Leita í fréttum mbl.is

Skipulag viðræðna við ESB-sem hefjast brátt

island-esb-dv.jpgRýnifundunum fer fækkandi á milli ESB og Íslands, en á þeim hefur löggjöf ESB og Íslands verið borin saman. Því styttist í að samningaviræður Íslands og ESB hefjist. Því er ekki að rifja aðeins upp hvernig þær ganga fyrir sig.

Á heimasíðu Utanríkisráðuneytisins er að finna upplýsingar um þetta og þar segir:

"Samningaviðræður við ESB um aðild Íslands eru skv. stjórnarskrá á stjórnskipulegri ábyrgð utanríkisráðherra sem fer með samninga við önnur ríki. Verkefnið er hins vegar allrar stjórnsýslunnar, ráðuneyta jafnt sem stofnana, enda um að ræða samninga á sviðum sem falla efnislega undir mörg ráðuneyti.

Að sama skapi eru hafa sveitarfélög ríkra hagsmuna að gæta og því mikilvægt að fulltrúar þeirra hafi skýra aðkomu að málum á sem flestum sviðum.

Íslensk stjórnvöld leggja ríka áherslu á að þar eigi hlutdeild hagsmunaaðilar og félagasamtök sem taki virkan þátt og eigi hlutdeild í ferlinu, líkt og kveðið er á um í meirihlutaáliti utanríkisnefndar Alþingis.

Uppbygging viðræðna gerir ráð fyrir að meginþungi málsins hvíli á samninganefnd sem utanríkisráðherra skipar að höfðu samráði við ríkisstjórn undir forustu aðalsamningamanns en endanlegar ákvarðanir í málefnum tengdum aðildarviðræðum verða í höndum ríkisstjórnar. Í því felst meðal annars að allar ákvarðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum verða samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli.

Tíu samningahópar hafa verið settir á fót um afmörkuð efnissvið samninganna. Hver hópur er leiddur af formanni en auk hans sitja í hópunum fulltrúar hagsmunaaðila og félagasamtaka, og margvíslegir sérfræðingar í lögum, efnahagsmálum, alþjóðasamskiptum o.s.frv. Þessir hópar leggja mat á hagsmuni Íslands á sínum sviðum og gera tillögu að samningsafstöðu Íslands.

Tryggt verður að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Í beinni aðkomu utanríkismálanefndar að ferlinu felst meðal annars að hún mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd og eftir atvikum ráðherrum, haft verði samráð við nefndina áður en samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum verði samþykkt og reglulegir upplýsinga- og samráðsfundir verði haldnir um framvindu viðræðna og opnun og lokun einstakra samningskafla. Jafnframt getur nefndin kallað til sín hagsmunaaðila og sérræðinga eftir því sem þörf krefur. Utanríkisráðherra mun reglulega veita Alþingi skýrslu um stöðu mála.

Alþingi mun þannig vera virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi í ferlinu, ásamt stjórnsýslunni og hagsmunaaðilum sem munu fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg samningsafstaða á einstökum sviðum er samþykkt.

Áhersla er lögð á vandaða og hlutlæga upplýsingamiðlun um möguleg áhrif aðildar að ESB og um gang viðræðna til almennings, fjölmiðla, félagasamtaka og alþjóðasamfélagsins. Slíkt er grundvallaratriði fyrir trúverðugleika ferlisins í heild. Hugmyndir eru um að upplýsingamiðlun fari fram í nánu samstarfi við Alþingi, ólík félagasamtök og hagsmunaaðila og háskólasamfélagið. Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar er nefnt að til greina komi að slíku fræðslu- og upplýsingastarfi verði sinnt af sjálfstæðri stofnun sem væri skapað svigrúm til að leita sér aðstoðar utanaðkomandi ráðgjafa, innlendra sem erlendra. Samninganefnd Íslands mun á hinn bóginn upplýsa um innihald, framvindu og lyktir viðræðna."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það hefði enga umsókn um inntöku í Esb. þurft til að fá svör við því, hvort Íslendingar myndu halda yfirráðum sínum yfir sjávarútveginum, fiskveiðistjórnum, löggjöf um þessi mál og forræði efnahagslögsögu sinnar í óskertu formi.

Það blasir reyndar við, að þeir myndu EKKI fá það.

Við gefum ekki fiskimið okkar öðrum!

Við gefum ekki stórveldi lögggjafarvald yfir Íslandi!

Jón Valur Jensson, 21.4.2011 kl. 13:47

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Jón Valur, Síðast þegar ég gáði þá var öll fiskveiðiauðlyndin í eigu rúmlega 120 einstaklinga á Íslandi. Sem notuðu þessa auðlynd eingöngu í sína þágu, en ekki almennings á Íslandi. Þetta fólk hafði einnig öll tögl og haldir í þeirri ákvörðunartöku sem varðar fiskimiðin á Íslandi.

Íslendingar munu halda yfirráðum sínum yfir fiskveiðiauðlyndinni þó svo að gengið sé í ESB. Enda liggur ákvörðunin alltaf hjá ráðherranum í viðkomandi landi, en ekki hjá ESB. Eins og þú ranglega heldur fram hérna.

Það á ekki að gefa sérhagsmunarhópum löggjafarvald á Íslandi. Slíkt er tryggt að einhverju leiti með aðild Íslands að ESB.

Jón Frímann Jónsson, 21.4.2011 kl. 14:02

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er kolrangt hjá þér, nafni. (Og gleðilegt sumar!)

Í 1. lagi eru t.d. smábátasjómenn miklu fleiri en 120.

Þar að auki eru stóru útgerðarfyrirtæki sum hver í eigu fjölda hluthafa.

Í 3. lagi eiga útgerðarmenn ekki fiskimiðin né fiskistofnana.

Þið evrókratarnir reynið hins vegar að halda uppi blekkingaráróðri til að fá fólk til að halda, að fiskveiðilögsagan sé ekki þjóðarinnar, heldur útgerðarmanna.

Það er bara einfaldlega rangt. Og það er hægt að taka af þeim kvóta án þess að það kallist þjóðnýting sem bætur þurfi að koma fyrir. Eða ætlar þú sjálfur að afneita því?!

Svo heldurðu hér fram firrum um yfirráð sjávarútvegsmála í Ebs.

Þar að auki væri ekkert byggjandi á neinum áhrifum Jóns Bjarnasonar hér, ef við færum þarna inn og nýtt ráðuneyta-lagafrumvarp ráðleysustjórnarinnar hér í Stjórnarráðinu komið til framkvæmda, en skv. því væru menn ekki lengur með sín ráðuneyti trygg, að væri allt undir "verkstjóranum" komið.

Jón Valur Jensson, 22.4.2011 kl. 03:08

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

... það væri allt undir ...

Jón Valur Jensson, 22.4.2011 kl. 03:10

5 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Samkvæmt lagabókstafnum þá á þetta fólk ekki fiskin í sjónum. Hinsvegar hagar það sér þannig eins og að það ætti fiskinn í sjónum.

Áhrif sjávarútvegsráðherra innan ESB eru nákvæmlega þau sömu og annara sjávarútvegsráðherra innan ESB. Það er alveg augljóst að ESB varðar lítið um skiplag stjórnarráðuneyta á Íslandi eins og þú virðist augljóslega halda.

Jón Frímann Jónsson, 22.4.2011 kl. 11:02

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú fórst rangt hér með staðreyndir, bæði meginatriði og tölu einstaklinga í útgerð.

Svo yrði atkvæðavægi íslenzks ráðherra í ráðherraráðinu 273 sinnum minna en þýzks ráðherra, 205 sinnum minna en brezks og 153 sinnum minna en ráðherra frá hinum gíruga Spáni* (miðað hér við atkvæðavægið sem þau lönd fá skv. Lissabon-sáttmálanum frá og með 2014).

* Sjá þessar heimildi, byggðar á Rúv-fréttaaukum Kristins R. Ólasonar: Ráðherra Spánverja í ESB-málum kallar fiskimið Íslands "fjársjóð" og ætlar Spánverjum að tryggja sér fiskveiðiréttindi hér í aðildarviðræðunum (29. júlí 2009);

Spænskur ráðherra Evrópumála staðfestir ásækni Spánverja í íslenzk fiskimið; segir Spánverja "himinlifandi" (30. júlí 2009);

Sjávarmálastjóri Spánar: auðlindir "evrópusambandsvæddar" þegar ríki gengur í ESB (5. september 2009).

Jón Valur Jensson, 22.4.2011 kl. 16:59

7 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Jón Valur, það eru 166 kvótaeigendur á Íslandi (árið 2010).

Þú kannt ennfremur ekkert með atkvæðin að fara í Ráðherraráði ESB (wiki grein er hérna). Ísland yrði með jafnmörk atkvæði og Malta. Í dag er Malta með 3 atkvæði, Lúxemborg er með 4 atkvæði, einnig Kýpur og nokkur önnur ríki sem eru með þennan atkvæðafjölda.

Atkvæðakerfi Ráðherraráðs ESB er ennfremur margfalt flóknara en þú heldur hérna fram. Hérna er atkvæðareiknir Ráðherraráðs ESB.

Spánverjar hafa engan veiðirétt í íslenskri lögsögu. Ef nánar er farið út í það mál. Þá má benda á þá staðreynd að efnahagslögsaga Spánar er margfalt stærri en efnahagslögsaga Íslands og hefur alltaf verið það.

Jón Frímann Jónsson, 22.4.2011 kl. 17:15

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það skiptir Spánverjana bara engu máli í þessu sambandi, enda er þjóð þeirra meira en 100 sinnum stærri en okkar -- miklu fleiri munnar að fæða og tugþúsundir sjómanna atvinnulausar!

"Reglan" um hlutfallslegan stöðugleika fiskveiða er ekki aðeins óstöðug sjálf (ráðherraráðið, þar sem við myndum ráða 0,06% atkvæða, getur skóflað henni út, þegar það vill), heldur er hin reglan um "veiðireynslu"-tímann, sem þar er gengið út frá, EINNIG óstöðug -- auðvelt að breyta veiðireynslu t.d. úr 3-10 árum í 13 til 50 ár og á vissum tegundum í 120 ár eða lengur!

Þú reyndir að ræða þetta mál um atkvæðavægi ríkjanna í ráðherraráði Esb. frá árinun 2014 hér: í umræðunni í nóv. 2009 um hina mikilvægu, vel rökstuddu grein Haralds Hanssonar: Ísland svipt sjálfsforræði, en varðst að láta þar í minni pokann.

Játaðu ósigur þinn.

Jón Valur Jensson, 22.4.2011 kl. 17:37

9 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Jón Valur. Það sem þú vísar í (sjálfan þig) og síðan í Harald (vitleysingur) eru ómarktækar heimildir. Grein Haraldar er ekki vel rökstudd, í reynd er hún bara óttalegt bull og ekkert annað.

Ég vísaði í rökréttar heimildir máli mínu til stuðnings. Þú kemur ekkert með hérna nema einhverja útúrsnúninga.

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ekki að fara breytast nema að sjávarútvegsráðherrar ESB ákveði annað. Verði Ísland komið í ESB ef að þessari reglu verður breytt. Þá verður íslenski sjávarútvegsráðherran með í þeirri ákvarðanatöku eins og öðrum sem varða íslenska hagsmuni innan ESB.

Þessi útúrsnúningur þinn hérna þjónar eingöngu þeim tilgangi að blekkja fólk. Ég læt þig ekki komast upp með það. Það er ennfremur ljóst að þú hvorki þekkir starfsemi ESB eða hvernig ákvarðanir eru teknar innan ESB. þú í reynd veist ekki neitt um ESB.

Jón Frímann Jónsson, 22.4.2011 kl. 19:13

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jón Frímann, þú viðhefur hér stóryrði um mann sem þú hefur sennilega aldrei séð, mann sem sem virtur er í starfi og hefur það fyrir sið að rökstyðja skrif sín. Þarftu ekki að tileinka þér meiri kurteisi? Þú veizt nú (ekki satt?) að þú fælir mig ekki frá umræðunni með því að tala með ómálefnalegum persónuárásum.

Það er alveg rétt hjá þér, að "reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ekki að fara breytast nema að sjávarútvegsráðherrar ESB ákveði annað." Svo bætirðu við málsgrein (löguð hér): "Verði Ísland komið í ESB, ef þessari reglu verður breytt, þá verður íslenski sjávarútvegsráðherrann með í þeirri ákvarðanatöku eins og öðrum sem varða íslenska hagsmuni innan ESB."

Rétt, en heldurðu í alvöru, að það tryggi rétt okkar? Ímyndarðu þér, að vegna þess að íslenzki landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrann mundi sitja slíkan fund, sem fjallar um þetta mál, mundi hans vilji verða ofan á? Veiztu ekki, að (aukinn) meirihluti getur breytt þessu eða skóflað burt? Sex stærstu (fólksflestu) Esb.ríkin (Þýzkaland, Frakkland, Bretland, Ítalía, Spánn, Pólland) verða með 70,4% atkvæðamagns, en öll hin 21 verða samanlagt með 29,6%! Ef meðlimaríkin væru orðin 28 eða 29, þyrftu í fyrsta lagi 55% þeirra, þ.e. [15,4 eða 15,9 =] 16 þeirra að samþykkja reglugerðarbreytinguna, og í 2. lagi þyrftu ríki með 65% fólksfjölda Esb. að gera það.* Með samstöðu stórþjóðanna (nema kannski Póllands, með 7,63% atkvæðavægis) væri þetta auðvelt, fimm slík (með tæpega 63%) þyrftu ekki nema rúmlega 2% viðbótar-atkvæðavægi frá öðrum ríkjum til að koma þessu í gegn, og ef 16 þjóðir nást til þessa eða fleiri, þá er það auðvitað komið.

Ísland gæti vonazt eftir bandamönnum í vörninni: Danm., Svíþjóð, Finnlandi, Eystrasaltslöndunum þremur [reyndar eru Eystrasaltslönd 9!] og Póllandi, en okkur gengi erfiðlega að fá alls 14 ríki samtals í NEI-atkvæði.

* "In 2014, a new voting method will be introduced - double majority voting. To be passed by the Council, proposed EU laws will then require a majority not only of the EU's member countries (55 %) but also of the EU population (65 %)." Sjá hér: http://europa.eu/lisbon_treaty/glance/institutions/index_en.htm

Jón Valur Jensson, 22.4.2011 kl. 20:49

11 Smámynd: The Critic

Jón Valur: Þegar greiða á atkvæði í ráðherraráðinu þá er oftast greitt með eða móti tillögum og breytingatillögum. Það er ekki eins og íslendingar standi þarna einir að greiða einhverskonar öðruvísi atkvæði eins og þú heldur fram. Lönd hópa sig saman við að koma hagsmunum í gegn, t.d. eru Svíþjóð, Danmörk og Finnland að koma hagsmunum norðurlandanna í gegn og með ísland um borð myndu norðurlöndin verða ennþá sterkari.

Allar þjóðir fá jafn langan tíma í pontu óháð fólksfjölda. þessvegna hafa íslendingar jafnmikið að segja og aðrir, einnig yrði vægi okkar í ráðum og nefndum óháð fólksfjölda.

The Critic, 23.4.2011 kl. 09:48

12 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Jón Valur, Þessi rökleysa þín hefur aldrei staðist nánari skoðun. Reyndar stenst ekkert af því sem þú segir. Enda byggir þetta á viljandi fáfræði hjá þér á því hvernig ESB starfar. Það segir sig auðvitað sjálft að ekkert ríki væri í ESB ef að farið væri gegn hagsmunum þess innan ESB. Þannig virkar alþjóðapólitík og hefur alltaf gert það.

Langflestar ákvarðanir sem teknar eru í Ráðherraráði ESB eru samþykktar með atkvæðum allra aðildarríkja ESB. Það er mjög sjaldgæft að meirihluta og auknum meirihluta sé beitt í ákvarðanatöku innan ESB. Þetta eru staðreyndir sem þú og aðrir andstæðingar ESB á Íslandi gjörsamlega hunsa og hafa alltaf gert það. Enda er búið að benda á þetta atriði nokkrum sinnum á síðustu árum.

Tvöfaldur-meirihluti reglan er hugsuð til þess að tryggja að öruggur meirihluti sé fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru innan ESB. Tvöfaldur meirihlui er ennfremur ekkert einsdæmi í ákvarðanatöku í heiminum. Þó svo að margir íslendingar viti afskaplega lítið af þessu kerfi.

Málflutningur andstæðinga ESB á Íslandi er útá túni og hefur verið það frá upphafi.

Jón Frímann Jónsson, 23.4.2011 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband