Leita í fréttum mbl.is

Árni Þór: Eigum ekki að þagga umræðuna um ESB

Árni Þór SigurðssonÁrni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður VG, ritar grein í Fréttablaðið í dag um ESB-málið. Við skulum grípa nokkra mola úr greininni:

"Ísland sótti um aðild að ESB sl. sumar á grundvelli samþykktar Alþingis. Í vinnuferlinu innan Alþingis kom það í hlut utanríkismálanefndar að leggja meginlínur um hagsmuni Íslands í viðræðunum. Í áliti meirihluta nefndarinnar var stjórnvöldum settur ákveðinn rammi og lögð áhersla á að tryggja samfellda upplýsingagjöf frá framkvæmdavaldinu til löggjafans og samstarf þessara aðila ásamt víðtæku samráði við hagsmunaaðila í samfélaginu."

Ennfremur segir:

"Í aðdraganda að umsókn Íslands bar gjaldmiðilsmálin hátt í umræðunni og margir hafa áreiðanlega horft til evrunnar sem sterks og stöðugs gjaldmiðils til lengri tíma litið og að hún gæti komið í stað hinnar flöktandi og veiku krónu.
Við myndum núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að leggja fyrir Alþingi tillögu um umsókn að ESB og láta þannig meirihlutavilja Alþingis ráða för. Flokksráð VG og þingflokkur féllust á þessa málsmeðferð og báðir stjórnarflokkar áskildu sér rétt til að halda uppi sínum málflutningi. Meginatriðið er að Alþingi samþykkti að fara í aðildarviðræður og þá samþykkt á að virða. Þetta mál þarf að útkljá á sómasamlega hátt svo það vofi ekki yfir okkur til langrar framtíðar.
Það er ekki síður hagsmunamál þeirra sem hafa efasemdir um eða eru alfarið andvígir aðild að ESB að málið sé til lykta leitt í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Þá skrifar Árni:

"Nú hafa komið fram hugmyndir um að rétt sé að draga ESB umsóknina til baka. Frá mínum bæjardyrum séð er það slæmur kostur. Það myndi að ég tel setja lok á frekari þjóðarumræðu um kosti og galla aðildar og koma í veg fyrir að þjóðin tæki ákvörðun á grundvelli upplýstrar umræðu og málefnalegra röksemda. Upplýst umræða og lýðræðisleg ákvörðun þjóðarinnar í kjölfarið er margfalt farsælli til lengri tíma litið en sú einfalda leið að ýta málinu út af borðinu. Slíkt á meira skylt við þöggun og það kemur ekki á óvart að harðlínuöfl í Sjálfstæðisflokknum vilji fara þá leið."

Og að lokum segir Árni:

"Grundvallaratvinnugreinar, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, eiga að fagna tækifærinu til að takast á um sína hagsmuni og skerpa þannig sýn og röksemdir, og vitaskuld er það ekki svo að í þessum greinum megi hvergi velta völum úr leið. En aðrir málaflokkar, eins og til að mynda byggðamál, umhverfismál, félagsleg réttindi og gjaldmiðilsmál, verða líka að fá gaumgæfilega umfjöllun.
Um leið þurfum við að vinna hörðum höndum að endurmótun íslensks samfélags og koma okkur upp úr þeirri lægð sem við erum í sem þjóð, bæði í efnahagslegum og hugarfarslegum skilningi. Það er nefnilega þýðingarmikið að þegar þjóðin tekur ákvörðun um framtíð sína þá eigi hún val um tvo góða kosti, kosti sem hvor um sig yrðu farsælir fyrir íslenska þjóð. Stjórnmálamenn, hagsmunasamtök, fjölmiðlar og fræðasamfélag bera mikla ábyrgð á því að svo verði.
Það getur enginn óskað sér annars en að framtíðin verði björt og heillarík fyrir samfélag okkar og komandi kynslóðir."

Öll greinin

(Mynd: Pressan)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það þekkja allir hug Árna til ESB, enda gamall krati í vitlausum flokki.

Þessar hugleiðing hans um hvort þagga eigi niður ESB umræðu er hinsvegar ekki út í hött. En hver er að þagga umræðuna niður? Eru það ekki núverandi stjórnvöld með yfirgang við stæðstan hluta þjóðarinnar?

Nær hefði verið fyrir ESB sinna að vinna málinu meiri og betri stuðnings hér heima áður en af stað var farið í aðlögunarferlið. Hugsanlega og reyndar mjög líklega eru ESB sinnar og ríkisstjórnin að koma því svo fyrir, með yfirgangi sínum, að Ísland muni aldrei framar eiga möguleika á inngöngu, eftir að þjóðin hefur hafnað aðild í kosningu, hversu mikill sem vilji þjóðarinnar verður síðar. ESB hefur engan áhuga á að hafa samskipti við þjóð sem sækir um aðild, án vilja þjóðarinnar.

Þetta sáu Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún fyrir strax snemma í vetur og bentu á að best væri að draga umsóknina til baka um stundarsakir, eða þar til meiri vilji þjóðarinnar lægi fyrir.

Því má fullyrða að stjórnvöld séu að þagga niður alla umræðu um ESB!

Gunnar Heiðarsson, 3.7.2010 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband