Leita í fréttum mbl.is

Formaður Evrópusamtakanna í MBL: Er Evrópusambandið ólýðræðislegt bákn?

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna birtir grein í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni:Er Evrópusambandið ólýðræðislegt bákn?   Greinin birtist hér í heild sinni, en þess má geta að Frosti Sigurjónsson er fyrrverandi formaður samtaka Nei-sinna á Íslandi, Heimssýnar.


Margt er skrifað og skrafað um Evrópusambandið. Er það í sjálfu sér vel. Umræðan er nauðsynleg og vaxandi sem einungis er til þess fallið að efla þá upplýsingamiðlun sem fara þarf fram um sambandið og eðli þess.

Í því samhengi er mikilvægt að allir sem að málum koma leitist við að gæta nákvæmni í því sem fram er borið. Fólkið í landinu gerir kröfu til þess. Vonandi mun væntanleg upplýsingamiðlun á vegum Alþingis styrkja þennan þátt.

Því miður verður að segjast að grein Frosta Sigurjónssonar , eins af forystumönnum Nei-hreyfingarinnar á Íslandi, sem nokkuð hefur verið vísað til á sumum vefritum og ber yfirskriftina “Evrópusambandið er ólýðræðislegt bákn”, fellur í þann flokk að vera einstaklega ónákvæm og fara í besta falli frjálslega með staðreyndir. Það má að sjálfsögðu öllum vera ljóst að nákvæmni í þessu sambandi þjónar ekki skoðunum höfundarins.
Til upplýsingar fyrir landsmenn alla þá kýs ég að svara hér lið fyrir lið þeim rangfærslum sem grein Frosta inniheldur:

1. Lagasetning í Evrópusambandinu eru í höndum framkvæmdastjórnarinnar. Þetta er rangt. Lagasetningarvald er í höndum ráðherra 27 aðildarríkja ESB og Evrópuþingsins sem skipað er þingmönnum sem kosnir eru af íbúum aðildarríkja í beinum kosningum. Líkt og er t.d. hér á landi þá ákveða ráðherrarnir 27 og þingið oft og tíðum að heimila framkvæmdastjórn að setja tæknilegar reglur um framkvæmd lagasetningar innan ramma sem ráðherrar og þing hafa sett.
2. Þrískipting valdsins er ekki til staðar. Þetta er rangt. Löggjafarvald er í höndum ráðherraráðs og Evrópuþings, dómsvald í höndum dómsstóla ESB og framkvæmdavald í höndum framkvæmdastjórnar ESB sem stjórnað er af fulltrúum allra aðildarríkjanna.
3. Þingið getur ekki gert breytingar á lagafrumvörpum. Þetta er rangt. Evrópuþingið í takt við vaxandi hlutverk sitt gerir í sífellt vaxandi mæli breytingar á tillögum framkvæmdastjórnar ESB og ráðherraráðsins um nýja löggjöf. Dæmi eru um að þingið setji þessum tveimur stofnunum stólinn fyrir dyrnar. Aðildarríki ESB hafa falið Evrópuþinginu aukin völd í þessu tilliti einmitt til að auka lýðræði í Evrópusamvinnunni.
4. Í Brussel eru flestar ákvarðanir teknar af embættismönnum en ekki lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Embættismenn í Brussel taka þær ákvarðanir sem ráðherraráð og Evrópuþing, lýðræðislega kjörnir fulltrúar aðildarríkjanna, hafa falið þeim að taka. Embættismenn hafa ekki lagasetningarvald.
5. Framkvæmdastjórn ESB lagði fram nýjan sáttmála um Lissabon eftir að kjósendur í Evrópu höfðu hafnað stjórnarskránni. Þetta er rangt. Stjórnarskrársáttmálanum var hafnað í í Frakklandi og Hollandi. Hann kom til atkvæða í meirihluta aðildarríkja, sumsstaðar í þjóðaratkvæði, og var samþykktur. Aðildarríkin (ekki framkvæmdastjórnin) ákváðu síðar að umbreyta stjórnarskrársáttmálanum í nýjan sáttmála sem gekk til atkvæða en var felldur á Írlandi. Ákveðið var í framhaldinu af öllum aðildarríkjum að taka tillit til tilgreindra vandamála sem írskir kjósendur gáfu til kynna og mun sáttmálanum verða breytt til samræmis. Er það ekki einmitt svona sem lýðræðið virkar best; það er komið til móts við vilja kjósenda?
6. Evrópuþingið er áhrifalaust. Það er í raun framkvæmdastjórnin sem hefur löggjafarvaldið. Það er með ólíkindum að einstaklingur sem framarlega stendur í umræðu um kosti og galla aðildar að ESB skuli bera þetta á borð. Það er öllum ljóst sem vilja kynna sér það að það eru 27 ráðherrar aðildarríkja ESB (allir með lýðræðislegt umboð sinna aðildarríkja) og Evrópuþingið (hver einasti þingmaður kosinn beini kosningu af borgurum ESB) sem fara með þetta vald. Framkvæmdastjórn ESB hefur ekkert annað vald en að setja tæknilegar reglur sem ráðherrar og þing hafa falið þeim að setja; líkt og þegar Alþingi felur ráðherrum að setja reglugerðir.

Um sumt má taka undir með Frosta eins og mikilvægi þess að gera ESB enn opnara og auka sem mest áhrif borgara sambandsins á starfsemi þess svo sem með því að geta með auðveldum hætti náð því fram að sambandið taki mál til umfjöllunar. Það á að vera markmið allra aðildarríkja og þeirra ríkja sem sækja um aðild að sambandinu að efla enn frekar lýðræðislega þætti í starfsháttum þess. Það hefur einmitt verið eitt helsta áherslumál Norðurlandanna innan ESB að auka gagnsæi og lýðræði í Evrópusambandinu.

Að lokum skal ítrekuð sú ábyrgð allra sem taka þátt í umræðum um kosti og galla Evrópusambandsins að þeir haldi sig í betri nálægð við sannleikann en Frosti kýs að gera í sinni grein.

MBL, 7.2.2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hrikalega góð lýsing. Það er áhugavert að sjá hvernig þetta starfar hérna innan ESB. Umræðan um lýðræði og ESB er svo skemmtilega "rugluð" á Íslandi.

Hún gengur vegna þess að menn upplýsa sig ekki áður en þeir tala.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband