Leita í fréttum mbl.is

Jóhann Hauksson í DV: AÐ VINNA RÉTTU BARDAGANA

Jóhann HaukssonÍ helgarblaði DV, sem kom út í dag, er að finna snjallan pistil, sem Jóhann Hauksson, blaðamaður, skrifar. Birtum við hér allan pistil Jóhanns, með leyfi höfundar:AÐ VINNA RÉTTU BARDAGANA

Ungur Dalamaður á þingi leggst í víking gegn Evrópusamvinnu og heimtar Bandaríkjadollar sem þjóðarmynt. Hann dundar sér við það í fjárlaganefnd að útdeila milljarðastyrkjum til bænda sem hann selur svo tæki og tól til búrekstrar í gegnum fyrirtæki sitt. Vill enga styrki frá ESB og fer á fund nei-hreyfingarinnar í Noregi. 

Reyndur verkalýðsfrömuður úr sama flokki vill að hver þingmaður sé sinn eigin stjórnmálaflokkur og gengur inn og út úr ríkisstjórn eftir því hvernig vindar blása. Reisir þjóðernisvígi gagnvart Evrópuþjóðum þegar þær vilja ekki lána íslenskum óreiðumönnum fé refjalaust eða þegar þær fara fram á að þeir borgi skuldir sínar. Hann er búinn að uppgötva merkingu orðsins ,,samstaða“og sýnir óvinum formanns síns opinberan stuðning í nafni samstöðu.

Hagfræðidoktor úr sama flokki skorar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á hólm og hefur í heitingum verði menn ekki við óskum þingmannsins um að slíta samvinnunni við þennan „útsendara frjálshyggjunnar og kapítalismans“.

Lögfræðingur úr sama flokki undrast að menn skuli kalla þennan hóp villiketti um leið og hann talar í Moggagrein gegn hjarðhegðun sem hann telur hafa orðið þjóðinni dýrkeypt fyrir hrun.
Þrjú þeirra fara með heift gegn fjárlögum ríkisstjórnar og þingmeirihluta og tala um forræðishyggju og foringjaræði.

Ríkir verða ríkari

Á meðan þessu vindur fram í íslenskum afdölum heldur Bernie Sanders, þingmaður lýðræðissósíalista í Vermont, varnarræðu fyrir bandarískan almenning sem hann telur vera að tapa stríðinu við ríka fólkið. Varla nema von þegar Barack Obama Bandaríkjaforseti framlengir skattaívilnanir fyrir auðmennina eftir harðsvíraða og rándýra baráttu þeirra fyrir forréttindum sínum. Sem þeir láta aldrei af hendi átakalaust.

Sanders bendir á eftirfarandi: Á áttunda áratug síðustu aldar átti ríkasta eina prósent bandarísku þjóðarinnar 8 prósent þjóðarauðsins. Þetta eina prósent átti meira af þjóðarauðnum en fátækari helmingur þjóðarinnar samanlagt. Á níunda áratugnum átti ríkasta eina prósentið 14 prósent þjóðarauðsins.

Á tíunda áratugnum átti ríkasta eina prósentið 19 prósent af þjóðarauði Bandaríkjanna. Nú eiga ríkustu Bandaríkjamennirnir, sem mynda þetta eina prósent, 23,5 prósent þjóðar- auðsins eða jafnmikið og fátækari helmingur þjóðarinnar samanlagt.
Guðs eigið land í vanda

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson kvakaði fagurlega árum saman um dýrð þess frelsis sem bandarískir auðmenn hafa notfært sér til að raka til sín þjóðarauðnum. Hversu mjög brauðmolarnir myndu falla af borðum auðmanna til fátæklinganna aðeins ef stjórnvöld stilltu sig um að hafa eftirlit með þeim, vöruðust að anda ofan í hálsmál þeirra og íþyngdu þeim ekki með sköttum og óþarfaforræðishyggju. Þetta dýrðarríki Hannesar hrundi í fyrstu viku októbermánaðar árið 2008.
Milljónir bandarískra heimila eiga á hættu að fara undir hamarinn. Meira en 20 borgir eru gjaldþrota eða því sem næst. Mikilvægasta vígi frjálsa framtaksins, Kalifornía, er á hausnum og nýtur ekki lánstrausts. Þar eru skattar helst aldrei hækkaðir því kjósendur greiða atkvæði gegn slíku í tíðum almennum atkvæðagreiðslum. Vandi Kaliforníu er meiri en samanlagður efnahagsvandi Portúgals og Grikklands.

Einkennileg stjórnmál

Allt hefur þetta orðið til þess að bandarískir valdamenn sjá ofsjónum yfir velgengni í norðanverðri Evrópu. ESB hleypur undir bagga með Írlandi með 13 þúsund milljarða króna láni. Rússar vilja ólmir skipta við Þjóðverja; þeir hafa allt sem Rússa vantar og Rússar hafa orku og stækkandi markað fyrir þá og aðrar ESB-þjóðir.

Fréttir berast af því að Kínverjar vilji flytja hluta af gjaldeyrisforða sínum úr dollurum yfir í evrur. Þeir vilja einnig aukin viðskipti við Þjóðverja. Þeir kaupa ríkisskuldabréf á Spáni og í Portúgal og styrkja þannig evruna. Ástæðan er þverrandi trú Kínverja á Bandaríkjadollar, en 70 prósent gjaldeyrisforða þeirra eru nú í þeirri mynt.

Svo gæti farið að Bandaríkin, skuldugasta ríki veraldar, neyðist sjálf til að leita á náðir AGS. Sæta þeim aga sem meðal annars Íslendingar, Grikkir og Ungverjar hafa þurft að beygja sig undir eins og óþekk skólabörn með skertan vasapening vegna skammarstrika.

Hvernig væri að íslenskir villikettir legðust nú á sveif með almenningi, eins og Sanders, í stað þess að vera eins og lamandi eitur í beinum þingmeirihlutans sem reynir að endurreisa efnahagslífið eftir sérhagsmunasukkið?


 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þennan pistil má hiklaust tilnefna til Nóbelsverðlauna, takk fyrir að byrta hann.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.1.2011 kl. 16:13

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Draumsýn Jóhanns Haukssonar var efnahagsáætlun AGS.,

Til að hún gengi eftir þurfti  160 milljarða afgang á vöruskiptum við útlönd, greiðsluhlutfall ríkissjóðs yrði 60%.

Með öðrum orðum, svæsnasta skuldakreppa síðara tíma.

Og þið kunnið ekki að skammast ykkar.

Málstaður ESB er betri en sá að vitna í fífl sem veitist að hagfræðidoktor.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.1.2011 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband