Leita í fréttum mbl.is

Eyjan: Landhelgin fyllist EKKI af erlendum togurum við ESB-aðild! Beint frá sjávarútvegsnefnd ESB.

Freri RE"Íslendingar þurfa ekki að óttast að erlend fiskiskip leiti á Íslandsmið, gangi Ísland í Evrópusambandið. Jafnvel þótt Ísland gangist undir sameiginlega fiskveiðistefnu ESB, þá munu fiskveiðiheimildir byggjast á veiðireynslu, sem Íslendingar einir hafa í íslenskri fiskveiðilögsögu.

Þetta kom fram á fundi Giorgio Gallizioli og Armando Astudillo, sem sitja í sjávarútvegsnefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, með fréttamönnum í Brussel í dag, en blaðamaður Eyjunnar var á fundinum."

Þannig byrjar frétt á Eyjunni sem birtist í gær, en eins og fram kemur í tilvitnuninni, var blaðamaður Eyjunnar á fundinum. Síðar í fréttinni segir:

“Í prinsippinu gætu spænsk eða bresk skip siglt á Íslandsmið, en þau hafa ekkert þangað að gera því þau munu ekki geta krafist veiðiheimilda, sem verða byggðar á veiðireynslu. Of langt er um liðið síðan þessar þjóðir veiddu á Íslandsmiðum og því munu þær ekki geta krafist veiðiréttar,” sagði Astudillo.

Sagði hann þetta eiga við um alla helstu fiskistofna á Íslandsmiðum. Mögulegt væri þó að íslensk skip hefðu ekki nýtt sér einhverja smærri stofna, svo sem einhverja flatfiska, en þetta væru smáir stofnar sem hefðu ekki mikla þýðingu fyrir íslenskan efnahag.

“Íslendingar hafa ekkert að óttast við að ganga í Evrópusambandið, hvað fiskveiðar varðar,” sagði Astudillo.

Þar að auki sagði hann andstöðu Íslendinga við fjárstyrki ESB vegna fiskveiða óskiljanlega. Ekki væri eingöngu um að ræða styrki til fiskveiða, heldur gætu íslenskar sjávarbyggðir sótt þangað stuðning til að viðhalda sjávarbyggðum og fiskvinnslu." (Leturbreyting: ES-blogg)

Í ummælum tengdum við fréttina var töluvert rætt um s.k., kvótahopp. Í sambandi við það bendum við á:

a) Grein eftir Úlfar Hauksson, okkar helsta sérfræðing um sjávarútvegsstefnu ESB, en þar segir m.a.:

,,Ef Íslendingar sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu er ljóst að hlutfallslegi stöðugleikinn myndi tryggja að svo til allur sá kvóti, sem heimilt yrði að taka úr sjó við Ísland, félli okkur í skaut. Í norska aðildarsamningnum - frá 1994 - er meginreglan sú að aflahlutdeild ESB innan norskrar lögsögu og öfugt er byggð á sögulegri veiðireynslu áranna 1989 til 1993. Í samningnum er kveðið á um að samningsaðilar mega hvorki auka sókn í vannýtta stofna í lögsögu hvor annars, né auka veiðar á þeim tegundum sem ekki sæta ákvörðun um leyfilegan hámarksafla. Norðmönnum tókst því að tryggja svo til óbreytta stöðu mála gagnvart ESB frá því sem var í fiskveiðisamningnum í tengslum við EES-samkomulagið.

Norðmönnum var mikið í mun að tryggja að eignarhald á fiskveiðiheimildum yrði bundið við þegna viðkomandi aðildarríkis þannig að hlutfallslegu jafnvægi yrði ekki raskað með „kvótahoppi.“ Einungis norskir ríkisborgarar geta átt fiskiskip sem gerð eru út frá Noregi og vildu Norðmenn halda þessu fyrirkomulagi eftir inngöngu í ESB. Þetta stangast á við grundvallarreglu ESB sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis og var hafnað á þeirri forsendu. Í samningnum var gert ráð fyrir að Norðmenn fengju þriggja ára aðlögunartíma í þessum efnum og í sameiginlegri yfirlýsingu var áréttuð nauðsyn þess að tryggja hagsmuni þeirra svæða sem háð eru fiskveiðum. Með sameiginlegu yfirlýsingunni og áliti Evrópudómstólsins töldu Norðmenn tryggt að þeir gætu komið í veg fyrir „kvótahopp.“

Norðmenn, líkt og Bretar hafa gert með góðum árangri, hefðu því geta tryggt efnahagsleg tengsl fiskiskips undir norskum fána við Noreg með lögum og þannig komið í veg fyrir „kvótahopp.“ Að sjálfsögðu gætu Íslendingar gert slíkt hið sama ef til aðildar kæmi."

b) Grein eftir Gunnar Þórðarson,af vef Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins, en þar segir m.a.:

,,Fyrir liggur að Íslendingar myndu fá nánast allan veiðikvóta við Ísland, og þyrfti ekki að semja sérstaklega um það. Til að tryggja að fiskveiðiarðurinn renni til Íslendingar væri hægt að semja um sérreglur í anda þess sem Bretar gerðu. Slíkt er í anda ESB en í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að aðildarsamningur getur ekki gengið gegn fjórfrelsinu og þar með má ekki mismuna fólki eftir þjóðerni innan ESB. Íslendingar gætu því ekki haldið í kröfu sína um að banna íbúum annarra ESB ríkja að fjárfesta í Íslenskum sjávarútveg."

Í ljósi þessara orða Gunnars hér í lokin má velta því fyrir sér hversu megnugur íslenskur sjávarútvegur er um þessar mundir til fjárfestinga, en skuldir greinarinnar eru um 500 milljarðar, eða um það bil 1/3 af þjóðarframleiðslu Íslands!

LÍÚ birtir í dag frétt um skuldastöðu íslenskra sjávrútvegsfyrirtækja í árslok 2008.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Sameiginleg sjávarútvegsstefna aðildarríka Evrópusambandsins leit formlega dagsins ljós árið 1983 en hana má rekja til alþjóðlegrar þróunar á 8. áratugnum þegar ríki færðu út fiskveiðilögsögu sína í 200 sjómílur.

Þar sem fiskur virðir ekki fiskveiðilandhelgi ríkja er í raun um að ræða sameiginlega auðlind sem ESB-ríki sammæltust um að stjórna sameiginlega.

Sjávarútvegsstefnunni var komið á fót til að stuðla að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu fiskistofna í sátt við vistkerfi hafsins og tryggja um leið hagsmuni sjómanna og neytenda. Helstu stoðirnar í sjávarútvegsstefnunni eru eftirfarandi:

·   Jafn aðgangur. Reglan um jafnan aðgang er til komin vegna ákvæðis í stofnsáttmála ESB sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis. Að allir borgarar ESB njóti sömu réttinda, hafi jafnan rétt til búsetu, menntunar og vinnu hvar sem er innan ESB er ein af grundvallarreglum sambandsins.

Í sjávarútvegi birtist reglan um jafnan aðgang til dæmis í frelsi borgara ESB-ríkja til að fjárfesta í sjávarútvegi hvar sem er innan sambandsins. Og samkvæmt þessari reglu ættu fiskveiðiskip ESB að hafa rétt til veiða alls staðar innan sambandsins.

Í reynd er hinsvegar ekki um jafnan aðgang að lögsögu ESB ríkja að ræða, því til að geta veitt þarf aflakvóta og um skiptingu á aflakvótanum gildir reglan um hlutfallslegan stöðugleika.

·    Skipting veiðiheimilda. Ákvarðanir um heildarafla á miðum ESB-ríkja og skiptingu í landskvóta eru teknar sameiginlega af fulltrúum aðildarríkjanna í ráðherraráði ESB að fengnum tillögum frá framkvæmdastjórn ESB.

Þetta á við um veiðar innan 200 sjómílna efnahagslögsögu að undanskildum veiðum innan 12 sjómílna lögsögu en þar eru veiðar á forræði hvers ríkis.

Við ákvörðun á aflamagni er stuðst við tillögur vísindamanna og við skiptingu í landskvóta er farið eftir reglunni um hlutfallslegan stöðugleika en hún felur í sér að aflakvóta innan 200 sjómílna lögsögu hvers lands er skipt eftir sögulegri veiðireynslu og efnahagslegu mikilvægi fiskveiða fyrir viðkomandi land.

Hvert ríki úthlutar svo sínum aflakvóta eftir eigin úthlutunarkerfi og ber ábyrgð á eftirliti með veiðum innan sinnar lögsögu."


Sameiginleg sávarútvegsstefna Evrópusambandsins

Þorsteinn Briem, 27.5.2010 kl. 14:09

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Með aðild að Evrópusambandinu fáum við Íslendingar hlutdeild í deilistofnum sambandsins, til að mynda úthafskarfa, loðnu, kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld, svo og þorski í lögsögu Noregs og Rússlands í Barentshafinu, í samræmi við núgildandi samninga og veiðireynslu okkar.

"Íslenskum fiskiskipum er heimilt að veiða úr deilistofnum í lögsögu annarra ríkja sem aðili að Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC) og Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnuninni (NAFO).

Deilistofnar eru flökkustofnar
, þannig að þeir eru ekki staðbundnir og flakka því á milli fiskveiðilögsagna, til að mynda úthafskarfi, makríll, kolmunni og norsk-íslensk síld.

Íslendingar eru jafnframt með sérstakan samning við Rússa og Norðmenn um þorskveiðar íslenskra skipa í Barentshafi í norskri og rússneskri lögsögu.
Fiskistofa sér um útgáfu veiðileyfa í lögsögu annarra ríkja og heldur utan um afla úr deilistofnum eftir veiðisvæðum."

Aðilar að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), auk Íslands, eru Danmörk (fyrir hönd Færeyja og Grænlands), Evrópusambandið, Noregur og Rússland.

"Markmið samningsins er að stuðla að verndun og bestu nýtingu fiskveiðiauðlinda á svæðinu. Ráðið getur gert bindandi samþykktir varðandi fiskveiðar utan fiskveiðilögsögu samningsríkjanna í úthafinu, meðal annars um heildaraflamark, úthlutað veiðiheimildum og gert ráðstafanir varðandi eftirlit með veiðunum.

Við Íslendingar höfum aðallega veitt úthafskarfa, norsk-íslenska síld og kolmunna úr stofnum sem lúta að NEAFC.

Auk ofangreinds samstarfs höfum við Íslendingar gert samninga um tilteknar veiðar við önnur ríki. Ber þar helst að nefna tvíhliða samninga við Færeyinga, Norðmenn og Evrópusambandið."

"Tilgangur NAFO er að ná skynsamlegri stjórnun og verndun fiskveiðiauðlinda á Norðvestur-Atlantshafi og við Íslendingar höfum veitt úthafskarfa og flæmingjarækju á veiðisvæði NAFO."

Veiðar okkar Íslendinga úr deilistofnum -Vefur Fiskistofu


Evrópusambandið og íslenskur sjávarútvegur - Veiðar okkar Íslendinga úr deilistofnum, sjá bls. 148-163


Map of the NEAFC - Til hægri á síðunni


NAFO Convention Area - Sjá kort á bls. viii

Þorsteinn Briem, 28.5.2010 kl. 06:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband