Leita í fréttum mbl.is

Benedikt Jóhannesson: RÖK FYRIR AÐILD ÍSLANDS AÐ ESB

1. Stjórnmálastöðugleiki

Benedikt JóhannessonAllt frá stríðslokum hafa íslensk stjórnvöld valið að skipa sér í sveit með vestrænum lýðræðisþjóðum. Stærstu áfangarnir voru árið 1949, en þá gengu Íslendingar í NATO, árið 1970 gengum við í EFTA og árið 1993 þegar Ísland varð aðili að EES-svæðinu. Þessi samtök hafa staðið vörð um lýðræði, frelsi og efnahagsframfarir. Samvinnan er hornsteinn að utanríkisstefnu Íslands. Síðan Bandaríkjamenn ákváðu einhliða að flytja herlið sitt úr landi hefur sambandið við þá ekki verið náið. Þeir höfnuðu því t.d. að veita Seðlabanka Íslands lán árið 2008 þegar eftir því var leitað. Norðurlandasamvinna hefur líka verið Íslendingum mikilvæg, en aðeins Norðmenn og Færeyingar eru nú utan Evrópusambandsins. Stefna Evrópusambandsins hefur mjög mikil áhrif á öll ríki á Norðurlöndum. Smáþjóð verður að eiga bandamenn þegar hún lendir í vanda.

 

2. Efnahagsstöðugleiki

Um langt skeið hefur íslenska krónan ógnað efnahagslegu sjálfstæði landsmanna. Opið hagkerfi með lítinn gjaldmiðil er auðveldur skotspónn erlendra og innlendra spákaupmanna. Á árunum 2001-2008 var krónan lengst af allt of hátt skráð. Þannig vann hún gegn hagsmunum útflutningsgreina sem veiktust og þurftu að skuldsetja sig mikið. Nú er hún svo lágt skráð að ungt fólk á erfitt með að sækja nám erlendis og erlend lyf og matvæli hafa tvöfaldast í verði. Ferðalög til útlanda eru nú forréttindi þeirra ríku. Laun á Íslandi eru svo lág að margt ungt fólk íhugar að flytja úr landi. Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf sem getur selt verðmætar vörur og þjónustu úr landi. Sveiflur ógna bæði fyrirtækjum og einstaklingum.

 

3. Bein áhrif á framgang alþjóðamála

Með inngöngu í Evrópusambandið myndu Íslendingar hafa beina aðkomu að setningu fjölmargra laga og reglugerða sem munu hafa áhrif á Íslandi um langa framtíð. Innan Evrópusambandsins hafa fulltrúar smáþjóða mjög víða mikil áhrif. Sem dæmi má nefna að æðsta embætti sambandsins er nú í höndum Belga.

 

4. Evrópusambandið er hagsmunasamband ríkja

Einn aðalkosturinn við Evrópusambandið er samræming laga og reglna á ýmsum sviðum. Það er grunnurinn að frjálsum og opnum markaði. Hins vegar er Evrópusambandið samband 27 fullvalda ríkja. Danir hafa verið í Evrópusambandinu í tæplega 40 ár og halda hnarreistir fullveldi sínu. Í Danmörku blaktir danski fáninn Dannebrog alls staðar við hún og Evrópufáninn er sjaldséður. Engum dettur í hug að líkja Evrópukeppni í neinni íþrótt við innanlandsmót.

 

5. Grunngildi Evrópu-sambandsins eru góð

Meðal grunngilda Evrópusambandsins eru friður, frelsi, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisvernd. Margt af þessu finnst Íslendingum svo sjálfsagt að ekki þurfi að hafa af því áhyggjur. En með aðild væru Íslendingar að leggja áherslu á að þeir vilji taka þátt í því að vernda þessi gildi, ekki bara á Íslandi heldur í allri Evrópu. Stór hluti þeirra landa sem nú er í Evrópusambandinu þurfti í áratugi að vera án þessara réttinda, sem Íslendingar telja sjálfsögð. Sagan sýnir okkur að ekkert slíkt er sjálfgefið.

 

6. Styrkari samningsstaða út á við

Evrópusambandið hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga og hefur á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum alþjóðamála. Íslendingar myndu njóta þess að vera í liði með færustu sérfræðingum heims.

 

7. Áhersla á lítil menningarsvæði

Ein grunnstefna Evrópusambandsins er að þúsund blóm blómstri eins og Maó formaður sagði á sínum tíma. Ólíkt formanninum hefur Evrópusambandið fylgt þessari stefnu í verki. Lítil málsvæði hafa fengið stuðning og miklum fjármunum er varið til þess að þýða bækur frá smáþjóðum yfir á önnur mál og öfugt. Nú síðast var keltneska tekin upp sem eitt af opinberum málum sambandsins, en hún hefur átt í vök að verjast á Bretlandseyjum eins og alþekkt er.

 

8. Íslendingar hefðu mikil áhrif

Á Evrópuþinginu sitja nú rúmlega 700 þingmenn. Enginn þeirra kemur frá Íslandi. Við inngöngu fengju Íslendingar 6 menn á þingið eða um 1% þingmanna. Hér á landi yrðu rúmlega 50 þúsund manns bakvið hvern þingmann á Evrópuþinginu en í Svíþjóð er tæplega hálf milljón manna að baki hverjum Evrópuþingmanni og tæplega milljón í Þýskalandi. Íslendingar fengju fulltrúa í framkvæmdastjórn og líklegt er að Íslendingar yrðu í lykilhlutverki í sjávarútvegsmálum.

 

9. Íslendingar halda öllum sínum auðlindum

Helstu náttúruauðlindir Íslendinga eru fallvötnin, hitinn í iðrum jarðar, náttúran og fiskur í hafinu. Ekkert mun breytast varðandi þrennt það fyrsttalda. Evrópusambandið hefur ekki sameiginleg auðlindayfirráð og þær reglur sem gilda um stjórn orkuauðlinda hafa þegar verið teknar inn í íslensk lög vegna EES-sáttmálans.
Hins vegar er í Evrópusambandinu sameiginleg fiskveiðistefna. Meginástæðan fyrir henni er að strandlengja meginlands Evrópu nær yfir fjölmörg ríki og ekkert Evrópuríki er sambærilegt við Ísland sem er eyja í miðju Atlantshafi þar sem margir fiskistofnar eru staðbundnir. Engin erlend þjóð fengi rétt til þess að veiða við Ísland við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og fiskveiðistjórnunarkerfið yrði samkvæmt ákvörðun Íslendinga. Hin formlega ákvörðun um heildarkvóta yrði samkvæmt núverandi reglum í Brussel, en eðlilegt samningamarkmið væri að skylt væri að úthluta í samræmi við gagnsæjar reglur og tillögur vísindamanna. Með því að krefjast þess að ekki sé leyfilegt að veiða umfram slíkar tillögur yrðu Íslendingar áfram í fremstu röð í vernd fiskistofna.
Samkvæmt alþjóðasáttmálum ber Íslendingum að semja um veiðar úr sameiginlegum stofnum. Evrópusambandið hefur haldið Íslendingum frá borðinu í sumum tilvikum, einkum þegar flökkustofnar breyta hegðun sinni eða veiðar hafa hafist úr nýjum stofnum. Með aðild komast Íslendingar í sterkari stöðu sem innherjar.

 

10. Ný tækifæri fyrir landbúnað

Svíar og Finnar fengu nýja reglu um landbúnað samþykkta. Með henni má styrkja landbúnað norðan 62. breiddargráðu meira en almennt gerist innan sambandsins. Sömu reglur myndu gilda á Íslandi. Markaður fyrir landbúnaðarvörur opnast og hefði eflaust í för með sér miklar breytingar fyrir bændur. Reynsla í nágrannalöndum er sú að inngangan hafi haft mjög jákvæð áhrif bæði fyrir bændur og neytendur. Óhagkvæmri framleiðslu hafi verið hætt, en bændur lagt áherslu á framleiðslu sem gæfi þeim bestar tekjur. Nýir markaðir opnast í kjölfar þess að reglur eru samræmdar.

 

11. Sterkara Ísland

Kostnaður Íslendinga við það að standa utan Evrópusambandsins og Evrópska myntbandalagsins hefur verið óskaplegur. Ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið hefur þurft að borga margfalda vexti á við jafnaldra sína í öðrum löndum. Hrun krónunnar varð til þess að stór hluti íslenskra fjölskyldna er í skuldafjötrum. Laun eru um helmingur af því sem er víðast hvar í nágrannaríkjum. Íslensk fyrirtæki skortir fjármagn. Flest stærstu fyrirtæki landsins komust í þrot. Útlendingar vilja hvorki lána fé til Íslands né fjárfesta á landinu, þrátt fyrir að hér sé allt sem þarf til þess að byggja upp góð fyrirtæki: Menntun, tæknibúnaður, húsnæði, vegir, fjarskiptakerfi, orka. Hins vegar skortir traust á landinu. Það verða Íslendingar að endurvinna. Aðild að Evrópusambandinu og myndbandalaginu er yfirlýsing um að Íslendingar ætli að temja sér þann efnahagslega aga sem þarf til þess að missa ekki tök á hagstjórninni í annað sinn. Kreppan hefur komið við allar þjóðir en enga leikið jafnilla og Íslendinga.

 

12. Þjóð meðal þjóða

Íslendingar geta aldrei aftur lýst því yfir að í þessu landi verði ekki beitt þeim úrræðum, sem best hafa reynst í þessum heimshluta. Aldrei aftur má þessi þjóð hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar. Líklegt er að smæð þjóðarinnar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við margar hefðbundnar vinaþjóðir. Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að Íslendingar séu sjálfir að búa sér til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja eigin samningsstöðu er menn mæta með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópusambandið. Þjóðin má síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, altekin af ótta og kjarkleysi. Hún verður að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hlýtur þjóðin að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúin til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.

Höfundur er ritstjóri Vísbendingar

Upprunalega birt í FRBL í febrúar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Hérna er grein frá 2008 eftir Benidikt sem allir ættu að lesa.

Íslenska krónan in memoriam 

Guðmundur Jónsson, 7.6.2010 kl. 09:21

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Hérn er svo athugasemd við þessa grein hans Benidikts sem ég skrifaði á bloggið mitt og sendi á hann.

Ég held að þeir sem nenna að leggj það á sig að lesa með opnum hug yfir greinina hanns Benidikts og svo athugasemdina mína ættu að fá nokkuð góða yfirsýn á skilning okkar beggja á málefninu.

Í þessu ljósi ætla ég ekki að segja neitt um þess rök Benetikts um stórkostlega framtíð íslands í ESB annað en það að þetta er í mínum eyrum bara merkingarlaust rugl manns sem ekki hefur yfirsýn til að sjá stóru mydina.

Guðmundur Jónsson, 7.6.2010 kl. 09:51

3 Smámynd: Benedikta E

Fyrir ykkur sem eðligega ekki nennið að lesa grein Benedikts - þá segir allt sem segja  þarf að lesa yfirskrift kaflaskilanna um allan stórfengleikan sem fælist í því fyrir Ísland að verða aðili að ESB.

Manneskja mín - Þetta leyfir maðurinn sér í skjóli áróðursmaskínu ESB sem með gráðugri græðginni ætla sér að véla Íslendinga inn í Evrópusambandið sem er að hruni komið - rotnandi innan frá og Evruna sem er af virtustu hagfræðingum seinni tíma talin vera í hraðri útrýmingu.

Ég tek undir orð Guðmundar Jónssonar og lýsi því sem minni skoðun að framangreindur áróður Benedikts Jóhannessonar fyrir ESB aðild er "merkingarlaust rugl" notuð af greinahöfundi sem tálbeita fyrir aðildar fylgi að ESB - Ómerkileg aðferð greinarhöfundar.

Benedikta E, 7.6.2010 kl. 11:16

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Benedikta E, taktu þetta samsæriskenningabull þitt annað. Takk fyrir!

Annars er þetta góð grein hjá Benedikt og lýsir vel því sem ávinnst við aðild Íslands að ESB.

Jón Frímann Jónsson, 7.6.2010 kl. 12:15

5 Smámynd: Benedikta E

Jón Frímann - Þið hafið tekið eftir því - að því meiri áróður sem þið rekið fyrir ESB - því meiri andstaða við málstað ykkar á okkar blessaða landi  - ÍSLANDI -

Íslandi allt !

Benedikta E, 7.6.2010 kl. 14:10

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í býsna mörgu Benedikta,
á Baldri var í gær að fikta,
bóndinn kom þá Benedikt,
og Benediktu keypti fikt.

Þorsteinn Briem, 7.6.2010 kl. 14:14

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Benedikta.

Ég hef ekki tekið eftir þessu samhengi.

Hvernig fara þessar mælingar fram?

Þorsteinn Briem, 7.6.2010 kl. 14:21

8 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Benedikta E, það er augljóst að þú skilur ekki samhengi hlutanna.

Aukin andstaða við ESB á Íslandi er hvorki komin til útaf því sem ég segi, eða það sem kallanir í Heimssýn hafa verið að segja.

Heldur hefur aukin andstaða við ESB komið til vegna þess að íslendingar hafa staðið í milliríkjadeilu sem kallaðist Icesave. Þessi deila var meðal annars notuð til þess að ala á þjóðerniskennd og hálf-gerðum fasisma hérna á landi. Það eitt og sér olli því að ESB og málefni tengd því urðu hrikalega óvinsæl á tímabili.

Sem betur fer er þetta tímabil búið og kemur ekki aftur. Enda er farið að renna upp fyrir flestum íslendingum að núverandi ástand gengur ekki, og engin önnur raunhæf lausn er til hérna á landi nema aðild Íslands að ESB.

Svona afneitunarbull eins og það sem kemur frá þér mun því ekki hafa neitt að segja til lengri tíma.

Jón Frímann Jónsson, 7.6.2010 kl. 14:22

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Jónsson.

ÍSLENSKIR NEYTENDUR, LÁNTAKENDUR, ÍBÚÐARKAUPENDUR OG EVRÓPUSAMBANDIÐ:

Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 1% og verðbólga 1,6%.

Spáð er rúmlega 1% hagvexti á evrusvæðinu á þessu ári og 1,5% á næsta ári.


Hækkun á vöruverði hérlendis veldur hér verðhækkun á öllu sem tengt er vísitölu neysluverðs.


"Árið 1995 voru sett lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 og leysti hún vísitölu framfærslukostnaðar af hólmi. Þá var jafnframt ákveðið með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001nota vísitölu neysluverðs eina til verðtryggingar."

Samkvæmt Hagstofu Íslands hækkaði hér verð á eftirtöldum landbúnaðarvörum miðað við verðlag á öllu landinu á 18 mánaða tímabili, frá ágúst 2008 til febrúar 2010:

Nýmjólk
um 19%, úr 91 krónu í 108 krónur lítrinn,

súrmjólk
um 28%, úr 125 krónum í 160 krónur lítrinn,

skyr
um 13%, úr 260 krónum í 295 krónur kílóið,

smjör
um 19%, úr 471 krónu í 560 krónur kílóið,

mjólkurostur
(26% brauðostur) um 13%, úr 1.105 krónum í 1.253 krónur kílóið,

egg
um 19%, úr 463 krónum í 549 krónur kílóið,

heill frosinn kjúklingur
um 19%, úr 463 krónum í 552 krónur kílóið,

súpukjöt
(dilkakjöt) um 18%, úr 542 krónum í 640 krónur kílóið,

vínarpylsur
um 14%, úr 1.008 krónum í 1.153 krónur kílóið,

lifrarkæfa
um 7%, úr 1.242 krónum í 1.327 krónur kílóið,

gúllas
(nautakjöt) um 2%, úr 1.816 krónum í 1.846 krónur kílóið,

skinka
um 10%, úr 2.254 krónum í 2.479 krónur kílóið,

hangikjötsálegg
um 6%, úr 3.562 krónum í 3.785 krónur kílóið.

Þorsteinn Briem, 7.6.2010 kl. 14:38

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur Jónsson.

Á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er frjáls fjármagnsflutningur
undir venjulegum kringumstæðum, þannig að við Íslendingar getum átt bankareikninga hvar sem er á evrusvæðinu og tekið þar lán í evrum, rétt eins og íbúar á evrusvæðinu hafa átt peninga á bankareikningum hérlendis, ekki síst vegna þess að vextir voru mun hærri hér en á evrusvæðinu.

Við tökum lán erlendis í erlendum gjaldeyri og þurfum að greiða þau til baka í erlendum gjaldeyri, ásamt vöxtum.

Tekjur íslenskra fyrirtækja eru aðallega í evrum og þar af leiðandi er eðlilegast að þau að greiði hér laun í evrum.

Vörur í verslunum hérlendis eru aðallega keyptar í evrum og því eðlilegast að þær séu einnig seldar hér í evrum.


Vöruverð hérlendis hefur hækkað mjög mikið undanfarin ár, fyrst og fremst vegna gengishruns íslensku krónunnar og hækkun á vöruverðinu veldur hér verðhækkun á öllu sem tengt er vísitölu neysluverðs.


"Árið 1995 voru sett lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995 og leysti hún vísitölu framfærslukostnaðar af hólmi. Þá var jafnframt ákveðið með lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001nota vísitölu neysluverðs eina til verðtryggingar."

Vegna gengishruns íslensku krónunnar og mikillar verðbólgu hér undanfarin ár hafa erlend aðföng og rekstrarvörur einnig hækkað hér mikið í verði.

Og kaupmáttur hefur fallið mikið hérlendis undanfarin ár vegna gengishrunsins og verðbólgunnar hér.

Árið 2009 komu 65% af innflutningi okkar Íslendinga frá Evrópska efnahagssvæðinu og þá fóru um 84% af útflutningi okkar þangað.


Um 70% af erlendum ferðamönnum hér búa á Evrópska efnahagssvæðinu. Við Íslendingar ferðumst einnig aðallega til Evrópska efnahagssvæðisins og þurfum að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur þegar við greiðum fyrir vörur og þjónustu á evrusvæðinu.

Við Íslendingar getum hvorki notað íslenska mynt né rússneska á ferðalögum okkar á evrusvæðinu og er rússneska rúblan þó mun stærri gjaldmiðill en íslenska krónan.

Mun færri Íslendingar ferðast nú til útlanda en fyrir gjaldþrot íslensku bankanna haustið 2008.

Hérlendis hefur hins vegar verið stöðug árleg fjölgun erlendra ferðamanna allan þennan áratug, að meðaltali
6,8% á ári, þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar hafi verið bæði mjög hátt og mjög lágt á þessu tímabili.

Nú eru 1% stýrivextir og 1,6% verðbólga á evrusvæðinu, sem eru mun lægri stýrivextir og verðbólga en hér.
Þar af leiðandi er mun auðveldara fyrir fyrirtæki og einstaklinga á evrusvæðinu að gera áætlanir varðandi rekstur og fasteignakaup en íslensk fyrirtæki og einstaklinga.

Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja voru
15.685 milljarðar króna í árslok 2007 en sjö milljörðum króna hærri ári síðar, eða 22.675 milljarðar króna í árslok 2008.

Þegar litið er á heildarmyndina bjargar íslenska krónan því ENGU fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga.


Utanríkisverslun okkar Íslendinga með vörur árið 2009


Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010


"Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var inneign íslenskra fyrirtækja á gjaldeyrisreikningum að meðaltali um 110 milljarðar króna síðustu tvö ár fyrir bankahrunið."

"Gjaldeyrishöftin eru einfaldlega yfirlýsing um að íslenska krónan sé ekki í lagi, þau virka eins og stórt viðvörunarskilti," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við Fréttablaðið.

Vilhjálmur segir að fyrirtæki kjósi því að halda erlendum gjaldeyri á gjaldeyrisreikningum, frekar en að skipta honum í krónur.

Og samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum áttu íslensk fyrirtæki um 174 milljarða króna í erlendum gjaldeyri á svokölluðum gjaldeyrisreikningum í íslenskum fjármálastofnunum í maí [í fyrra]."

Samtök atvinnulífsins um gjaldeyrishöftin


Gengi evru er nú
um 40% hærra gagnvart bandaríkjadal og sterlingspundi en í árslok 2001 en evruseðlar voru settir í umferð í ársbyrjun 2002.

"The euro is the official currency of the Eurozone, 16 of the 27 Member States of the European Union (EU), and is the currency used by the EU institutions.

The
eurozone consists of Austria, Belgium, Cyprus, Finland, France, Germany, Greece, Ireland, Italy, Luxembourg, Malta, the Netherlands, Portugal, Slovakia, Slovenia and Spain.

Estonia
is due to join the eurozone on the 1st January 2011."

"... other EU memberstates have a direct peg [to the Euro] due to ERM II: the Danish krone, the Lithuanian litas and the Latvian lats."

Og sænska krónan hefur fylgt gengi evrunnar.

"The euro
is consequently used daily by some 327 million Europeans and over 175 million people worldwide use currencies which are pegged to the euro.

Over 150 million people in Africa use a currency pegged to the euro, 25 million people outside the eurozone in Europe and another 500,000 people on Pacific islands."

Evran - Wikipedia

Þorsteinn Briem, 7.6.2010 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband