnissvið samninganna. Hver hópur er leiddur af formanni en auk hans sitja í hópunum fulltrúar hagsmunaaðila og félagasamtaka, og margvíslegir sérfræðingar í lögum, efnahagsmálum, alþjóðasamskiptum o.s.frv. Þessir hópar leggja mat á hagsmuni Íslands á sínum sviðum og gera tillögu að samningsafstöðu Íslands.

Tryggt verður að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Í beinni aðkomu utanríkismálanefndar að ferlinu felst meðal annars að hún mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd og eftir atvikum ráðherrum, haft verði samráð við nefndina áður en samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum verði samþykkt og reglulegir upplýsinga- og samráðsfundir verði haldnir um framvindu viðræðna og opnun og lokun einstakra samningskafla. Jafnframt getur nefndin kallað til sín hagsmunaaðila og sérræðinga eftir því sem þörf krefur. Utanríkisráðherra mun reglulega veita Alþingi skýrslu um stöðu mála.

Alþingi mun þannig vera virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi í ferlinu, ásamt stjórnsýslunni og hagsmunaaðilum sem munu fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg samningsafstaða á einstökum sviðum er samþykkt.

Áhersla er lögð á vandaða og hlutlæga upplýsingamiðlun um möguleg áhrif aðildar að ESB og um gang viðræðna til almennings, fjölmiðla, félagasamtaka og alþjóðasamfélagsins. Slíkt er grundvallaratriði fyrir trúverðugleika ferlisins í heild. Hugmyndir eru um að upplýsingamiðlun fari fram í nánu samstarfi við Alþingi, ólík félagasamtök og hagsmunaaðila og háskólasamfélagið. Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar er nefnt að til greina komi að slíku fræðslu- og upplýsingastarfi verði sinnt af sjálfstæðri stofnun sem væri skapað svigrúm til að leita sér aðstoðar utanaðkomandi ráðgjafa, innlendra sem erlendra. Samninganefnd Íslands mun á hinn bóginn upplýsa um innihald, framvindu og lyktir viðræðna."

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband