Leita í fréttum mbl.is

Björgvin G. Sigurðsson: Vel unnt að ná góðum samningi fyrir íslenskan landbúnað

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, ritar grein í Bændablaðið um landbúnaðarmál og ESB og fer vítt yfir sviðið. Hann bendir á að ýmsa athyglisverða hluti, svo sem að bændum hér á landi hefur fækkað um 25% á áratug (án þess að landið sé í ESB, innskot, ES-blogg), og að þetta sé mun hraðari þróun en á hinum Norðurlöndunum.

Hann talar um ótta bænda vegna mögulegrar aðildar og segir: "Það sem margir bændur óttast við aðild að ESB er niðurfelling tollverndarinnar frekar en breytingar á framleiðslutengdum beingreiðslum. Sumum greinum landbúnaðar myndi breytt fyrirkomulag stuðnings örugglega gagnast vel, til dæmis greinum á borð við ferðaþjónustu, hrossarækt og skógrækt.

Breytingarnar hafa mest áhrif á kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu vegna niðurfellingar tolla, en þó er ekki allt sem sýnist þar. Einn gamalreyndur svínabóndi hefur bent á að allt eins gæti aðild að ESB falið í sér mikil tækifæri fyrir hans grein þar sem ESB styrkir að mestu út á landnotkun og landnýtingu á hvern hektara. Því myndu styrkir til kornræktar vegna fóðurframleiðslu snarlækka verð á fóðri og greinin því verða samkeppnishæf við evrópska svínaframleiðendur."

Í lok greinarinnar bendir Björgvin á að miklir möguleikar eru á að finna sérlausnir til handa íslenskum landbúnaði: "

Fyrir það fyrsta blasir við að Ísland yrði skilgreint sem harðbýlt svæði. Það er skilgreining sem kennd er við 62. breiddargráðu og var tekin upp í samningum við Finna og Svía.

Það heimilar þeim að styrkja landbúnaðinn beint úr eigin ríkissjóði burt séð frá reglum ESB að öðru leyti. Þannig má mæta ágjöf vegna niðurfellingar tolla. Þá er heimild í regluverki ESB að styðja sérstaklega við fjarlæg svæði langt utan markaða meginlandsins.

Nefna má svæði á borð við Azor-eyjar sem er um margt sambærilegt við Ísland. Ekki síst þar sem staðbundnir annmarkar á borð við legu lands og veðurfar hafa mikil áhrif hér og meiri en á þeim eyjaklasa.

Rökin fyrir þessum undanþágum og viðurkenningu á sérstöðu eru þau að viðhalda samkeppnishæfi landbúnaðarins og koma í veg fyrir að hún raski búsetu og búgreinum í landinu.

Opnum sóknarfærin

Við blasir að vel er unnt að ná góðum samningi fyrir íslenskan landbúnað þó að alltaf verði breytingar, sérstaklega út af niðurfellingu tollverndar.

Þeim breytingum má mæta með ýmsum hætti, sem tryggir að greinarnar fari ekki halloka en sjálfsagt þarf að berjast hart fyrir því í viðræðuferlinu.

Þvert á móti má leiða líkur að því að við aðild opnist fjöldi sóknarfæra fyrir landbúnaðinn þótt gæta þurfi vel að stöðu einstakra greina við breytingarnar.

Að þessi markmið náist er ein helsta forsenda þess að þjóðin samþykki samning um aðild Íslands að ESB.

En auk hinna afmörkuðu hagsmuna greinarinnar er bændum þó eins og öðrum atvinnurekendum nauðsyn þess að fá nothæfan gjaldmiðil og stöðugt efnahagsumhverfi í formi lágra vaxta, afnámi verðtyggingar og án sífelldra sveiflna í gengi."

(Mynd: www.pressan.is - pistlar Björgvins þar)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband