Leita í fréttum mbl.is

DV bloggið: Jóhann Hauksson með hvassa færslu!

Jóhann HaukssonOg meira úr DV: Jóhann Hauksson, verðlaunablaðamaður, skrifar hörku færslu um Sjálfstæðisflokkinn og Evrópumálin á blogg sitt. Jóhann er með hvössustu pennum landsins og honum ratar oftar en ekki satt orð í munn.

Jóhann skrifar m.a.: 

"Sjálfstæðisflokkurinn hefur stimplað sig út úr vestrænu samstarfi með samþykkt landsfundarins fyrir síðustu helgi um að slíta beri viðræðum um aðild að Evrópusambandinu.
Forstokkaðir lýðskrumarar innan flokksins hafa með hjálp manna eins og Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða Einarssonar í ystavinstrinu hjá VG talið meirihluta þjóðarinnar trú um að Evrópusambandið, einkum Hollendingar, Bretar og Svíar, séu helstu óvinir þjóðarinnar.
Þessi vanþekking og þetta lýðskrum er stórhættulegt, ekki aðeins fyrir efnahagslega uppbyggingu heldur öryggi þjóðríkisins.


Lengi hefur verið ljóst, að ríkjandi stjórnmálaflokkar eru nær allir klofnir um grundvallaratriði nútímavæðingar íslensku þjóðarinnar; samvinnuna við aðrar þjóðir, skynsamlega og sjálfbæra nýtingu orkulindanna, upptöku nýs gjaldmiðils og um aukið frelsi og samkeppni í sjávarútvegi.

Í ráðandi armi Sjálfstæðisflokksins líkt og hjá ystavinstrinu í VG lifir fortíðar-, þjóðernis- og einangrunarhyggja. Hún er í eðli sínu er ekkert annað en forstokkuð sérhagsmunagæsla um óbreytt ástand, hvort heldur er í sjávarútvegi eða landbúnaði. Í raun og veru er skemmra á milli sjónarmiða Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar annars vegar og Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða Einarssonar hins vegar en milli grundvallar stefnumiða jafnaðarmanna og VG í ríkisstjórnarsamstarfinu. Reyndar er það þyngra en tárum taki hversu djúpt ystavinstrið í VG er sokkið í heimsku og barnaskap með rækt sína við þjóðernishyggju og þjónkun við íhaldið."

Öll færsla Jóhanns 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég var að lesa þessa grein Jóhanns Haukssonar. Hún er vissulega full af stóryrðum í þá áttina að allir séu heimskir nema Evrópusinnar en það hefði verið gaman að sjá einhver rök líka sem gætu stutt örlítið við stóryrðin.

Jón Pétur Líndal, 2.7.2010 kl. 17:52

2 Smámynd: Evrópusamtökin, www.evropa.is

Lestu t.d. : http://www.independent.co.uk/news/world/europe/so-what-has-europe-ever-done-for-us-apart-from-441138.html

og: http://www.evropa.is/2010/02/13/tolf-rok-me%C3%B0-evropusambandsa%C3%B0ild-islands/

Evrópusamtökin, www.evropa.is, 2.7.2010 kl. 19:48

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég er búinn að lesa þetta eftir BJ. Finnst hann vera dálítill froðusnakkur þannig að ég set allan pistilinn hans hér fyrir neðan með nokkrum athugasemdum sem ég verð að gera við hann.

1. Stjórnmálastöðugleiki

Allt frá stríðslokum hafa íslensk stjórnvöld valið að skipa sér í sveit með vestrænum lýðræðisþjóðum. Stærstu áfangarnir voru árið 1949, en þá gengu Íslendingar í NATO, árið 1970 gengum við í EFTA og árið 1993 þegar Ísland varð aðili að EES-svæðinu. Þessi samtök hafa staðið vörð um lýðræði, frelsi og efnahagsframfarir. Samvinnan er hornsteinn að utanríkisstefnu Íslands. Síðan Bandaríkjamenn ákváðu einhliða að flytja herlið sitt úr landi hefur sambandið við þá ekki verið náið. Þeir höfnuðu því t.d. að veita Seðlabanka Íslands lán árið 2008 þegar eftir því var leitað. Norðurlandasamvinna hefur líka verið Íslendingum mikilvæg, en aðeins Norðmenn og Færeyingar eru nú utan Evrópusambandsins. Stefna Evrópusambandsins hefur mjög mikil áhrif á öll ríki á Norðurlöndum. Smáþjóð verður að eiga bandamenn þegar hún lendir í vanda.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Stjórnmálastöðugleiki næst með skilvirku lýðræði þar sem stjórnvöld vinna að hagsmunamálum þjóðar með almannahag í fyrirrúmi. Stjórnmálastöðugleiki hefur ekkert með alþjóðasamtök að gera eða hernaðarbandalög. Stjórnmálastöðugleiki byggist á að hverri þjóð farnist vel með skynsamlegri stjórn á nýtingu mannauðs og náttúruauðlindum, friðsemd í samskiptum við aðrar þjóðir og almennri og heilbrigðri skynsemi í stjórnarháttum. Það eru engar líkur á að ESB aðild tryggi stjórnmálastöðugleika á Íslandi betur en okkar eigin alþingismenn.

2. Efnahagsstöðugleiki

Um langt skeið hefur íslenska krónan ógnað efnahagslegu sjálfstæði landsmanna. Opið hagkerfi með lítinn gjaldmiðil er auðveldur skotspónn erlendra og innlendra spákaupmanna. Á árunum 2001-2008 var krónan lengst af allt of hátt skráð. Þannig vann hún gegn hagsmunum útflutningsgreina sem veiktust og þurftu að skuldsetja sig mikið. Nú er hún svo lágt skráð að ungt fólk á erfitt með að sækja nám erlendis og erlend lyf og matvæli hafa tvöfaldast í verði. Ferðalög til útlanda eru nú forréttindi þeirra ríku. Laun á Íslandi eru svo lág að margt ungt fólk íhugar að flytja úr landi. Stöðugt efnahagsumhverfi og trú viðskiptalanda á Íslandi eru forsendur þess að þjóðin geti byggt upp atvinnulíf sem getur selt verðmætar vörur og þjónustu úr landi. Sveiflur ógna bæði fyrirtækjum og einstaklingum.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Íslenska krónan hefur bjargað því sem bjargað varð í kreppunni sem hófst hér 2008. Um það er allir sammála sem fylgst hafa með gengi Íslensks efnahagslíf undanfarin 2 ár. Megin undirrót kreppunnar skv. Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var sviksemi eigenda og stjórnenda helstu fjármálafyrirtækja landsins sem að kröfu ESB voru einkavædd fyrir nokkrum árum síðan og aðgæsluleysi stjórnvalda gagnvart þessu ný einkavædda fjármálakerfi. Vegna íslensku krónunnar hafa allmargir atvinnuvegir, sjávarútvegur, ferðaþjónusta, landbúnaður, hugbúnaðariðnaður og aðrar útflutningsgreinar styrkt stöðu sína í kreppunni og dregið úr neikvæðum áhrifum hennar á efnahag landsins. Þrátt fyrir lágt gengi krónunnar núna þá er atvinnuleysi á Íslandi mun minna en í flestum ESB löndum og tækifæri ungs fólks til menntunar enn þá með því besta sem þekkist. Hins vegar þarf auðvitað að gæta þess að gengi krónunnar styrkist ekki aftur svo mjög að landið verðleggi sig út af markaði eins og það hafði gert á árunum fyrir hrun. Vissulega hafa margir flutt úr landi og margir íhuga það, en það er fyrst og fremst eitt land sem dregur Íslendinga til sín nú, Noregur, sem ekki er í ESB eða á leið þangað. ESB er ekki álitlegur kostur í dag og ekkert sem bendir til að það verði í framtíðinni.

3. Bein áhrif á framgang alþjóðamála

Með inngöngu í Evrópusambandið myndu Íslendingar hafa beina aðkomu að setningu fjölmargra laga og reglugerða sem munu hafa áhrif á Íslandi um langa framtíð. Innan Evrópusambandsins hafa fulltrúar smáþjóða mjög víða mikil áhrif. Sem dæmi má nefna að æðsta embætti sambandsins er nú í höndum Belga.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Eflaust fáum við beina aðkomu að lagasetningu ESB. Ég dreg hins vegar í efa að við höfum mikil áhrif á lagasetninguna. Það er mér óskiljanlegt að menn haldi því fram að allt að 6 fulltrúar 300 þús. Manna þjóðar fái að ráða einhverju sem máli skiptir um lagasetningu fyrir 500 milljóna hóp. Svo megum við ekki gleyma að nú þegar er til stjórnarskrá fyrir ESB sem rammar in laga og regluverk framtíðar hjá sambandinu. Það er því froðusnakk að lofa miklum áhrifum okkar á lagasetningu ESB.

4. Evrópusambandið er hagsmunasamband ríkja

Einn aðalkosturinn við Evrópusambandið er samræming laga og reglna á ýmsum sviðum. Það er grunnurinn að frjálsum og opnum markaði. Hins vegar er Evrópusambandið samband 27 fullvalda ríkja. Danir hafa verið í Evrópusambandinu í tæplega 40 ár og halda hnarreistir fullveldi sínu. Í Danmörku blaktir danski fáninn Dannebrog alls staðar við hún og Evrópufáninn er sjaldséður. Engum dettur í hug að líkja Evrópukeppni í neinni íþrótt við innanlandsmót.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Það er rétt að mínu mati að ESB er hagsmunasamband ríkja. En spurning er hvort þessir hagsmunir eru líka okkar hagsmunir. Frjáls og opinn markaður ESB er bara frjáls og opinn innan sambandsins. Um leið og við fáum betri aðgang að þeim markaði erum við að gera okkur erfiðara fyrir um aðra markaði, t.d. USA og Kína. ESB er að þessu leiti í ætt við sovétríkin sálugu sem áttu megnið af sínum viðskiptum innbyrðis. Dönsk heimili eru nú eftir nærri 40 ár í ESB orðin skuldugust allra heimila í heiminum. Þó Danir flaggi enn sínum fána þá er vægast sagt umdeilanlegt að þeim hafi vegnað vel vegna ESB veru sinnar.

5. Grunngildi Evrópu-sambandsins eru góð

Meðal grunngilda Evrópusambandsins eru friður, frelsi, mannréttindi, jafnrétti og umhverfisvernd. Margt af þessu finnst Íslendingum svo sjálfsagt að ekki þurfi að hafa af því áhyggjur. En með aðild væru Íslendingar að leggja áherslu á að þeir vilji taka þátt í því að vernda þessi gildi, ekki bara á Íslandi heldur í allri Evrópu. Stór hluti þeirra landa sem nú er í Evrópusambandinu þurfti í áratugi að vera án þessara réttinda, sem Íslendingar telja sjálfsögð. Sagan sýnir okkur að ekkert slíkt er sjálfgefið.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Þýðir þessi fullyrðing að grunngildi Íslands séu vond og að við bætum okkur á því sviði með inngöngu í ESB?

Eða þýðir þetta að stríðsþáttaka ESB herja í nokkrum löndum sé friðsamleg? Að það séu mannréttindi sem Íslendingar þurfi, að senda fólk í hernað til að drepa einhverja sakleysingja utan ESB, eins og okkur verður skylt skv. stjórnarskrá ESB. Ísland hefur verið langt á undan flestum öðrum löndum í heiminum á sviði friðar, frelsis, tjáningarfrelsis, mannréttinda og jafnréttis. Við höfum ekki staðið okkur eins vel í umhverfisverndinni en það yrði mikil afturför fyrir Ísland á sviði friðar, frelsis, mannréttinda, jafnréttis og umhverfisverndar að ganga í ESB.

Að halda öðru fram er bæði lygi og hræsni.

6. Styrkari samningsstaða út á við

Evrópusambandið hefur gert fjölmarga alþjóðasamninga og hefur á að skipa sérfræðingum á öllum sviðum alþjóðamála. Íslendingar myndu njóta þess að vera í liði með færustu sérfræðingum heims.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Þegar við þurfum færustu sérfræðinga á sviði alþjóðasamninga getum við ráðið þá í vinnu fyrir okkur þegar þörf er á því. Engin þörf að ganga í ESB til þess, og vinna þeirra ekkert ókeypis fyrir okkur þó við séum í ESB.

Færni þeirra á sviði fjármálastarfsemi á nú raunar sinn þátt í því hvernig fór með fjármálakerfið, það var sérfræðiþekking þeirra sem réði því m.a. Að talið var óhæft annað en að einkavæða banka með þeim hörmulegu afleiðingum sem við þekkjum. Sérfræðingar ESB á sviði sjávarútvegs eiga líka sinn þátt í glötuðu fiskveiðistjórnunarkerfi ESB. Viljum við taka það upp líka? Nei takk.

7. Áhersla á lítil menningarsvæði

Ein grunnstefna Evrópusambandsins er að þúsund blóm blómstri eins og Maó formaður sagði á sínum tíma. Ólíkt formanninum hefur Evrópusambandið fylgt þessari stefnu í verki. Lítil málsvæði hafa fengið stuðning og miklum fjármunum er varið til þess að þýða bækur frá smáþjóðum yfir á önnur mál og öfugt. Nú síðast var keltneska tekin upp sem eitt af opinberum málum sambandsins, en hún hefur átt í vök að verjast á Bretlandseyjum eins og alþekkt er.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Við erum lítið menningarsvæði og eyðum ómældum fjármunum nú þegar í að halda því úti, það er ekki boðuð nein breyting þar á. Þar tel ég raunar að við vöðum í villu og ESB líka. Það væri miklu nær fyrir ESB að taka upp eitt sameiginlegt tungumál fyrir ESB svæðið svo allir geti lesið sömu bækurnar en að eyða peningum í keltnesku og íslensku og þýða svo allt fram og til baka. Þetta er bara fáránlegt á 21. öldinni og tekst ekkert frekar hjá ESB en Maó.

8. Íslendingar hefðu mikil áhrif

Á Evrópuþinginu sitja nú rúmlega 700 þingmenn. Enginn þeirra kemur frá Íslandi. Við inngöngu fengju Íslendingar 6 menn á þingið eða um 1% þingmanna. Hér á landi yrðu rúmlega 50 þúsund manns bakvið hvern þingmann á Evrópuþinginu en í Svíþjóð er tæplega hálf milljón manna að baki hverjum Evrópuþingmanni og tæplega milljón í Þýskalandi. Íslendingar fengju fulltrúa í framkvæmdastjórn og líklegt er að Íslendingar yrðu í lykilhlutverki í sjávarútvegsmálum.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Þingmönnum á Evrópuþinginu fjölgar í hvert sinn sem nýjar þjóðir koma inn. Okkar sex þynnast því út með tímanum og hverfa í hafið. Vissulega er íbúahlutfallið bak við hvern þingmann hagstætt fyrir okkur. En samt eru þeir svo fáir að þeir hvorki geta beitt sér nema í örlitlum hluta þeirra mála sem Evrópuþingið fjallar um og eru þar að auki svo fáir að það eru hverfandi líkur á að áhrif þeirra verði merkjanleg. Þessi rök Benedikts eru því þunn rétt eins og veðurspá langt fram í tímann. Og hvað er átt við með lykilhlutverki í sjávarútvegsmálum? ESB hefur þar sína stefnu sem við þurfum að taka upp, kannski eftir fárra ára aðlögun í besta falli. En það hefur aldrei verið boðið upp á að Íslendingar fái að breyta þeirri stefnu eftir því sem okkur þykir skynsamlegt eins og alltaf er verið að ýja að þegar talað er um að við verðum í lykilhlutverki. Staðreyndin er sú að Spánverjar eru lang áhrifamestir í sjávarútvegsstefnu ESB. Þeir eru ráðandi í helstu sjávarútvegsfyrirtækjum allt frá Spáni og upp til Bretlandseyja, eða með allri austurströnd Atlantshafsina frá Afríku til Noregs, þar sem ESB strandlengjunni sleppir. Þegar Spánverjar lýsa því yfir að þeir ætli að taka mark á Íslendingum og fara að þeirra ráðum varðandi sjávarútveg getum við farið að tala um lykilhlutverk Íslendinga í sjávarútvegsmálum. En hingað til hafa yfirlýsingar Spánverja gengið í þveröfuga átt. Spánverjar eru sú þjóð sem gegnir lykilhlutverki í sjávarútvegsstefnu ESB og þeir hyggjast hafa það þannig áfram.

9. Íslendingar halda öllum sínum auðlindum

Helstu náttúruauðlindir Íslendinga eru fallvötnin, hitinn í iðrum jarðar, náttúran og fiskur í hafinu. Ekkert mun breytast varðandi þrennt það fyrsttalda. Evrópusambandið hefur ekki sameiginleg auðlindayfirráð og þær reglur sem gilda um stjórn orkuauðlinda hafa þegar verið teknar inn í íslensk lög vegna EES-sáttmálans.

Hins vegar er í Evrópusambandinu sameiginleg fiskveiðistefna. Meginástæðan fyrir henni er að strandlengja meginlands Evrópu nær yfir fjölmörg ríki og ekkert Evrópuríki er sambærilegt við Ísland sem er eyja í miðju Atlantshafi þar sem margir fiskistofnar eru staðbundnir. Engin erlend þjóð fengi rétt til þess að veiða við Ísland við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og fiskveiðistjórnunarkerfið yrði samkvæmt ákvörðun Íslendinga. Hin formlega ákvörðun um heildarkvóta yrði samkvæmt núverandi reglum í Brussel, en eðlilegt samningamarkmið væri að skylt væri að úthluta í samræmi við gagnsæjar reglur og tillögur vísindamanna. Með því að krefjast þess að ekki sé leyfilegt að veiða umfram slíkar tillögur yrðu Íslendingar áfram í fremstu röð í vernd fiskistofna.

Samkvæmt alþjóðasáttmálum ber Íslendingum að semja um veiðar úr sameiginlegum stofnum. Evrópusambandið hefur haldið Íslendingum frá borðinu í sumum tilvikum, einkum þegar flökkustofnar breyta hegðun sinni eða veiðar hafa hafist úr nýjum stofnum. Með aðild komast Íslendingar í sterkari stöðu sem innherjar.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Íslendingar halda líka sínum auðlindum þó þeir gangi ekki í ESB. Það þarf því ekki að telja það til kosta við ESB inngöngu. Og varðandi fiskinn vísa ég til næstu greinar hér að ofan og athugasemdar við hana. Þar er framtíð okkar undir Spánverjum komin ef við göngum í ESB.

10. Ný tækifæri fyrir landbúnað

Svíar og Finnar fengu nýja reglu um landbúnað samþykkta. Með henni má styrkja landbúnað norðan 62. breiddargráðu meira en almennt gerist innan sambandsins. Sömu reglur myndu gilda á Íslandi. Markaður fyrir landbúnaðarvörur opnast og hefði eflaust í för með sér miklar breytingar fyrir bændur. Reynsla í nágrannalöndum er sú að inngangan hafi haft mjög jákvæð áhrif bæði fyrir bændur og neytendur. Óhagkvæmri framleiðslu hafi verið hætt, en bændur lagt áherslu á framleiðslu sem gæfi þeim bestar tekjur. Nýir markaðir opnast í kjölfar þess að reglur eru samræmdar.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Það besta sem hefur komið fyrir íslenskan landbúnað í langan tíma er kreppan. Nú eru íslenskar landbúnaðarvörur orðnar hagstæðar fyrir neytendur samanborið við landbúnaðarvöruverð í flestum eða öllum ESB löndum. Raunar hafa Íslendinga lengi búið við hagstætt verð landbúnaðarafurða, þeir hafa þurft að verja minni hlutfalli sinna tekna til matarinnkaupa en aðrar evrópuþjóðir.

En íslenskur landbúnaður er ekki svo stór atvinnugrein að hann verði að útflutningsgrein að neinu marki. Hann annar engum mörkuðum sem máli skipta. Íslenskur landbúnaður snýr að því að skaffa nýja og ferska vöru fyrir íslendinga og tryggja þjóðinni fæðuöryggi og skynsamlega meðferð gjaldeyristekna með því að framleiða hér það sem við getum fyrir okkur sjálf í staðinn fyrir að flytja það inn. Það er léleg ástæða fyrir aðild Íslands að ESB að ætla að ná í einhverja landbúnaðarstyrki frá ESB, þó það kunni að vera hægt.

11. Sterkara Ísland

Kostnaður Íslendinga við það að standa utan Evrópusambandsins og Evrópska myntbandalagsins hefur verið óskaplegur. Ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið hefur þurft að borga margfalda vexti á við jafnaldra sína í öðrum löndum. Hrun krónunnar varð til þess að stór hluti íslenskra fjölskyldna er í skuldafjötrum. Laun eru um helmingur af því sem er víðast hvar í nágrannaríkjum. Íslensk fyrirtæki skortir fjármagn. Flest stærstu fyrirtæki landsins komust í þrot. Útlendingar vilja hvorki lána fé til Íslands né fjárfesta á landinu, þrátt fyrir að hér sé allt sem þarf til þess að byggja upp góð fyrirtæki: Menntun, tæknibúnaður, húsnæði, vegir, fjarskiptakerfi, orka. Hins vegar skortir traust á landinu. Það verða Íslendingar að endurvinna. Aðild að Evrópusambandinu og myndbandalaginu er yfirlýsing um að Íslendingar ætli að temja sér þann efnahagslega aga sem þarf til þess að missa ekki tök á hagstjórninni í annað sinn. Kreppan hefur komið við allar þjóðir en enga leikið jafnilla og Íslendinga.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Enn verð ég að gera athugasemd. Vaxtakostnaður okkar er vissulega gríðarlega mikill, en nú virðist komið í ljós að það sé m.a. ESB að kenna vegna reglna um fjármálakerfi sem við þurftum að fylgja. En þó er sökin fyrst og fremst glæpsamlega rekið fjármálakerfi sem hvorki Íslendingar eða ESB löndin þar sem bankarnir voru með starfsemi komu nokkrum vörnum við þegar þetta fjármálakerfi gamblaði með íslenskt sparifé og erlent sparifé og íslenskt lánsfé og erlent lánsfé. Og svo er það verðtryggingin sem er stærsti útgjaldaliðurinn á vaxtahlið skuldara. Við þurfum bara að leggja hana niður. Ef við teljum að verðtryggingin verði lögð niður við ESB inngöngu getum við alveg eins lagt hana niður sjálf. Ef verðtryggingin verður ekki lögð niður við ESB inngöngu þá lækkar fjármagnskostnaðurinn ekkert hér við inngönguna.

En talandi um aga í hagstjórninni, þá er nærtækast núna að benda á Grikkland, Írland, Spán, Portúgal os.frv. Öll þessi lönd og fleiri í ESB hafa misst tökin á hagstjórninni þrátt fyrir að vera í ESB. Og engin þessara þjóða er t.d. Á leið í gegnum kreppuna með eins lítið atvinnuleysi og Ísland. Þannig að þetta eru varla rök í málinu.

12. Þjóð meðal þjóða

Íslendingar geta aldrei aftur lýst því yfir að í þessu landi verði ekki beitt þeim úrræðum, sem best hafa reynst í þessum heimshluta. Aldrei aftur má þessi þjóð hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar. Líklegt er að smæð þjóðarinnar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við margar hefðbundnar vinaþjóðir. Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að Íslendingar séu sjálfir að búa sér til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja eigin samningsstöðu er menn mæta með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópusambandið. Þjóðin má síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, altekin af ótta og kjarkleysi. Hún verður að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hlýtur þjóðin að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúin til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.

Á morgun, föstudaginn 12. febrúar, klukkan 16.30 verður félagið Sjálfstæðir Evrópumenn stofnað í Þjóðmenningarhúsinu. Tilgangur félagsins er að standa vörð um sjálfstæði Íslands, áframhaldandi samvinnu Íslands við vestrænar lýðræðisþjóðir og stuðla að efnahagslegum og pólitískum stöðugleika, trausti, einstaklings- og atvinnufrelsi og frjálsum viðskiptum. Til þess að ná þessum markmiðum vill félagið stuðla að hagstæðum samningi um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fundurinn er opinn öllum þeim sem styðja tilgang félagsins.

Athugasemd JPL við þessa fullyrðingu Benedikts.

Það er gott hjá Benedikt að enda á hátíðarræðu í röksemdafærslu sinni.

En mikilvægara er að horfa á málin af raunsæi og skynsemi. Ekki að ana inn í ESB af lotningu fyrir útlendingum einni saman. Betra er að ganga beint til verks og samninga og hafa eitthvað til málanna að leggja en að taka það sem fram er rétt möglunarlaust eins og barinn hundur. Við eigum að standa á okkar rétti, vinna út frá okkar hagsmunum og huga að því hvað er best fyrir Ísland og Íslendinga. Hinir sjá um sína hagsmuni. Við eigum líka að standa á okkar prinsippum. Viljum við vera friðelskandi þjóð eins og við höfum verið um árhundruð öðrum þjóðum til fyrirmyndar eða ætlum við að taka beinan þátt í stríðsrekstri ESB í skiptum fyrir smá fjárstyrk út á nokkrar rollur á Melrakkasléttu? Ætlum við að færa Spáni stjórn fiskveiða við Ísland til að 1-2 flokksformenn og 4-5 fylgismenn þeirra geti komist á Evrópuþingið? Ætla Íslendingar að skipta á eigin gjaldmiðli sem nú sýnir raunverulegan styrk sinn í kreppunni fyrir ósveiganlega Evruna sem með stöðugleika sínum er að setja flestar þjóðir Evrusvæðisins á hausinn? Ætlum við að standa í lappirnar og láta ESB taka að hluta skellinn af ónýtri löggjöf sinni um fjármálafyrirtæki sem gerði glæpamönnum kleyft að tæma hvern bankann eftir annan innan frá og leggja efnahagslíf þjóðarinnar í rúst eða ætlum við að borga það sem við getum aldrei borgað til að “kerfið” bíði ekki hnekki? Höldum við að það vekji traust á okkur að gera rangt þegar við vitum að annað er rétt?

Við eigum lítið eða ekkert erindi í ESB. En við þurfum að taka til í eigin ranni á ýmsum sviðum. Og það verðum við að gera sjálf, það verður ekki gert fyrir okkur af öðrum svo vel fari.

Jón Pétur Líndal, 2.7.2010 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband