Leita í fréttum mbl.is

Skýrsla um garðyrkjubændur og ESB - væntanleg áhrif hér

GrænmetiSamtök Garðyrkjubænda sendu í vikunni frá sér skýrslu, sem Hagfræðistofnun H.Í. hefur gert og ber heitið Staða og horfur garðyrkjunnar – Ísland og Evrópusambandið.  Í byrjun hennar segir:

 ,, Í þessari skýrslu er fjallað um stöðu garðyrkjunnar og undirgreina hennar. Horft er sérstaklega til reynslunnar af afnámi tolla á tómötum, gúrkum og paprikum árið 2002 og hvað hægt sé að læra af þeirri reynslu. Þar að auki eru áhrif frekara tollaafnáms metin út frá fyrri reynslu og skoðað hver gætu orðið áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu á stöðu garðyrkjunnar. Þessi skýrsla er unnin að beiðni Sambands garðyrkjubænda og hófst vinna haustið 2009 og lauk í ágúst 2010.“

Sé rýnt í niðurstöður hennar kemur í ljós að aðild að ESB myndi hafa breytingar í för með sér fyrir þessa litlu atvinnugrein (um 400 heilsársstörf, í um 140 fyrirtækjum, með framlag til landsframleiðslu upp á 0,15%, sem hefur minnkað með árunum.)

Sérstaklega er horft til Finnlands varðandi samanburð: ,, Af reynslu Finna má sjá að landbúnaðurinn hefur tekið örum breytingum frá aðild. Bú hafa stækkað en þeim hefur fækkað en landsvæði undir ræktun ýmiskonar landbúnaðarvara hefur þó ekki mikið breyst. Svipaða sögu er að segja af garðyrkjunni í Finnlandi.Fyrirtækin hafa stækkað mjög ört á þessu tímabili en að sama skapi hefur þeim fækkað en þó er það flatarmál sem notað er undir ræktina óbreytt. Samsetning framleiðslunnar hefur breyst. Opnun markaðar hefur gert það að verkum að innlendir aðildar eru hættir að rækta margskonar blóm og hafa þess í stað fundið sínu fyrirtæki farveg í ræktun á pottaplöntum eða öðrum tegundum grænmetis og ávaxta.“

Síðar er bent á þetta: ,, Skjót aðlögun í tekjum ræktenda í finnskum gróðurhúsum eftir aðild er athyglisverð. Tekjusamdráttur var töluverður strax við aðild en árið eftir höfðu tekjur aukist og náð fyrra stigi. Svo virðist sem finnsk garðyrkja hafi aðlagast betur inngöngu í ESB en finnskur landbúnaður í heild sinni. Það má einnig merkja af nýlegri gögnum frá aldamótum til ársins 2008 en þar má sjá að hlutfall styrkja af tekjum ræktenda í gróðurhúsum hefur farið lækkandi. Tekjur ræktunarinnar hafa verið að aukast undanfarin ár en á sama tíma hafa styrkir staðið í stað sem bendir til þess að ræktunin sé sjálfbærari í dag en árin eftir aðild.“

Í skýrslunni segir að aðild myndi alls ekki leiða af sér dauðadóm yfir garðyrkjunni í heild sinni, ,,en ræktendur og ráðamenn þurfi þó að undirbúa sig undir breytingar á samsetningu innlendrar ræktunar.

Skýrslan sýnir e.t.v. vel að í komandi aðildarviðræðum þarf sérstaklega að huga að stöðu og málefnum garðyrkjubænda. Íslenskt grænmeti er í háum gæðaflokki og íslenskir neytendur kunna að meta það.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband