Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Guðni og dráttarvélarnar

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins hefur ekki verið æstur aðdáandi þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Hann gerir sér hins vegar grein fyrir því að rússibanareið íslensku krónunnar er að valda miklum búsifjum hér á landi. Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu sagði hann sögu af tveimur bændum sem komu til hans út af þungri greiðslubyrgði af lánum vegna dráttarvélakaupa. Í viðtalinu segir orðrétt.

Guðni nefnir sem dæmi að fyrir fimm árum komu til hans tveir bændur sem voru að velta því fyrir sér að breyta sínum íslensku skuldum úr krónum í japönsk jen. Á þeim tíma töldu bankamenn og telja margir enn að maður ætti að hafa skuldir sínar og tekjur í sömu mynt. "Annar þessi bóndi gekk þessa leið en hinn hélt sig við íslensku myntina og verðtrygginguna. Skuldirnar hafa bara minnkað hjá þeim sem er með jenin en hjá hinum hafa þær hækkað. Þannig að þarna glímum við við vandamál sem pólitík dagsins í dag og framtíðarinnar þarf að fást við..... Við verðum því að velta þessu fyrir okkur með okkar krónu, aðalatriðið er að verðbólgan fari niður. Síðan þurfa menn að spyrja hvort við eigum að tengja krónuna á annan hátt. Það getur vel verið að tenging við dollara sé ekkert síðri en við evru. Þetta er verkefni bæði hagfræðinga og stjórnmálamanna."

Á þessu sést að Guðni er ekki bjartsýnn á að íslenska krónan eigi framtíðina fyrir sér. Þetta er athyglisvert þvi hingað til hefur hann haldið jafn mikill tryggð við krónuna og íslensku nautgripina. Við spyrjum því háttvirtan formann Framsóknarflokksins. Telur hann það vænlegri lausn að að tengja okkur við bandaríska mynt þar sem við eigum um 10% af okkar viðskiptum frekar en við lönd Evrópusambandsins þar sem yfir 70% af okkar viðskiptum fara fram?


Evrópusinnaður viðskiptaráðherra

Þannig hljómuðu lokaorð spyrjanda í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar sem talað var við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Þar viðraði Björgin enn og aftur skoðanir sínar á því að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, en bætti því nú við að það væri ljóst að þrátt fyrir að við gætum fellt niður verndartolla að einhverju leiti til að ná að lækka matvælaverð þá myndi það ekki lækka í alvöru fyrr en að Ísland gengi í Evrópusambandið. Þetta er skoðun sem margir aðilar eru að komast á þessa dagana, þar sem lækkunin sem varð á matvælaverði sem átti sér stað fyrr á árinu virðist vera algjörlega gengin til baka.

Viðtalið má finna á VefTV Visi.is, eða með því að smella á þennan hlekk

Bætt við 26 júlí; Visir.is eru með frétt um þetta í dag, sem má lesa hér.


Egill Helgason um ESB

Fyrir þá sem misstu af því, þá skrifaði Egill Helgason mjög góðan pistil um það hversu auðvelt það er fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið á Eyjunni nú fyrr í mánuðinum. Þar segir hann meðal annars; "Ísland er velferðarríki að norrænni fyrirmynd með blönduðu hagkerfi. Við höfum fylgt Vestur-Evrópuríkjum að málum allar götur síðan lýðveldið var stofnað. Það er ekkert í samfélagsgerðinni sem tefur inngöngu, ekki heldur neinar syndir sem þarf að gera upp." og "Ekkert bendir til að ESB breytist í evrópskt ofurríki. Til þess eru aðildarríkin of mörg og ólík. Við myndum ekki taka upp evrópskt atvinnuleysi. Innan ESB eru nú 27 ríki, æði misjöfn. Lönd eins og Finnland, Írland og Lúxemburg standa afar vel. Í Þýskalandi er mikill uppgangur sem og víða í Evrópu."

Pistilinn í heild sinni má lesa hér. Það er mjög jákvætt að slíkur þungavigtarmaður í þjóðfélagsumræðunni sé með það á hreinu hversu auðvelt og nauðsynlegt það er fyrir okkur Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Skrif Egils í þessum stutta pistli eru mjög hnitmiðuð en samt komast rökin mjög vel til skila, sem sýnir að umræðan er að komast á mun betra stig en áður.


Um sjávarútveginn og ESB úr skýrslu Evrópunefndar

Okkur í Evrópusamtökunum langar til að vekja athygli á þeim hluta af áliti fulltrúa Samfylkingarinnar í skýrslu Evrópunefndar sem fjallar um sjávarútvegsmál og Evrópusambandið. Þar kemur fram að við Íslendingar þurfum engar áhyggjur að hafa af sjávarútveginum við inngöngu í Evrópusambandið, og að engin undanþága sé nauðsynleg fyrir Ísland til að ganga þar inn. Eins og segir í álitinu; Ein mikilvæg niðurstaða þessarar skýrslu er að samkvæmt núverandi reglum ESB munu veiðiheimildir í íslenskri lögsögu falla í hlut íslendinga, með hliðsjón af reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á sögulegri veiðireynslu. Sú regla hefur verið og er enn sá grunnur sem sameiginlega sjávarútvegsstefnan byggir á. Við vinnu skýrslunnar kom ekkert í ljós sem bendir til að það breytist.

Ekki er síður mikilvægt úr rannsókn nefndarinnar að enga undanþágu þarf til að tryggja að ísland hefði forræði á úthlutun kvóta í íslenskri lögsögu. Söguleg veiðireynsla annarra þjóða miðast „við nýlegt tímabil sem gæfi eðlilega mynd af veiðum undanfarin ár.“ Þar sem ekkert ríkja Evrópusambandsins hefur veitt svo neinu nemur í íslenskri landhelgi undanfarna þrjá áratugi þarf enga undanþágu til að tryggja forræði okkar á veiðum í lögsögu landsins. Reglur Evrópusambandsins mæla skýrt fyrir um það. Ráðleggingar íslenskra vísindamanna um leyfilegt heildarmagn á íslandsmiðum yrðu sömuleiðis áfram grundvöllur á ákvörðun um heildarkvóta. Af hálfu íslands ætti því vel að vera hægt í aðildarviðræðum að staðfesta til frambúðar með sérstökum hætti að ísland hafi yfirráð yfir úthlutunum veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum í íslenskri lögsögu. í þessu samhengi er rétt að undirstrika að aðildarsamningur hefur sömu réttarstöðu og sáttmálar ESB.

Samkvæmt reglum Evrópusambandsins getur sérhvert ríki tekið ákvörðun um hvernig þeim veiðiheimildum sem því falla í skaut er ráðstafað. Aðildarríkin sjálf annast eftirlit í sinni lögsögu og hægt er að gera kröfu um að sjávarútvegsfyrirtæki hafi raunveruleg og efnahagsleg tengsl við það landsvæði sem reiðir sig á veiðarnar. Margs konar leiðir eru því til staðar svo hægt megi koma í veg fyrir svokallað kvótahopp. Við aðild að Evrópusambandinu gætu veiðimöguleikar íslenskra útgerðarfyrirtækja jafnframt aukist í krafti tvíhliða samninga sem ESB gerir um veiðiheimildir við strendur fjölmargra ríkja.

Að öðru leyti má gera ráð fyrir að aðild íslands að ESB verði til að styrkja íslenskan sjávarútveg og auka samkeppnishæfni hans. á sama hátt og EES-samningurinn aflétti hömlum á erlendum fjárfestingum og starfsemi í öðrum atvinnugreinum, mun aðild að Evrópusambandinu þýða að hömlum á fjárfestingum og samstarfi erlendra aðila í sjávarútvegi verði aflétt. Sama má að sínu leyti segja um áhrif aðildar á íslenskan landbúnað, þar sem aðild myndi í senn auka á samkeppnishæfni greinarinnar, opna innlendri framleiðslu nýja markaði þar sem hún gæti keppt í krafti einstakra gæða, og jafnframt stuðlað að lægra verði landbúnaðarvöru á markaði fyrir neytendur. Engin þjóðhagsleg rök eru fyrir því að viðhalda höftum gagnvart nágrannaríkjum okkar í Evrópusambandinu í þessum atvinnugreinum.

Tekið úr Tengsl Íslands og Evrópusambandsins bls 119-120.

Aðildarsamningar tækju stuttan tíma

Í viðtalið við þýska blaðið "Die Welt" sagði Olli Rehn, yfirmaður stækkunarmála Evrópusambandsins að aðildarsamningar fyrir Ísland tækju stuttan tíma. Þar svaraði hann því hvort Íslendingar væru velkomnir í Evrópusambandið; (í þýðingu höfundar) "Auðvitað, en fyrst verða Íslendingar að ákveða að sækja um í Evrópusambandið. Þegar í dag eru Íslendingar partur af Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) þannig að um 80% af reglum innri markaðarins hafa verið teknar upp þar. Evrópusambandið myndi fagna Íslandi. Ef Ísland myndi sækja um í Evrópusambandið, þá myndi ég undir eins setja saman lítinn hóp til að sjá um aðildarviðræðurnar. Við ættum að getað byrjað og klárað aðildarviðræður á mjög stuttum tíma."

Það er því ljóst að það ætti ekki að taka langan tíma að ganga í Evrópusambandið eftir að við sækjum um. Það er mjög líklegt að við Íslendingar myndum reyna að fá undanþágu við einhverjum hluta sjávarútvegsstefnu sambandsins, en eins og kemur fram í skýrslu Evrópunefndar þá er það ekki nauðsynlegt. Það verður hinsvegar spurning hvað það mun takan langan tíma að ná þeim efnahagslega stöðuleika sem þarf til að taka upp evruna.


Viðskiparáðherra segir evru vera lausn á vaxtastefnunni

Björgvin G. Sigurðsson sagði í viðtali við Morgunblaðið síðastliðinn mánudag að gjaldmiðill Íslands væri rót efnahagsvandans sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. "VIÐVARANDI himinháir vextir og gengissveiflur og efnahagslegur órói í kringum gjaldmiðilinn beinir frekar sjónum okkar að framtíð myntarinnar," segir Björgvin G. "Þetta veltir upp spurningunni um framtíð myntarinnar og stöðu peningamála okkar í því ljósi, það er stóra málið. Ekki þetta endalausa kapphlaup Seðlabankans til að draga úr þenslu og spennu með háum vöxtum á meðan krónan er að miklu leyti í höndum spákaupmanna úti í heimi," segir Björgvin. "Rótin að vandanum er miklu stærri en tímabundin hávaxtapólitík Seðlabankans, hún felst í veikri mynt í fjármálaheimi án landamæra."

En Björgvin bendir ekki bara um vandamálin; "Nærtækasti kosturinn væri að sækja um aðild að ESB, sem þjóðin kysi um, og svo í framhaldi af því aðild að myntbandalaginu". Svona ummæli ráðherra í ríkistjórn Ísland hljóta að hleypa umræðunni um upptöku evru af stað aftur. Þar sem atvinnulífið hefur verið að kalla eftir breytingum á hágengisstefnunni og almenningur borgar einu hæstu vexti í heimi, þar er þörfin fyrir breytingar orðin svo mikil að það verður ekki horft framhjá því mikið lengur.

Fyrr í mánuðinum bentum við einmitt á grein Aðalsteins Leifssonar um hvernig upptaka evru lækkar vexti, sem má finna hér neðar á síðunni.


Innganga í ESB lækkar matvælaverð

Það vekur athygli að Evrópulöndin með hæsta matarverðið eru þau lönd sem standa utan Evrópusambandsins, en það er engin tilviljun. Við inngöngu í ESB verða löndin að fella niður tolla og gjöld á matvæli sem er sá þáttur sem útskýrir að mestu þennan mikla verðmun á matvælum hér á Íslandi og Noregi annarsvegar og Danmörku og Svíþjóð hinsvegar. Við inngöngu í ESB þyrfti Íslenska ríkið að fella niður alla tolla á matvælum frá Evrópu, sem þýðir að matvælaverð hér yrði svipað og í Danmörku og Svíþjóð.

Eitt af stóru átakamálunum í síðustu kosningarbaráttu hér á Íslandi stefndi einmitt í að vera matvælaverðið, þangað til fyrrverandi ríkistjórn Ísland ákvað að ráðast í breytingar á virðisaukaskattskerfinu til að ná fram einhverjum lækkunum á matarverði. Það er hinsvegar ljóst miðað við tölurnar frá Hagstofu Íslands að þær breytingar ná aðeins að setja okkur í flokk með Noregi, en ekki þeim löndum sem við viljum líkjast í matarverði. Niðurfelling tolla á matvöru á Íslandi væri aðgerð sem væri erfitt að ná pólitískri samstöðu um, og því telja margir að eina leiðin til að lækka matarverð til frambúðar hér á Íslandi sé með því að ganga í Evrópusambandið.


mbl.is Matvæli dýrust á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Malta tekur upp evru, en ekki við

Nú þegar hágengisstefna ríkistjórnarinnar er að valda útflutningsgreinunum hér á landi miklum erfileikum, þá er umræðan um upptöku evru orðin mjög hávær aftur - nú síðast þegar LÍÚ kallar eftir breytti gengisstefnu (sjá neðar). Það er því áhugavert að horfa til Möltu sem er að taka upp evruna nú um næstu áramót þar sem Malta varð aðili að Evrópusambandinu árið 2004 og varð þar með minnsta aðildarlandið með aðeins 400þúsund íbúa. Eitt það athugaverðasta við aðild Möltu að ESB, er að landið fékk vissa undanþágu undan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins vegna efnahagslegs mikilvægis sjávarútvegsins fyrir ákveðin svæði á Möltu, en þar er sjávarútvegur aðeins lítill hluti af þjóðarframleiðslunni og veitir rétt rúmlega þúsund manns atvinnu.

Það væri því áhugavert að sjá hverskonar undanþágu við Íslendingar gætum náð fram, þar sem stór hluti þjóðarframleiðslu okkar er sjávarútvegur og hér eru yfir 3000 sjómenn og enn fleiri sem vinna í tengdum störfum. Malta náði fram undanþágu á hafsvæðinu sínu þar sem er nær aðeins um sameiginlega fiskstofna að ræða, en hér við Ísland er 80% af fiskstofnunum staðbundnir og heyra því aðeins undir okkar fiskveiðilögsögu. Það er því ljóst að ef við myndum láta reyna á aðildarviðræður að Evrópusambandinu, þá er líklegra en ekki að það fengist hagstæð niðurstaða fyrir Ísland í ljósi þess hversu mikilvægur þáttur sjávarútvegur er í efnahagslífi landsins.

Evran hefur oft verið talinn stærsti kosturinn við inngöngu í Evrópusambandið fyrir Ísland, en sjávarútvegsstefna þess verið talinn helsti löstur. Það mun því verða undarlegt að horfa á Möltu taka upp evru, með sína undanþágu undan sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, þegar við Íslendingar höfum aldrei látið reyna á það hvort sjávarútvegsstefnan sé hindrun í raun eða ekki.


Hvað erum við mikið í ESB?

Eitt stærsta ágreiningsmálið milli Evrópusambandssinna og þeirra sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið á Íslandi er hversu mikinn þátt við erum að taka í samstarfinu nú þegar. Þegar Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra þá nefndi hann oft 80% töluna í því samhengi, en þegar Davíð Oddsson tók við utanríkisráðuneytinu þá breyttist talan skyndilega í 6,5%, sem er tala sem andstæðingar Evrópusambandsaðildar nota mjög mikið í umræðunni. Sú tala er fengin með því að taka allar tegundir lagagerða ESB yfir ákveðið tímabil og telja hversu margar af þeim verða á lögum á Íslandi, en það sem gleymdist að minnast á er að aðildarlönd Evrópusambandsins taka ekki sjálf upp allar þessar reglur - þannig að ef sama mælikvarða væri beitt á Svíþjóð þá eru Svíar aðeins þriðjungs aðildarþjóð að sambandinu.

Það er því ljóst að þessi talnaleikfimi er ekki að hjálpa okkur mikið að skilja að hversu stórum hluta Ísland er aðili að ESB - því þótt Ísland taki ekki upp 80% af reglugerðum ESB þá gera hin aðildarlöndin það ekki heldur. Það er þó merkilegt að skoða skrif Eiríks Bergmanns frá 2005 þar sem hann kemst að því að "okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80 prósent af öllum þeim lagareglum ESB sem Svíum er gert að innleiða", því þar er kominn samanburður sem setur hlutina í samhengi. Það gæti því verið að þessi 80% tala sé bara nokkuð nærri lagi þegar á heildina er litið.


Króna eða evra í fréttabréfinu

Fréttabréf Evrópusamtakana eru nú loksins að byrja birtast á vefnum okkar og má finna í dálkinum hér til hægri undir "Tenglar"

"Gengi krónunnar hefur sveiflast afar mikið á síðustu sex árum, bæði nafngengi og raungengi. Gengissveiflunar valda óvissu og beinum kostnaði. Munur á hæstu og lægstu stöðu raungengis á þessu árabili miðað við ársfjórðungstölur er hvorki meira né minna en 42%. Það er óviðunandi sveifla fyrir útflutningsfyrirtæki og sérlega bagalegt fyrir nýsköpunarverkefni og sprotafyrirtæki sem hafa takmarkað bolmagn til gengisvarna. Það er því skiljanlegt að talsmenn framsækins atvinnlífs á Íslandi varpi fram þeirri spurningu hvort krónan sé nógu stór fyrir Ísland." segir Jón Sigurðsson fv. ráðherra og bankastjóri í greininni "Króna eða evra", sem má lesa í fréttabréfinu okkar síðan í maí.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband