Leita í fréttum mbl.is

FRBL um ESB,iðnaðinn og fleira

FRBLFréttablaðið birti í gær ítarlega fréttaskýringu um ESB og iðnaðinn. Þar kemur fram í byrjun:,,

Gangi Ísland í ESB opnast ýmis sóknarfæri fyrir iðnaðinn, en mest munar um það ef evra verður tekin upp með fylgjandi stöðugleika. Hagsmuna sjávarútvegs þarf að gæta. Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar lítur á ESB sem "taplið" en veit engan skárri kost. Þingmaður Sjálfstæðisflokks í iðnaðarnefnd sér engin jákvæð áhrif af ESB-aðild.

Á dögunum greindi Norræna ráðherranefndin frá því að nýsköpun á Íslandi mældist neðarlega miðað við önnur norræn ríki. ESB-ríkin þrjú, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, voru í efstu sætunum en EES-ríkið Noregur var fyrir neðan Ísland.

Samtök iðnaðarins hafa um árabil mælt með aðildarviðræðum um inngöngu í Evrópusambandið. Hátækni- og hugbúnaðarfyrirtæki eru hlynnt inngöngu. Meirihluti fyrirtækja innan Samtaka ferðaþjónustunnar er það einnig. Að mati þessara fyrirtækja munar mest um evruna, meiri stöðugleika og auðveldari fjármögnun, sem fólk sér sem afleiðingu aðildar.

Ekki eru þó öll fyrirtæki jafn sannfærð. Innan samtaka iðnaðarins eru mörg fyrirtæki, sem þjónusta sjávarútveginn á ýmsan hátt, sem hafa áhyggjur af því að hagsmunir sjávarútvegsins verði fyrir borð bornir í aðildarviðræðum. Iðnfyrirtæki í landbúnaði, kjöt- og mjólkuriðnaði, eru heldur ekki hrifin af aðild."

Eins og fram kemur er rætt við þingmann Sjálfstæðisflokksins, en það er Jón Gunnarsson. Í greininni segir: ,,Jón Gunnarsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokks í iðnaðarnefnd Alþingis. Hann er andsnúinn aðild að ESB, helst vegna þess að hann óttast að forræði Íslendinga yfir auðlindum geti skerst, að ESB breyti reglum um auðlindastýringu þannig að erlendir aðilar geti keypt af Íslendingum aðgang að auðlindum: "Ég get ekki séð að aðild muni færa okkur nein jákvæð áhrif umfram það sem við höfum í dag. Við erum aðilar að þessum EES-samningi og ég held að [innganga í ESB] sé ekki atriði sem muni laga samkeppnisstöðu okkar iðnaðar," segir hann.

Jón vill ekki blanda umræðu um ESB við gjaldmiðilsskipti og stöðugleika efnahagslífsins. Aðild að myntbandalagi Evrópu taki enda mörg ár. Þangað til gæti krónan bætt samkeppnishæfni landsins.

Í umsögn um þingsályktun um aðildarviðræðurnar segir Samorka, samtök orku og veitufyrirtækja, hins vegar að eignarhald náttúru-auðlinda innan ESB sé alfarið á hendi aðildarríkjanna sjálfra, ekki ESB. Iðnaðarráðuneytið segir að reglum um slíkt grundvallaratriði yrði ekki breytt í framtíðinni án samþykkis aðildarríkja."

Feitletrunin er okkar hér á ES-blogginu, en þetta er athyglisvert. Því þetta hangir nefnilega allt saman: ESB, Gjaldmiðilinn, og stöðugleikinn.

Þegar menn eru að tala um að krónan "gæti bætt samkeppnishæfni landsins" eru menn í raun að tala um að láta gengi krónunnar síga og sveiflast til að þjóna skammtímaþörfum. Einu sinni hét það gengisfelling.

Íslenskar gengisfellingar hafa farið illa með krónuna, og hafa leitt hörmungar yfir fyrirtæki sem ekki eru í útflutningi, en hafa verið háð innfluttum aðföngum.

Hér má lesa ágæta hugleiðingu um gengisfellingar úr Viðskiptablaðinu árið 2008, en það er nánast samdóma álit manna að gengisfellingar sé afar slæmt hagstjórnartæki og eiginlega það sem hægt er að kalla "skussaverkfæri" sem aðeins þjónar ákveðnum hagsmunum, en ekki heildinni.

Í grein FRBL koma fram sjónarmið Ferðamannaiðnaðarins, sem er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest á undanförnum árum:

,,Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að nú þegar hafi mest allt regluverk ESB sem snýr að ferðaþjónustu og flugi verið fært í lög og aðild breytti ekki miklu um það. Könnun innan samtakanna, skömmu eftir hrun, hafi leitt í ljós að 70 prósent félagsmanna telji að aðild yrði mjög hagstæð ferðaþjónustunni og að 83 prósent þeirra vilji nota evru í stað krónu.

"Og ég á ekki von á að þetta hafi breyst mikið síðan," segir Erna: "Fólk er orðið óskaplega þreytt á þessum sveiflum í gengi krónu. Það er ekkert grín að verðleggja til dæmis ráðstefnu eftir tvö til þrjú ár. Þú veist ekkert hvað þú færð fyrir krónuna eftir þann tíma," segir hún. Samtökin hafi kallað til ýmsa sérfræðinga og niðurstaðan sé sú að evran henti best og að hún verði ekki tekin upp með góðu móti án aðildar. Erna bendir á reynslu Finna.

"Finnsk ferðaþjónusta telur að það hafi fyrst og fremst verið evran sem gerði þeim kleift að gera skynsamlegar áætlanir fram í tímann og búa við stöðugleika," segir hún.

Þess skal getið að ekki eru allir sammála um árangur Finna eftir kreppu, svo sem í velferðarmálum. Almennt hefur finnskum iðnaði þó gengið vel og stöðugleiki náðst í efnahagslífi. Mikil skuldsetning og hátt gengi gjaldmiðils til að berjast við verðbólgu er meðal þess sem angraði Finna áður."

Öll fréttaskýring FRBL

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband