Leita í fréttum mbl.is

Andrés Pétursson: Að fara í manninn!

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, er iðinn við kolann þessa dagana og ritar enn eina greinina um ESB-málið í Fréttablaðið í dag. Yfirskriftin er: AÐ FARA Í MANNINN!

Andrés veitti ES-blogginu góðufúslega leyfi til að birta greinina í heild sinni:

AÐ FARA Í MANNINN! 

Þegar þungir og seinir knattspyrnumenn eiga ekki möguleika að ná boltanum af snjöllum spilara þá grípa þeir stundum til þess örþrifaráðs að tækla leikmanninn sjálfan.

Þetta þykir mjög ódrengilegt en nær þó stundum þeim árangri að stoppa sókn andstæðinganna.

Því miður virðist mér sumir Nei-sinnar í Evrópumálum vera farnir að beita þessari aðferð.

Í tengslum við hrókeringar innan utanríkisþjónustunnar hafa þeir gripið til þess ráðs að gefa í skyn að samningamenn Íslands hafi það eitt að markmiði að landa góðu starfi hjá Evrópusambandinu að loknu samningaferlinu.

Meira segja hefur einn forráðamaður Nei-sinna kastað fram þeirri tillögu að allir þeir sem að samningaviðræðunum koma skrifi undir yfirlýsingu að þeir muni ekki sækjast eftir embætti hjá ESB í ákveðið mörg ár eftir að samningaviðræðum lýkur.

Maður veit varla hvort maður á hlæja eða gráta að þessari tillögu.

Bæði vegur hún mjög að heiðarleika viðkomandi samningamanna og þar að auki skerðir hún atvinnufrelsi viðkomandi einstaklinga.

Einnig hljóta flestir að vera sammála að það sé mjög mikilvægt að við sendum okkar allra besta fólk til að standa vörð um okkar hagsmuni á alþjóðavettvangi.

Þeir sem best þekkja til þessara mála hljóta að vera þeir aðilar sem hafa staðið í samningaviðræðum eða komið að samningagerðinni að öðru leyti. Það væri því fáranlegt að ekki væri hægt að senda þetta fólk til starfa erlendis á okkar vegum.

Búast má við að umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu erði fyrirferðamikil á árinu 2011. Evrópusinnar hafa sett sér nokkur leiðarstef í umræðunni, meðal annars að beita staðreyndum og rökræðu, forðast gífuryrði og þrætubókarlist og vera upplýsandi. Við skorum því á alla sem taka þátt í umræðunni, hvort sem þeir eru hlynntir eða á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, að halda umræðunni á þeim nótum.

Berjumst heiðarlega um boltann en tæklum ekki manninn á ruddalegan hátt!
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Einhvern veginn ber ég það traust til Íslenskrar þjóðar að hvorki Andrés né nei sinnar þurfi að hafa þumgar áhyggjur af því hvort samningamennirnir sæki um störf hjá EU eða ekki, og tel í raun svolítið kjánalegt að velta sér upp úr því þegar ekkert bendir til að þjóðin ani í foraðið.

Kjartan Sigurgeirsson, 4.1.2011 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband