Leita í fréttum mbl.is

Aðstoðarutanríkisráðherra Póllands: Bændur hagnast hvað mest á ESB-aðild!

mikolaj_dowgielewicz_1081259.jpgMikolaj Dowgielewicz,aðstoðarutanríkisráðherra Póllands (mynd),sér um Evrópumál þar í landi. Í gær birtist mjög áhugavert viðtal við hann í Fréttablaðinu. Pólland gekk í ESB árið 2004 og er eitt stærsta ríki sambandsins, með rúmlega 38 milljónir íbúa og tekur við formennsku í ESB um mitt þetta ár.

En kíkjum aðeins á viðtalið, sem Klemens Þrastarson tók. Um hræðsluna við ESB, sem margir andstæðingar ESB ala stöðugt á segir Mikolaj: 

"Þegar við sömdum við ESB óttuðumst við margt. Við vorum hrædd um að Þjóðverjar myndu kaupa landið okkar og eignir, við vorum hrædd um landbúnaðinn og hefðir okkar og fullveldi en ég get sagt þér að eftir sjö ára veru í ESB hefur komið í ljós að engin þessara efasemda, ekki ein einasta, átti við rök að styðjast. Sjálfsmynd okkar sem þjóðar hefur ekki dofnað á nokkurn hátt. Okkur finnst við miklu sterkari sem hluti ESB og aðildin er hluti af okkur." (Leturbr. ES-blogg)

Um pólska bændur og hlut þeirra eftir aðild Póllands segir hann: "Ísland hefur einstakt tækifæri til að hagnast á aðildarferlinu. Ég tala fyrir hönd ríkis sem gekk í ESB fyrir sjö árum og hefði ekki farið í gegnum efnahagskrísuna með jákvæðan vöxt í efnahagslífinu annars. Fyrir aðild voru margir hópar í Póllandi mótfallnir ESB, til dæmis bændur. En þeir hafa hagnast mest allra á inngöngunni og nú eru 70% bænda hlynnt aðild, því hún hefur bætt lífsskilyrði til sveita en ekki verið róttæk umbylting og tortíming eins og óttast var." 

Skyldu íslensku Bændasamtökin vita af þessu? Sennilega ekki, enda er nær einungis skrifað um neikvæða finnska bændur í Bændablaðinu (með fullri virðingu fyrir finnskum bændum og landbúnaði!)

Um EES segir Mikolaj og kemst að kjarna málsins: "Stærsta vandamál ykkar í EES er að þið hafið engin áhrif á ferlið heldur samþykkið bara það sem aðrir ákveða fyrir ykkur." 

Glöggt er gests augað! 

Um Evruna segir Mikolaj: "Pólland mun taka upp evruna þegar tækifæri gefst og það hefur uppfyllt skilyrðin, segir Dowgielewicz, sem er sannfærður um að sameiginlegi gjaldmiðillinn sé á bataleið. Hann kannast ekki við að í Póllandi séu efasemdir um Evrópusamstarfið.

"Pólverjar eru með helstu stuðningsmönnum ESB, ekki bara af því að fólk trúir á hið pólitíska verkefni, samruna Evrópu, heldur af því að allir sjá og finna kosti aðildarinnar á eigin skinni. Hvort sem er Schengen-samstarfið, innri markaðurinn, landbúnaður eða menntun og að fá að fara og læra í öllum þessum löndum, Pólverjar kunna svo sannarlega að meta þetta frelsi. Á pólska þinginu er enginn sem efast um aðildina að ESB. Menn eru auðvitað með mismunandi áherslur en í það heila deilir enginn um að Pólland hefur hagnast gífurlega á aðildinni." 

Hér er viðtalið í heild sinni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Spurning um að Bændasamtökin taki þetta til sín?

Sleggjan og Hvellurinn, 4.5.2011 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband