Leita í fréttum mbl.is

Góðir leiðarar eftir Ólaf í Fréttablaðinu

Ólafur StephensenVið viljum benda á tvo fína leiðara eftir Ólaf Þ. Stephensen í Fréttablaðinu.

Þann 12. júlí skrifar hann um bændur og ESB-málið og segir meðal annars: "Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er að sumu leyti eins og himnasending fyrir þá sem vilja sem allra minnstar breytingar á íslenzka landbúnaðarkerfinu. Andstæðingar breytinga geta nú sett þær allar í einn pakka merktan ESB og barizt svo gegn þeim á þeim forsendum að við ætlum nú ekki að láta útlendinga segja okkur hvernig eigi að reka íslenzkan landbúnað.

Þannig eru „varnarlínurnar“, sem Bændasamtökin kynntu á nýjan leik í síðustu viku, í raun varnarlínur um óbreytt ástand í landbúnaði. Í ályktun Búnaðarþings, þar sem varnarlínurnar voru settar fram sem ófrávíkjanleg skilyrði í aðildarviðræðunum við ESB, var sömuleiðis sú krafa að „allar umræður sem leiða af sér grundvallarbreytingar á ríkisstuðningi, tolla- og stofnanaumhverfi íslensks landbúnaðar verði að bíða þar til yfirstandandi samningaferli lýkur“.

Er það nú endilega nauðsynlegt? Margir af þeim sem hafa áhuga á umbótum í landbúnaðinum hafa engan áhuga á Evrópusambandsaðild og enga trú á að hún verði að veruleika. Af hverju þá að bíða með þessar umræður?

Alveg óháð ESB-aðild er til dæmis ástæða til að ræða hvort ekki þurfi að koma á bæði innlendri og erlendri samkeppni á búvörumarkaði hér á landi, með því að samkeppnislög nái til alls landbúnaðargeirans eins og annarra atvinnugreina og tollvernd verði afnumin, þannig að bændur og afurðastöðvar keppi við innflutning rétt eins og flestir aðrir innlendir framleiðendur neyzluvöru."

Daginn eftir tók svo Ólafur fyrir sjávarútvegsmálin, og segir þetta: "Margir, þar á meðal ýmsir forystumenn í sjávarútvegi, hafa fært rök fyrir því á undanförnum árum, alveg óháð umræðunni um ESB, að bannið við beinni erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi sé tímaskekkja og til óþurftar.
Bannið torveldar þannig sjávarútvegsfyrirtækjum að sækja sér áhættufé á hlutabréfamarkaði til frekari vaxtar. Á sínum tíma fékk Ísland undanþágu á sviði sjávarútvegs frá ákvæðum EES-samningsins um fjárfestingafrelsi. Þá ríkti talsverður ótti um að útlendir fjárfestar gleyptu hér heilu atvinnugreinarnar. Hann reyndist ástæðulaus; þvert á móti voru það íslenzku fyrirtækin sem nýttu sér fjárfestingafrelsið til að vaxa erlendis.

Þar létu sjávarútvegsfyrirtækin ekki sitt eftir liggja. Fyrirtæki á borð við Samherja hafa verið umsvifamikil í sjávarútvegi innan Evrópusambandsins. Fyrirtæki í eigu Íslendinga ráða til dæmis drjúgum hluta úthafsveiðikvóta Þýzkalands og Bretlands.

Ísland getur að sjálfsögðu ekki haldið því fram til langframa að það sé allt í lagi að Íslendingar fjárfesti í sjávarútvegi í ESB, en fyrirtæki frá öðrum Evrópuríkjum megi ekki fjárfesta hér. Óttinn er ástæðulaus. Íslenzkur sjávarútvegur er öflugri en sjávarútvegur flestra ríkja ESB og líklegt að áfram verði það fremur Íslendingar sem fjárfesta ytra en öfugt."

Ólafur hefur yfirgripsmikla þekkingu á Evrópumálum og skrif hans eru mikilvæg í að halda umræðunni upplýstri og á skynsemisnótum.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband