Leita í fréttum mbl.is

Gunnar Hólmsteinn: Í gin verðtryggingar

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonStjórnmálafræðingurinn Gunnar Hólmsteinn Ársælsson sendi inn grein þar sem hann fjallar um verðtryggingu. Hann lýsi m.a. því hvernig er að flytjast úr óverðtryggðu efnahagskerfi, þar sem efnhagslegur stöðugleiki ríkir (lágir vextir og verðbólga) inn í hið íslenska verðtryggða kerfi, með háum vöxtum og verðbólgu. Greinin er hér í heild sinni:

Í GIN VERÐTRYGGINGAR

Allir þurfa þak yfir höfuðið, það eru jú altæk sannindi. Hér á Íslandi hefur sú hefð skapast að álitið er svo að íbúðarhúsnæði er talið vera lífssparnaður fólks. Menn taka lán, setja inn summu af eigin fé og svo er bara að borga af. Að eiga sína fasteign er talið eðlilegt.

Árið 1996 fluttum ég og konan mín til Svíþjóðar, til framhaldsnáms. Byrjuðum á að leigja, eins og við gerðum á Íslandi, en eftir eitt ár keyptum við svokallaðan búseturétt. Fjölskyldan stækkaði og eftir nokkur ár þurfti að selja og kaupa stærra. Búseturétturinn var seldur á fimmföldu verði vegna hækkandi fasteignaverðs í Svíþjóð og parhús keypt. Í fyrstu var það einnig búseturéttur, en fljótlega komst á samkomulag innan búsetafélagsins að breyta eignarforminu, þannig að hver fjölskylda myndi eignast sína fasteign.

Þau lán sem hvíldu á parhúsinu, voru með vöxtum á bilinu 1-2% og verðbólga var svipuð. Fyrir íbúðareigendur er þetta þægileg staða, við hver mánaðarmót minnkaði lánið og við eignuðumst meira í húsinu eftir því sem á leið. Það heitir ,,jákvæð eignamyndun“ á fagmáli. Við vissum einnig hvernig staða okkar var nákvæmlega við hver mánaðarmót og fram í tímann.

Í júní 2007 fluttum við fjögur svo heim. Parhúsið selt. Við högnuðumst bæði af sölu búseturéttarins í upphafi og parhússins. Þegar upp var staðið var hagnaðurinn c.a. 5 milljónir króna (sem þykir kannski ekki mikið á íslenskan mælikvarða). Þessa peninga og annað sparifé notuðum við til að kaupa fasteign á Íslandi. Að sjálfsögðu tókum við lán.

En hvað hefur gerst á þremur árum? Jú, lán okkar hefur hækkað um nákvæmlega fimm milljónir vegna vaxta og verðtryggingar! Það hefur því ekki tekið íslensku verðtrygginguna nema tæp þrjú ár að éta í sig allt það fé sem við fengum út úr sölu tveggja fasteigna í Svíþjóð! Þetta er svokölluð ,,neikvæð eignamyndun“ á fagmáli.  Í stað þess að eignast í fasteigninni, hefur lánveitandinn eignast sífellt meira í okkur og okkar ráðstöfunartekjum.

Það sér hver heilvita maður að þetta er klikkað kerfi. Þegar ég sá í hvað stefndi á greiðsluseðlunum þá hringdi ég í þáverandi Glitni í einfeldni minni. Ég spurði konuna sem svaraði hvort þetta væri eðlilegt. Hún svaraði: ,,Já, já, þetta er alveg eins og það á að vera,“ og spurði mig svo um vextina á láninu. Ég svaraði; ,,4.5%“ (nafnvextir, svo leggst verðbólga og vertrygging ofan á). ,,Þú ert bara með frábært lán!“ sagði starfsmaður bankans! Nú, er það, svaraði ég og þakkaði fyrir samtalið. Nú hlyti mér að líða miklu betur yfir þessu!

En er þetta fínt? Er það eitthvað fínt að nokkuð sem heitir verðtrygging hlaði auka-milljónum ofan á húsnæðislánin? Hversvegna varð verðtrygging til? Jú, vegna þess að stjórnmálamenn réðu ekki við verðbólgu og efahagsmálin. Hún átti að vera tímabundin aðgerð sem sett var á árið 1979 (s.k. ,,Ólafslög“, sem viðbrögð við óðaverðbólgu. Því má líta á verðtryggingu sem tryggingu stjórnmálamanna og yfirvalda sem ráða ekki við að stjórna efnahag landsins, eða eins og Gylfi Magnússon (þáverandi dósent við H.Í) segir í svari á vísindavef H.Í: ,, Í löndum þar sem gjaldmiðillinn hefur verið stöðugur um langan tíma og verðbólga hefur ekki farið úr böndunum er sjaldgæfara að samið sé um verðtryggingu en í löndum þar sem íbúar hafa reynslu af mikilli og óstöðugri verðbólgu.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Eru einhver lönd þar sem verðtryggingar ákvæði viðgangst með sama hætti og hér....bara það er rannsóknarverkefni. Mig grunar að þau séu fá á heimsmælikvarðann og líklega ekki "lönd sem við bera okkur saman við."

Gísli Ingvarsson, 7.3.2010 kl. 14:34

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

´Góð dæmisaga um "vont mál" . . . en minni á að það þekkist hvergi í ríkjum OECD að almenn neytendalán eða húsnæðislán séu verðtryggð - - nema á Íslandi. Og verðmælikvarði við neysluverð og verðhækkanir og löngi liðinn neyslugrunn er meira en fráleit.

Verðtrygging ríkisskuldabréfa er til  á nokkrum stöðum - en afar lítið notuð og þá eru vextir almennt í 0-0,5% í staðinn.

Benedikt Sigurðarson, 7.3.2010 kl. 14:47

3 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Verðtrygging viðgengst í öllum ESB ríkjunum. Þessi verðtrygging heitir EVRA. Með sterkan gjaldmiðil og lága verðbólgu er verðtrygging að 97.5% hluta (verðbólga er venjulega um 2,5% í ESB). Íslenska krónan er hagstjórnarkerfi sem er nauðsynlegt ráðlausum ríkisstjórnum sem ekki geta haldið stöðuleika í þjóðarbúinu. Með því að veikja gengi krónunar frá 90 Kr. evran upp í 180 Kr. er verið að lækka laun fólks um 50%. Þetta er ekki hægt í ESB nema með beinni lækkun launa sem yrði brot á kjarasamningum. Hér geta stjórnvöld lækkað laun án þess að lækka útgjöld og skuldir. Þetta bankahrun sem reið yfir haustið 2008 olli launalækkun um 50%. Þá var sama staða uppi og ef vinnudagurinn hafi verið styttur úr 8 tímum niður í 4 tíma (50% starfshlutfall í stað 100%) en sömu útgjöld og þegar starfshlutfallið var 100%.

Guðlaugur Hermannsson, 7.3.2010 kl. 16:27

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Að vera með verðtryggingu á lánum er sér íslenskt fyrirbrigði.

Það kemur ekkert ESB við.

Gunnar Heiðarsson, 7.3.2010 kl. 16:41

5 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Að vera með verðtryggingu átti að vera skammtímalausn, en hefur verið í yfir 30 ár! Hún hefur fest sig í sessi og er því búin a skjóta traustum rótum..

Guðlaugur segir: ,,Hér geta stjórnvöld lækkað laun án þess að lækka útgjöld og skuldir." Hér á hann væntanlega við gengisfellingar. Þær hafa verið studnaðar hér, með ómældu tjóni fyrir launamenn og fjölda fyrirtækja, nema kannski þeirra sem á sínum tíma gátu ,,pantað" gengisfellingu, þ.e.a.s sjávarútvegsfyrirtækja.  Er þetta réttlátt gagnvart launþegum? Svo hefur þetta mikil áhrif á verðlag og verðbólgu og vexti.

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 7.3.2010 kl. 18:08

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Guðlaugur hefur greinilega ekki skilið um hvað var verið að ræða og fer þá að tala um eittuhvað annað.

Gísli Ingvarsson, 7.3.2010 kl. 21:38

7 Smámynd: Atli Hermannsson.

Þessi framkoma sem Gunnari Hólmsteini og fjölskyldu hefur verið sýnd eftir að hann kom heim frá námi vegna helsjúkrar peningamálastjórnar, er því miður svívirða sem stjórnvöldum virðist vera fyrirmunað að skilja. Þegar sambærileg mál og Gunnars eru rædd benda stjórnvöld gjarnan á einhver “sér úrræði” eða freista þess að setja viðkomandi i einhvern ákveðinn “flokk” skuldara. En málið er einfaldlega það; að Gunnar hefur verið rændur eign sinni af einhverri lánastofnun sem hefur undirritað leyfi stjórnvalda til þess.

Ég get nefnt svipað dæmi af öðrum syni mínum. Það eru bráðum sjö ár síðan hann keypti sér sína fyrstu íbúð. Svo stækkaði hann við sig tveimur árum síðar en fór gætilega. Allir aukapeningar hans hafa einnig farið í að laga og betrumbæta undanfarin ár. Þá hef ég einnig lagt mitt af mörkum. Ég man að um mitt ár 2008 taldi hann sig eiga 7 milljónir í eigninni. En vegna breyttra aðstæðna og framhaldsnáms sem hann stundar erlendir um þessar mundir varð hann að selja íbúðina um daginn. Það skal tekið fram að söluverð íbúðarinnar lækkað aðeins um eina milljón frá því sem hann mat hana á 2008. En verðtryggð lánin hafa hækkað svo að hann rétt slapp án þess að eiga neitt eftir. Í hans tilfelli er ekki spurt að “úrræðum” því hann tilheyrir ekki neinum tilteknum flokki skuldara sem bíða sér lausna eða úrræða. Stjórnvöld munu ekkert gera fyrir hann eða Gunnar sem færðir hafa verið aftur á byrjunarreit. Því allar aðgerðir stjórnarinnar miðast aðeins við það eitt að lina þjáningar þeirra verst settu og þurfa líknandi meðferð við. Það þarf vissulega að gera. En þá verður að hafa í huga að þá er verið að mismuna og færa til verðmæti og eignir til án nokkurs tillits til sanngirnis eða réttlætis - en það eru hugtök sem stjórnvöldum er einnig fyrirmunað að skilja.

Því vil ég bara segja þetta að lokum; að næst þegar kosið verður til Alþingis, að ekki veljist eingöngu fólk þangað inn á forsendum ætternis eða menntunar. Því komið hefur í ljós að margt þeirra sem þar situr skortir alla eðlis- og dómgreind sem ekki er síður mikilvægt að hafa.  

 

Atli Hermannsson., 7.3.2010 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband