Leita í fréttum mbl.is

Bendikt Jóhannesson í Iðnaðarblaðinu og á www.heimur.is

BenediktÁ vef Sterkara íslands má lesa: 

„Sannleikurinn er sá að Evrópusambandið er bandalag um viðskipti og innbyrðis samskipti. Markmiðið er að efla viðskipti milli landa álfunnar, þannig að þau verði svo háð hvert öðru, að innbyrðis stríð sé óhugsandi. Reynslan hefur sýnt að eftir að Efnahagsbandalagið, sem var forveri Evrópusambandsins, hefur einmitt það gerst sem stofnendur vildu: Frjáls viðskipti hafa vaxið þannig að nú eru þau regla en ekki undantekning. Það sem meira er: Friður hefur haldist í 65 ár.”

Þetta skrifar Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, m.a. í nýjasta tölublað Iðnaðarblaðsins.

„Verðbólgan verður minni og sveiflur í efnahag meiri. Í stað þess að hafa mynt sem selst á helmingi af opinberu verði erlendis fengjum við alvörugjaldmiðil sem allir vilja.”

Greinina má lesa í heild sinni í Iðnaðarblaðinu.

Annar pistill sem við viljum vekja athygli á er á www.heimur.is og þar skrifar Benedikt: 

,,Ég sé að Ögmundi líst ekki á það ef Ísland er í aðlögun að ES. Jón Bjarnasyni líst ekki á það heldur og Mogginn hræðir okkur með því á hverjum degi. Ég man hins vegar eftir því að Davíð Oddsson fræddi okkur á því á sínum tíma að ein reglugerð eða lagasetning hefði komi frá Evrópusambandinu á dag allt frá því að við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Ég reikna með því að það hafi haldið áfram og hafi ekki verið bundið við stjórnartíð Davíðs.

Enginn spyr um það í hverju aðlögunin er fólgin. Ég sá að Ásmundur Einar Daðason sagði það í sjónvarpinu um daginn að mestur hluti af þessari aðlögun væri ágætur. En hann vildi ekki hrinda breytingunum í framkvæmd vegna þess að þær kæmu frá Evrópu. Hann sjálfur mun hafa lagt til að Íslendingar tækju upp fríverslun við Bandaríkin.

Allt er betra en Evrópa."

Og síðar segir Benedikt: ,,Joe Borg, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins, var spurður um það þegar hann kom til Íslands fyrir skömmu hvort Maltverjar hefðu ekki þurft að fara í aðlögun áður en þeir gengu í Evrópusambandið.

Borg kvað það satt vera. Sérstaklega hefði margt þurft að laga í landbúnaði. Þeir hefðu ákveðið að skoða vandlega hvað það væri sem helst væri að og byrjað á breytingum sem blasti við að þeir þyrftu að gera hvort sem þeir færi í ES eða ekki. Það voru býsna mörg atriði. „Landbúnaður er lítill hjá okkur,“ sagði Borg, „eitthvað milli eitt og tvö prósent af vergri landsframleiðslu, en það var mjög margt að. Þess vegna var þetta kærkomið tækifæri til þess að breyta hlutunum, hvernig sem aðildarumsóknin færi.“

Á Íslandi vita starfsmenn Landbúnaðarráðuneytisins ekki um hvað aðlögunin snýst, því að ráðherrann hefur bannað þeim að kynna sér það. Öld upplýsingarinnar er ekki runnin upp hjá Jóni Bjarnasyni.

En væri ekki rétt hjá Jóni og rifja upp sögu sem hann þekkir örugglega um kerlinguna sem datt niður stigann og lærbrotnaði? Þegar hún var lent sagði hún: „Ég ætlaði ofan hvort eð var.“

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er talað um að nauðsynlegt sé að bæta stjórnkerfið á Íslandi. Stjórnsýslan sé ein af meinsemdum þjóðfélagsins og nauðsynlegt sé að bæta hana. Nú býðst Evrópusambandið til þess að gefa okkur fjóra til fimm milljarða króna til þess að sníða ýmsa ágalla af. Einmitt það sem við þurfum að gera. Við megum velja hvað við lögum fyrst. En á Íslandi er besti heimur allra heima og fulltrúar VG vilja engu breyta. Þó að það sé til bóta viljum við það ekki ef það er líka í Evrópu.

Hvers vegna vilja íslenskir bændur vera áfram í vernduðu umhverfi? Landbúnaðarforystan vill ekki láta breyta stjórnkerfi landbúnaðarins vegna þess að þá missir hún spón úr aski sínum. Ekki bændastéttin heldur forystan."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband