Leita í fréttum mbl.is

Þorsteinn Pálsson um gjalmiðilsmál frá Kögunarhólnum

Þorsteinn PálssonÍ helgarpistli sínum af Kögunarhóli, ræðir Þorsteinn Pálsson m.a. um leiðir í gjaldmiðilsmálum og talar um nokkrar leiðir í þeim efnum:

"Færar leiðir eru nokkrar. Gylfi Zoëga hagfræðingur segir í nýlegri fræðigrein að líklegast sé að tvö kerfi standi af sér áföll: Annars vegar krónan í skjóli gjaldeyrishafta og hins vegar evra með aðild að Evrópusambandinu. Þetta hlýtur þó að fara nokkuð eftir því hvaða markmið menn setja sér. Minni áhersla á stöðugleika fjölgar leiðunum en eykur líkur á áföllum.

Stöðugleikamarkmiðið er helsta kappsmál launþega. Atvinnufyrirtækin horfa á stöðugleika og samkeppnisstöðu. Fyrir hrun var ekkert tillit tekið til samkeppnishæfni venjulegra fyrirtækja við framkvæmd peningastefnunnar. Fyrir þá sök sætti hún gagnrýni frá talsmönnum þeirra og launþega. Hins vegar voru hluthafar í eignarhaldsfélögum og bönkum afar ánægðir meðan ævintýrið stóð sem hæst.

Króna með gjaldeyrishöftum getur tryggt stöðugleika. Hún dregur á hinn bóginn úr hagvexti og rýrir kjörin. Þremur árum eftir að hrun krónunnar fór af stað eru enn engar horfur á útflutningshagvexti. Eigi að tryggja stöðugleika með krónu án beinna hafta þarf gífurlega öflugan gjaldeyrisvarasjóð og margs konar takmarkanir á bankaviðskiptum og útlánastarfsemi ásamt með mun harðari aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Við getum þá þurft að velja milli gjaldeyrisvarasjóðs og mikilvægra velferðarviðfangsefna.

Evran krefst einnig viðvarandi aðhaldssemi í stjórn peningamála og í ríkisbúskapnum. Hún kallar þó ekki á að velferðarverkefnum verði fórnað fyrir gjaldeyrisvarasjóð. Á hinn bóginn þarf vinnumarkaðurinn að sýna fram á sveigjanleika þegar breytingum á samkeppnisstöðu verður ekki mætt með gengislækkunum.

Öllum leiðum fylgja þrautir. En hjá valinu verður ekki komist. Þrautirnar verða mestar ef þegja á málið í hel með staðhæfingum um að önnur mál séu nú brýnni. Þeir sem þannig tala segja ekki satt og ráða ekki heilt."

Allur Kögurnarhóll Þorsteins 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband